Hoppa yfir valmynd

Nr. 334/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 334/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20090022

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU20070033, dags. 3. september 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. júlí 2020 um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 7. september 2020. Þann 14. september 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn þann 23. september sl. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa en þeirri beiðni var synjað með úrskurði kærunefndar dags. 7. október 2020.

Af endurupptökubeiðni kæranda má ráða að krafan byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli þess að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telji kærandi að nýjar upplýsingar liggi fyrir í málinu sem skipt geti máli.

Kærandi telji að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega vel, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið kannað nægjanlega vel af hvaða ástæðum kærandi hafi flúið heimaríki sitt og af hvaða ástæðum hann telji sig óöruggan í Portúgal. Þá liggi ekki fyrir neinar upplýsingar í málinu um þá aðila sem umsækjandi telji ofsækja sig. Nauðsynlegt sé að kanna nánar einstaklingsbundnar aðstæður hans í Portúgal en ekki einungis almennar aðstæður á sviði löggæslu og stöðu mannréttindamála þar.

Þá hafi kærandi lagt fram gögn sem hann telji skipta máli fyrir ákvörðun í málinu, þ. á m. raddskilaboð úr farsíma kæranda þar sem hann sé varaður við því að vera í Portúgal þar sem tilteknir aðilar leiti að honum auk ljósmynda af áverkum og tjóni á ökutæki.

Í ljósi andmælaréttar stjórnsýslulaga þá óskar kærandi eftir því að vera kallaðu í viðtal til að útskýra hin nýju sönnunargögn í málinu og til að gera frekari grein fyrir máli sínu.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 3. september 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram ýmis gögn. Þar á meðal sömu ljósmyndir og þegar lágu fyrir í málinu af áverkum og tjóni á bifreið auk nýrra ljósmynda af tjóni á sömu bifreið. Þá lagði kærandi fram nýtt gagn sem að sögn kæranda eru raddskilaboð úr farsíma hans þar sem fram komi að hann sé varaður við því að vera í Portúgal þar sem að aðilar séu að leita að honum. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 3. september sl., ásamt áðurgreindum fylgigögnum sem liggja fyrir í málinu. Telur kærunefnd að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir við uppkvaðningu úrskurðar í máli kæranda. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lá þegar fyrir að kærandi óttaðist tiltekna aðila í heimaríki og í Portúgal og var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og málsmeðferð í Portúgal í framangreindum úrskurði kærunefndar í máli kæranda. Þar var m.a. tekið fram að gögn málsins bæru með sér að telji kærandi sér mismunað eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti geti hann leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum í Portúgal.

Kærandi byggir einnig á því að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en kærandi telji nauðsynlegt að kanna nánar einstaklingsbundnar aðstæður hans í Portúgal. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er heildarmat lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki. Vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og málsmeðferð í Portúgal í framangreindum úrskurði nefndarinnar frá 3. september sl.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að í greinargerð kæranda með beiðni um endurupptöku á máli hans sé byggt á sömu málsatvikum og málsástæðum og hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu hjá kærunefnd, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna.

Þá óskaði kærandi eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um hin nýju framlögðu gögn. Að virtum öllum gögnum málsins og með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 3. september 2020, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.  

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta