Hoppa yfir valmynd

Nr. 195/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 19. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 195/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040029

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. apríl 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands hinn 10. október 2020 frá Ítalíu hvar hún hafði hlotið alþjóðlega vernd og dvalist allt frá árinu 2013. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Með ákvörðun, dags. 17. mars 2021, hafnaði Útlendingastofnun því að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 322/2021 hinn 9. september 2021. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku hjá kærunefnd hinn 27. september 2021. Með úrskurði kærunefndar nr. 542/2021, dags. 4. nóvember 2021, var fallist á endurupptöku í máli kæranda þar sem frestur til að flytja hana til Ítalíu var liðinn og var Útlendingastofnun gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtöl hjá Útlendingastofnun, m.a. dagana 18. nóvember 2021 og 6. desember s.á. ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 25. mars 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 19. apríl 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda, ásamt fylgiskjölum, hinn 3. maí 2022.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur m.a. fram að kærandi sé nígerísk kona sem sé fædd og uppalin í Benín borg í Edo fylki í Nígeríu. Þar hafi kærandi búið við slæm lífsskilyrði, en fjölskylda hennar hafi verið fátæk og faðir hennar hafi veikst alvarlega þegar hún hafi verið barn. Foreldrar kæranda hafi fengið peninga að láni frá gömlum, ríkum og valdamiklum manni í Edo fylki en það hafi ekki dugað til og hafi faðir hennar látist úr veikindum sínum árið 2009. Eftir andlátið hafi framangreindur maður heimsótt móður kæranda reglulega yfir um fjögurra ára tímabil og krafið hana um endurgreiðslu lánsins. Þegar hann hafi hafið heimsóknir sínar hafi kærandi verið ung að árum og móðir hennar verið atvinnulaus og því ekki getað endurgreitt lánið. Árið 2016, þegar kærandi hafi verið […] ára gömul, hafi maðurinn krafist þess að fá að kvænast kæranda gegn því að fella skuldina niður, ellegar myndi hann drepa hana. Maðurinn hafi átt sjö konur fyrir og hafi kærandi óttast verulega nauðungarhjónaband við manninn og hafi því flúið að heiman og falið sig hjá vini sínum um stund. Umræddur maður hafi verið áhrifamikill í samfélaginu og átt vini víðsvegar sem hafi unnið fyrir hann. Kærandi og móðir hennar hafi því ekki átt möguleika á að hljóta aðstoð lögreglu, enda starfi lögreglan í þágu þeirra sem geti mútað henni. Á þeim tíma sem kærandi hafi dvalið hjá vini sínum hafi móðir vinarins gefið sig á tal við kæranda og boðist til að hjálpa henni. Hafi hún greint kæranda frá því að hún gæti aðstoðað hana við að yfirgefa Nígeríu og útvegað henni vinnu á Ítalíu sem barnfóstra. Kærandi hafi því svarið eið við móðurina um að endurgreiða henni kostnaðinn sem af ferðalagi hennar frá Nígeríu til Ítalíu hlytist, ellegar myndi hún deyja.

Árið 2013 hafi kærandi flúið með aðstoð framangreindrar konu til Ítalíu. Þar hafi beðið hennar kona að nafni […] og hafi hún greint kæranda frá því að hún væri búin að ráða hana til sín sem barnfóstru. Raunin hafi þó reynst önnur og við hafi tekið lífsreynsla sem hafi verið hreint helvíti fyrir kæranda. Kæranda hafi verið tilkynnt af […] að hún myndi ekki starfa við barnapössun heldur vændi en kærandi hafi þvertekið fyrir það. Í kjölfarið hafi […] byrlað kæranda ólyfjan og selt meydóm hennar. Kærandi hafi í kjölfar þess orðið fyrir ítrekuðu alvarlegu líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi af hálfu […] og vændiskaupenda og hafi henni verið gert að stunda vændi allan sólarhringinn til að endurgreiða skuld sína sem henni hafi verið sagt að væru 60 þúsund evrur. Dag einn árið 2017 hafi kærandi horft á leiðtoga Benín í sjónvarpinu þar sem hann hafi talað um að konur í sömu aðstæðum og kærandi þyrftu ekki að greiða aðilum sem stæðu að baki mansali peninga heldur væru þær frjálsar. Hafi það veitt kæranda þann kjark sem hún hafi þurft til að flýja aðstæðurnar. […] hafi leitað að kæranda og í eitt skipti séð hana á markaði. Þar hafi […] hótað kæranda lífláti ef hún myndi ekki snúa aftur í vændi og endurgreiða skuldina. Kærandi hafi fengið vinnu við þrif hjá konu sem hafi reynst henni vel, og þótt launin hafi verið lág hafi hún haft efni á mat og getað nýtt sér svefnaðstöðu í athvarfi fyrir heimilislausa. Kærandi hafi sífellt óttast að […] myndi finna hana og hafi hún því ákveðið að yfirgefa Ítalíu. Kærandi hafi ekki getað snúið aftur til Nígeríu af ótta við að vera hneppt í nauðungarhjónaband eða að vera myrt af mönnum á vegum […].

Í greinargerðinni kemur fram að í Nígeríu ríki mikil fátækt og að efnaðir aðilar, líkt og þeir sem kærandi óttist, hafi mikil völd þar. Þá hafi kærandi misst tengsl við fjölskyldu sína í Nígeríu þar sem hún hafi skipt um símakort á Ítalíu til að hylja fótspor sín. Kærandi hafi því ekki átt nein samskipti við móður sína og bræður í um fimm ár. Kærandi hafi því engar upplýsingar um hvar þau séu niðurkomin í dag eða hvort þau séu á lífi. Félagslegar aðstæður kæranda í Nígeríu hafi verið bágar áður en hún hafi orðið þolandi mansals, en þær yrðu mun verri yrði hún send þangað aftur. Kærandi hafi verið á flótta síðan árið 2013, eða í rúmlega níu ár. Hún hafi verið sautján ára þegar hún hafi flúið til Ítalíu og verið þvinguð í vændi og verið tvítug er hún hafi sloppið frá aðilunum sem hafi staðið að baki því árið 2017. Kærandi eigi því líklega ekki stuðningsnet í Nígeríu og þá hafi hún ekki lokið skólagöngu sinni þar í landi sem takmarki möguleika hennar á að fá vinnu. Kærandi geti því ekki framfleytt sér í Nígeríu, auk þess sem hún yrði ein og óstudd. Kærandi telur því líklegt að yrði henni gert að snúa aftur til Nígeríu yrði hún frelsissvipt og hneppt í mansal að nýju, þvinguð í hjónaband eða myrt. Kærandi búi við mikla andlega vanlíðan og útilokað sé fyrir hana að hljóta meðhöndlun í Nígeríu sökum takmarkaðrar sálfræðiþjónustu þar í landi og bágs fjárhags kæranda.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hún eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem kona, hugsanlegur þolandi nauðungarhjónabands og þolandi mansals. Mansal sé dæmi um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem vísað sé sérstaklega til í a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Nauðungarhjónaband uppfylli sömuleiðis skilyrði ákvæðisins. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi stofnunin lagt til grundvallar að kærandi sé þolandi mansals og því sé ljóst að hún teljist tilheyra þjóðfélagshópi. Kærandi sé frá Benínborg í Nígeríu þar sem konur eigi á hættu að vera hnepptar í mansal. Þá beri heimildir með sér að þolendur mansals séu líklegri til að verða hnepptir í mansal að nýju heldur en að verða fyrir líkamlegu ofbeldi í hefndaraðgerðum. Líta verði til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og vísar kærandi í því samhengi m.a. til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli nr. 2018-10936. Í greinargerð kæranda er m.a. fjallað um bágar aðstæður kvenna og þolenda mansals í Nígeríu. Telur kærandi að skilyrði c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt, þ.e. að nígerísk yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd gegn þeim aðilum sem hún óttist.

Kærandi gerir athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi teljist ekki flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og telur ákvörðunina vera ranga eða a.m.k. ekki rökstudda með fullnægjandi hætti. Kærandi hafi fengið umsókn sína um alþjóðlega vernd samþykkta á Ítalíu á grundvelli sömu aðstæðna og hún hafi greint frá hér á landi. Ákvörðun Útlendingastofnunar sé í ósamræmi við ákvörðun ítalskra yfirvalda í máli kæranda og telur kærandi að engar málefnalegar forsendur hafi komið fram sem réttlæti þá niðurstöðu að synja kæranda um stöðu flóttamanns. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með því að hafa farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til. Því beri að fella niðurstöðu Útlendingastofnunar úr gildi og veita kæranda stöðu flóttamanns, líkt og henni hafi þegar verið veitt á Ítalíu.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis þar sem hún óttist að sæta endurteknu mansali, hefndaraðgerðum og nauðungarhjónabandi. Einnig eigi hún á hættu að verða fyrir skaða af völdum vopnaðra hópa í landinu.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð kæranda kemur fram að konur sem sætt hafi kynferðisofbeldi eigi á hættu að búa við erfiðar félagslegar aðstæður í Nígeríu. Kærandi sjái fram á að búa við slíkar aðstæður þar sem hún sé kona, þolandi kynferðisofbeldis, ómenntuð, fátæk og hafi takmarkað stuðningsnet í heimaríki. Framfærslugeta kæranda sé því í besta falli óljós. Í ljósi stöðu sinnar telur kærandi sig jafnframt uppfylla skilyrði 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem fjalli um sérstaklega viðkvæma stöðu. Kærandi hafi upplifað sjálfsvígshugsanir, átt erfitt með svefn, auk þess sem hún sé kvíðin og hrædd. Að mati sálfræðings kæranda sé líðan hennar ekki góð og óttist hún um afdrif sín. Til að hægt sé að vinna með áföll og fortíð kæranda sé þörf á lengri meðferð. Gögn bendi til þess að kæranda muni ekki standa til boða geðheilbrigðisþjónusta þar sem hún hafi ekki efni á að greiða fyrir hana. Þá gerir kærandi athugasemd við málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar í máli hennar, en frá þeim tíma er hún hafi sótt um vernd og þar til henni hafi verið birt ákvörðun stofnunarinnar hafi liðið tæplega átján mánuðir.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ítölsku ferðaskírteini og dvalarleyfisskírteini. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hún væri með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hennar á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Nígeríu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé nígerískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Country Report on Human Rights Practices: Nigeria (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • Amnesty International Report 2021/22 – Nigeria (Amnesty International, 29. mars 2022);
  • Annual report on religious freedom (covering 2021) (USCIRF, apríl 2022);
  • Country Guidance: Nigeria – Common analysis and guidance note (EUAA, október 2021);
  • Country of Origin report – Nigeria (The Netherlands, Ministry of Foreign Affairs, 22. júní 2021);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, október 2021);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical treatment and healthcare (U.K. Home Office, desember 2021);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Country Background Note (U.K. Home Office, 7. janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Trafficking of women (U.K. Home Office, apríl 2022);
  • DFAT Country Information Report – Nigeria (Australian Department of Foreign Affairs and Trade, 3. desember 2020);
  • EASO COI Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO COI Report – Nigeria – Country Focus (EUAA, 4. júní 2017);
  • EASO COI Report – Nigeria – Key socio-economic indicators (EUAA, nóvember 2018);
  • EASO COI Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO COI Report – Nigeria – Trafficking in human beings (EUAA, 25. apríl 2021);
  • Freedom in the World 2022 – Nigeria (Freedom House, 28. febrúar 2022);
  • Guidelines on International Protection No. 8 (UNHCR, 22. september 2009);
  • Medical Country of Origin Information Report: Nigeria (EUAA, apríl 2022);
  • Nigeria 2020 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 12. maí 2021);
  • Nigeria – Forced Marriage (Ireland - Refugee Documentation Centre (RDC), 25. apríl 2019);
  • Nigeria Police Effectiveness (Ireland - Refugee Documentation Centre (RDC), 9. september 2019);
  • Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 Rome (EUAA, 21. ágúst 2017);
  • Nigeria: Security Situation – Country of Origin Information Report (EUAA, 3. júní 2021);
  • Nigeria – Trafficking and re-trafficking (Ireland - Refugee Documentation Centre (RDC), 16. júní 2019);
  • On the situation of sexual minorities in Nigeria (Austria – Federal Office for Immigration and Asylum, 16. febrúar 2021);
  • Responses to Information Requests (Immigration and Refugee Board of Canada, 20. nóvember 2019);
  • 2016 Strategic Conflict Assessment of Nigeria (Institute for Peace and Conflict Resolution, 2017);
  • Stjórnarskrá Nígeríu (Constitution of the Federal Republic of Nigeria 1999, https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/laws/en/ng/ng014en.pdf);
  • The World factbook (CIA, uppfært 4. maí 2022);
  • Violent Extremist in West Africa (Denmark – Immigration Service, COI Division, 28. júní 2020);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Nigeria (Minority rights group International, janúar 2018) og
  • World Report 2022 – Nigeria (Human Rights Watch, 13. janúar 2022).

Nígería er sambandslýðveldi með rúmlega 225 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi frá árinu 2021 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta, m.a. vegna takmarkana á réttindum þeirra til tjáningar og samkomu og einnig við að fá atvinnu hjá ríkinu.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslum EASO frá 2017 og 2018 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun lögreglumanna sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu en samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla.

Fram kemur í framangreindum gögnum, t.a.m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021, að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá október 2021 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu hafi yfirvöld almennt getu og vilja til að veita vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu. Þá kemur fram að ýmsar eftirlitsnefndir starfi í Nígeríu sem almenningur geti beint kvörtunum sínum til, s.s. mannréttindanefndin (e. The National Human Rights Commission (NHRC)) sem hefur það hlutverk að rannsaka meint brot gegn mannréttindum. Þá geti almennir borgarar beint kvörtunum til umboðsmannsins í Nígeríu ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð stjórnvalda. Jafnframt geti almenningur leitað til nígeríska lögregluráðsins (e. The Nigeria Police Council) og framkvæmdastjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.

Samkvæmt skýrslu EASO frá júní 2021 er öryggisástand landsins hvað verst í norðurhluta Nígeríu þar sem hryðjuverkahópurinn Boko Haram ber ábyrgð á morðum mörg þúsund íbúa. Öryggisástand í norðurhluta og norðausturhluta Nígeríu hafi farið versnandi á árunum 2019 og 2020 og yfirvöld á viðkomandi svæðum geti einungis veitt takmarkaða vernd. Átök og árásir af hálfu hryðjuverkahópa hafi jafnframt farið að gera vart við sig í norðvesturhluta Nígeríu frá árinu 2019. Helstu átök í suðurhluta Nígeríu megi rekja til ágreinings í tengslum við olíuauðlindir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá október 2021 hafa öryggissveitir Nígeríu sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki tekist að útrýma hættunni sem stafi af Boko Haram, en talið sé að til þess þurfi öryggissveitir landsins meiri mannafla, vopn, þjálfun og fjármagn. Yfirvöld hafi þó gripið til ýmissa aðgerða í þeim tilgangi að útrýma hryðjuverkahópum, þ. á m. Boko Haram, en með takmökuðum árangri.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2020 kemur fram að átök hafi verið viðvarandi árið 2020 milli Fulani herdsmen, sem séu að mestu múslimar, og bænda, sem séu að mestu kristnir, í Norður og Mið-Nígeríu. Alþjóða- og félagssamtök hafi gagnrýnt stjórnvöld í Nígeríu fyrir getuleysi til að koma í veg fyrir eða draga úr ofbeldi milli kristinna og múslimskra samfélaga. Átökin séu m.a. rakin til trúarbragða, stjórnmálaskoðana, ágreininga um landsvæði og skorts á úrræðum við þeim..

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sem gefin var út í mars 2022 kemur fram að þótt konur og karlar njóti sömu réttinda samkvæmt stjórnarskrá Nígeríu sé raunin ekki alltaf sú og ógiftar konur eigi sérstaklega undir högg að sækja. Konur verði fyrir margskonar mismunun þegar komi að efnahagslegum réttindum, en til að mynda tryggi lög konum ekki jöfn laun og körlum fyrir sambærileg störf. Auk þess sé mismunun byggð á kyni ekki óheimil við ráðningu í störf. Þá sé venjan sú að konur geti ekki eignast land nema í gegnum eiginmann sinn eða fjölskyldu. Venjan sé jafnframt sú í mörgum tilfellum að konur erfi ekki eiginmenn sína og sitji þá uppi allslausar við fráfall þeirra. Þá sé kynbundið ofbeldi gagnvart konum útbreitt vandamál í Nígeríu og séu ógiftar konur enn líklegri til þess að verða fyrir ofbeldi. Það sé engin alhliða löggjöf sem verndi konur gegn kynbundnu ofbeldi í Nígeríu en einhver fylki, aðallega í suðurhluta Nígeríu, séu með löggjöf sem eigi að veita vernd gegn tilteknu kynbundnu ofbeldi. Heimilisofbeldi í landinu sé útbreitt vandamál og í sumum ríkjum sé það félagslega samþykkt. Þá tíðkist einnig afskiptaleysi meðal lögreglunnar í slíkum málum.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í júlí 2019 kemur fram að Nígería sé upprunaland, viðkomustaður og áfangastaður mansals og nauðungarvinnu. Flestir þolendur mansals komi frá borginni Benín í Edo fylki. Fram kemur að nígerísk stjórnvöld uppfylli ekki enn lágmarksviðmið ríkja vegna baráttu gegn mansali en hafi þó tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og koma í veg fyrir mansal. Gerðar hafi verið ýmsar stefnubreytingar í þessum málum og sérstök löggjöf sett til að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal. Þá hafi stjórnvöld, í samvinnu við alþjóðlög samtök og önnur ríki, þjálfað lögreglulið landsins, starfsmenn ríkisins og stofnanir til að gera þeim betur kleift að rannsaka, sækja til saka og sakfella gerendur mansals. Árið 2003 hafi tekið gildi lög sem komu stofnuninni NAPTIP (e. the National Agency for the Prohibition of Traffic in Persons and Other Related Matters) á laggirnar. Markmið NAPTIP sé að vekja athygli á málefninu, fræða þjóðina og með þeim hætti að reyna að koma í veg fyrir frekara mansal, vernda þolendur mansals ásamt því að sækja gerendur til saka. Einnig hafi verið samþykkt sérstök lög gegn mansali árið 2015 en þau hafi gert það refsivert að stunda mansal og mæli ennfremur fyrir um fangelsisvist allt að fimmtán árum fyrir brot gegn þeim. Starf NAPTIP felist í því að stuðla að framfylgni laga og reglugerða gegn mansali í Nígeríu, rannsaka mansalsmál og fræða og efla lögreglu og aðra aðila sem komi að upprætingu mansals í Nígeríu. Einnig aðstoði stofnunin þolendur mansals með því að veita þeim skjól, ráðgjöf, hafa uppi á fjölskyldumeðlimum þeirra, aðstoða við heimkomu og aðlögun að samfélaginu á ný. Samkvæmt skýrslu Landinfo hafi NAPTIP þekkingu og reynslu af því að sinna þolendum mansals sem eigi börn. NAPTIP hafi til umráða húsnæði fyrir þolendur mansals í borgunum Abuja, Lagos, Benín, Uyo, Enugu, Kano, Sokoto, Maiduguri og Markudi. Þá kemur fram í skýrslu frá EASO frá árinu 2021 að dvöl í húsnæði NAPTIP sé ekki langtímalausn og dvelji þolendur þar í um tvær til sex vikur. NAPTIP vinni með frjálsum félagasamtökum sem geti útvegað þolendum mansals langtímahúsnæði og andlegan stuðning. Þá verði konur sem dvelji hjá NAPTIP í einhverjum tilvikum fyrir aðkasti í samfélaginu þar sem gert sé ráð fyrir að þær hafi unnið við vændi erlendis. Af þeim sökum hafi NAPTIP reynt að senda konur eins fljótt og verða megi til fjölskyldu sinnar eða í annað húsnæði. Skortur á fjármagni takmarki getu NAPTIP og frjálsra félagasamtaka við að aðstoða þolendur mansals við að aðlagast samfélaginu og standa á eigin fótum. Nígerísk yfirvöld hafi komið til móts við umræddan fjárskort hjá NAPTIP og veitt þolendum mansals fjárstyrk sem aðstoði við aðlögun að samfélaginu.  

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um mansal frá apríl 2019 kemur fram að í ágúst 2017 hafi í Edo fylki verið sett á fót sérstakt aðgerðarteymi gegn mansali (e. Edo State task force against human trafficking (ETAHT)) sem leitt sé af dómsmálaráðherra fylkisins (e. State Attorney-General and Commissioner of Justice). Megin verkefni aðgerðarteymisins séu rannsókn og saksókn í mansalsmálum, forvarnir og vitundarvakning, aðstoð við þolendur með því að bjóða sálfræðiaðstoð, skammtíma og langtíma húsnæði, kennslu og þjálfun í iðngreinum og stuðningur og aðstoð við aðlögun þolenda sem snúa aftur heim. Þá vilji teymið vinna að því að uppræta rót vandans sem birtist í mansali og kynjamisrétti. Aðgerðarteymið sé byggt á þörfinni til að styrkja aðgerðir stjórnvalda og félagasamtaka í baráttunni gegn mansali í Nígeríu og nú hafi einnig verið komið á fót slíkum teymum í öðrum fylkjum s.s. Ondo, Delta og Ekiti í samstarfi við UNODC og NAPTIP. Í gögnunum kemur þá fram að þolendur mansals séu líklegri til þess að sæta endurteknu mansali heldur en að sæta líkamlegu ofbeldi vegna hefndaraðgerða þeirra aðila sem staðið hafi að baki mansalinu. Lögreglan í ríkinu hafi þá almennt getu til þess að aðstoða þolendur mansals, jafnvel þótt þolendur standi enn í skuld við smyglarann sinn. Samkvæmt skýrslu EASO frá apríl 2021 benda ýmsar heimildir til þess að mansalsgerendur einblíni frekar á að finna nýja þolendur mansals í stað þess að beita þolendur ofbeldi, sem enn standi í skuld við þá, þar sem þeir vilji síður draga að sér athygli lögregluyfirvalda í Nígeríu. Þrátt fyrir að dæmi séu um að fjölskyldur þolenda verði fyrir ofbeldi eða árásum af hálfu mansalsgerenda bendi heimildir til þess að slíkar hefndaraðgerðir séu sjaldgæfar samkvæmt framangreindri skýrslu EASO. Oft sé ástæðan sú að fjölskyldur þolenda komi að mansalinu sjálfu.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá janúar 2020 og skýrslu EUAA frá apríl 2022 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stigið sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu, m.a. mæðra- og ungbarnavernd, fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum en aðgengi sé þó betra á þéttbýlli svæðum landsins. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2019 kemur fram að Evrópusambandið og alþjóða fólksflutningastofnunin (IOM) starfi saman í sérstöku átaksverkefni er lúti að endursendingu fólks til Nígeríu. Fólksflutningastofnunin í samstarfi við ýmsar innlendar stofnanir, svo sem innflytjendaþjónustu Nígeríu (e. Nigerian Immigration Service), nefnd ríkisins fyrir flóttamenn, innflytjendur og fólk á innri flótta (e. the National Commission for Refugees, Migrants and Internally Displaced Persons), NAPTIP, almannavarnir ríkisins og ETAHT (e. Edo State Taskforce against Human Trafficking) veiti ýmsa þjónustu vegna móttöku og aðlögunar einstaklinga sem snúi aftur til Nígeríu. Grunnþjónusta sé veitt, m.a. ferðir áfram til heimabæjar eða þorps, símar til frekari samskipta, matur, skammtímahúsnæði, heilbrigðisþjónusta og vernd. Þá sé einstaklingum með sérþarfir jafnframt vísað til heilbrigðisstofnana, sálfræðinga, í ráðgjöf og veitt aðstoð við fjölskyldusameiningu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til aðildar hennar að tilteknum þjóðfélagshópi sem kona, þolandi mansals og hugsanlegur þolandi nauðungahjónabands í Nígeríu. Kærandi telur yfirvöld í Nígeríu hvorki hafa getu né vilja til að veita henni vernd, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Kærunefnd telur ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að hún hafi verið þolandi mansals.

Kærandi bar ekki fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Nígeríu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun kvað hún föður sinn hafa fengið lán frá ótilgreindum manni til að greiða fyrir læknismeðferð í Nígeríu. Faðir hennar hafi látist af veikindum sínum áður en hann hafi náð að endurgreiða manninum. Maðurinn hafi krafið móður kæranda um endurgreiðslu en þegar það hafi ekki gengið hafi hann krafist þess að fá að kvænast kæranda sem þá hafi verið 17 ára gömul. Kærandi greindi frá því að maðurinn væri […] og ætti sjö konur fyrir. Hann væri ríkur og valdamikill og því gæti hann þvingað hana í hjúskap eða myrt hana. Þá kvaðst kærandi ekki hafa leitað til lögreglu sökum þess hve valdamikill hann sé. Við mat sitt horfir kærunefnd til þess að kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á tilvist framangreinds aðila eða að hann hafi tengsl við stjórnvöld sem geri það að verkum að henni sé ómögulegt að leita aðstoðar lögreglu. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 að þvingað hjónaband sé ólöglegt í Nígeríu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi jafnframt frá því að hafa farið til Ítalíu árið 2013 þar sem henni hafi verið lofað starfi sem barnfóstra. Í staðinn hafi kærandi verið neydd til að stunda vændi þar í landi. Kærandi kvað aðilann sem hafi staðið að baki mansalinu vera konu að nafni […] og að hún hafi fyrst hitt hana á Ítalíu. Kærandi hafi stundað vændi gegn vilja sínum í þrjú ár þar til hún hafi flúið. Líkt og áður greinir telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa frásögn kæranda um að hún hafi verið neydd í vændi á Ítalíu. Samkvæmt frásögn kæranda kvaðst hún hins vegar hafa flúið […], sem hafi staðið að baki mansalinu, árið 2017 og í kjölfarið skipt um símakort og ekki heyrt frá henni næstu þrjú árin. Kærandi kvaðst þó hafa rekist á […] á markaði árið 2020 þar sem […] hafi minnt kæranda á að hún skuldaði sér pening. Í kjölfarið hafi […] haldið áfram að hafa samband við kæranda og kærandi því ákveðið að yfirgefa Ítalíu.

Við mat á því hvort að konur hafi almennt ástæðuríkan ótta við að vera þvingaðar í mansal skal m.a. líta til þess hversu mikið smyglarinn viti um bakgrunn konunnar og fjölskyldu hennar, hvort að fjölskylda konunnar hafi tekið þátt í smyglinu og hvort að konan hafi borið vitni gegn smyglaranum. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvað kærandi móður vinar síns og konu að nafni […], sem kærandi hafi ekki heyrt um áður og hafi ekki þekkt til, hafa staðið að baki mansalinu og vændinu. Í ljósi framangreindrar frásagnar kæranda verður ekki ráðið að fjölskylda kæranda hafi staðið að baki mansalinu eða komið að því á nokkurn hátt. Af frásögn kæranda má jafnframt ráða að konan á Ítalíu, […], hafi ekki haft samband við kæranda eða haft uppi á henni fyrr en árið 2020 þegar kærandi hafi rekist á hana fyrir tilviljun á markaði á Ítalíu. Þá greindi kærandi frá því að […] væri búsett á Ítalíu en hefði völd í Nígeríu. Af frásögn kæranda og gögnum málsins verður þó ekki séð að […] hafi slík völd eða ítök í Nígeríu að kæranda sé ómögulegt að leita aðstoðar þarlendra yfirvalda telji hún þörf á því. Þrátt fyrir að þolendur mansals geti átt erfitt uppdráttar við endurkomu til Nígeríu benda gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér til þess að þeir sæti almennt ekki ofsóknum við heimkomu og að til staðar séu innviðir í heimaríki kæranda sem sérhæfi sig í þjónustu og aðstoð við þolendur mansals og að sækja gerendur til saka. Þá sé mansal refsivert í Nígeríu og hafa lögregluyfirvöld og stofnunin NAPTIP almennt getu til þess að aðstoða þolendur mansals, jafnvel þótt þolendur standi enn í skuld við smyglarann sinn. Það er mat kærunefndar að kærandi eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda, hjá stofnuninni NAPTIP, aðgerðarteyminu ETAHT og lögreglu, telji hún þörf á því. Að mati kærunefndar hefur því ekki verið sýnt fram á að kærandi eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sem rekja megi til þess að hún hafi verið þolandi mansals.

Auk framangreinds ber kærandi fyrir sig að hún tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi sem kona í Nígeríu. Þrátt fyrir að konur sæti almennt mismunun í Nígeríu og geti talist til sérstaks þjóðfélagshóps í skilningi 38. gr. laga um útlendinga er það mat kærunefndar að sú mismunun nái því alvarleikastigi að geta talist ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna. Verður því ekki fallist á að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu á grundvelli kyns síns.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar kemur fram að borgurum landsins standi almennt raunhæf vernd yfirvalda til boða þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem leiða líkur að því að hún geti ekki notið verndar lögreglu eða sýnt fram á það með öðrum hætti. Er það því mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeim athöfnum sem kærandi telur að sér stafi hætta af, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997). Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ekki talið að kristnum einstaklingum, líkt og kæranda, stafi hætta af Fulani herdsmen eða öðrum vopnuðum hópum í suðurhluta landsins, þ. á m. Edo fylki.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að hún sjái fram á erfiðar félagslegar aðstæður verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Hún eigi á hættu að verða hneppt í mansal að nýju eða sæta hefndaraðgerðum af hálfu aðilanna sem hafi staðið að því. Þá sé kærandi við bága andlega heilsu og þarfnist sálfræðimeðferðar.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. Þá standi borgurum Nígeríu almennt til boða vernd yfirvalda. Þrátt fyrir að þolendur mansals geti átt erfitt uppdráttar við endurkomu til Nígeríu benda gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til þess að þeir verði almennt fyrir ofsóknum við heimkomu. Þá er það mat kærunefndar að kærandi eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda, hjá stofnuninni NAPTIP, aðgerðarteyminu ETAHT og lögreglu, telji hún þörf á því. Þá horfir kærunefnd til þess að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið í sambandi við móður sína og fimm systkini sín í nokkur ár hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að fjölskyldumeðlimir hennar séu ennþá á lífi og búsettir í Nígeríu. Ráða má að kærandi hafi verið náin fjölskyldu sinni og muni njóta stuðnings hennar í heimaríki. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda og mats á trúverðugleika hennar er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er kærandi líkamlega heilsuhraust og hefur vilja og getu til að vinna og framfleyta sjálfri sér. Þá á kærandi ættingja í heimaríki sínu sem talin verða geta veitt henni stuðning.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Við meðferð málsins lagði kærandi fram heilsufarsgögn, m.a. samskiptaseðla frá Heilsugæslunni Efstaleiti og Landspítala og tvö vottorð frá sálfræðingi, dags. 30. júní 2021 og 9. mars 2022. Í heilsufarsgögnunum kemur fram að kærandi hafi glímt við sýkingu í maga og fengið viðeigandi lyf. Að öðru leyti má ráða af gögnunum að kærandi sé við ágæta líkamlega heilsu. Í sálfræðivottorðinu frá 9. mars 2022 kemur m.a. fram að kærandi hafi lokið níu sálfræðiviðtölum. Niðurstaða sjálfsmatslista hafi gefið til kynna að kærandi finni til miðlungs- og alvarlegra einkenna þunglyndis, kvíða og streitu. Kæranda hafi löngun í að öðlast örugga búsetu og stefni á að mennta sig og vinna. Hún hugsi mikið um móður sína og sé þjökuð af svefnleysi vegna ónæðis í búsetuúrræði hennar. Kærandi hafi ofan af fyrir sér með því að fara í […] og […] en hún sé mjög ein og bjargarlaus. Kærandi telji að hennar bíði einungis vændi og að líf hennar sé í hættu verði henni vísað burt. Kærandi þarfnist stöðugleika til að geta unnið úr áföllum sínum og átt gott líf.

Það að kærandi sæki læknisþjónustu hér á landi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að hún teljist hafa ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna. Í ljósi þess sem fram kemur í framlögðum heilsufarsgögnum verður sú meðferð sem kærandi þarfnast hvorki talin vera svo sérhæfð að hún geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir hana verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Líkt og fram hefur komið er öllum ríkisborgurum Nígeríu tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu í landinu og er það mat kærunefndar að kærandi muni hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum sem henni er nauðsynleg þar í landi. Samkvæmt framangreindum gögnum er í boði sálfræðiaðstoð í Nígeríu fyrir hana bæði á sjúkrahúsum og stofum þar sem talið verður að hún muni hafa aðgang að geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum og sálfræðingum. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli, líkt og þar sem kærandi kveðst hafa verið búsett, heldur en í strjálbýli og töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess. Þá lítur kærunefnd svo á að ekkert sé því til fyrirstöðu að kærandi muni geta búið við stöðugleika í heimaríki sínu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er kærandi að öðru leyti við góða heilsu og vinnufær og því ekkert sem bendir til annars en að hún geti framfleytt sér í heimaríki.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 10. október 2020. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 19. maí 2022, eru liðnir rúmir 19 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar að skilyrði a-, c- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Skilyrði b-liðar, um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé, telst hins vegar ekki vera uppfyllt enda hefur kæranda ekki lagt fram gögn sem sýna fram á auðkenni hennar með fullnægjandi hætti.

Í ljósi framangreinds var kæranda leiðbeint um framlagningu vegabréfs eða annarra skilríkja með lífkenni sem staðfest gætu auðkenni hennar. Í svari kæranda sem kærunefnd barst hinn 12. maí 2022 kemur fram að hún eigi ekki önnur persónuskilríki en þau sem þegar hafi verið lögð fram við meðferð málsins. Fyrrum talsmaður kæranda, sem og núverandi, hafi m.a. reynt að senda fyrirspurnir til nígerískra sendiráða, ræðismanna og yfirvalda en án árangurs. Kærandi telur ósanngjarnt að gera þá kröfu að hún uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem það virðist vera ómögulegt fyrir hana. Fram kemur að í tilfelli bráðabirgðadvalarleyfa sé tekið tillit til aðstæðna sem þessa, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 77. gr. laga um útlendinga, en ekki í tilfelli b-liðar 2. mgr. 74. gr. laganna. Þannig séu umsækjendur um alþjóðlega vernd sem komi frá ríkari fjölskyldum, sem og þolendur mansals sem komi frá þjóðum þar sem persónuskilríki séu skráð með miðlægu skráningarkerfi, líklegri til að eiga persónuskilríki og þ.a.l. að uppfylla skilyrði ákvæðisins. Kærandi byggir því á því að ofangreint skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga feli í sér mismunun á grundvelli þjóðernis og þjóðfélagsstöðu og feli því í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru rakin nokkur viðbótarskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr.

Engin skilríki eða önnur gögn liggja fyrir hjá kærunefnd sem eru til þess fallin að varpa ljósi á hver kærandi er og verður ekki fallist á það með kæranda að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að litið verði framhjá þeirri staðreynd. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sannað á sér deili, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga og 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga og 37. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. séu ekki fyrir hendi í máli kæranda. Það er því niðurstaða kærunefndar að kæranda verði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerði í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til þeirra að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Að því er varðar vísun kæranda til ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 26. júlí 2019 í máli nr. 2018-10936 sem hún telur sambærilegt sínu máli þá tekur kærunefnd fram að  ákvarðanir Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Þá telur kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila þess máls séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda. Í því máli var m.a. horft til þess að kærandi væri einstæð móðir ungabarns og án stuðningsnets í heimaríki sínu.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, þar sem fjallað er um framkvæmd ákvörðunar, kemur fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES-eða EFTA-ríki skuli hann fluttur þangað. Þar sem fyrir liggur að kærandi hefur hlotið alþjóðlega vernd á Ítalíu og hefur heimild til dvalar þar telur kærunefnd rétt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir því að kærendur og börn þeirra verði flutt til Ítalíu.

Við mat á aðstæðum á Ítalíu hefur kærunefnd tekið mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um Ítalíu og skoðaðar hafa verið vegni fyrri úrskurða kærunefndar í tengslum við endursendingar einstaklinga til Ítalíu. Meðal skýrslna sem kærunefnd hefur kynnt sér sérstaklega eru: Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, apríl 2019); Amnesty International Report 2017/18 - Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018) og Italy 2018 Human Rights Report (U.S. State Department, mars 2019).

Kærandi hlaut alþjóðlega vernd á Ítalíu og er með gilt dvalarleyfi með gildistíma til 24. september 2023. K hefur borið fyrir sig að hafa verið þolandi mansals og teljist því í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærunefndin dregur frásögn kæranda um þetta atriði ekki í efa.

Með vísan til upplýsinga sem áður hefur verið tekin afstaða til um aðstæður á Ítalíu og nýlegra heimilda um aðstæður einstaklinga sem hafa alþjóðlega vernd og heimild til dvalar á Ítalíu er það niðurstaða nefndarinnar að 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda til Ítalíu.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands hinn 10. október 2020 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta