Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2011

Fimmtudaginn 9. febrúar 2012

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 30. maí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra Aog B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. maí 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 8. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 27. júní 2011.

Greinargerðin var send kærendum með bréfi, dags. 13. júlí 2011, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust þann 5. ágúst 2011 og voru þær sendar umboðsmanni með bréfi, dags. 10. ágúst sama ár. Í svarbréfi umboðsmanns frá 19. ágúst sl. kom fram að hann teldi ekki ástæðu til að koma að frekari athugasemdum.

I.

Málsatvik

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 20. september 2010. Í umsókn þeirra kemur fram að kærendur séu í hjónabandi, búi í leiguhúsnæði en hafi ekki börn á framfæri sínu. Þá segir að þau reki ástæður fjárhagserfiðleika sinna til tekjulækkunar, veikinda og vankunnáttu í fjármálum. Þá kemur fram í umsókninni að A sé í fullu starfi sem leiðbeinandi á leikskóla en ekkert segir um atvinnu B. Fylgigögn með umsókninni eru sögð vera skattframtöl síðustu fjögurra ára, upplýsingar um tekjur síðustu þriggja mánaða, vottorð um fjölskyldu- og hjúskaparstöðu og samþykki aðila fyrir gagnaöflun. Af minnisblaði umboðsmanns frá 23. mars sl. má ráða að ekki hafi öll fylgigögn í reynd fylgt umsókninni. Þar segir að enn vanti skattframtal B vegna tekna ársins 2009 og A fyrir árið 2006. Þá vantar upplýsingar um launatekjur þeirra umliðna mánuði ef undan eru skildir launaseðlar frá A vegna tveggja mánaða. Í tölvubréfi sent sama dag er óskað eftir afriti launaseðla og veflykli vegna skattframtala.

Í greinargerð með umsókninni kemur fram að skammtímaskuldir kærenda séu allháar og meginástæður þess séu að tekjur annars kæranda, líklega B hafi verið sveiflukenndar í gegnum tíðina en lækkað verulega árið 2008 þegar verkefni hans hafi dregist saman. Greiðslubyrði hafi þá verið orðin þung og ekkert svigrúm til tekjulækkunar. Hann hafi því flutt til Noregs til að afla tekna og freista þess að lækka skuldir. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir og heilsubrestur hafi valdið því að hann flutti aftur heim árið 2010. Á umræddu tímabili hafi skammtímaskuldir safnast upp. Af öðrum gögnum málsins er upplýst að báðir umsækjendur hafi flutt til Noregs, B í október 2008 og A í júní árið eftir og að þau hafi flutt heim í lok mars 2010.

Þá kemur fram í gögnum málsins að kærendur hafi, áður en þau sóttu um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óskað eftir ráðgjöf hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þegar fyrir lá að vanskilaskuldir þeirra næmu rúmlega 28 milljónum króna var það mat ráðgjafa að þýðingarlaust væri að ljúka máli þeirra með ráðgjöf og var þeim í framhaldi af því ráðlagt að leggja fram umsókn um greiðsluaðlögun og veittar leiðbeiningar þar að lútandi.

Heildarskuldir kærenda nú, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns frá 5. apríl sl. nema 40.762.245 krónum. Yfirdráttur á þremur tékkareikningum er samtals að fjárhæð 6.341.156 krónur, þrjú skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð hjá Íslandsbanka, samtals að fjárhæð 8.675.603 krónur, skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að fjárhæð 4.617.282 krónur, bílasamningur hjá Íslandsbanka að fjárhæð 1.266.949 krónur og annar hjá Avant að fjárhæð 4.590.641 króna. Þá eru kærendur með sex kreditkort en samanlögð skuld á þeim er 7.862.230 krónur. Auk þess skulda þau tryggingagjald að fjárhæð 42.529 krónur, staðgreiðslu af reiknuðum launum að fjárhæð 313.875 krónur, virðisaukaskatt að fjárhæð 3.421.643 krónur og þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 878.875 krónur. Smærri ógreiddir reikningar nema 316.794 krónum. Loks er krafa frá SJ Eignarhaldsfélagi að fjárhæð 2.434.668 krónur.

Með tölvubréfi 5. apríl sl. óskar umboðsmaður eftir að frekari upplýsingum frá kærendum. Í bréfinu er rakið í 15 liðum hvaða upplýsinga og gagna er óskað. Er þar meðal annars spurt um ástæður einstakra skuldbindinga samkvæmt skuldayfirliti, ástæður vanskila og hvernig fjármunum var varið. Þá er óskað skýringa á tekjuleysi B á tilteknu tímabili, skýringa á því hvernig þau hafi framfleytt sér og staðið í skilum á tilteknum tímabilum, nánari upplýsinga um flutninga til og frá Íslandi, tekjur kærenda í Noregi, ástæður bifreiðakaupa og ýmis fleiri atriði. Í bréfinu er óskað eftir að umbeðnar upplýsingar verði veittar innan þriggja virkra daga. Þann 13. apríl er þeim sent bréf með sama efni og nú veittur viku frestur til að svara. Í minnisblaði frá 27. júní er sagt frá því að kærendur hafi verið í sambandi við embætti umboðsmanns vegna umbeðinna upplýsinga og í þrígang fengið munnlega frest til að skila inn upplýsingum og gögnum, síðast til 9. maí. Þegar engar upplýsingar höfðu borist viku síðar eða þann 16. maí var tekin ákvörðun um að synja umsókn þeirra um greiðsluaðlögun vegna gagnaskorts. Sú ákvörðun var kynnt kærendum með bréfi, dags. 17. maí sl.

Með kæru sinni til kærunefndar lögðu kærendur fram bréf með svörum við tölvubréfi umboðsmanns frá 5. maí sl. ásamt útfylltri viðbót við umsókn um greiðsluaðlögun sem umboðsmaður hafði einnig óskað eftir. Önnur ný gögn sem kærendur lögðu fram með kæru sinni eru skattframtal B frá Noregi árið 2010, að því er virðist óstaðfest af skattyfirvöldum, óundirritað og ódagsett, og þrjá launaseðla frá C Noregi vegna launa A í nóvember og desember 2009.

 

II.

Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla synjun umboðsmanns á umsókn þeirra og krefjast þess að gögn þau sem fylgja kærunni verði tekin gild. Kærendur hafi lagt fram umbeðin viðbótargögn með kærunni og telja sig því hafa bætt úr gagnaskorti og því beri umboðsmanni að taka umsókn þeirra til greina.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara hafi því verið haldið fram að launaseðlar A hjá C í Noregi fyrir nóvember og desember 2009 séu ekki nægjanleg gögn til þess að byggja á. Ekki verði séð hvernig það geti verið þar sem hún hafi einungis starfað þar í tvo mánuði. Vissulega séu tekjuhorfur B óljósar en hann sé á leið í endurhæfingu á Reykjalundi. Eftir hana verði metið hvort hann geti farið til starfa á ný. Það sé ekkert sem kærendur geti gert til þess að bæta úr þeirri óvissu sem meðal annars skapi þá fjárhagslegu örðugleika sem kærendur séu í.

Telja þau helstu ástæður fjárhagsvandræða sinna vera langvarandi veikindi B og verkefnaleysi. Hafi sú staða valdið því að tekjufall hafi oft orðið á síðastliðnum árum og skuldir safnast upp vegna framfærslu þegar tekjur voru engar. A hafi einnig verið atvinnulaus um tíma og því ekki haft tekjur. Hafi það valdið meiri skuldasöfnun.

Staða þeirra nú sé þannig að B sé að klára sinn sjúkrastyrk en eftir það verði starfshæfni hans metin. A sé í vinnu og hafi fastar tekjur. Ráðstöfunartekjur þeirra hafi þó minnkað með aukinni skattbyrði og því óski kærendur eftir aðstoð við niðurgreiðslu á skuldum sínum.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að greinargerð sú sem kærendur lögðu fram með umsókn sinni hafi verið fremur rýr, óundirrituð og ódagsett. Þar komi fram að fjármál kærenda hafi verið sveiflukennd í gegnum tíðina og tekjur lækkað verulega árið 2008. Greiðslubyrði hafi þá þegar verið orðin þung og ekkert svigrúm til tekjulækkunar. Kærendur hafi því flutt til Noregs í því skyni að reyna að lækka skuldir. Heilsubrestur hafi orðið til þess að þau fluttu aftur heim árið 2010 og skammtímaskuldir hafi safnast upp. Hvergi sé vikið í greinargerð að tilurð skulda né frekari útskýringar á kröfum. Í málinu liggi fyrir umsókn kærenda um stöðumat hjá Íslandsbanka frá 3. maí 2010 þar sem komi fram samsvarandi lýsing á skuldavanda kærenda. Þá hafi B lagt fram yfirlýsingu, dags. 30. maí 2010 um óvinnufærni hans á tímabilinu frá 3. mars til 7. júlí 2010 án þess að læknisvottorð hafi verið lagt fram því til staðfestingar. Að öðru leyti séu takmarkaðar upplýsingar að finna í gögnum umsækjenda, aðrar en þær sem umboðsmaður aflaði við vinnslu málsins.

Í umsókn um stöðumat Íslandsbanka komi fram að sameiginlegar tekjur þeirra í Noregi hafi verið 19.000 norskar krónur á mánuði sem nemi um 410.400 íslenskum krónum. Þar af hafi þau greitt 13.000 norskar krónur í húsaleigu, rafmagn, hita og hússjóð eða um 280.800 íslenskar krónur, miðað við gengi í maí 2010. Er þessi fjárhæð fyrir utan daglega framfærslu sem kærendur hafi talið vera 153.000 íslenskar krónur á mánuði. Eru þá ótaldar afborganir af samningskröfum kærenda. Engin gögn liggi fyrir til að styðja þessar framfærslutölur, hvorki launaseðlar, leigusamningur né afrit greiðsluseðla vegna húsnæðiskostnaðar. Samkvæmt þessum upplýsingum hefur greiðslugeta kærenda verið neikvæð um 23.400 krónur á mánuði þann tíma sem þau bjuggu í Noregi, að teknu tilliti til framfærslu og húsnæðiskostnaðar og án tillits til greiðslu annarra skulda eða útgjalda. Kærendur hafi ekki lagt fram gögn um breytingar á framfærslu og húnsæðiskostnaði eftir að þau fluttu til Íslands.

Ljóst sé af gögnum málsins að kærendur hafi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga, að mestu árin 2007 og 2008. Heildarskuldir þeirra nemi um 40.762.245 krónum. Kærendur hafa hvorki gefið nánari skýringar né lagt fram gögn sem varpað geta ljósi á fjárhag þeirra á umræddum tíma, svo og önnur gögn, þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað.

Þegar gögnin séu metin í heild hafi það verið mat umboðsmanns að þau gefi ekki glögga mynd af fjárhagsstöðu kærenda. Á grundvelli þess hafi umboðsmaður tekið ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

Ítrekað hafi verið leitað eftir því við kærendur að þau legðu fram upplýsingar og gögn sem varpað gætu frekara ljósi á fjárhag þeirra og annað sem skipti máli við mat á umsókn. Þá hafi þeim verið gefinn ríflegur frestur til að leggja fram gögn og gefa upplýsingar án þess að þau hafi orðið við því.

Þá rekur umboðsmaður samskipti milli embættisins og kærenda sem eru að mestu í samræmi við það sem rakið er í atvikalýsingu. Er þar um að ræða tölvupóstsamskipti frá því í lok ágúst með leiðbeiningum um hvernig staðið skuli að umsókn um greiðsluaðlögun, tölvupóst þann 17. september þar sem þeim er sagt frá því að þau geti fengið endurgjaldslausa aðstoð við að útbúa greinargerð með umsókninni, tölvupósta 15. og aftur 23. mars þar sem óskað er eftir veflykli vegna skattframtala og fleira. Þá rekur umboðsmaður einnig samskipti þeirra vegna bréfsins sem upphaflega var sent þeim með tölvupósti 5. apríl og tekur fram að ítrekunin sem send var 13. apríl hafi verið send með ábyrgðarpósti.

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að hann telji þau viðbótargögn sem kærendur lögðu fram með kærunni til nefndarinnar ekki varpa skýrara ljósi á mál kærenda. Telur hann launaseðla A frá Noregi ekki hafa neina þýðingu í málinu enda skorti enn verulega á að kærendur skýri með fullnægjandi hætti fjölmörg atriði er varða fjárhag þeirra svo og aðstæður þeirra nú. Þá er og til þess að líta að mati umboðsmanns að í viðbótargögnum komi fram að B sé að klára sjúkrastyrk sinn allt fram til loka september 2011. Eftir það verði starfsorka hans metin að nýju, hvort sem það leiði til mats á örorku eða að hann geti fram að vinna á ný. Verði hann metinn til örorku megi búast við að tekjur hans lækki en annars fari hann að starfa sem verktaki með laun sem geti numið um 350.000 krónum á mánuði. Verði að telja að þróun fjárhags B á næstu misserum sé mjög óljós samkvæmt þessari yfirlýsingu hans.

Umboðsmaður leggur áherslu á að í tilvikum sem þessum verði að gera þá kröfu til kærenda að þau afli þeirra gagna sem nauðsynleg séu til að flýta vinnslu málsins enda umsókn lögð inn að þeirra frumkvæði. Enn fremur sé kveðið á um í 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. lge. að skuldari skuli jafnan sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. þá er og til þess að líta að kærendur hafa notið greiðsluskjóls skv. 11. gr. lge. frá 27 október 2010 en umboðsmaður skuldara telur ekki rétt að það vari lengur en nauðsyn krefur.

Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að kærendur hafi ekki hlutast til um að veita umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir að þeim hafi ítrekað verið gefinn ríflegur frestur til þess og jafnvel umfram það almenna verklag sem viðgengst hjá embættinu. Því hafi umboðsmanni skuldara borið lagaleg skylda til þess að synja umsókninni með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns byggir á því að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn og væntanlega þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar en umboðsmanni er skylt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef svona háttar til skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með umsókn, dags. 20. september 2010, sem móttekin var hjá umboðsmanni skuldara 28. sama mánaðar. Í 1. mgr.  4. gr. lge. eru ítarleg ákvæði í 11 liðum sem lúta að því hvað skuli koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun. Umsókn kærenda og greinargerð sem fylgdi henni er fjarri því að fela í sér þær upplýsingar sem áskildar eru í framangreindu lagaákvæði. Í umsókninni er hvorki að finna upplýsingar um eignir kærenda né sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um samsetningu og stöðu þeirra. Þá er heldur ekki að finna í umsókninni mat á framfærsluþörf kærenda og engar upplýsingar um tekjur og afar takmakaðar upplýsingar í greinargerð kærenda með umsókninni. Að hluta kunna þó upplýsingar að hafa komið fram í fylgigögnum með umsókninni en í lið 11 í umsókninni segir að með henni fylgi skattframtöl kærenda síðastliðin fjögur ár, upplýsingar um tekjur síðastliðinna þriggja mánaða, vottorð um hjúskaparstöðu og síðustu greiðsluseðlar allra lána og skuldbindinga. Af bréfaskiptum milli umboðsmanns og kærenda má þó ráða að í reynd hafi þessi gögn ekki öll verið lögð fram með umsókninni. Þannig er í bréfi umboðsmanns frá 13. apríl sl. ítrekuð beiðni um framlagningu launaseðla, mat á framfærsluþörf, staðfestingu á hjúskaparstöðu og margvíslegar aðrar upplýsingar ásamt skýringum á einstökum fjárhagsráðstöfunum og högum þeirra að öðru leyti.

Réttaráhrif þess að umboðsmaður móttekur umsókn um greiðsluaðlögun voru á þeim tíma sem kærendur lögðu fram umsókn meðal annars þau að frá þeim tíma hófst tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. lge., sbr. 1. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laganna. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga nr. 128/2010, þar sem framangreindu bráðabirgðaákvæði var bætt við lögin, segir frá því að rætt hafi verið í nefndinni hvenær skuldari skuli teljast hafa skilað inn umsókn. Um þetta segir í álitinu að nefndin telji ljóst að „það sé þegar umboðsmaður skuldara getur tekið við henni til vinnslu. Þannig þurfi m.a. að fylgja umsókninni ýmis frumgögn. Telur nefndin mikilvægt að umboðsmaður skuldara setji verklagsreglur um það hvaða gögn og upplýsingar þurfi að fylgja til að hægt sé að taka við umsókn um greiðsluaðlögun en jafnframt að slíkar reglur séu ekki íþyngjandi fyrir skuldara þannig að úr verði tímafrekt og flókið ferli sem aftri því að skuldari fái umsókn sína móttekna og þar með tímabundna frestun greiðslna. Nefndin ræddi verklag við móttöku umsókna hjá umboðsmanni skuldara og fékk þær upplýsingar að umsókn væri móttekin þegar frumgögnum hefði verið skilað, svo sem upplýsingum um tekjur og skuldir og aðgangsheimild að vef ríkisskattstjóra sem og leyfi til handa umboðsmanni til að afla frekari nauðsynlegra gagna. Öflun slíkra frumgagna væri ekki tímafrek og kæmi skuldari með nauðsynleg gögn með sér væri mögulegt að taka á móti umsókn hans samdægurs.“ (sjá þskj. 69, 55. mál, 139. lgþ.). 

Í ljósi þess hve ófullnægjandi umsókn kærenda var og með hliðsjón af framangreindum ummælum í nefndaráliti er álitamál hvort umboðsmanni hefði ekki verið rétt í öndverðu að hafna móttöku umsóknarinnar. Lítur út fyrir að ekki hafi verið fylgt því verklagi embættisins sem lýst er í nefndarálitinu. Umboðsmaður  býður hins vegar kærendum aðstoð við gerð umsóknar og greinargerðar og hefst sjálfur handa við gagnaöflun eftir að umsóknin hefur formlega verið móttekin. Svo sem rakið er III. lið gerir umboðsmaður reka að því að afla ýmissa gagna og ítrekar í bréfum og samtölum við kærendur kröfu sína um að þau sjálf leggi fram frekari upplýsingar og gögn. Umboðsmaður gerir kærendum ljóst oftar en einu sinni að leggi þau ekki fram umbeðin gögn innan tiltekins frests, verði umsókn þeirra hafnað. Þrátt fyrir þetta leggja kærendur ekki fram frekari gögn eða upplýsingar. Umboðsmanni skuldara bar því að hafna umsókn kærenda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Með kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála fylgdu gögn sem líta má á sem svar kærenda við ítrekun umboðsmanns um framlagningu frekari upplýsinga og gagna. Í því koma meðal annars fram nokkrar skýringar á fjárhagsvanda kærenda, einstökum lántökum og bifreiðakaupum og því hvernig þau fóru að því að framfleyta sér á tekjulausum tímabilum. Hins vegar eru þessar skýringar stuttar og víða vantar umbeðin gögn þeim til staðfestingar. Þá er í svari kærenda á þremur stöðum vísað til meðfylgjandi skjala sem þó er ekki að finna meðal gagna. Fram kemur í greinargerð umboðsmanns til nefndarinnar að hann telur, þrátt fyrir framkomin gögn, enn fjölmörg atriði er varða fjárhag kærenda vera óljós. Á það sjónarmið fellst kærunefndin og telur að kærendum hafi verið veittar nægar leiðbeiningar í því efni á fyrri stigum máls. Meðal mikilvægra atriða sem enn skortir að upplýsa með fullnægjandi og staðreynanlegum gögnum er þróun tekna B á fjögurra ára tímabili áður en umsókn um greiðsluaðlögun var lögð fram. Því er ekki hægt að ganga úr skugga um að skyndilegt tekjufall hafi orðið sem kærendur telja aðra af meginástæðum greiðsluvanda síns. Þá eru heldur engar haldbærar skýringar að finna á því hvers vegna kærendur stofnuðu til þeirra gríðarlegu skulda sem þau nú standa uppi með. Hvorki fjárfestingar, þung framfærslubyrði, alvarlega fjárhagsleg áföll né nokkuð annað er nefnt sem varpað geti ljósi á tilefni þessarar skuldasöfnunar. Þá liggja heldur ekki fyrir fullnægjandi fjárhagslegar upplýsingar um núverandi stöðu þeirra. Það má hins vegar taka undir það með kærendum að ekki er hægt að krefja þau um upplýsingar og gögn sem eyða óvissu um aflahæfi og starfsorku B í framtíðinni að öðru leyti en því sem hægt er að staðreyna með vottorðum um ástand hans nú. Með þessum athugasemdum er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta