Hoppa yfir valmynd

336/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 336/2019

Miðvikudaginn 10. júní 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. ágúst 2019, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. maí 2019 um endurskoðun á búsetuhlutfalli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. nóvember 2013, var samþykkt að kærandi uppfyllti skilyrði örorkulífeyris frá 1. október 2013 til 31. október 2015. Með kæru, dags. 18. febrúar 2014, var upphafstími örorkumatsins kærður til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni samþykkti Tryggingastofnun ríkisins að greiða kæranda örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann, eða frá 1. október 2011. Sú ákvörðun var staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga með úrskurði nr. 71/2014, dags. 6. ágúst 2014.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2014, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að búsetuhlutfall hennar hafi verið ákvarðað 21,79% vegna breytingar á upphafstíma örorkumats. Með kæru, dags. 5. febrúar 2015, var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti kærða ákvörðun með úrskurði, dags. 1. júlí 2015, sbr. kærumál nr. 44/2015. Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis sem lauk máli sínu með áliti, dags. 20. júní 2018, sbr. mál nr. 8955/2016. Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með beiðni, dags. 30. október 2018, og úrskurðarnefndin féllst á þá beiðni. Með úrskurði, dags. 27. mars 2019, felldi úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um búsetuhlutfall kæranda úr gildi og vísaði málinu aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar. Með bréfi, dags. 17. maí 2019, var kæranda tilkynnt um að búsetuhlutfall hennar hafi verið ákvarðað 100% frá 1. júní 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 9. september 2019, barst greinargerð Tryggingstofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2019. Með bréfi, dags. 1. október 2019, bárust athugasemdir umboðsmanns kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2019. Með bréfi, dags. 31. október 2019, lýsti Tryggingastofnun ríkisins þeirri afstöðu sinni að rétt væri að vísa málinu frá með þeim rökum að ákveðið hafi verið að taka málið til nýrrar efnislegrar meðferðar sem muni leiða til nýrrar stjórnvaldsákvörðunar. Þann 25. nóvember 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála afrit af ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. nóvember 2019, þar sem samþykkt var að endurskoða búsetuhlutfall kæranda frá 1. nóvember 2011. Óskað var eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. nóvember 2019. Með tölvubréfi umboðsmanns kæranda 5. febrúar 2020 óskaði kærandi eftir því að málinu yrði haldið áfram með þeim rökum að enn væri ágreiningur til staðar. Með bréfi, dags. 10. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna málsins. Með tölvubréfi umboðsmanns kæranda þann 28. apríl 2020 var úrskurðarnefndin upplýst um að eingöngu stæði eftir ágreiningur um dráttarvexti í málinu. Með bréfi, dags. 29. apríl 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. apríl 2020. Með bréfi, dags. 18. maí 2020, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess krafist að Tryggingastofnun greiði dráttarvexti af því sem vangreitt hafi verið.

Í athugasemdum kæranda, dags. 1. október 2019, segir varðandi kröfu kæranda um dráttarvexti að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur séu greiddar mánaðarlega og skuli inntar af hendi fyrsta dag hvers mánaðar samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Greiðsludagur þeirra sé þannig fyrir fram ákveðinn með lögum. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, komi fram að þegar gjalddagi hafi verið fyrir fram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að gjalddagi greiðslna frá Tryggingastofnun til kæranda sé fyrir fram ákveðinn og að kærandi eigi rétt á dráttarvöxtum af vangoldnum lífeyrisgreiðslum frá og með gjalddögunum. Þessi sjónarmið hafi meðal annars verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júní 2019 í máli nr. E-4339/2018.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 29. apríl 2020, kemur fram að endanlegt uppgjör hafi farið fram í nóvember 2019 þar sem greiddir hafi verið 5,5% vextir samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Vaxtaákvæði laga um almannatryggingar gildi framar almennum ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 þar sem um sérlög sé að ræða. Með uppgjöri við kæranda í nóvember 2019 telji stofnunin að máli kæranda hafi endanlega lokið af hálfu stofnunarinnar.

Í 13. gr. laga um almannatryggingar komi fram að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Vextir séu ekki tilteknir sérstaklega í lagaákvæðinu, enda sé vikið sérstaklega að vöxtum í 4. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga sem eiga við í máli þessu.

Með vísan til ofangreinds telji Tryggingastofnun að máli kæranda hafi lokið með endanlegu uppgjöri með 5,5% vöxtum, sbr. 4. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga, í nóvember 2019.

IV.  Niðurstaða

Upphafleg kæra í þessu máli varðaði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. maí 2019, þar sem búsetuskerðing kæranda var ákvörðuð 100% frá 1. júní 2014. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í máli kæranda og féllst á að endurskoðað búsetuhlutfall tæki gildi frá 1. október 2011. Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðar stofnunarinnar þar sem þeirri afstöðu er lýst að rétt sé að vísa kærunni frá og umboðsmaður kæranda greindi frá því að ekki væri lengur ágreiningur er varðaði endurskoðað búsetuhlutfall, en aftur á móti væri enn ágreiningur er varðaði greiðslu vaxta í stað dráttarvaxta.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Samkvæmt framangreindu ákvæði er úrskurðarnefnd velferðarmála einungis heimilt að fjalla um ákvarðanir þar sem reynir á þau ágreiningsefni sem nefndinni er sérstaklega falið að úrskurða í. Ljóst er að kveðið er á um greiðslu 5,5% ársvaxta í 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Af gögnum málsins verður aftur á móti ráðið að kærandi óskar eftir að fá greidda dráttarvexti samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það ágreiningsefni fellur utan við úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í samræmi við framangreinda meginreglu sæta ákvarðanir Tryggingastofnunar sem ekki falla undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála kæru til félagsmálaráðuneytisins sem fer með málefni Tryggingastofnunar samkvæmt b-lið 3. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda vexti samkvæmt lögum um almannatryggingar í stað dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu er með vísan til framangreinds heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kæran því framsend félagsmálaráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend til félagsmálaráðuneytisins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta