Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2011

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 23. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. mars 2011, þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun er hafnað.

Með bréfi, dags. 24. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 11. apríl 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. apríl 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Lögmaður kæranda taldi ekki þörf á að gera frekari athugasemdir.

 

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að ástæður fjárhagsörðugleika hennar megi rekja til ársins 2007 í kjölfar atvinnumissis eiginmanns hennar og veikinda sem hún hefur átt við að stríða. Hafi hún fengið heilablóðfall árið 1994 og krabbamein árið 1998 sem hún glími enn við. Kærandi er 63 ára og öryrki en eiginmaður hennar, sem er 73 ára, hefur verið án fastrar atvinnu frá árinu 2007. Hann hafi þó tekið að sér verkefni sem kranamaður undanfarin ár. Kærandi sótti upphaflega um ásamt eiginmanni sínum en þau drógu umsókn sína til baka og hún sótti um ein.

Kærandi býr ásamt eiginmanni sínum í fasteign þeirra að B-götu nr. 9 í sveitarfélaginu C. Í gögnum málsins kemur fram að þau hafi í gegnum tíðina keypt eignir og selt aftur. Árið 2006 keyptu þau lóð að D-götu nr. 1 til þess að byggja á lóðinni og selja aftur en vegna hrunsins hafi það ekki gengið eftir og eignin verið seld á nauðungarsölu og söluandvirðið gengið upp í lán sem þau tóku til að fjármagna kaupin hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Hafi lánið upphaflega verið 5.850.000 krónur en eftirstöðvar þess séu nú 1.415.261 króna.

Heildarskuldir kæranda nema samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 60.339.826 krónum og eru helstu skuldbindingar hennar vegna fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði sem samtals standa í 34.780.542 krónum auk þriggja lána hjá Arion banka, samtals 5.030.629 krónur, og láns hjá Sparisjóði Vestmannaeyja sem nú stendur í 7.093.912 krónum sem öll hafi verið tekin vegna kaupa og framkvæmda á fasteign hennar að B-götu nr. 9. Aðrar skuldir eru framangreind skuld vegna kaupa á D-götu nr. 1, skuld hjá Húsasmiðjunni að fjárhæð 4.575.752 krónur, SP fjármögnun vegna bílasamnings að fjárhæð 1.058.277 krónur en kærandi hefur mótmælt henni sem of hárri. Þá eru fjórar skuldir við Tryggingamiðstöðina samtals að fjárhæð 1.717.259 krónur, skuld við fasteignasöluna Bakka að fjárhæð 284.307 krónur og krafa frá ÁR flutningum upp á 3.393.209 krónur en kærandi hefur mótmælt þessari kröfu og segist vera búin að greiða hana að fullu. Aðrar skuldir eru óverulegar.

Heildarskuldir maka kæranda eru 44.303.842 krónur.

Tekjur kæranda og maka hennar hafa verið þannig undanfarin ár samkvæmt skattframtölum að árið 2006 voru meðaltekjur hennar eftir skatta og gjöld 91.960 krónur á mánuði en maka hennar 241.425 krónur. Árið 2007 voru tekjur hennar 112.518 krónur á mánuði en maka hennar 171.368 krónur, árið 2008 voru tekjur hennar 138.029 krónur á mánuði en maka hennar 126.282 krónur. Árið 2009 voru mánaðarlegar tekjur hennar 154.546 krónur en maka hennar 198.104 krónur.

Eignir þeirra nema 33.897.140 krónum.

Var kæranda synjað um heimild til þess að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 10. mars 2011.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að rökstuðningur umboðsmanns fyrir ákvörðun sinni sé byggður á afar veikum grunni, annars vegar að ein krafa hafi verið fallin í vanskil í apríl 2006 og hins vegar að tekjur kæranda og maka hennar í apríl 2006 hafi ekki staðið undir greiðslubyrði skuldbindinga þeirra og framfærslukostnaði enda hafi þau verið með neikvæða greiðslugetu.

Varðandi kröfuna sem féll í vanskil vill kærandi benda á að sú krafa er umdeild, um sé að ræða kröfu vegna vinnu við gröft á leiðinni að D-götu nr. 1 en henni hefur verið mótmælt sem alltof hárri.

Líta skal til þess að kaupin á D-götu nr. 1 voru gerð með það í huga að byggja á lóðinni og selja eignina með hagnaði sem yrði notaður til þess að létta á skuldabyrði hjónanna en það hafi ekki gengið eftir.

Varðandi tekjur þeirra hjóna beri að líta til þess að tekjur maka kæranda hafi í gegnum tíðina verið mjög breytilegar en hann hafi oft byggt og selt fasteignir og hagnast vel á því. Það hafi einmitt verið tilgangur kaupanna á D-götu nr. 1 og því sé ekki hægt að fallast á með umboðsmanni skuldara sem telur að með því hafi kærandi tekist á hendur fjárhagslega áhættu sem var ekki samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma.

Kærandi vill benda á að verði ekki fallist á kröfur hennar bíði hennar og manns hennar ekkert annað en að sækjast eftir vist á öldrunarheimili sem sé mun dýrara fyrir samfélagið eða að gera þeim kleift að vinna í sínum málum.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara byggir niðurstöðu sína á að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar þar sem kærandi hafi með háttsemi sinni tekist á hendur fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað og stofnað til skuldbindinga þegar hún var greinilega ógjaldfær, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.).

Af gögnum málsins megi sjá að kærandi hafi stofnað til talsverðra skuldbindinga allt frá árinu 2005 og hafi orði frekari aukning á skuldbindingum hennar þrátt fyrir að hún hafi verið sjúklingur um hríð, tekjulág og maki hennar með stopular tekjur.

Í gögnum málsins komi fram að í apríl 2006 hafi kærandi fest kaup á fasteign að D-götu nr. 1 og var kaupverðið 6.500.000 krónur. Kaupin voru fjármögnuð með útgáfu veðskuldabréfs hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum og var mánaðarleg greiðslubyrði þess 117.912 krónur. Fyrir áttu kærandi og maki hennar fasteignina að B-götu nr. 9 og ráku tvær bifreiðar. Samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara miðað við vísitölu neysluverðs í apríl 2006 var mánaðarleg framfærsla kæranda og maka hennar 124.448 krónur á mánuði og greiðslubyrði samnings og veðkrafna þeirra var áður en til kaupana kom orðin 268.391 króna á mánuði. Samanlagðar meðaltekjur kæranda og maka hennar sama ár voru 333.385 krónur á mánuði eftir skatta og gjöld og var því greiðslugeta þeirra neikvæð um 59.454 krónur á mánuði þegar kærandi tókst á hendur frekari skuldbindingar eins og framan greinir. Var greiðslugeta þeirra því orðin neikvæð um 177.366 krónur á mánuði. Þá gefa skattframtöl til kynna að eiginfjárstaða umsækjanda var ekki sterk á þessum tíma.

Var það því mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til þess að leita greiðsluaðlögunar.

 

IV.

Niðurstaða

Synjun umboðsmanns byggir á því að óhæfilegt hafi verið að veita kæranda greiðsluaðlögun í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. því hún hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og með því tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar.

Í rökstuðningi umboðsmanns er einkum horft til ráðstafana sem kærandi greip til árið 2006 en í apríl það ár festi hún kaup á lóð á D-götu nr. 1 í sveitarfélaginu C fyrir 6.500.000 krónur og tók til þess veðskuldabréf hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum að fjárhæð 5.850.000 krónur. Áætluð mánaðarleg afborgun af þessu láni var tæplega 118.000 krónur. Lóðin var seld á nauðungaruppboði þann 22. október 2010 og gekk söluverðið til greiðslu ofangreinds veðskuldabréfs. Eftirstöðvar skuldabréfsins samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns frá 25. febrúar sl. eru 1.415.261 króna.

Af gögnum málsins er ljóst að tekjur kæranda hafa verið lágar um árabil. Hún hefur lengi átt við veikindi að stríða og um árabil ekki haft aðrar tekjur en örorkubætur og lífeyrissjóðsgreiðslur. Tekjur hennar frá árinu 2006 hafa verið afar lágar en hafa þó heldur farið hækkandi og eru nú um 176.000 krónur á mánuði. Tekjur maka hennar hafa lækkað á sama tímabili og voru að meðaltali 352.650 krónur árið 2009. Núverandi tekjur hans eru tæplega 174.000 krónur. Í öllum tilvikum er átt við útborguð laun og aðrar greiðslur að frádregnum sköttum og gjöldum.

Erfiða fjárhagsstöðu kæranda má rekja til lána og annarra skuldbindinga sem stofnað var til á árunum 2005 til 2008. Á þeim tíma var kærandi að eigin sögn þegar orðin heilsulítil og tekjumöguleikar hennar því skertir. Á umræddum tíma var ekki raunhæft að gera ráð fyrir að maki hennar héldi óbreyttum launum eða yki við þau í ljósi þess að hann var kominn á eftirlaunaaldur. Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að hún telji að rekja megi fjárhagserfiðleika sína til lækkandi tekna maka á árunum eftir 2007. Það er rétt að tekjur hans lækkuðu umtalsvert þegar hann hætti störfum 2007 við 70 ára aldur. Á hinn bóginn hækkuðu tekjur hennar nokkuð á sama tíma þannig að sameiginlegar tekjur þeirra drógust minna saman en ella. Þótt viðurkenna megi að erfitt sé að ná endum saman með þær tekjur sem kærandi og maki hennar hafa haft til ráðstöfunar á undanförnum árum, verður ekki fallist á að skuldavanda þeirra nú sé að meginstefnu rekja til lækkandi tekna. Lántökur tengdar fasteigna- og bifreiðakaupum eru þar veigamesti þátturinn auk mikilla vanskila opinberra gjalda.

Samanlagðar umsamdar afborganir af lánum sem kærandi tók áður en hún réðist í kaup á D-götu nr. 1 voru hærri en svo að hún hafi getað staðið undir þeim með þeim tekjum sem hún þá hafði eða gat vænst að hafa lánstímanum. Jafnframt er ljóst af upplýsingum um fjárhagsstöðu maka hennar að hann var ekki í aðstöðu til að greiða af þessum lánum. Heildarskuldir maka kæranda eru 44.303.842 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 10. mars sl. en elstu vanskilaskuldir hans eru frá árinu 2001. Vangreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld nema tæplega 8,2 milljónum króna og vanskil annarra opinberra gjalda eru verulegur hluti heildarkrafna á hendur honum. Þess ber að geta að hjón bera sameiginlega ábyrgð á greiðslu tekjuskatts og getur kærandi því mögulega borið ábyrgð á hluta þessara skulda.

Sé litið til ráðstafana kæranda í heild má fallast á að hún hafi tekist á hendur skuldbindingar sem litlar eða engar líkur eru á hún hefði getað staðið undir og jafnframt að hún hafi tekið lán á þeim tíma sem fyrirséð var að hún gæti ekki staðið í skilum með miðað við umsamdar afborganir og að í því hafi falist talsverð fjárhagleg áhætta. Þegar metið er hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar geta þessi atriði stutt þá niðurstöðu að synja beri umsókn hennar. Það er hins vegar álit kærunefndar að líta þurfi heildstætt til atvika og aðstæðna kæranda, þar á meðal til atriða sem lúta að félagslegri stöðu kæranda og fjölskyldu hennar og að öðru leyti til þeirra afleiðinga sem synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefði í för með sér, þegar metið er hvort óhæfilegt sé að synja um slíka heimild.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana og eru svo talin upp sjónarmið sem taka þurfi sérstakt tillit til í því sambandi. Ákvæði þetta felur þannig í sér heimild en ekki skyldu til synjunar á grundvelli mats á því hvort óhæfilegt þyki að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar. Þau sjónarmið sem styðjast má við eru ekki tæmandi talin í ákvæðinu þótt mikilvæg viðmið séu talin upp í a–g-liðum. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laganna er lýst þeim sjónarmiðum og markmiðum sem liggja að baki lagasetningunni. Þar er meðal annars lýst því markmiði laganna að beina einstaklingum í alvarlegum fjárhagsvanda fremur inn á leið greiðsluaðlögunar heldur en þvingaða leið skuldaskilaréttarins, enda þykir það betur fara saman við hagmundi allra aðila, þ.e. einstaklinga sem í hlut eiga, lánardrottna og samfélagsins alls. Þá kemur fram að með frumvarpinu sé ætlunin að festa í lög sértækar reglur, meðal annars að norskri fyrirmynd, en þar  hafa frá árinu 1992 verið í gildi lög um frjálsa og þvingaða greiðsluaðlögun. Fyrir liggur áratugalöng framkvæmd þar í landi varðandi mat á þeim atriðum sem horfa þarf til við ákvörðun um hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Þess vegna er rétt að líta til þeirra sjónarmiða sem norsk stjórnvöld og eftir atvikum dómstólar hafa litið til þegar metið er hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Það er því álit kærunefndar að í þessu tilviki verði, til viðbótar þeim fjárhagslegu sjónarmiðum sem umboðsmaður skuldara byggir á, að líta til félagslegrar stöðu kæranda, hagsmuna kröfuhafa og atvika í heild sinni við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Í því sambandi er í fyrsta lagi rétt að líta til félagslegrar stöðu kæranda, meðal annars aldurs hennar og maka hennar, heilsufars hennar og möguleika til að sjá sér farborða á efri árum. Kærandi er 63 ára gömul og er öryrki. Maki hennar er 74 ára. Einu tekjur kæranda eru örorkubætur og maki hennar fær ellilífeyri auk tekna fyrir tilfallandi störf. Hjónin hafa enga raunhæfa möguleika til að auka tekjur sínar og miðað við eignastöðu kæranda eru engar líkur á að hún geti greitt nema óverulegan hluta skulda sinna. Hvað kröfuhafa varðar verður ekki séð að hagsmunum kröfuhafa sé betur borgið með því að neita henni um heimild til greiðsluaðlögunar.

Þá er einnig til þess að líta að tilurð krafna á hendur kæranda gefur ekki tilefni til að telja greiðsluaðlögun óhæfilega ráðstöfun, sbr. hins vegar úrskurð kærunefndar í máli 13/2011 þar sem tilurð krafna og eðli þeirra var með þeim hætti að óhæfilegt þótti að veita kærendum þess máls heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í þessu máli eru helstu skuldir kæranda annars vegar lán vegna kaupa á og framkvæmda við íbúð sem kærandi býr í eða tæplega 40 milljónir króna og hins vegar vegna framkvæmda við byggingu á íbúðarhúsnæði sem kærandi og eiginmaður hennar stóðu fyrir í nokkurn tíma. Vega þar þyngst 7.093.912 króna lán hjá Sparisjóði Vestmannaeyja sem er skráð sem útlánareikningur samkvæmt skattframtali, 4.575.752 króna skuld við Húsasmiðjuna og 3.393.209 króna skuld við ÁR flutninga en kærandi hefur mótmælt að sú skuld eigi við rök að styðjast.

Samningsbundin greiðsluaðlögun á grundvelli lge. er úrræði sem ætlað er einstaklingum sem eru eða verða um fyrirsjáanlega framtíð ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna þeirra að öðru leyti. Eins og áður segir er markmið laganna að stuðla að því að einstaklingar í slíkri stöðu fari frekar þessa leið við endurskipulagningu fjármála sinna heldur en hefðbundna leið skuldaskilaréttarins, þ.e með gjaldþrotaskiptum eða nauðasamningum. Þá verður einnig að hafa í huga að úrræði laganna felst í því að leita samninga við kröfuhafa um greiðsluaðlögun en ekki þvinga hana fram í trássi við vilja og hagsmuni kröfuhafa. Það er mat kærunefndar, í ljósi þeirra atvika og aðstæðna sem raktar eru hér að framan, að við endurskipulagningu á fjárhag kæranda sé hagsmunum hennar sjálfrar, kröfuhafa og samfélagsins alls betur borgið með því að heimila henni að leita greiðsluaðlögunar heldur en knýja hana til að fara almenna leið skuldaskilaréttarins. Þessi niðurstaða er einnig í betra samræmi við markmið laganna og þau samfélagslegu sjónarmið sem búa að baki löggjöfinni.

Með vísan til alls þessa er það niðurstaða nefndarinnar að fella beri úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta