Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 369/2015


ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 369/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 9. júlí, er tekið fyrir mál nr. 396/2015; kæra A, dags. 23. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. maí 2014. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda var samtals 2.000.000 kr. en frádráttur vegna niðurfærslna samtals 1.889.818 kr. Leiðréttingarfjárhæð kæranda var því 110.182 kr. og var sú fjárhæð birt honum þann 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 23. mars 2015, er kærð fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærandi telur að leiðrétting sé sameiginleg fyrir tvær fasteignir. Annars vegar séu lán vegna fasteignar F1 og hins vegar lán vegna fasteignar F2. Kærandi telur að samkvæmt 9. gr. laga nr. 35/2014 væri hámark leiðréttingar 4.000.000 kr. á hverja fasteign, en ekki 4.000.000 kr. vegna tveggja fasteigna. Þá eigi 992.501 kr. vegna skuldaleiðréttingar á skuldum sem hvíldu á fasteign F2 ekki að koma til frádráttar leiðréttingu þar sem kærandi hafi ekki átt lögheimili þar.   

Þann 30. júní 2015 leitaði úrskurðarnefndin eftir umsögn ríkisskattstjóra um hvort embættið hafi fjallað um lán kæranda í lið 5.2 í skattframtölum áranna 2009 og 2010. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 1. júlí 2015, kemur fram að útreikningur á leiðréttingu lána miðist við þau lán sem kærandi taldi fram í lið 5.2 í skattframtölum sínum árin 2009 og 2010. Ríkisskattstjóra hafi ekki borist athugasemd vegna þeirra lána sem lægju til grundvallar útreikningi leiðréttingar. Þá var sérstaklega tekið fram að ríkisskattstjóri gæti ekki séð af kæru að athugsemdir hafi verið gerð við þau lán sem lægju til grundvallar.

 

II.

 Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 og er tvíþætt. Annars vegar snýr það að hámarki leiðréttingarfjárhæðar og hins vegar að frádrætti frá útreiknaðri leiðréttingu. Krafa kæranda um hámark leiðréttingar verður skilin sem svo að hámark leiðréttingarfjárhæðar hans miðist við að um tvö heimili hafi verið að ræða og sé því 4.000.000 kr. fyrir hann.

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að leiðréttingarfjárhæð umsækjanda samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna er samtala fjárhæðar einstaklinga samkvæmt 7. gr. að teknu tilliti til frádráttarliða einstaklinga samkvæmt 8. gr. laganna og er að hámarki 4.000.000 kr. á hvert heimili, hvort sem um er að ræða einstaklinga, hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllti skilyrði samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar í árslok 2013, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Samkvæmt upplýsingum sem ríkisskattstjóri byggði ákvörðun sína á átti kærandi sameiginlegt heimili með B, á leiðréttingartímabilinu og samkvæmt Þjóðskrá Íslands eru kærandi og B enn í sambúð. Af skattframtali kæranda árið 2014 er ljóst að kærandi og B voru samsköttuð í árslok 2013. Af 9. gr. laga nr. 35/2014 er ljóst að hámarks leiðréttingarfjárhæð er 4.000.000 kr. á heimili sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar í árslok 2013. Með orðinu heimili er vísað til heimilishalds kæranda en ekki fasteignar sem slíkrar. Þannig er hámarksleiðrétting aðila sem á tvær fasteignir ekki hærri en hjá aðila sem á eina fasteign, svo sem kærandi heldur fram. Með vísan til framangreinds er ljóst að hámarks leiðréttingarfjárhæð kæranda er 2.000.000 kr. og er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um hámark leiðréttingarfjárhæðar verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað að því leyti.        

 

III.

 Ágreiningsefni máls þessa, hvað varðar frádrátt vegna 110% leiðarinnar, snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Ekki er hægt að skilja kröfugerð kæranda með öðrum hætti en að hann krefjist þess að frádráttur, vegna lækkunar lána nr. 1 og 2 hjá banka X á grundvelli 110% leiðar, falli niður.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í c-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitanda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni), dags. 15. janúar 2011, óháð því hvort sótt hafi verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda. Hið sama á við um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið sömu lagagreinar. Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2015 er sérstaklega tekið fram að frádráttur einstaklings taki mið af hjúskapar- og heimilisstöðu, sbr. 6. mgr. 7. gr. laganna, eins og hún var við framkvæmd niðurfellingar.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Ágreiningslaust virðist vera að lán nr. 1 og 2 hjá banka X voru lækkuð á grundvelli 110% leiðar. Kærandi virðist einkum byggja á því að sú lækkun eigi ekki að koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu vegna lána sem hvíldu á fasteign F1. Frádráttur kæranda tekur mið af hjúskapar- og heimilisstöðu eins og hún var við framkvæmd niðurfellingar, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Samkvæmt gögnum málsins var umrædd lækkun framkvæmd 4. janúar 2012 og var kærandi þá í sambúð með B. 50% fjárhæðar niðurfærslu lána nr. 1 og 2 hjá banka X samkvæmt 110% leiðinni kemur því til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. c-lið 8. gr. laga nr. 35/2014. Ekki skiptir máli í þeim efnum þótt útreiknuð leiðrétting lána kærenda samkvæmt 7. gr. laganna sé ekki vegna sömu fasteignar.

Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna lækkunar lána hjá banka X , samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ekki hafa af hálfu kæranda verið gerðar athugasemdir við einstaka liði útreiknings ríkisskattstjóra eða frádrátt vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Ákvörðun ríkisskattstjóra um frádráttarliði verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað að því leyti.           

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfum kæranda er hafnað.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta