Hoppa yfir valmynd

Nr. 555/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 555/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090042

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. september 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. ágúst 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Ennfremur krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka upp að nýju ákvörðun sína, dags. 29. júlí 2019, um brottvísun og endurkomubann á hendur kæranda og að stofnuninni verði gert að fella hana úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 3. apríl 2017. Með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2018, var kæranda veitt alþjóðleg vernd á Íslandi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og honum veitt dvalarleyfi hér á landi til fjögurra ára. Þann 5. apríl 2018 lagði kærandi fram umsóknir hjá Útlendingastofnun um fjölskyldusameiningu fyrir hönd eiginkonu sinnar og þriggja barna. Til stuðnings umsóknum þeirra voru lögð fram ýmis gögn sem voru í mótsögn við framburð kæranda er hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Þann 25. október 2018 sendi Útlendingastofnun tilkynningu til kæranda um hugsanlega afturköllun á alþjóðlegri vernd hans á grundvelli almennra stjórnsýslureglna og var hann boðaður í viðtal hinn 6. nóvember 2018 þar sem honum var gefinn kostur á að leggja fram gögn eða andmæla hugsanlegri afturköllun. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2019, var alþjóðleg vernd kæranda afturkölluð ásamt dvalarleyfi hans. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga og honum veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar útlendingamála og yfirgaf kærandi landið hinn 27. apríl 2019.

Hinn 20. júní 2019 kom kærandi aftur til landsins og sótti um alþjóðlega vernd á ný hinn 21. júní 2019. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun hinn 29. júlí 2019. Með ákvörðun, dags. 29. júlí 2019, var kæranda brottvísað frá Íslandi og ákveðið endurkomubann í tvö ár. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar útlendingamála og yfirgaf kærandi landið hinn 10. ágúst 2019.

Hinn 1. júní 2021 kom kærandi aftur til landsins og sótti um alþjóðlega vernd í þriðja sinn hinn 3. júní 2021. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun m.a. 16. og 22. júní 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 27. ágúst 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 14. september 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 28. september 2021 ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna kynþáttar síns, trúarbragða sinna, þjóðernis síns og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er ekki fjallað um málavexti heldur er vísað til greinargerðar kæranda til Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að kærandi hafi greint frá því að vera fæddur og uppalinn í […] í Quetta. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að vera sjíta múslimi og af þjóðarbroti Hasara og að hann hafi flúið ofsóknir í Pakistan af þeim sökum. Yfirvöld, herinn og lögregla í heimahéraði kæranda, auk hryðjuverkahópsins LeJ (Lashkar-e-Jhangvi), ofsæki þennan þjóðfélagshóp. Kærandi hafi greint frá atvikum þar sem honum hafi verið ógnað af þessum aðilum. Einnig hafi hann greint frá því að faðir hans og bróðir hafi verið myrtir vegna uppruna síns. Hinn 2. mars 2018 hafi kæranda verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að honum skyldi veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Hinn 25. október 2018 hafi Útlendingastofnun sent kæranda tilkynningu um hugsanlega afturköllun á vernd hans. Athugun stofnunarinnar hafi einkum byggst á því að gögn sem kærandi og fjölskylda hans hafi lagt fram þegar þau hafi sótt um fjölskyldusameiningu væru í mótsögn við framburð kæranda um búsetu sína í […] í Quetta. Umrædd gögn væru útgefin í Gujrat og bæru með sér að fjölskyldan byggi þar. Hinn 6. nóvember 2018 hafi kærandi mætt til viðtals þar sem borið hafi verið undir hann það misræmi sem stofnunin hafi talið vera til staðar. Kærandi hafi ítrekað framburð sinn og gefið þær skýringar að vegna mismununar í garð Hasara í heimabæ þeirra gætu þau ekki fengið slík skilríki gefin út þar. Með ákvörðun, dags. 27. mars 2019, hafi vernd kæranda verið afturkölluð af íslenskum stjórnvöldum.

Hinn 21. júní 2019 hafi kærandi komið aftur til Íslands og óskað eftir alþjóðlegri vernd. Í hælisbeiðni kæranda þann dag hafi hann greint frá því að hafa farið til heimaríkis síns. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að vera með pappíra þar sem fram kæmi af hverju hann væri í hættu í Pakistan. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal vegna brottvísunar hinn 29. júlí 2019 þar sem hann hafi aðeins verið spurður um afstöðu hans til brottvísunar. Í viðtalinu hafi kærandi þó greint frá því að hafa farið aftur til heimaríkis síns eftir að hann hafi yfirgefið Ísland og orðið fyrir árás þar og neyðst til að flýja aftur. Með ákvörðun, dags. 29. júlí 2019, hafi kæranda verið brottvísað og hann látinn sæta tveggja ára endurkomubanni til Íslands.

Hinn 1. júní 2021 hafi kærandi komið aftur til Íslands og sótt um alþjóðlega vernd hinn 3. júní 2021. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hafa komið aftur og óskað verndar þar sem líf hans væri í hættu í Pakistan. Sem fyrr hafi kærandi vísað til þess að hann væri sjíta múslimi og af þjóðarbroti Hasara sem sé hópur sem verði fyrir ofbeldi og mismunun af hálfu yfirvalda og hryðjuverkasamtakanna LeJ. Kærandi hafi greint frá því að vera fæddur og uppalinn í […]. Hann hafi kvænst eiginkonu sinni sem sé frá Gujrat og að eftir giftinguna hafi þau dvalið á báðum þessum stöðum. Hann hafi síðast verið í […] í aðdraganda þess að hann hafi flúið landið og sótt um vernd á Íslandi árið 2017. Kærandi hafi útskýrt að fjölskylda hans eigi engin skjöl sem séu útgefin í […] þar sem þeim sé neitað um hvers konar réttindi þar vegna mismununar. Í viðtalinu hafi kærandi lagt fram lögregluskýrslu (e. FIR report) sem rituð hafi verið af lögreglu í Gujrat hinn 5. júní 2019 vegna árásar sem kærandi hafi orðið fyrir vegna uppruna síns. Þá hafi kærandi greint frá því að eiginkona hans hafi orðið fyrir árás sem væri af sama meiði og annað ofbeldi sem fólk með tengsl við samfélag Hasara verði fyrir. Kærandi hafi vísað til lögregluskýrslunnar er hann hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2019 en lögreglan hafi ekki samþykkt skjalið.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er fjallað um stöðu Hasara í Pakistan. Að mati kæranda sé ekki hægt að líta svo á að Hasarar og sjíta múslimar geti almennt lifað mannsæmandi lífi í Pakistan. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, m.a. það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki leitt líkur að því eða gert sennilegt að hann sé sjíta múslimi og af þjóðarbroti Hasara. Kærandi hafi greint frá því að vegna mismununar geti fjölskylda hans ekki fengið skjöl útgefin í […]. Jafnframt mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að frásögn hans um ofbeldi sem hann og eiginkona hans hafi verið beitt vegna stöðu kæranda hafi verið byggt á getgátum einum saman.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem sjíta múslimi og Hasari. Kærandi telur að grundvöllur ofsókna sem hópurinn verði fyrir geti talist vera kynþáttur, trúarbrögð og þjóðerni. Kærandi hafi greint frá því að vera ofsóttur af yfirvöldum, hryðjuverkasamtökum og öðrum aðilum. Þá veiti yfirvöld Hasörum ekki fullnægjandi vernd gegn slíkum ofsóknum.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa aftur heim.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að þau mannréttindabrot sem sjíta Hasarar verði fyrir skuli teljast brot sem yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn og þar sé m.a. um að ræða ofbeldisbrot og glæpi. Þá beri heimildir með sér að félagsleg staða kæranda sem Hasari og sjíta múslimi í Pakistan sé ákaflega erfið.

Þrautaþrautavara kæranda um að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar byggir einkum á því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Útlendingastofnun hafi talið kæranda fara með rangt mál hvað varðar þjóðarbrot sitt og trúarbrögð og fyrir vikið hafi stofnunin ekki lagt til grundvallar að kærandi sé af þjóðarbroti Hasara og sé sjíta múslimi. Þá hafi Útlendingastofnun ekki nýtt þau rannsóknarúrræði sem tæk séu til að reyna að varpa frekara ljósi á þessa þætti, t.a.m. tungumála- og staðháttarpróf. Kærandi hafi samþykkt í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 23. nóvember 2017 að gangast undir slíkt próf. Þá hafi stofnunin ekki óskað eftir leyfi kæranda til að afla upplýsinga um hann frá heimaríki líkt og stundum hafi verið gert. Útlendingastofnun hafi ekki spurt kæranda spurninga um trúarbrögð sín heldur hafi verið gengið út frá því að hann aðhylltist þau ekki. Kærandi hafi ætíð verið staðfastur í frásögn sinni um þjóðarbrot sitt og trúarbrögð, líkt og Útlendingastofnun taki fram í ákvörðun sinni, og því sé skylda stofnunarinnar ríkari um að styðja niðurstöðu sína með rannsókn.

Einnig krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka upp að nýju ákvörðun sína um brottvísun og endurkomubann, dags. 29. júlí 2019, og að stofnuninni verði gert að fella hana úr gildi. Útlendingastofnun hafi synjað kröfu kæranda um að taka ákvörðunina upp að nýju með vísan til þess að réttaráhrif ákvörðunarinnar væru liðin og því hefði kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn kröfunnar. Kærandi vísar til þess að hann hafi m.a. verið látinn sæta gæsluvarðhaldi hér á landi vegna ákvörðunarinnar og því hafi hann hagsmuni af því að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði ógilt, en kærandi gæti t.a.m. lagt grunn að því að leiðrétta réttarstöðu sína hér á landi og eftir atvikum farið fram á bætur. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 7075/2012. Þá kemur fram í greinargerðinni að ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun á alþjóðlegri vernd hafi verið birt kæranda hinn 3. apríl 2019 og honum veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið, þ.e. til 3. maí 2019. Ákvörðun um brottvísun og endurkomubann, dags. 29. júlí 2019, hafi byggt á því að kærandi hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Í nýjustu ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda, dags. 27. ágúst 2021, sé upplýst að kærandi hafi yfirgefið Ísland hinn 27. apríl 2019, þ.e. innan veitts frests. Þar af leiðandi sé ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda hafi verið röng og ólögmæt. Þá sé það mat kæranda að Útlendingastofnun hafi borið að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd, sem hann hafi lagt fram hinn 21. júní 2019, til meðferðar, auk þess sem útvega hafi átt kæranda löglærðan talsmann, sbr. 28.-30. gr. laga um útlendinga. Það hafi ekki verið gert heldur hafi kærandi einungis verið boðaður í viðtal vegna brottvísunar og hann spurður um afstöðu sína til brottvísunarinnar. Þá hafi Útlendingastofnun gert það að skilyrði fyrir því að mál kæranda yrði tekið til meðferðar að kærandi legði fram vegabréf sitt, en að mati kæranda sé ekki heimild fyrir slíku skilyrði í lögum um útlendinga. Í þessu samhengi vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 340/2020 frá 29. október 2020. Í ljósi alls framangreinds sé það mat kæranda að Útlendingastofnun eigi að leiðrétta ákvörðun sína um brottvísun og endurkomubann kæranda með endurupptöku eða endurskoðun.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað pakistönsku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • 2020 Report on International Religious Freedom: Pakistan (U.S. Department of State, 12. maí 2021);
  • Asylum Policy Instruction – Assessing credibility and refugee status (U.K. Home Office, 6. janúar 2015);
  • Country of Origin Information Report – Pakistan Security Situation (EASO, 30. október 2020);
  • Country Policy and Information Note – Pakistan: Actors of protection (UK Home Office, júní 2020);
  • Country Policy and Information Note – Pakistan: Background information, including internal relocation (UK Home Office, júní 2020);
  • Country Policy and Information Note – Pakistan: Hazaras (UK Home Office, nóvember 2019);
  • Country Policy and Information Note – Pakistan: Medical and healthcare provisions (UK Home Office, september 2020);
  • Country Policy and Information Note – Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note – Pakistan: Shia Muslims (UK Home Office, júlí 2021);
  • DFAT Country Information Report. Pakistan (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 20. febrúar2019);
  • Freedom in the World 2021 – Pakistan (Freedom House, 2021);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • Pakistan Security Report 2019 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 5. janúar 2020);
  • Pakistan Security Report 2020 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 15. júní 2021);
  • Pakistan Security Situation. Country of Origin Information Report (European Asylum Support Office, október 2021);
  • Pakistan: Shi‘a and Hazaras (Minority Rights Group, uppfært í júní 2018);
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 19. október 2021);
  • Understanding The Agonies of Ethnic Hazaras (National Commission for Human Rights Pakistan, febrúar 2018);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 11. nóvember 2021);
  • Upplýsingar um útgáfu vegabréfa í Pakistan (https://dgip.gov.pk/home/), sótt 4. nóvember 2021);
  • World Report 2021 – Pakistan (Human Rights Watch, 13. janúar 2021) og
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 26. október 2021).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 238 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2021 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald og kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá séu lögin ekki fyllilega virt af lögreglunni. Sé það einkum vandamál vegna spillingar innan lögreglunnar sem sé algeng einkum á lægri stigum og dæmi sé um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Balochistan héraði sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga beri gögn með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi í Pakistan frá 2021 eru 80-85% múslima í landinu súnní múslimar. Talið sé að 15-20% múslima séu sjíta múslimar, þ.m.t. þjóðernishóparnir Hazara, Ismaili og Bohra. Samkvæmt skýrslu National Commission for Human Rights Pakistan eru mismunandi skoðanir á uppruna Hasara samfélagsins. Gögn bendi til þess að hópur Hasara hafi flúið frá Afganistan til Pakistan fyrir um 150 árum vegna ofsókna þar í landi. Áhrif uppgangs talíbana í Afganistan og ofsóknir þeirra gegn afgönskum Hasörum hafi færst yfir til Pakistan og innrás trúarofsatækismanna frá Afganistan orðið að viðvarandi ógn við frið samfélagsins í borginni Quetta og héraðinu Balochistan í Pakistan. Fyrst hafi komið til átaka milli sjíta Hasara og súnní múslima í Pakistan árið 1999 og smám saman hafi ástandið versnað. Hópurinn Lashkar-e-Jhangvi sé hópur trúarofsatækismanna sem hafi opinberlega beint sjónum sínum að sjíta múslimum, þ.m.t. Hasörum, víðs vegar um Pakistan í nokkra áratugi, en það hafi leitt til flótta Hasara, bæði innan og utan Pakistan. Ekki er talið, samkvæmt skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá 2019, að Hasarar verði fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda.

Þá kemur fram á vefsíðu Minority Rights Group að morð á sjíta múslimum hafi náð hámarki árið 2013 þegar um 700 einstaklingar hafi verið myrtir af öfgahópum. Auk þess sæti sjíta múslimar ýmis konar hatursorðræðu, oftast í formi herferða í moskum, skólum, almenningsrýmum og í auknum mæli á samfélagsmiðlum. Sjíta múslimar séu lastaðir sem samfélag vegna trúarskoðana sinna í slíkum herferðum og úthrópaðir sem villitrúarmenn, auk þess sem súnní múslimar séu hvattir til að myrða þá. Í skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá júlí 2021 kemur fram að þrátt fyrir að sjíta múslimar verði fyrir markvissum árásum stöku sinnum sé almennt ólíklegt að þeir verði fyrir meðferð eða mismunun sem sé nægilega alvarleg í eðli sínu eða endurtekin að hún geti talist jafngilda ofsóknum.

Fram kemur á vefsíðu Minority Rights Group að glæpir gegn Hasörum og sjíta múslimum séu yfirleitt framdir í skjóli refsileysis en yfirvöld rannsaki almennt ekki hverjir standi á bak við ódæðisverkin. Þá hafi lögreglan sjaldnast haft tök á að stöðva árásir gegn sjíta múslimum þegar þær eigi sér stað. Í framangreindri skýrslu National Commission for Human Rights Pakistan kemur þó fram að samkvæmt innanríkisráðuneyti Balochistan héraðs í Pakistan hafi verið gripið til sérstakra ráðstafana til að vernda samfélag Hasara, t.a.m. hafi verið komið á fót varanlegum eftirlitsstöðvum við inngöngu- og útgöngustaði svæðanna þar sem þau búi, auk þess sem lögregla sjái um lögreglufylgd á ýmsum stöðum og vöktun á vegum og leiðum sem notaðar séu af Hasörum. Í framangreindri skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá júlí 2021 kemur fram að yfirvöld hafi gripið til svipaðra aðgerða til að tryggja öryggi sjíta múslima í landinu almennt, m.a. með því að hindra starfsemi öfgahópa og auka sýnileika og eftirlit öryggissveita þar í landi. Almennt hafi pakistönsk yfirvöld bæði getu og vilja til að vernda sjíta múslima með skilvirkum hætti.

Á vefsíðu pakistanskra útlendingayfirvalda kemur fram að fyrsta vegabréf hvers og eins ríkisborgara verði að vera útgefið af tilteknum svæðisskrifstofum (Regional Passport Office), n.t.t. á því svæði sem skráð sé í kennivottorð viðkomandi (CNIC) sem tímabundinn eða varanlegur búsetustaður hans. Það sé gert til að tryggja að vegabréf séu einungis gefin út til ríkisborgara Pakistan. Endurnýjun á vegabréfum geti hins vegar farið fram á hvaða svæðisskrifstofu sem er innan Pakistan. Svæðisskrifstofur séu víðs vegar um landið, m.a. í Quetta í Balochistan héraði. Fram kemur í skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá 2019 að þótt flestir Hasarar geti fengið útgefin formleg kennivottorð, líkt og CNIC, þá séu dæmi um að embættismenn valdi viljandi töfum á ferlinu. Þá hafi það komið fyrir að Hasarar hafi orðið fyrir banvænum árásum fyrir utan svæðisskrifstofuna í Quetta, sem er staðsett fyrir utan hið lokaða svæði Hasara, þegar þeir hafi sótt um vegabréf. Fyrir vikið veigri margir Hasarar sér við að yfirgefa svæðið til að sækja um vegabréf. Ennfremur séu dæmi um að embættismenn neiti að breyta kennivottorðum (CNIC) Hasara sem hyggist flytjast innan Pakistan. Þannig komi þeir í veg fyrir að Hasarar geti sótt um vegabréf þar sem það verði að vera á búsetustað viðkomandi.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu sem rekja megi til trúarbragða hans, kynþáttar, þjóðernis og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem Hasari og sjíta múslimi. Kærandi kveður yfirvöld, hryðjuverkasamtök og aðra aðila standa að baki ofsóknunum. Þá veiti yfirvöld Hasörum og sjíta múslimum ekki fullnægjandi vernd gegn ofsóknum.

Líkt og áður greinir lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd í þriðja sinn hér á landi hinn 3. júní 2021. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dagana 16. og 22. júní 2021, greindi kærandi frá sömu málsástæðum og áður, þ.e. að hann sé sjíta múslimi og tilheyri samfélagi Hasara í Pakistan sem verði fyrir ofsóknum. Fyrir liggur í málinu að kærandi lagði fram gögn hjá Útlendingastofnun þann 5. apríl 2018 sem talin voru stangast á við frásögn hans um að hann væri fæddur og uppalinn í […] í borginni Quetta í Pakistan. Um var að ræða m.a. vegabréf kæranda og fjölskyldu hans þar sem fram kom að þau væru fædd í Gujrat í Punjab héraði í Pakistan. Þá kemur fram í fæðingarvottorðum barna kæranda að börnin séu fædd í Gujrat og að kærandi og eiginkona hans séu búsett þar. Þá kemur fram í sakavottorði eiginkonu kæranda að hún hafi verið búsett þar frá fæðingu og að þeim tíma sem vottorðið er gefið út. Það var mat Útlendingastofnunar að framangreind gögn, auk misræmis í frásögn kæranda, m.a. um uppruna hans og búsetu, hefðu áhrif á trúverðugleika kæranda og var frásögn hans metin ótrúverðug í heild sinni.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram lögregluskýrslu (e. FIR report) útgefna af pakistönskum yfirvöldum. Skýrslan inniheldur frásögn kæranda þar sem haft er eftir honum í fyrstu persónu. Þar greindi kærandi m.a. frá því að hann tilheyri samfélagi Hasara og hafi búið lengi í borginni Quetta. Hann hafi flutt þaðan til Punjab héraðs eftir að fjölskyldumeðlimir hans hafi verið myrtir. Þá greindi hann frá því að hinn 5. júní 2019 hafi hann verið á leið heim til sín á mótorhjóli þegar birst hafi svartur bíll með fjórum farþegum. Þeir hafi byrjað að skjóta í átt að kæranda en hann hafi náð að forða sér. Að mati kærunefndar hefur lögregluskýrslan takmarkað sönnunargildi við mat á trúverðugleika kæranda þar sem einungis er um að ræða hans eigin frásögn. Að mati kærunefndar sannar lögregluskýrslan því ekki ein og sér að þeir atburðir sem kærandi lýsir þar hafi átt sér stað. Við heildarmat sitt á trúverðugleika frásagnar kæranda horfir kærunefnd hins vegar til þess sem fram kemur í skýrslunni.

Máli sínu til stuðnings lagði kærandi jafnframt fram skilríki við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sem hann kvað vera pakistanskt ökuskírteini. Á skilríkinu stóð að heimilisfang kæranda væri […]. Skilríkið var sent til rannsóknar hjá lögreglu hér á landi og var niðurstaða rannsóknarinnar sú að ökuskírteinið væri að öllu leyti falsað. Í skýrslu lögreglu kom fram að ósvikin ökuskírteini frá Pakistan væru vönduð að allri gerð og að um mjög grófa fölsun væri að ræða í tilviki kæranda. Að mati kærunefndar dregur framlagning kæranda á fölsuðu skilríki, þar sem fram kemur að hann búi í […] í Quetta, verulega úr trúverðugleika kæranda.

Auk framangreindra gagna lagði kærandi fram tvær ljósmyndir af konu sem hann kveður vera eiginkonu sína. Konan á ljósmyndunum er með áverka á hægra auga og enni. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að ráðist hafi verið á eiginkonu hans eftir að hann hafi komið til Íslands í júní 2021. Kærandi kvaðst halda að sömu aðilar stæðu að baki árásinni á hann og eiginkonu hans. Jafnframt kvað hann ástæðu árásanna vera þá að þau tilheyri samfélagi Hasara. Kærandi kvaðst ekki vita hvernig aðilarnir hafi vitað að þau væru Hasarar en að þeir hafi hlotið að hafa eitthvað í höndunum um kæranda. Að mati kærunefndar hafa ljósmyndirnar takmarkað vægi við mat á trúverðugleika kæranda þar sem þær sanna ekki að konan á myndunum hafi orðið fyrir árás af hálfu þeirra aðila sem kærandi hefur greint frá. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn við meðferð þessa máls sem renna stoðum undir þá frásögn hans að hann sæti ofsóknum vegna aðildar hans að samfélagi Hasara í Pakistan.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til framburðar kæranda í viðtölum hjá stofnuninni vegna eldri umsókna kæranda. Það var mat stofnunarinnar að nokkurs misræmis væri að gæta í frásögn kæranda, m.a. varðandi uppruna hans og búsetu í Pakistan. Í viðtali árið 2017 hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa búið í […] í borginni Quetta þar til hann hafi farið frá heimaríki sínu árið 2016. Kvað hann jafnframt heimilisfang sitt hafa verið […]. Í viðtali í júní 2021, eftir að kæranda hafði verið bent á að gögn sem hann lagði fram bentu til þess að hann væri frá Gujrat í Pakistan, kvaðst hann hafa búið í […] þangað til að hann hafi gengið í hjúskap með eiginkonu sinni árið 2008. Kvaðst kærandi þá hafa hafi búið bæði í […] og Gujrat þar sem að eiginkona hans væri frá Gujrat. Jafnframt kvað hann heimilisfang sitt í […] hafa verið […]. Er kæranda var bent á misræmi í framburði sínum varðandi heimilisfang sitt í […] gaf hann m.a. þá skýringu að hann hafi búið að báðum stöðum á mismunandi tímum. Með vísan til framangreinds verður tekið undir það mat Útlendingastofnunar að misræmi sé í frásögn kæranda sem grafi undan trúverðugleika hans.

Við mat sitt horfir kærunefnd til þess að kærandi lagði fram afrit af vegabréfum eiginkonu sinnar og barna, auk fæðingarvottorða barna þeirra þar sem fram kemur að þau séu öll frá héraðinu Gujrat en þau eru fædd árin 2009, 2010 og 2015. Jafnframt kemur fram í hjúskaparvottorði kæranda að bæði hann og eiginkona hans væru búsett í Gujrat. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn, fyrir utan falsað ökuskírteini, sem leggja grunn að staðhæfingum hans um að hann tilheyri samfélagi Hasara. Þvert á móti benda gögn málsins til þess að hann sé frá Sarai Alamgir í Gujrat héraði. Þá er það mat kærunefndar að þær skýringar sem kærandi gaf á framangreindu misræmi er varðaði búsetu og skráningu á fæðingarstað barna sinna séu ótrúverðugar. Ráða má af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað að meirihluti Hasara geti fengið útgefin kennivottorð í Quetta þrátt fyrir að í sumum tilvikum geti þeir mætt mótspyrnu embættismanna. Frásögn kæranda um að hann sé meðlimur Hasara samfélagsins í Pakistan verður því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Auk framangreinds hefur kærandi borið fyrir sig að vera sjíta múslimi. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað heyra sjíta múslimar í Pakistan til mismunandi minnihlutahópa. Frásögn kæranda um að hann tilheyri minnihlutahópnum Hasara, þar sem meðlimir eru nær allir sjíta múslimar, hefur verið metin ótrúverðug og bendir ekkert annað í málinu til þess að kærandi sé sjíta múslimi. Jafnvel þótt frásögn kæranda um að hann sé sjíta múslimi yrði lögð til grundvallar í málinu þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað ekki til þess að kærandi eigi á hættu áreiti eða mismunun á þeim grundvell af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í Pakistan sem ná því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerði í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar sem hér er til meðferðar. Kærandi telur Útlendingastofnun m.a. hafa brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa ekki nýtt þau rannsóknarúrræði sem tæk hafi verið til að reyna að varpa frekara ljósi á aðstæður kæranda, t.a.m. tungumála- og staðháttarpróf. Þá hafi stofnunin ekki óskað eftir leyfi kæranda til að afla upplýsinga um hann frá heimaríki líkt og stundum hafi verið gert. Útlendingastofnun hafi ekki spurt kæranda spurninga um trúarbrögð sín heldur hafi verið gengið út frá því að hann aðhylltist þau ekki. Í tölvubréfi sem kærunefnd sendi Útlendingastofnun var m.a. óskað skýringa á því hvers vegna ekki hafi farið fram á að kærandi undirgengist tungumála- og staðháttarpróf. Í svari sem kærunefnd barst frá Útlendingastofnun kom m.a. fram að ekki hafi verið talin ástæða til að láta hann gangast undir slíkt próf í ljósi fjölda gagna sem hafi stangast á við frásögn hans um fæðingar- og búsetustað.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um þjóðerni og trúarbrögð kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar lágu fyrir ýmis gögn í málinu sem telja verður að hafi verið fullnægjandi grundvöllur fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að öðru leyti hefur kærunefnd að framan tekið afstöðu til athugasemda kæranda að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Krafa kæranda um að Útlendingastofnunar taki ákvörðun um brottvísun og endurkomubann upp að nýju

Kærandi krefst þess að Útlendingastofnun verði gert að taka upp að nýju ákvörðun sína um brottvísun og endurkomubann, dags. 29. júlí 2019, og að stofnuninni verði gert að fella hana úr gildi. Hvað þessa kröfu kæranda varðar er ljóst að kærunefnd getur aðeins tekið til skoðunar hvort skilyrði séu fyrir endurupptöku máls en kærandi kærði ekki ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann, dags. 29. júlí 2019, til kærunefndar. Kemur sú ákvörðun því ekki til efnislegrar skoðunar í úrskurði þessum, þ.m.t. hvort ákvörðunin hafi verið rétt eða málsmeðferð hnökralaus.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram greinargerð þar sem sú krafa var gerð að stofnunin tæki upp að nýju ákvörðun sína um brottvísun og endurkomubann og felldi hana úr gildi. Taldi kærandi að alvarlegir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð stofnunarinnar og að ákvörðunin hafi af þeim sökum verið ólögmæt. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það sé ólögfest grundvallarregla í stjórnsýslurétti að eitt meginskilyrði fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli sé að aðili máls hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið. Taldi Útlendingastofnun, með vísan til þess að endurkomubann kæranda hefði runnið sitt skeið þann 10. ágúst 2021 og að ákvörðun um brottvísun kæranda hefði ekki áhrif á lagalega stöðu hans hér á landi, að kæranda skorti lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfuna sína.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá kemur einnig til skoðunar hvort kærandi kunni að eiga rétt til endurupptöku máls á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar, s.s. ef upplýst er að ákvörðunin hafi byggt á röngum lagagrundvelli.

Í 2. mgr. 24. gr. koma fram takmarkanir á rétti til endurupptöku máls. Þar segir að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1.mgr. eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að ný ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Útlendingastofnun birti fyrrgreinda ákvörðun sína um brottvísun og endurkomubann kæranda samdægurs eða hinn 29. júlí 2019. Kærandi kærði þá ákvörðun ekki til kærunefndar heldur yfirgaf landið sjálfur hinn 10. ágúst 2019. Því er ljóst að þegar kærandi bar upp beiðni sína um endurupptöku ákvörðunar Útlendingastofnunar með greinargerð sinni, dags. 28. september 2021, voru liðin rúmlega tvö ár frá því að ákvörðunin öðlaðist réttaráhrif. Í athugasemdum í greinargerð í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði 2. mgr. 24. gr. laganna séu sett til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt getur verið að upplýsa. Telji aðili þörf á endurupptöku máls ber honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar. Má ætla að sömu sjónarmið búi að baki ákvæðum 1. mgr. 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga er setja aðilum máls frest til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til æðra settra stjórnvalda. Af skýringum við ákvæðið má draga þá ályktun að þessar takmarkanir í 2. mgr. eigi einnig við um endurupptökur á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar þó svo að í einhverjum tilvikum kunni að vera að takmarkanir horfi öðruvísi við en þegar endurupptaka byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Er það mat kærunefndar að samkvæmt framangreindu verði Útlendingastofnun ekki gert að taka ákvörðun sína til nýrrar meðferðar nema veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því hvað teljast veigamiklar ástæður ber m.a. að líta til þess hvort mál hafi þýðingarmikið fordæmisgildi eða varði svo mikla almannahagsmuni að rétt sé að taka það til nýrrar meðferðar. Þá ber einnig að líta til hagsmuna aðilans sjálfs af því að mál verði endurupptekið og þá hvort aðstæður hans séu á einhvern hátt sérstakar eða frábrugðnar því sem almennt gerist í málaflokknum. Af gögnum málsins er ljóst að þegar Útlendingastofnun hafði til meðferðar framangreinda ákvörðun var kæranda gert ljóst mikilvægi þess að leggja fram þær upplýsingar sem hann byggir endurupptökubeiðni sína á í dag. Honum var jafnframt leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns sem og gefið færi á að koma að athugasemdum við þá tilætlan Útlendingastofnunar að brottvísa honum frá landinu og ákvarða endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var ennfremur leiðbeint um rétt sinn til þess að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar sem hann gerði ekki. Ljóst er að endurkomubann kæranda hefur nú runnið sitt skeið og þá hefur kærunefnd fengið upplýsingar um að endurkomubannið hafi ekki verið skráð í Schengen-upplýsingarkerfið og ætti það því ekki að hafa áhrif á framtíðarmöguleika kæranda til þess að afla sér vegabréfsáritunar inn á Schengen-svæðið. Er því ekki að sjá að aðstæður kæranda í tengslum við framangreinda ákvörðun séu að einhverju leyti sérstakar.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki séu veigamiklar ástæður til þess að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka ákvörðun sína, dags. 29. júlí 2019, til nýrrar meðferðar.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku staðfest.

Telji kærandi að alvarlegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar og að ákvörðunin frá 29. júlí 2019 hafi af þeim sökum verið ólögmæt bendir kærunefnd á rétt kæranda til að bera mál sitt undir dómstóla, og eftir atvikum fara fram á bætur telji hann að gæsluvarðhald sem hann sætti hafi byggst á ólögmætri ákvörðun.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 1. júní 2021 og sótti um alþjóðlega vernd 3. júní 2021. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kærenda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta