Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 127/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 127/2024

Fimmtudaginn 23. maí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. apríl 2023 og var umsóknin samþykkt 25. maí 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um tilfallandi tekjur eða vinnu. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 22.845 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. mars 2024. Með bréfi, dags. 3. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 2. maí 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. maí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi verið beittur viðurlögum í formi tveggja mánaða greiðslustöðvunar fyrir að hafa tekið að sér nokkurra daga vinnu sem hafi verið gefin upp. Kærandi hafi ekki vitað að hann þyrfti sjálfur að gera grein fyrir því þar sem þetta komi sjálfkrafa inn í öll kerfi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 24. apríl 2023. Með erindi, dags. 25. maí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að bótaréttur hans væri 100%.

Í kjölfar reglulegs eftirlits innan Vinnumálastofnun hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með óútskýrðar tekjur í september 2023 frá B, auk greiðslna frá Sjúkratryggingum Íslands. Með erindi, dags. 15. febrúar 2024, hafi þess verið óskað að kærandi veitti stofnuninni skýringar vegna umræddra tekna, auk afrits af launaseðlum. Kærandi hafi ekki skilað umbeðnum gögnum innan þess sjö daga frests sem honum hafi verið veittur né hafi stofnuninni borist skýringar hans á viðkomandi greiðslum.

Með erindi, dags. 6. mars 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hann hefði látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um nauðsynlegar upplýsingar sem höfðu áhrif á rétt hans til atvinnuleysistrygginga væri bótaréttur hans felldur niður frá og með þeim degi í tvo mánuði. Sú ákvörðun hafi verið var tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt hafi kæranda verið tilkynnt að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli hans hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 26.272 kr., að álagi meðtöldu, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Þann sama dag hafi borist launaseðill frá kæranda vegna september 2023 og sú innsending hafi verið túlkuð sem beiðni um endurupptöku. Með bréfi, dags. 12. mars 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöðu þeirrar endurskoðunar og hann upplýstur um að þrátt fyrir ný gögn væri mat Vinnumálastofnunar að um efnislega rétta niðurstöðu hefði verið að ræða. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. mars 2024, hafi því verið staðfest.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2024, þess efnis að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, auk þess að vera gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki tilkynnt stofnuninni um tekjur sínar í september 2023.

Fyrir liggi að kærandi hafi hvorki upplýst Vinnumálastofnun um tekjur sínar frá B né veitt skýringar á greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Þannig beri atvinnuleitanda meðal annars að tilkynna stofnuninni um allar breytingar á aðstæðum sem gætu haft áhrif á rétt viðkomandi til greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Í 3. mgr. 9. gr. sé sérstaklega kveðið á um skyldu atvinnuleitanda til að tilkynna stofnuninni um tekjur vegna tilfallandi vinnu. Þar segi orðrétt:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Vinnumálastofnun árétti að upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar séu atvinnuleitendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar á meðal upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði. Þá sé á heimasíðu Vinnumálastofnunar að finna ítarlegar upplýsingar til handa atvinnuleitendum um skyldur þeirra sem hafi þegið tekjur samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og hvernig eigi að skrá slíkar tekjur.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. hafi kæranda borið að tilkynna Vinnumálastofnun um umræddar tekjur. Í kæru og greinargerð með henni greini kærandi frá því að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að tilkynna störf þar sem launagreiðslur væru gefnar upp til skatts.

Ein meginskylda atvinnuleitanda sé að tilkynna stofnuninni um allar þær tekjur sem viðkomandi þiggi á meðan hann fái greiddar atvinnuleysisbætur. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar megi í því skyni finna ítarlegt kennslumyndband um hvernig tilkynna beri tekjur til stofnunarinnar en þar sé meðal annars tiltekið að tilkynna skuli stofnuninni um tekjur með minnst dags fyrirvara og að skrá skuli fjárhæð tekna inn á ,,Mínum síðum“. Kærandi hafi ekki greint frá því að hann hafi starfað hjá B í september og hafi talið það óþarft vegna þess að það kæmi fram í „öllum kerfum.“ Eðli máls samkvæmt geti atvinnuleitandi ekki þegið óskertar atvinnuleysistryggingar samhliða launuðum störfum. Kærandi hafi verið upplýstur um skyldu sína til að upplýsa um allar tekjur, hlutastarf, tilfallandi vinnu, tekjur, eða fjármagnstekjur við upphaf vinnslu umsóknar hans, með tölvupósti 24. apríl 2023. Þess beri að gæta að sambærilegar upplýsingar hafi verið sendar kæranda í tíð eldri umsókna hans, sbr. tölvupósta frá 5. janúar 2022 og 7. ágúst 2022. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kæranda hefði mátt vera fulljóst að honum bæri að tilkynna stofnunni um upphaf og lok vinnu sinnar, auk þeirra tekna sem hann aflaði sér. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun jafnframt til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 86/2013 þar sem fram komi að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist allar nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þeirri ástæðu hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. sömu laga en ákvæðið hljóði svo:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði. Að auki hafi ofgreiddar atvinnuleysisbætur verið innheimtar, samtals að fjárhæð 22.845 kr.

Eins og áður segi hafi kærandi þegið laun í september 2023 frá B, að fjárhæð 153.994 kr. Tekjur kæranda komi til frádráttar atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem hljóði svo:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1480/2022, settri með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé frítekjumark 81.547 kr. á mánuði vegna ársins 2023. Í umræddum mánuði hafi tekjur kæranda numið hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta. Umræddar tekjur hefðu því réttilega átt að koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun hafi hins vegar ekki verið kunnugt um umræddar tekjur við útgreiðslur og því hafi myndast skuld við stofnunina, samtals að fjárhæð 22.845 kr.

Í 2. mgr. 39. gr. er kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í framangreindu ákvæði sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. 

Heildarskuld kæranda hafi verið 26.272 kr., þar af sé álag að fjárhæð 3.427 kr. en skuldajöfnun í síðar tilkomnum greiðslum hafi átt sér stað og eftirstöðvar skuldar kæranda þegar erindi þetta sé ritað séu 14.777 kr., að meðtöldu álagi.

Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldmyndunar. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess sem að framan hafi verið rakið. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ein meginskylda atvinnuleitanda sé að tilkynna stofnuninni um allar tekjur og skýr fyrirmæli sé að finna þess efnis að slíkt skuli gera í gegnum ,,Mínar síður“ atvinnuleitanda. Jafnframt vísi Vinnumálastofnun til þess að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta. Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnun að ekki sé tilefni til að fella niður álag á skuld kæranda.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að honum beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnun um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt því skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var með tekjur í september 2023 frá B samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Þær upplýsingar bárust Vinnumálastofnun í kjölfar reglulegs eftirlits innan stofnunarinnar í febrúar 2024. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki vitað að hann þyrfti sjálfur að gera grein fyrir tekjunum þar sem þær komi sjálfkrafa inn í öll kerfi.

Þann 24. apríl 2023 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að upplýsa þyrfti um allar breytingar á persónulegum högum inni á „Mínum síðum“. Einnig þyrfti að upplýsa um allar tekjur, hlutastarf, tilfallandi vinnu og fjármagnstekjur. Þá var kæranda bent á að ítarlegri upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar er að finna kennslumyndband um hvernig tilkynna beri um tilfallandi vinnu eða tekjur á „Mínum síðum“. Þar er meðal annars tiltekið að nauðsynlegt sé að tilkynna Vinnumálastofnun um alla launaða vinnu og allar tekjur sem atvinnuleitandi fái samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Tilkynna þurfi vinnu með að minnsta kosti dags fyrirvara en ekki sé gerð krafa um að skila launaseðli vegna tilfallandi vinnu eða hlutastarfs. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldu sína til að tilkynna Vinnumálastofnun fyrir fram um framangreindar tekjur með viðeigandi hætti. 

Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti stofnuninni ekki fyrir fram um þær tekjur sem hann fékk í september 2023. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur vegna framangreindra tekna. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem kærandi tilkynnti ekki fyrir fram um framangreindar tekjur fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um þær tekjur sem hann fékk í september 2023 og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem stofnunin lagði á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta