Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 361/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 361/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 9. júlí, er tekið fyrir mál nr. 529/2015; beiðni A, dags. 1. júní 2015, um endurupptöku úrskurðar nr. 164/2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 

I.

Með bréfi, dags. 1. júní 2015, hefur kærandi farið fram á það við úrskurðarnefndina að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 164/2015, sem kveðinn var upp 23. febrúar 2015, í máli kæranda. Með úrskurðinum var kröfu kæranda um breytta ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar hafnað.

Í beiðni kæranda til úrskurðarnefndarinnar um endurupptöku málsins er vísað til þess að óréttmætt sé að leiðrétting kæranda gangi til lækkunar á láni sem hvíli á fasteigninni F1, sem kærandi eigi í félagi með tveimur öðrum. Kærandi vísar til þess að skuld hans sé aðeins þriðjungar af heildarskuld og lagði fram þinglýst afsal sem hann kvað vera því til staðfestingar, sem og því að kærandi eigi einungis 1/3 hluta fasteignarinnar.

Úrskurðarnefndin sendi kæranda erindi þann 30. júní 2015. Þar var vísað til fyrri úrskurðar í máli kæranda. Upplýst var að sá úrskurður væri endanlegur á stjórnsýslustigi, sbr. 8. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, en ágreining mætti bera undir dómstóla, enda hafi áður verið úrskurðað um hann af úrskurðarnefndinni. Tekið var fram að óljóst væri hvort skoða ætti beiðni kæranda sem beiðni um endurupptöku. Tekið var fram að ef hún hefði verið hugsuð sem slík væri meðfylgjandi erindinu áskorunarbréf vegna atriði sem þyrfti að bæta úr. Í áskorunarbréfinu var fjallað um skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nánar tiltekið að upphaflegur úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða atvik hafi breyst verulega frá því hann var kveðinn upp. Var óskað eftir því að kærandi upplýsti nefndina ef svo væri innan viku frá dagsetningu erindisins. Kæranda var einnig bent á að kanna hvort upphafleg kæra, sem og þær viðbætur sem fram kæmu í erindi kæranda / endurupptökubeiðninni, fullnægðu þeim skilyrðum sem kveðið væri á um í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Kæranda var síðan bent á að kröfugerð yrði að vera skýr. Að lokum var farið yfir þau atriði sem útreikningur leiðréttingarfjárhæðar byggist á.

Kærandi svaraði erindi úrskurðarnefndarinnar þann 1. júlí 2015. Í svari kæranda var eingöngu að finna efnislega umfjöllun um málatilbúnað kæranda, auk tilvísunar til nýrra gagna, nánar tiltekið afsals kæranda sem hann kvað staðfesta að hann væri aðeins eigandi að 1/3 hluta fasteignarinnar F1 og skuldari að 1/3 hluta áhvílandi láns.


II.

Um endurupptöku fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar fer samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að eftir að þrír mánuður séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nr. 164/2015. Kæruefnið var sú ákvörðun að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð inn á lán sparisjóðs X nr. 1. Kærandi krafðist þess að leiðréttingarfjárhæð yrði ráðstafað inn á lán lífeyrissjóðs Y, er hvíli á fyrsta veðrétti íbúðarhúsnæðis kæranda að M götu. Með greindum úrskurði var kröfu kæranda hafnað.

Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því haldið fram að hann sé einungis skuldari að þriðjungi af heildarupphæð lánsins sem ráðstafa eigi leiðréttingarfjárhæð inn á og eigi bara 1/3 hluta af eigninni sem lánið hvíli á.

Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðar fram nýjar upplýsingar um málsatvik. Fyrir lá við uppkvaðningu úrskurðar í máli kæranda að hann væri aðeins eigandi að þriðjungi fasteignarinnar F1, svo sem staðfest er í afsali sem lagt var fram með endurupptökubeiðni kæranda. Hins vegar er óumdeilt að kærandi er skuldari áhvílandi láns sparisjóðs X nr. 1 en engin gögn hafa verið lögð fram um að ábyrgð hans og meðskuldara hans á því sé skipt. Ekkert kemur heldur fram um það í afsali. Því er gengið út frá því að hún sé óskipt, eins og gert var við uppkvaðningu upphaflegs úrskurðar. Samkvæmt framangreindu er ekki tilefni til endurupptöku á þeim grundvelli sem fram kemur í beiðni.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Endurupptökubeiðni kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta