Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 555/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 555/2015

Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 608/2015; kæra A, dags. 14. ágúst 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sinna þann 30. ágúst 2014. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 0 kr. og var hún birt kæranda 11. nóvember 2014. Endanleg ákvörðun var birt kæranda þann 23. desember 2014.

Ríkisskattstjóri tilkynnti kæranda þann 17. mars 2015 að frestur hans til samþykkja leiðréttingu rynni út 23. mars 2015. Kærandi sendi ríkisskattstjóra tvær athugasemdir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, þann 23. mars 2015. Annars vegar gerði kærandi athugasemd við frádrátt vegna 110% lækkunar á láni og hins vegar frádrátt vegna sérstakra vaxtabóta. Ríkisskattstjóri svaraði athugasemd kæranda hvað varðar frádrátt vegna 110% leiðar þann 13. apríl 2015. Kærandi ítrekaði athugasemd sína 18. apríl 2015 og veitti viðbótarrökstuðning þann 2. maí 2015. Einnig sendi hann afrit af dómsátt, dags. 26. nóvember 2010. Þeirri athugasemd svaraði ríkisskattstjóri 13. ágúst 2015 með vísan til fyrra svars embættisins, dags. 13. apríl 2015.

Með kæru, dags. 14. ágúst 2015, hefur kærandi kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga. nr. 35/2014. Kærandi krefst þess aðallega að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu lána vegna 110% niðurfærslu og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði felldur úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að eingöngu frádráttur vegna 110% niðurfærslu verði felldur úr gildi. Kærandi fjallar um málsatvik í kæru sinni. Í kæru kemur fram að kærandi byggi aðalkröfu sína á því að á árinu 2010 hafi hann skilið við fyrrverandi eiginkonu sína. Kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi lokið fjárskiptum sínum með réttarsátt þann 26. nóvember 2010 og skilnaður að borði og sæng hafi síðan verði staðfestur með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 30. nóvember 2010. Meðal efnis dómsáttarinnar hafi verið að fyrrverandi eiginkona kæranda tæki yfir sameiginlega íbúð þeirra ásamt áhvílandi lánum, þ.e. þeim lánum sem leiðrétting náði til. Frá og með því hafi kærandi og fyrrverandi eiginkona hans ekki verið samsköttuð og kærandi flutt lögheimili sitt. Þegar gengið hafi verið frá umræddri réttarsátt um fjárskipti hafi verið miðað við þáverandi verðmæti húsnæðis og stöðu áhvílandi lána. Kærandi telur að þannig sé ljóst að 110% niðurfærsla sem gerð hafi verið af hálfu lánveitanda 10 mánuðum seinna hafi ekki fallið kæranda í skaut, heldur hafi sú niðurfærsla þvert á móti gengið óskipt til fyrrverandi eiginkonu kæranda. Kærandi telur því að það sé tilefnislaust að sú niðurfærsla komi til frádráttar við útreikning leiðréttingar á lánum hans og það sé í beinu ósamræmi við 8. gr. laga nr. 35/2014.     

Kærandi mótmælir einnig frádrætti vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Byggjast þau mótmæli á því að slík íþyngjandi röskun hagsmuna kæranda sé ólögmæt. Kærandi vísar til sjónarmiða um lögbirtingu og bann við afturvirkni. Hin sérstaka vaxtaniðurgreiðsla hafi átt sér stoð í ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010, og hafi verið ákvörðuð við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012. Þannig hafi verið um skattalega ráðstöfun að ræða sem sé annars eðlis en bein eftirgjöf eða niðurfærsla kröfu. Kærandi telur að samkvæmt 77. gr. stjórnarskrár, sbr. 15. gr. laga nr. 97/1995, skuli skattamálum skipað með lögum, og enginn skattur yrði lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik hafi orðið sem ráða skattskyldu. Kærandi telur að með því að draga þá skattalegu ívilnun sem hann hafi átt rétt á í formi vaxtaniðurgreiðslu árin 2011 og 2012 frá skattalegri ráðstöfun í formi leiðréttingar fasteignaveðláns nú árið 2015, sé verið að taka hina fyrri ívilnun til baka. Þannig sé í raun um að ræða endurákvörðun á skattskyldu áranna 2011 og 2012 með íþyngjandi og afturvirkum hætti. Kærandi telur að ákvæði 8. gr. laga nr. 35/2014, sbr. f-lið sömu lagagreinar, sem kveða á um frádrátt vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, stríði af þessum sökum gegn stjórnarskrárvörðum grundvallarreglum og séu þar af leiðandi að vettugi virðandi. Jafnframt sé þar af leiðandi ólögmætt að leggja þær reglur til grundvallar sem frádráttarlið við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærandi krefst þess því að sá hluti hinnar kærðu ákvörðunar er lýtur að frádrætti vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði endurskoðaður og felldur úr gildi.

Þá gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð ríkisskattstjóra. Í fyrsta lagi þykir kæranda sem ríkisskattstjóri hafi í raun ekki gert annað en að áframsenda athugasemdir sínar til lánveitanda og óska eftir afstöðu hans til erindisins. Kærandi getur ekki séð að embætti ríkisskattstjóra hafi tekið neina sjálfstæða afstöðu til athugasemdanna heldur teflt fram afstöðu lánveitanda sem einhverskonar niðurstöðu af sinni hálfu. Kærandi telur að ekki sé heimild fyrir slíkri afgreiðslu, hvorki í 10. gr. eða öðrum ákvæðum laga nr. 35/2014, né almennum reglum stjórnsýsluréttar, heldur hefði embætti ríkisskattstjóra átt að framkvæma sína eigin athugun á málinu og gera síðan grein fyrir niðurstöðu sinni með rökstuddum hætti sem hafi ekki verið gert. Í öðru lagi telur kærandi það gagnrýnivert hversu langan tíma það hafi tekið embætti ríkisskattstjóra að komast að endanlegri niðurstöðu vegna athugasemdar hans, eða meira en fjóra mánuði frá því að hún var gerð. Í þriðja lagi tekur kærandi fram að þegar endanleg niðurstaða ríkisskattstjóra hafi legið fyrir þann 13. ágúst 2015 hafi kæranda verið send skilaboð þess efnis að frestur til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar myndi renna út aðeins einum degi seinna, þann 14. ágúst 2015, og að sama dag myndi renna út frestur til að gera athugasemd við útreikninginn til ríkisskattstjóra eða kæra hann til úrskurðarnefndar. Svo afskaplega knappur frestur sé í beinu ósamræmi við 2. og 3. mgr. 10. gr., sem og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, þar sem kæmi skýrt fram að þeir frestir skyldu vera þrír mánuðir frá dagsetningu eða birtingu ákvörðunar. Í tilviki kæranda hafi endanleg niðurstaða ekki verið birt fyrr en 13. ágúst 2015, og ættu umræddir frestir samkvæmt því með réttu að ná til 13. nóvember 2015. Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess í úrskurði sínum hvort halda skuli áfram niðurtalningu á þeim fresti sem hófst við birtingu upphaflegrar niðurstöðu líkt og ríkisskattstjóri virðist telja við hæfi, eða hvort nýr frestur skuli hefjast við birtingu nýrrar ákvörðunar eða niðurstöðu eins og kærandi telur vera rétt. Meðfylgjandi kæru er réttarsátt, dags. 26. nóvember 2010 og dómur héraðsdóms í máli kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans, dags. 30. nóvember 2010. Ásamt gögnum og tilkynningu um 110% niðurfærslu, dags. 28. september 2011.

Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar banka X þann 29. september 2015, með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Farið var fram á að banki X upplýsti úrskurðarnefndina um hvort kærandi hafi notið 110% niðurfellingar og sendi gögn sem staðfestu það. Sérstaklega var óskað eftir umsögn um hvers vegna 50% niðurfærslunnar væri skráð hjá kæranda eftir skilnað hans og réttarsátt. Umsögn banka X barst 5. október 2015.  Þar kom fram að í maí 2011 hafi banki X tilkynnt opinberlega að lán með veði í íbúðarhúsnæði yrðu færð niður í 110% veðsetningarhlutfall miðað við fasteignamat í ákveðnum tilvikum, án þess að sótt væri um það. Lán kæranda nr. 1  og 2 hafi fallið undir úrræðið. Meðfylgjandi umsögninni var afrit af bréfi sem bankinn sagði hafa verið sent kæranda 28. september 2011 þar sem lækkun á láni var tilkynnt og kæranda boðið að gera athugasemd við ráðstöfunina. Meðfylgjandi var einnig yfirlit sem sýndi lækkun á lánum nr. 1 um 4.942.448 kr. og nr. 2 um 2.346.134 kr. Lækkun á viðmiðunardegi var sögð hafa numið samtals kr. 7.288.583 kr. og það væri því niðurstaða bankans að kærandi hafi notið 110% niðurfærslu að þeirri fjárhæð. Niðurfærslunni hafi verið skipt hlutfallslega jafnt milli greiðenda af lánum. Sérstaklega var tekið fram í umsögn banka X að samkvæmt veðskuldabréfum kæmi skýrt fram að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi gefið út bréfin og þau hafi staðfest lántökuna með undirritun sinni. Kærandi hafi, ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni, verið greiðandi af láni nr. 2 allt til afskriftar samkvæmt 110% leið þann 28. september 2011 og hann væri enn skuldari að láni nr. 1. Bankinn benti á að þegar tveir lántakendur væru að lánum væri greiðslumat við lánveitingu byggt á tekjum beggja. Ef annar lántakinn vildi losna undan skyldu sinni sem skuldari gerðist það ekki af sjálfu sér, þrátt fyrir hjónaskilnað. Óska þyrfti sérstaklega eftir því við bankann að hann leysti viðkomandi undan skyldu sinni sem skuldari og sá sem eftir sæti þyrfti að fara í greiðslumat svo unnt væri að meta hvort tekjur hans dygðu til að greiða einn af láni. Í umsögninni kom fram að ekki væri að sjá að kærandi hafi óskað eftir því við banka X að losna undan greiðsluskyldu sinni, enda væri skuldari láns ekki leystur undan skyldu sinni meðan lán væru vanskilum eins og ætti við um fyrrgreind lán.

Umsögn banka X ásamt fylgiskjölum var send kæranda 5. október 2015 og honum gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði sem hann teldi ástæðu til innan 7 daga. Tekið var fram að að þeim tíma liðnum mætti kærandi búast við að úrskurðarnefndin tæki mál hennar til meðferðar eins og það lægi fyrir. Kærandi svaraði erindinu 12. október 2015. Kærandi mótmælir þeim sjónarmiðum sem koma fram í umsögn banka X, um að hjónaskilnaður losi kæranda ekki undan þeim skuldbindingum sem hér um ræðir. Kærandi bendir á að fyrir þeim ráðahag samkvæmt tilvísaðri réttarsátt, liggi dómur héraðsdóms þeim til staðfestingar. Kærandi bendir á að dómur héraðsdóms sé bindandi fyrir aðila málsins frá og með þeim degi sem dómurinn hafi verið kveðinn upp. Hvorki banki X né ríkisskattstjóri eða eftir atvikum úrskurðarnefndin, hafa heimild til annars en að hlíta þeim dómi. Kærandi greinir frá því að þetta hafi verið meðal þeirra atriða sem hafi legið til grundvallar þeim ágreiningi aðila sem leyst hafi verið úr með umræddum dómi, varðandi fjárskipti hans við fyrrverandi maka hans. Kærandi telur að ef afstaða banka X yrði lögð til grundvallar myndi það setja allar forsendur umrædds hjónaskilnaðar og fjárskipta honum tengdum í uppnám. Kærandi leggur áherslu á að dómur héraðsdóms um þetta efni sé bindandi fyrir alla aðila að því máli sem þar var til úrlausnar, þar á meðal banka X, sem hafi engin afskipti haft af því máli. Á grundvelli meginreglna um tómlæti verði því að hafna öllum andmælum bankans sem koma fram á þessu stigi, tæpum fimm árum eftir að dómur héraðsdóms hafi fallið í málinu. Til að mynda hafi bankinn ekki stefnt sér til meðalgöngu í framangreindu máli né höfðað sjálfstætt mál vegna ágreinings um niðurstöður þess, og hafi með því sýnt verulegt tómlæti gagnvart þeim málsástæðum sem hann tefli nú fram. Kærandi telur að þau sjónarmið verði að skoða í ljósi þess að banki X lætur í máli þessu sem honum sé ekki kunnugt um framangreindan dóm héraðsdóms en að mati kæranda verður að telja það bankanum til vanrækslu, þannig að rétt sé að hann beri hallann af því. Þá mótmælir kærandi því að tekið sé mark á sjónarmiðum bankans í þessu máli, enda sé ríkisskattstjóri réttur aðili að málinu, og kæra beinist að því embætti en ekki banka X.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra var kærandi í hjónabandi og samskattaður með B, á leiðréttingartímabilinu. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands  slitu þau samvistum 9. júní 2010 og skildu að borði og sæng 30. nóvember 2010. Lögskilnaður gekk í gegn 11. október 2011. Samrýmist það málsatvikalýsingu kæranda.

Leiðrétting lána kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er 1.474.802 kr. og hefur kærandi ekki mótmælt fjárhæð hennar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samkvæmt 8. gr. laga nr. 35/2014 dregnar samtals 3.769.646 kr. frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. sömu laga. Þar af eru 3.644.292 kr. vegna 50% lækkunar tveggja lána hjá banka X, samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011 (110% leið). Auk þess dragast frá 125.354 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

Í aðalkröfu krefst kærandi þess að frádráttur frá útreiknaðir leiðréttingu lána vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði felldur úr gildi ásamt frádrætti vegna 110% niðurfærslu lána. Varakrafa felur aftur á móti eingöngu í sér kröfu um að frádráttur vegna 110% niðurfærslu lána verði felldur úr gildi. Rétt þykir því að fjalla fyrst um kröfu kæranda sem snýr að frádrætti vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í f-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. sérstaka vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Ágreiningslaust virðist vera að sérstök vaxtaniðurgreiðsla hafi numið 125.354 kr. Kærandi virðist einkum byggja málatilbúnað sinn á því að um afturvirka áhrif laga sé að ræða. Telja verður að lög nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, hafi veitt kæranda ákveðin réttindi. Þau réttindi skyldu ákvörðuð með hliðsjón af úrræðum sem upp eru talin í lögunum. Með lögum nr. 35/2014 er sérstaklega kveðið á um að sérstök vaxtaniðurgreiðsla dragist frá útreiknaðri leiðréttingu lána, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. laganna. Þar sem óumdeilt er að kærenda naut sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu kemur sú fjárhæð til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. f-lið 8. gr. laga nr. 35/2014.

Kærandi hefur kröfu sinni til stuðnings m.a. vísað til stjórnarskrárinnar. Af því tilefni skal tekið fram að úrskurðarnefndin á ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur kunni að brjóta í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem byggðar eru á slíku. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eiga úrlausn þess hvort lög verði samþýdd stjórnarskránni. Úrskurðarnefndin er stjórnvald og hefur samkvæmt því ekki hliðstætt hlutverk hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli. Um þetta er vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2002 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. maí 2003 í málinu nr. 499/2002 (H 2003:2329).

Hvað varðar kröfu kæranda, um að frádráttur vegna 110% niðurfærslu lána banka X verði felldur úr gildi, verður að athuga, samkvæmt c-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014, að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitanda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni), dags. 15. janúar 2011, óháð því hvort sótt hafi verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda. Í 3. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að frádráttur einstaklings skv. 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar taki mið af hjúskapar- eða heimilisstöðu, sbr. 6. mgr. 7. gr., eins og hún hafi verið við framkvæmd niðurfellingar.

Ágreiningur í málinu snýr ekki að því hvort niðurfærsla lána banka X á grundvelli 110% leiðar hafi komið til framkvæmda sem kemur til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu eða hvort um fasteignaveðlán hafi verið að ræða. Kærandi virðist fyrst og fremst ósáttur við að niðurfærsla á lánum sem fyrrverandi eiginkona hans átti að taka yfir og var framkvæmd á árinu 2011 komi til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána hans. Óumdeilt er að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans voru skilin að borði og sæng þegar niðurfærsla lánanna var framkvæmd. Jafnframt er óumdeilt að fyrrverandi eiginkona kæranda hafi átt að taka yfir lán sem hvíldu á fasteign F. Í lokamálslið 2. gr. fjárskiptasamnings sem fylgdi dómsátt, dags. 26. nóvember 2010, kemur fram að fyrrverandi eiginkona kæranda eigi að leita til banka X vegna yfirtöku lánanna. Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki verið leystur undna skyldu sinni sem skuldari af hálfu kröfuhafa. Kærandi byggir kröfu sína á því að ekki hafi verið þörf á því þar sem gerð hafi verið dómsátt og leyst hafi verið úr ágreiningi um þetta atriði fyrir dómstólum. Það er meginregla í kröfurétti að skuldaraskipti geta ekki orðið að kröfuréttindum án samþykkis kröfuhafa. Hefur reglan það að markmiði að vernda hagsmuni kröfuhafa þannig að staða hans verði ekki verri við það að nýr skuldari komi í stað hins upphaflega án atbeina kröfuhafa. Í 11. gr. skuldabréfanna kemur fram að banka X er heimilt að gjaldfella skuldina við eigendaskipti og því eru skilyrði 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, ekki uppfyllt. Skuldaraskipti hefðu því aðeins verið skuldbindandi fyrir veðhafa að hann samþykkti skuldaraskiptin við hinn nýja eiganda veðsins, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 75/1997. Kærandi hefur engin gögn lagt fram því til stuðnings að hann hafi losnað undan skuldbindingu sinni gagnvart Landsbankanum samkvæmt veðskuldabréfum nr. 1 og 2. Ljóst er af c-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 að niðurfærsla fasteignaveðlána samkvæmt 110% leiðinni skal koma til frádráttar frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 7. gr. laganna. Því hefur ekki verið mótmælt að niðurfærsla lána hafi farið fram eftir 1. janúar 2008 og fjárhæð hennar hefur heldur ekki verið mótmælt. Helmingur af niðurfærslu lána banka X kemur til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. c-lið 8. gr. laga nr. 35/2014.

Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu og lækkunar lána frá banka X er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hann gilda. Ekki hafa af hálfu kæranda verið gerðar athugasemdir við aðra liði útreiknings ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

Rétt þykir með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að benda kæranda á að sá frestur sem hann hefur til að samþykkja og kæra útreikning leiðréttingar og framkvæmd hennar er þrír mánuðir frá birtingardegi ákvörðunar. Sá frestur rofnaði þegar hann gerði athugasemd til ríkisskattstjóra og kærði í beinu framhaldi af svari ríkisskattstjóra til úrskurðarnefndar, sbr. 7. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Fresturinn tekur að líða að nýju frá þeim tíma þegar úrskurður þessi verður kveðinn upp, en ekki er um það að ræða að nýr þriggja mánaða frestur byrji að líða.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kæranda er hafnað.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta