Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2012

Fimmtudaginn 30. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 55/2012:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

 

 

Með bréfi, dags. 26. apríl 2012, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 14. febrúar 2012 um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. nóvember til 31. desember 2011. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir 1. nóvember til 30. nóvember 2011 og í annarri umsókn fyrir 1. desember 2011 til 29. febrúar 2012. Fyrir mistök velferðarráðs var aðeins tekin afstaða til fjárhagsaðstoðar fyrir nóvembermánuð 2011. Á fundi velferðarráðs 6. mars 2012 var síðan tekin fyrir umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir 1. desember til 31. desember 2011 og var synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð fyrir það tímabil einnig staðfest.

Varðandi umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2012 kemur fram í bréfi þjónustumiðstöðvar B til kæranda, dags. 20. janúar 2012, varðandi janúar 2012, að meta yrði rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar mánuð fyrir mánuð og var hún hvött til að hafa samband teldi hún eignastöðu sína hafa breyst á tímabilinu sem um ræði. Þetta bréf segist kærandi aldrei hafa fengið. Hún hafi því ekki fengið fjárhagsaðstoð í janúar 2012 og kærir hún einnig þá synjun.

Mál þetta varðar því tvær synjanir velferðarráðs um fjárhagsaðstoð. Í fyrsta lagi fyrir tímabilið 1. nóvember til 31. desember 2011 og í öðru lagi fyrir tímabilið 1. janúar til 31. janúar 2012.

 

I. Málavextir.

Kærandi er einhleyp kona sem flutti til Íslands árið 2004 eftir að hafa dvalið erlendis um tíma. Kærandi hefur að miklu leyti verið atvinnulaus frá heimkomunni. Hún hefur notið fjárhagsaðstoðar undanfarin ár en umsóknum hennar hefur þó verið synjað nokkrum sinnum vegna eignastöðu. Kærandi býr hjá móður sinni sem er 92 ára gömul og er sjúklingur, og hefur kærandi þurft að sinni henni töluvert. Þá hafi kærandi ítrekað sótt um störf, en henni gangi illa að fá starf. Hún hafi átt innstæður á reikningum, en hefur upplýst að staða á innlánsreikningum hennar þann 2. desember 2011 hafa verið þær að innstæða á Vörðunni hafi verið 25.000 kr., innstæða á vaxtareikningi hafi verið 50.000 kr., engin innstæða hafi verið á kjörbók 0 kr. og auk þess hafi hún átt ríkisskuldabréf að fjárhæð 100.000 kr.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi flutti til Íslands árið 2004 og hefur búið hér á landi síðan. Hún er atvinnulaus og á ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hún starfaði of lengi erlendis. Hún hafi fengið þær upplýsingar þegar hún kom til Íslands að hún þyrfti að sækja um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg, þar sem þeir sem ekki eigi rétt á atvinnuleysisbótum, eigi rétt á fjárhagsaðstoð frá viðkomandi sveitarfélagi. Það hafi hún gert, en sótt er um fjárhagsaðstoð fyrir þrjá mánuði í senn.

Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir mánuðina nóvember og desember 2011, og janúar 2012. Hún hafi fengið synjun vegna þessara mánaða þar sem hún hafi átt eignir sem hafi verið umfram þau viðmið sem sett eru af Reykjavíkurborg, en jafnframt hafi umsókn hennar vegna janúar 2012 verið synjað af þeim sökum, en þar hafi kærði borið því við að í bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. janúar 2012, hafi henni verið bent á að hafa samband við þjónustumiðstöðina ef hún teldi að eignastaða hennar hefði breyst. Kærandi byggir hins vegar á því að hún hafi aldrei fengið þetta bréf og því ekki haft neina vitneskju um innihald bréfsins. Hún hafi séð umrætt bréf í fyrsta sinn þegar hún hafi lesið afrit af því í gögnunum sem úrskurðarnefndin hafi sent henni. Einnig komi fram í greinargerð velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 22. maí 2012, að hún hafi í þessu bréfi verið hvött til að hafa samband við þjónustumiðstöðina vegna breyttrar eignastöðu og því hafi umsókn hennar fyrir janúar verið synjað.

Þá gerir kærandi jafnframt athugasemdir við það að velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi ekki upplýst hana um breytingar sem tekið hafi gildi 1. janúar 2011 á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi kveður stöðu reikninga sinna 2. desember 2011 hafa verið eftirfarandi: Varðan 25.000 kr., vaxtareikningur 50.000 kr., kjörbók 0 kr. og ríkisskuldabréf 100.000 kr. Kærandi bendir auk þess á að í greinargerð C félagsráðgjafa í formi eyðublaðs séu upplýsingar um föst útgjöld hennar ekki réttar, þar sem það vanti upplýsingar um skatt og bensín.

Loks tekur kærandi fram að taka mætti tillit til mannúðarsjónarmiða. Hún búi hjá móður sinnar sem sé að verða 92 ára gömul og sé mikill sjúklingur og hafi kærandi þurft að sinna henni mikið. Það hafi mjög slæm áhrif bæði á kæranda og móður hennar þegar kærandi fær synjun um fjárhagsaðstoð. Það sé heilsuspillandi og velferðarráð hafi ekki svarað þeirri spurningu hennar á hverju hún eigi að lifa þar sem hún hafi engar tekjur. Henni finnist að allir eigi að búa við þau mannréttindi að lifa mannsæmandi lífi. Hún hafi sótt um störf en fái ekki vinnu.

 

III. Sjónarmið kærða.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2011 og voru samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010.

Bent er á að um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur, meðal annars af eignum sínum. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Með hliðsjón af framansögðu verði að líta svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð og slíka neyðaraðstoð beri einungis að veita í skamman tíma.

Vísað er til 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þar sem segi meðal annars að allar tekjur einstaklings/maka komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Við afgreiðslu umsóknar um fjárhagsaðstoð kæranda í október 2011 hafi komið í ljós að samkvæmt rafrænum gögnum ríkisskattstjóra ætti kærandi verðbréf, auk inneignar á bankabók. Í kjölfar þess hafi þjónustumiðstöð óskað eftir upplýsingum frá kæranda um stöðu umræddra verðbréfa og bankainneigna. Samkvæmt upplýsingum er borist hafi þjónustumiðstöð um miðjan október 2011 hafi eignir kæranda numið 316.983 kr. og hafi þjónustumiðstöð synjað umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. október til 31. desember 2011 á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Hafi kæranda verið bent á að hafa samband að nýju ef forsendur breyttust og 2. desember hafi kærandi skilað inn nýjum umsóknum um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilin 1. nóvember til 30. nóvember 2011 og 1. desember 2011 til 29. febrúar 2012 ásamt nýjum upplýsingum um stöðu reikninga. Kæranda hafi þá verið bent á að samkvæmt upplýsingum þjónustumiðstöðvar væru verðbréf enn óinnleyst og ekki hefði verið skilað inn staðfestingu um að verðbréf kæranda væru ekki innleysanleg. Þann 5. desember 2011 hafi borist upplýsingar til þjónustumiðstöðvar um að meginhluti verðbréfanna hefði verið innleystur. Staðfesting frá viðskiptabanka hafi borist 13. desember 2011 þar sem fram hafi komið að verðbréfaeign kæranda væri 99.774 kr. (að markaðsvirði 13. desember 2011) og að 29. nóvember 2011 hefðu verið innleyst bréf að fjárhæð 300.000 kr. (að nafnvirði 109.481 kr.).

Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð talið ljóst að kærandi hefði átt eignir umfram þær sem kveðið væri á um í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kæranda bæri að nýta umræddar eignir sér til framfærslu áður en leitað væri eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg væri neyðaraðstoð. Velferðarráð hafi því talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og hafi staðfest synjun starfsmanna á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. nóvember til 31. desember 2011.

Hvað varði umsókn kæranda fyrir janúarmánuð 2012 komi fram í synjunarbréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. janúar 2012, að meta þyrfti rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar mánuð fyrir mánuð og hafi kærandi verið hvött til að hafa samband við félagsráðgjafa sinn ef hún teldi eignastöðu sína hafa breyst á tímabilinu. Samkvæmt upplýsingum frá þjónustumiðstöð hafi kærandi ekki haft samband við þjónustumiðstöð vegna breyttrar eignastöðu eða nýrra upplýsinga. Því hafi afgreiðsla á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir janúarmánuð 2012 stöðvast þar sem upplýsingar um eignastöðu kæranda í janúarmánuði hafi ekki legið fyrir, en í 2. mgr. 9. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að afgreiðsla umsókna stöðvist ef umsækjandi neiti að veita upplýsingar um fjárhag sinn og/eða maka síns eða aðrar upplýsingar, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. reglnanna.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir 1. nóvember til 31. desember 2011.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Reykjavík hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð sem tóku gildi þann 1. janúar 2011. Er í þeim reglum að finna almenn skilyrði fjárhagsaðstoðar sem að áliti úrskurðarnefndarinnar eru almenn og fyrirsjáanleg. Í 12. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur einstaklings, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Gilda þessar reglur almennt um meðferð allra umsókna sem berast eftir að þær hafa verið settar, og hefur það ekki þýðingu við úrlausn málsins hvort kæranda hafi verið kynntar þær reglur um fjárhagsaðstoð sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.


Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu barst Velferðarsviði Reykjavíkurborgar staðfesting frá viðskiptabanka kæranda þann 13. desember 2011 þar sem fram kom að verðbréfaeign kæranda væri 99.774 kr., miðað við markaðsvirði þann 13. desember 2011 og að 29. nóvember 2011 hefðu verið innleyst bréf að fjárhæð um 300.000 kr., sem voru að nafnvirði 109.481 kr. Með vísan til framanskráðs verður ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu fjárhagsaðstoðar. Þá hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda í nóvember og desember 2011 hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda.

Hvað varðar umsókn kæranda um styrk í janúarmánuði 2012 liggur fyrir að ástæða synjunarinnar er sú að kærandi hafi ekki komið nægum upplýsingum á framfæri við kærða um breytingu á eignastöðu hennar við meðferð umsóknarinnar. Er á því byggt af hálfu kærða að slík áskorun hafi komið fram með almennum hætti í bréfi til kæranda, dags. 20. janúar 2012, sem er meðal gagna málsins. Af hálfu kæranda hefur því ítrekað verið haldið fram að hún hafi aldrei fengið þetta bréf og hafi því ekki getað brugðist við í samræmi við efni þess.

Á þeim tíma sem bréf þetta var sent, hafði kærandi fengið bréf kærða, dags. 18. janúar 2012, um synjun á fjárhagsaðstoð 1. nóvember 2011 til 1. janúar 2012, eftir að hún hafði kært framangreinda ákvörðun með kæru, dags. 13. janúar 2012. Kærandi var því á þessum tíma í nokkrum samskiptum við kærða vegna umsóknar hennar um styrk í nóvember og desember 2011, og taldi sig hafa upplýst Velferðarsvið Reykjavíkurborgar um stöðu sína með fyrrgreindri kæru. Í kærunni sem dagsett er 13. janúar 2012 koma meðal annars fram upplýsingar um fjárhagslega stöðu kæranda þann 2. desember 2011. Kæran var því til meðferðar hjá kærða, á þeim tíma sem umsókn hennar vegna janúarmánaðar 2012 var til afgreiðslu. Ekkert liggur frekar fyrir um að kæranda hafi verið leiðbeint frekar um að hún þyrfti að koma á framfæri viðbótargögnum til kærða, umfram það bréf sem kærandi segist ekki hafa fengið. Í því ljósi, og eins og hér stendur á, er hin kærða ákvörðun um að hafna greiðslu bóta í janúar 2012 felld úr gildi og lagt fyrir kærða að taka umsókn kæranda um fjárhagsstyrk í janúar 2012 til frekari afgreiðslu.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  


Úrskurðarorð:

 

Hin kærða ákvörðun í máli A er felld úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Ása Ólafsdóttur, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta