Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 560/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 560/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 446/2015; kæra A, dags. 27. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 23. júní 2014. Útreiknuð leiðrétting lána kæranda var samtals 929.475 kr. Frádráttur vegna niðurfærslna var 10.336.235 kr. Leiðréttingarfjárhæð kærenda var því 0 kr. og var sú fjárhæð endanlega ákvörðuð og birt honum 23. desember 2014. Kærandi gerði athugasemd til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 14. janúar 2015 og var henni svarað 28. janúar 2015.

Með kæru, dags. 27. mars 2015, er kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru er þess krafist að frádráttarliður, vegna niðurfelldra fasteignveðlána sem hvíldu á M götu, verði felldur niður. Umboðsmaður kæranda greinir frá því í kæru að óskað hafi verið eftir upplýsingum frá banka X vegna lánanna er hafi hvílt á M götu. Samkvæmt þeim upplýsingum hafi verið um að ræða lán nr. 2 og það hafi verið afskrifað þann 1. desember 2012. Kærandi byggir kröfu sína á því að umrætt lán hafi tilheyrt atvinnurekstri hans. Umboðsmaður kæranda greinir frá því að kærandi sé húsasmíðameistari og hafi starfað sem slíkur til fjölda ára. Hann hafi verið með rekstur á eigin kennitölu. Í janúar 2007 hafi hann stofnað einkahlutafélagið H ehf., um rekstur sinn og félagið hafi tekið yfir einstaklingsrekstur hans. Lóðunum fjórum að M götu hafi verið úthlutað á árinu 2006. Kærandi hafi ekki verið búinn að stofna félag á þessum tíma og því hafi lóðunum verið úthlutað til hans persónulega. Samkvæmt skilyrðum fyrir lóðaúthlutunum hafi einungis lögaðilar getað sótt um en undantekning hafi verið gerð í tilviki kæranda þar sem fyrir hafi legið að hann hafi verið með rekstur á eigin kennitölu. Lóðirnar hafi verið ætlaðar til atvinnurekstrar kæranda og hann hafi ætlað að byggja raðhús á þeim og selja. Tekið hafi verið lán til framkvæmdanna hjá sjóði Y og það hafi verið fært sem skuld í bókum H ehf. frá stofnun þess félags. Umboðsmaður kæranda vísar um það til  ársreikninga félagsins. Veðskuldabréfin hafi verið gefin út af kæranda þó að þau hafi í raun tilheyrt félaginu. Umboðsmaður kæranda vísar til afmörkunar á þeim lánum sem leiðrétting nær til samkvæmt 3. gr. laga nr. 35/2014 og byggir á að niðurfærsla leiðréttingar takmarkist við þá lagagrein. Þá bendir hann jafnframt á að túlka beri íþyngjandi ákvæði þröngt og skattaðila í hag. Það hafi verið vegna skilyrða frá banka sem ekki var unnt að færa lánin og lóðirnar yfir í einkahlutafélagið. Ef það hefði gengið eftir hefði frádráttur frá leiðréttingu ekki komið til.

Úrskurðarnefndin leitaði eftir umsögn banka X vegna kærunnar þann 20. ágúst 2015. Í umsögn banka X, sem barst 27. ágúst 2015, kemur fram að umrædd lán hafi verið veitt kæranda persónulega til fjármögnunar á lóðarkaupum á fjórum lóðum að M götu í Hafnarfirði. Um hafi verið að ræða raðhúsalóðir. Í umsögninni er tekið fram að engin gögn finnist um það hvort kærandi hygðist nýta einhverja af þeim eignum til eigin þarfa að byggingu lokinni. Litlar sem engar framkvæmdir hafi verið hafnar þegar bankinn hafi gengið að lóðunum árið 2012. Engin gögn finnist um að óskað hafi verið eftir skuldskeytingu lánanna yfir á félag kæranda. Félagið hafi á hinn bóginn haft eigin lánafyrirgreiðslur í bankanum en tryggingar fyrir þeim hafi ekki verið á nefndum lóðum, heldur aðallega á fasteign í N götu.

Með erindi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 31. ágúst 2015, var farið fram á að hann greindi nánar frá tengslum umræddra lána við atvinnurekstur sinn og legði fram gögn til staðfestingar á þeim, s.s. um hvaða atvinnurekstur hefði verið að ræða, hvernig  lánið tengdist honum og hvernig lækkunin hafi þá verið talin fram. Jafnframt var umsögn banka X send kæranda til andmæla. Í svari umboðsmanns kærenda, dags. 7. september 2015, kemur fram að lóðirnar að M götu hafi sannanlega verið í eigu H ehf. og tilfærsla þeirra í verk í vinnslu í ársreikningum félagsins staðfesti það. Félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 7. janúar 2010. Lækkunin hafi því ekki verið talin fram sem eftirgjöf skulda og ekki greiddur af henni tekjuskattur enda hafi félagið verið gjaldþrota og afskráð og ómöguleiki fyrir hendi. Umboðsmaður kæranda ítrekaði í umsögn sinni að lánin hafi verið tekin til kaupa á lóðunum sem hafi verið atvinnurekstrareignir, enda sé kærandi smiður og hafi keypt lóðir, byggt hús og selt. Lánveitandi hafi haft fulla vitneskju um þetta og þetta hafi legið fyrir þegar lánin hafi verið tekin. Umboðsmaður kæranda leggur áherslu á að lóðunum hafi verið úthlutað til kæranda fyrir stofnun H ehf. Þær hafi farið inn í félagið við stofnun þess, sem verk í vinnslu. Tekinn hafi verið yfirdráttur vegna framkvæmdanna á lóðunum hjá sjóði Y. Vegna skilyrða frá bankanum hafi yfirdrátturinn verið á nafni félagsins en með veði í fasteign í N götu en ekki í lóðunum, þrátt fyrir að þær hafi verið eignir félagsins. Að mati umboðsmanns kæranda staðfesti það að lóðirnar hafi verið atvinnurekstrar eignir félagsins sem verk í vinnslu. Félagið hafi greitt reikninga vegna lóðanna og var vísað um það til meðfylgandi reikninga. Lánin hafi ekki verið nýtt til öflunar húsnæðis til eigin nota og hafi verið talin fram í reit 5.5. á skattframtali kæranda en ekki í reit 5.2. Meðfylgjandi voru reikningar vegna framkvæmda í M götu og umboðsmaður kæranda bendir á að H ehf. hafi greitt þá.

 

II.

           

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Leiðrétting lána kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, er 929.475 kr. og hefur kærandi ekki mótmælt fjárhæð hennar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samkvæmt 8. gr. laga nr. 35/2014 dregnar samtals 10.336.235 kr. frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. sömu laga.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008. Í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að hið sama gildi um endanlega niðurfellingu fasteignaveðlána. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er sérstaklega ítrekað að önnur almenn lækkun frá og með 1. janúar 2008, sem var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. greinarinnar og telst ekki til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli dregin frá útreiknaðri leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014. Af umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi með lögum nr. 35/2014 kemur fram að ákvæðið eigi við um nauðungarsölu. Síðan segir þar: „Hið sama gildir þegar söluverð eignar í almennri sölu nægir ekki til greiðslu áhvílandi veðskulda og einnig þegar kröfuhafar hafa leyst til sín yfirveðsettar eignir. Hafi umsækjandi þannig þegar fengið felldar niður fasteignaveðkröfur umfram verðmæti eignar í kjölfar nauðungarsölu, sölu á almennum markaði eða í kjölfar eignaráðstöfunar í skuldaskilum við lánveitanda er talið rétt að slík niðurfelling komi til frádráttar leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins.“

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014.

Ekki liggur fyrir annað í málinu en að umrædd fasteignaveðlán hafi glatað veðtryggingu í kjölfar ráðstöfunar lóða eftir 1. janúar 2008 og að umræddar skuldir hafi verið endanlega felldar niður gagnvart kæranda. Fjárhæð niðurfellingar hefur ekki verið mótmælt sérstaklega. Ágreiningur í málinu snýr ekki að því hvort að umrædd niðurfelling hafi verið framkvæmd og ekki er á því byggt af hálfu kæranda að ekki hafi verið um fasteignaveðkröfur að ræða. Kærandi byggir á því að þar sem hin niðurfelldu lán hafi tilheyrt atvinnurekstri eigi þau ekki að koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu.

Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 102/2014, um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir) segir: „Með setningu ákvæðis til bráðabirgða XXXVII í lögum nr. 90/2003 var m.a. tekinn af sá vafi að eftirgjöf veðskulda einstaklinga utan atvinnurekstrar teldist almennt ekki til skattskyldra tekna, sem telja verður ríka forsendu fyrir almennri virkni almennra skuldalækkunarúrræða. Til að tryggja enn frekara samræmi í verklagi við frádrátt frá ákvarðaðri leiðréttingu skv. 7. gr. laganna er talið æskilegt að tekinn sé af allur vafi um að allir frádráttarliðir 8. gr. byggjast í grunninn á því að úrræðin sem standa að baki þeim til handa skuldsettum heimilum teljast almennt ekki til tekna samkvæmt lögum nr. 90/2003 og eiga sér því eðlilega samsvörun í frádrætti frá leiðréttingarfjárhæð 7. gr.“ Í bráðabirgðaákvæði XXXVII er sérstaklega tekið fram að eftirgjöf veðskulda utan atvinnurekstrar teljast ekki til tekna allt að 15.000.000 kr. hjá einstaklingi og samtals 30.000.000 kr. hjá hjónum. Um skattlagningu á eftirgjöf skulda er tilheyri atvinnurekstri er aftur á móti fjallað í bráðabirgðaákvæði XXXVI í lögum nr. 90/2003. Af tilvísun 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, er ljóst að almenn lækkun lána er tilheyrðu atvinnurekstri skuli ekki dregin frá útreiknaðri leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur stundaði atvinnurekstur á eigin kennitölu, nema árin 2007 og 2008. Kærandi stofnaði einkahlutafélag í byrjun árs 2007 utan um atvinnurekstur sinn. Starfsemi kæranda var meðal annars fólgin í byggingastarfsemi og rekstri fasteigna. Á árinu 2006, þegar kærandi stundaði atvinnurekstur á eigin kennitölu, fékk hann úthlutað fjórum lóðum. Í tölvupósti frá starfsmanni sjóðs Y, dags. 19. apríl 2006, til kæranda kom fram að sjóðurinn væri tilbúinn að fjármagna kaup á fjórum lóðum að M götu að fullu. Kærandi var með einstaklingsrekstur þegar hann tók umrædd lán.  Gögn málsins benda til þess að kæranda hafi verið veitt lán frá sjóði Y nr. 1, 2, 3 og 4 með veði í fjórum lóðum í M götu í tengslum við atvinnurekstur hans. Ef umrædd lán voru veitt í tengslum við atvinnurekstur falla þau ekki undir bráðabirgðaákvæði XXXVII í lögum nr. 90/2003 hvort sem lánin voru endanlega yfirtekin af einkahlutafélagi í eigu kæranda eða voru áfram í ábyrgð hans. Eftirgjöf umræddra skulda væri þá ekki undanþegin skattlagningu á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XXXVII í lögum nr. 90/2003 og félli þar með ekki undir frádráttarliði 8. gr. laga nr. 35/2014.

Við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hafa verið lögð fram gögn sem hafa ekki sætt efnisúrlausn hjá ríkisskattstjóra. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 er kæran, ásamt gögnum sem aflað hefur verið, send ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni ásamt gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta