Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 41/2012

Fimmtudaginn 30. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 41/2012:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 20. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, frá 10. nóvember 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 10. nóvember 2011, var skráð fasteignamat á einbýlishúsi kæranda að B 12.400.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati var 13.640.000 kr. Verðmat fasteignasala var 11.800.000 kr. og 110% verðmat nam því 12.980.000 kr. Í ljósi þess að fasteignamat hússins var hærra var miðað við það við afgreiðslu erindis kæranda. Staða áhvílandi íbúðalána kæranda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 5.120.470 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 0 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi á tvær bifreiðir, C sem metin er á 218.700 kr. og D sem metin er á 801.900 kr. Þá eigi kærandi einnig tjaldvagn, E sem metinn er á 300.000 kr. Veðrými sem kemur til frádráttar vegna annarra eigna nemur því samtals 1.320.600 kr. Á það reyndi þó ekki við afgreiðslu umsóknar kæranda.

 

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 23. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 19. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 21. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. apríl 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að lagt verði fyrir Íbúðalánasjóð að taka endurbótalán með í reikninginn við afgreiðslu á umsókn hans um endurútreikning lána. Kærandi vísar til þess að með 110% leiðinni hafi verið stefnt að því að koma til móts við fólk sem keypt hefði hús fyrir eða um hrun bankanna árið 2008 og í því efni hafi verið miðað við áramótin 2008–2009. Í samkomulagi lánveitenda á íbúðamarkaði um 110% leiðina sé talað um skuldir sem stofnað hafi verið til vegna fasteignakaupa fyrir árið 2009. Kærandi heldur því fram að aðstæður hans séu sérstakar að því leyti að ekki sé um að ræða kaup á fasteign á árinu 2009 heldur hafi lán vegna endurbóta á húsi hans verið afgreitt þá. Húsið hafi verið endurbyggt að miklu leyti og nánast hægt að segja að byggt hafi verið nýtt hús utan um það gamla. Þær framkvæmdir hafi hafist löngu fyrir bankahrun og hafi verið langt komnar þegar lánið hafi fengist afgreitt en það hafi tekið langan tíma. Við hrun hafi kærandi því verið búinn að festa sig í þeirri stöðu sem hann sé í.

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður telur að veðkröfur sem stofnað hafi verið til eftir 31. desember 2008 komi ekki til álita við niðurfærslu, sbr. ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Þá vísar Íbúðalánasjóður einnig til svarbréfs sjóðsins sem fyrir liggur í málinu. Þar kemur meðal annars fram að skilyrði fyrir afgreiðslu erindis kæranda hafi ekki verið uppfyllt að fullu þar sem áhvílandi veðskuldir séu 41% af verðmæti fasteignarinnar og falli því ekki undir úrræði um lánalækkun niður í 110% af verðmæti hennar. Ekki hafi verið unnt að hafa endurbótalán kæranda með í útreikningum þar sem það hafi verið gefið út þann 9. febrúar 2009 en eingöngu sé leyfilegt að lækka veðskuldir sem stofnað hafi verið til fyrir árið 2009. Var umsókn kæranda því synjað.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi hefur fært fram þau rök að við endurútreikning lána hans hjá Íbúðalánasjóði eigi einnig að taka tillit til endurbótaláns sem hann tók þann 6. febrúar 2009. Við úrlausn málsins ber að fylgja lögum nr. 29/2011 til breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 1.1 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að heimild til niðurfærslu taki eingöngu til áhvílandi veðkrafna sjóðsins, en í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 29/2011 er áréttað að með því sé átt við veðkröfur í eigu Íbúðalánasjóðs sem stofnað var til vegna kaupa eða byggingu fasteigna 31. desember 2008 eða fyrr. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 29/2011 segir um þetta atriði að Íbúðalánasjóði sé ekki heimilt að færa niður veðkröfur sem stofnað var til á árinu 2009 eða síðar, þar sem í upphafi árs 2009 var orðið ljóst að gera mátti ráð fyrir miklum verðlækkunum á íbúðarhúsnæði. Því hafi reglan verið lögð til með þeim hætti sem síðar var leidd í lög. Er því ljóst að Íbúðalánasjóði var ekki heimilt að líta til annarra lána kæranda við útreikning á veðsetningarhlutfalli af verðmæti fasteignar hans.

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast, auk þess sem Íbúðalánasjóði ber að fylgja fyrrgreindum lögum, en þar er ekki að finna undanþágur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. ákvæði 1.1 í 1. gr. í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/2011 verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteign að B á Reyðarfirði, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta