Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 605/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 605/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október 2015, er tekið fyrir mál nr. 604/2015; kæra A, dags. 13. ágúst 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 26. ágúst 2014. Kæranda var upphaflega birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar 11. nóvember 2014. Kærandi sendi kæru til úrskurðarnefndarinnar þann 23. mars 2015 og var þeirri kæru vísað frá vegna óljósrar kröfugerðar með úrskurði nr. 411/2015, dags. 9. júlí 2015. Leiðréttingarfjárhæð kæranda var endurreiknuð og henni birt hún þann 14. júlí 2015. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð var samtals 327.319 kr. Kæranda var jafnframt tilkynnt að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað sem greiðslu inn á lán nr. 1 hjá sjóði X sem glatað hefur veðtryggingu sinni.

Með kæru, dags. 13. ágúst 2015, er kærð framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru er þess krafist að leiðréttingarfjárhæð verði ráðstafað sem greiðslu inn á lán nr. 2 hjá Y banka en ekki lán nr. 1 hjá X sjóði. Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki á árunum 2008 og 2009 þekkt þann sem sé skráður fyrir láni X sjóðs. Kærandi telur eðlilegra að leiðréttingarfjárhæð hennar sé ráðstafað inn á húsnæðislán sem hún hafi skuldað á leiðréttingartímabilinu. Kærandi hafi tekið lánið hjá Y banka árið 2004 og hún sé enn að greiða af því.

           

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Kærandi krefst þess að leiðréttingarfjárhæð hennar verði ekki ráðstafað á skuld í nafni B. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, er B, skuldari kröfu sjóðs X nr. 1 og eftirstöðvar hennar voru 4.883.518 kr. þann 1. október 2015. Ágreiningslaust virðist að krafan er til staðar. Kærandi er gift B.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014 og þar kemur fram í 1. mgr. að hafi fasteignaveðkröfur, sem glatað hafa veðtryggingu sinni í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008, ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda skuli leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. er hærri en 200.000 kr. skuli leiðrétting fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt þeirri grein. Að öðrum kosti fari um framkvæmd leiðréttingar skv. 12. gr. og myndi hún þá sérstakan persónuafslátt. Sérstaklega er tekið fram í lokamálslið 4. mgr. 11. gr. laganna að ef eftir leiðréttingu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda standi eftir fasteignalán umsækjanda sem tryggt er með veði í fasteign annars einstaklings skuli það fært niður með sama hætti.

Nánar er fjallað um frádráttarliði og ráðstöfun í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með annarri ráðstöfun eignar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 sé m.a. átt við sölu eða aðra eignaráðstöfun sem framkvæmd hefur verið í tengslum við gjaldþrot umsækjanda og leitt hefur til þess að fasteignaveðlán hans hefur glatað veðtryggingu. Fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, teljast endanlega niðurfelldar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og dragast frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. laganna, sé fyrningarfrestur skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. liðinn á samþykktardegi ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Ef fyrningarfrestur fasteignaveðkröfu, sem glatað hefur veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, er ekki liðinn á framangreindu tímamarki, skal leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 fyrst ráðstafað til að lækka slíkar kröfur skv. 1. mgr. 11. gr. laganna enda hafi krafan ekki verið endanlega felld niður. 

Kærandi byggir á því að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar, sem grundvallast á lánum kæranda, verði ekki ráðstafað inn á kröfu sem hún ber ekki ábyrgð á og hafi stofnast fyrir hjúskap hennar. Í tilviki eiginmanns kæranda, B, er til staðar fasteignaveðlán sem glatað hefur veðtryggingu í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014.

Í lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 er sérstaklega kveðið á um að ekki skipti máli hvort hjóna er formlega ábyrgt fyrir láni á umsóknarári komi til lækkunar samkvæmt 11. gr. laganna vegna leiðréttingar á lánum samkvæm 1. mgr. 3. gr. Í 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 kemur fram að leiðréttingarfjárhæð hjóna og samskattaðra sambúðaraðila á samþykktardegi fram­kvæmdar/ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar skuli ráðstafað óháð því hvort hjóna eða sambúðar­aðila er formlega ábyrgt fyrir lánum og hvort hlutaðeigandi sóttu saman um leið­rétt­ingu.

Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á kröfu sjóðs X nr. 1 er í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ekki er tilefni til að fallast á kröfu kæranda um að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar kæranda skorti lagastoð í ljósi lokamálsliðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð sem greiðslu inn á kröfu sjóðs X sem glatað hefur veðtryggingu sinni verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta