Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 195/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 195/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. febrúar 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir júlí 2022.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði fæðingarstyrk úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði frá 3. mars til 3. september 2022. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. janúar 2023, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum í júlí 2022 og óskað frekari gagna og skýringa frá honum. Skýringar bárust frá kæranda, dags. 23. janúar 2023, auk skýringa frá vinnuveitanda hans, dags. 1. febrúar 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. febrúar 2023, var kæranda tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri samkvæmt framangreindum lögum og bæri honum því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 190.688 kr., auk 15% álags, samtals 219.292 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. apríl 2023. Með bréfi, dags. 19. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 4. maí 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar samdægurs. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. maí 2023 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. maí 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að fyrir fæðingu sonar síns hafi hann skilað inn gögnum um áætlaðan fæðingardag, sem var X. mars 2022. Sonur hans hafi þó fæðst X. febrúar 2022.

Kærandi hafi óskað þess að fá greiddan fæðingarstyrk frá og með 15. febrúar 2022 hið minnsta. Kæranda hafi borist svör við beiðninni frá Fæðingarorlofssjóði þess efnis að alltaf væri miðað við áætlaðan fæðingardag. Kærandi telji að miðað við lög nr. 144/2022 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eigi hann rétt á styrk fyrir allan febrúarmánuð. Í 2. mgr. 38. gr. laganna komi fram að heimilt sé að greiða fæðingarstyrk fyrir fæðingarmánuð barns óháð því hvaða mánaðardag barn fæðist. Í kjölfar fæðingar barns kæranda hafi hann fengið styrk frá og með 3. mars 2022, ekki 1. febrúar, 15. febrúar eða 1. mars 2022.

Kærandi hafi ekki þekkt lög um fæðingar- og foreldraorlof á þeim tíma, enda hafi hann treyst því að starfsmenn Fæðingarorlofssjóðs vinni eftir þeim lögum sem starfseminni séu sett. Kærandi telji að með þessu hafi fyrst verið brotið á rétti hans. Umrætt atvik og sé þó ekki liður í kæru hans þar sem kærufrestur sé liðinn.

Kærandi hafi fengið greiddan fæðingarstyrk frá og með 3. mars 2022 og hafi verið í 100% námi á sama tíma. Um sumarið hafi hann unnið að lokaverkefni með B. Kærandi hafi ekki skrifað undir ráðningarsamning við fyrirtækið og hafi aldrei verið starfsmaður þess, eða verktaki.

Tilkynning frá Fæðingarorlofssjóði hafi borist kæranda í janúar 2023 um að hann hafi fengið greidd laun. Sjóðurinn hafi óskað eftir staðfestingu á slíku frá kæranda, auk launaseðils. Kærandi hafi skilað inn tilskyldum gögnum eins fljótt og hægt hafi verið. Hann hafi fengið staðfestingu frá B eins og óskað hafi verið eftir, þar sem þau hafi talað um að launin hafi verið fyrir júlímánuð. Kærandi viti þó ekki hvers vegna það sé, þar sem hann hafi ekki starfað hjá þeim. Í framhaldinu hafi kærandi verið beðinn um að endurgreiða ofgreiddan fæðingarstyrk.

Kærandi hafi fengið styrk frá Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu 3. mars til 3. september 2022. Hins vegar hafi hann ekki hafið störf að nýju fyrr en 20. október 2022, þar sem hann hafi enn verið í námi sem lauk ekki fyrr en 29. október 2022. Kærandi hafi óskað eftir því að fæðingarstyrkurinn sem hann hafi fengið greiddan fyrir júlí mánuð myndi færast yfir á tímabilið 3. september til 19. október 2022, þar sem hann hafi ekki verið í vinnu þá og því hvorki fengið laun né styrk á því tímabili. Kærandi hafi ekki farið fram á greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði heldur lagfæringu.

Fæðingarorlofssjóður hafi neitað kæranda um lagfæringuna og vísað til þess að ekki hafi verið heimilt að afgreiða fæðingarstyrk til hans á umræddu tímabili þar sem óheimilt sé að afgreiða fæðingarstyrk lengra aftur í tímann en þrjá mánuði, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um ffl. Það eigi við um nýjar umsóknir, ný greiðslutímabil og aðrar breytingar á tímabili fæðingarstyrks. Kærandi bendi á að í lögunum komi fram að ekki sé heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna berist.

Í tilfelli kæranda sé hann að óska eftir breytingu á tímabili fæðingarstyrks en ekki eftir því að fá greidda viðbótargreiðslu. Í lögum sé ekki kveðið á um að ekki sé möguleiki á að framkvæma umbeðna breytingu heldur sé einungis talað um greiðslu. Í svari Fæðingarorlofssjóðs til kæranda hafi komið fram að kærandi hafi óskað eftir því að tímabil fæðingarstyrks yrði fært en það feli í sér tilfærslu á greiðslum. Jafnframt hafi komið fram að ekki sé hægt að afgreiða breytingar sem séu lengra aftur í tímann en þrjá mánuði en slíkt sé ekki tilgreint í lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Kærandi óski eftir því að launatímabili hans verði breytt frá júlí yfir á tímabilið 4. september til 3. október 2022. Jafnframt óski hann eftir því að útistandandi krafa við Fæðingarorlofssjóð falli niður, auk áfallinna vaxta.

Til vara óski kærandi eftir því að honum verði heimilt að færa hluta af launatímabilinu yfir á október mánuð, þ.e. 1. til 19. október 2022, og að útistandandi krafa Fæðingarorlofssjóðs falli niður sem nemi þeim hluta. Fæðingarorlofssjóður megi greiða allt að þrjá almanaksmánuði aftur í tímann á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur hafi borist. Umsókn kæranda hafi borist í janúar 2023 svo heimilt sé að greiða aftur í tímann fyrir október til desember 2022.

Í athugasemdum kæranda, dags. 16. maí 2023, kemur fram að kærandi hafi óskað eftir fæðingarstyrk í janúar 2023 aftur í tímann, en það sé innan tilskilins tímaramma. Ósk kæranda hafi borist Fæðingarorlofssjóði á meðan hann hafi verið að bíða eftir svari frá B varðandi skýringar á greiðslu til hans fyrir júlí 2022. Kærandi hafi reynt að leysa málið, meðal annars með því að fá fæðingarstyrkinn færðan yfir á tímabilið 1. til 19. október 2022 og greiða mismuninn.

Svar hafi borist frá B þann 1. febrúar 2023, en þá hafi verið orðið of seint fyrir kæranda að biðja um afturvirka endurgreiðslu. Um hafi verið að ræða þrjá almanaksmánuði sem óskað sé eftir endurgreiðslu, eins og komi fram í 38. gr. ffl. en ekki þrjá mánuði afturvirkt eins og komi fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi óski eftir því að málið verði leyst með tilliti til meðalhófs.

Ekki sé getið á um tilfærslu á tímabili eða að tímabilið gangi upp í greiðslu í ffl. og því sé um lagalegt tómarúm að ræða.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu fæðingarstyrks námsmanna fyrir júlí 2022. Kærandi hafi fengið of háar greiðslur frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann hafi þegið fæðingarstyrk námsmanna með barni sem hafi fæðst X. febrúar 2022.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. janúar [2023], hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir framangreint tímabil. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda, ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Skýringar ásamt launaseðli hafi borist frá kæranda, dags. 23. janúar 2023, auk skýringa frá vinnuveitanda, dags. 1. febrúar 2023. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 1. febrúar 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu fæðingarstyrks námsmanna ásamt 15% álagi. Samkvæmt staðgreiðsluskrá skattsins, innsendum gögnum og launaseðli hafi verið litið svo á að kærandi hafi fengið ofgreiddan fæðingarstyrk námsmanna samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) og 2. mgr. 41. gr. ffl. Þann 6. mars 2023 hafi kæranda verið sent bréf þar sem innsend gögn frá honum sem hafi borist eftir 1. febrúar 2023, hafi ekki þótt gefa tilefni til breytingar á fyrri ákvörðun í málinu.

Með umsókn kæranda, dags. 26. janúar 2022, hafi kærandi sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður í 6 mánuði, frá 1. mars 2022, vegna barns hans sem hafi fæðst X. febrúar 2022. Kærandi hafi uppfyllt skilyrði 27. gr. ffl. um fæðingarstyrk námsmanna og verið afgreiddur í samræmi við umsókn, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 23. mars 2022.

Í 1. mgr. 39. gr. ffl. sé kveðið á um skerðingu á greiðslu fæðingarstyrks. Þar komi fram að réttur foreldris til fæðingarstyrks sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarstyrks samkvæmt VI. eða VII. kafla. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem séu hærri en sem nemi helmingi þeirrar styrkfjárhæðar sem foreldri hafi fengið greidda samkvæmt 38. gr. skuli koma til frádráttar styrknum. Að öðru leyti gildi ákvæði 1. mgr. 25. gr. ffl. eftir því sem við eigi.

Í athugasemdum við 39. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé skerðingarreglan útskýrð nánar með dæmi. Þar segi meðal annars sem dæmi að sé styrkfjárhæð 150.000 kr. á mánuði þá mætti foreldri fá 75.000 kr. á sama tíma frá vinnuveitanda án þess að til skerðingar kæmi á greiðslu fæðingarstyrksins en eftir það myndi skerðingin hefjast, króna á móti krónu.

Í júlí 2022 hafi kærandi fengið greiddan fæðingarstyrk námsmanna að fjárhæð 199.522 kr. Í sama mánuði hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. í laun samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins. Sú fjárhæð sé í samræmi við launaseðil þess mánaðar og skýringar vinnuveitanda þar sem fram komi að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu sem hafi verið unnin í júlí 2022.

Samkvæmt framangreindu hafi kæranda verið heimilt að fá 99.761 kr. frá vinnuveitanda án þess að kæmi til skerðingar á fæðingarstyrknum en eftir það myndi skerðing hefjast króna á móti krónu. Kærandi hafi þegið 300.000 kr. frá vinnuveitanda á sama tíma og hann hafi þegið fæðingarstyrkinn. Greiðslur frá vinnuveitanda hafi því skert fæðingarstyrkinn um 99.762 kr. þangað til fæðingarstyrkurinn hafi verið skertur að fullu þegar greiðslur frá vinnuveitanda hafi numið 299.283 kr. Ofgreiðsla fyrir júlí 2022 sé því 190.688 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu.

Í 41. gr. ffl. sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að ef foreldri hafi fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni ef foreldri færi rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt skýringum kæranda sé um að ræða greiðslu launa fyrir vinnu í júlí 2022. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Í kæru geri kærandi athugasemd við skráðan upphafsdag fæðingarstyrks. Skýrt sé tekið fram á umsóknareyðublaði um fæðingarstyrk að heimilt sé að hefja töku fæðingarstyrks í fæðingarmánuði barns. Á umsókn kæranda hafi hann óskað eftir því að hefja töku fæðingarstyrks þann 1. mars 2022 og hafi verið afgreiddur með fæðingarstyrk í samræmi við umsóknina. Upphafsdagur fæðingarstyrks kæranda hafi ekki leitt til þess að hann hafi orðið af sjálfstæðum sex mánaða rétti til fæðingarstyrks.

Kærandi óski eftir því í kæru að greiðsla fæðingarstyrks fyrir júlí verði færð á annað tímabil, þ.e. tímabilið 4. september til 3. október eða 1. til 19. október 2022. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof sé ekki að finna heimild til breytinga á áður greiddum tímabilum fæðingarstyrks. Í VIII. kafla ffl. sé tilgreint hvenær umsókn um fæðingarstyrk skuli berast og hversu langt aftur í tímann sé heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk. Í frumvarpi til laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé tekið fram að verið sé að veita aukið svigrúm miðað við eldri lög og samkvæmt 2. mgr. 38. gr. ffl. sé heimilt að greiða allt að þrjá mánuði aftur í tímann frá því að umsókn berist. Ekki verði séð að ákvæðið heimili tilfærslu greiddra tímabila fæðingarstyrks líkt og kærandi fari fram á.

Fæðingarorlofssjóður veki athygli kæranda á 42. gr. ffl. þar sem fram komi að í kjölfar þess að foreldri endurgreiði Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem endurgreidd hafi verið beri Vinnumálastofnun að endurmeta hvort viðkomandi foreldri hafi fullnýtt rétt sinnt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks eða ekki og upplýsi foreldrið um niðurstöðu endurmatsins. Þegar endurgreiðsla vegna júlí 2022 hafi borist muni kærandi því geta nýtt sér það tímabil sem hafi verið endurgreitt innan 24 mánaða frá fæðingu barns.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður ofgreitt kæranda 190.688 kr. að viðbættu 15% álagi 28.603 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 219.292 kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 1. apríl 2022.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir júlí 2022.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) kemur fram að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur.

Í 38. gr. ffl. er mælt fyrir um greiðslur fæðingarstyrks. Í 2. málsl. 2. mgr. segir að heimilt sé að greiða fæðingarstyrk fyrir fæðingarmánuð barns óháð því hvaða mánaðardag barn fæðist. Jafnframt segir í 4. málsl. 2. mgr. sömu greinar að ekki sé heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur samkvæmt 1. mgr. 37. gr. barst. Foreldri skal sækja um fæðingarstyrk til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 37. gr. ffl.

Samkvæmt 39. gr. ffl. er réttur foreldris til fæðingarstyrks bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarstyrks samkvæmt VI. eða VII. kafla. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem eru hærri en sem nemur helmingi þeirrar styrkfjárhæðar sem foreldri hefur fengið greidda samkvæmt 38. gr. skulu koma til frádráttar styrknum. Að öðru leyti gildi ákvæði 1. mgr. 25. gr. eftir því sem við getur átt.

Í 41. gr. ffl. er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Kærandi þáði fæðingarstyrk námsmanna úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu mars til september 2022 vegna barns sem fæddist þann X. febrúar 2022. Endurgreiðslukrafa sjóðsins lýtur að júlí 2022. Á þeim tíma var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í júlí 2022 fékk kærandi fæðingarstyrk námsmanna úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð 199.522 kr. Kæranda hefði verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð 99.761 kr. án þess að það hefði áhrif á greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda að fjárhæð 300.000 kr. í júlí 2022. Kærandi fékk því greiddar 200.239 kr. umfram þá fjárhæð sem honum var heimilt. Því bar honum að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 190.688 kr. Heildarendurgreiðslan að viðbættu 15% álagi nemur 219.292 kr., sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl.

Fyrir liggur að kærandi sótti um fæðingarstyrk námsmanna frá Fæðingarorlofssjóði frá 1. mars 2022 í sex mánuði með umsókn, dags. 26. janúar 2022. Í vottorði B, dags. 27. janúar 2023, kemur fram að kærandi hafi fengið greidd laun að upphæð 300.000 kr. í júlí 2022 fyrir vinnu í þeim mánuði. Í kjölfar erindis Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. janúar 2023, þar sem athygli kæranda var vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum, óskaði kærandi eftir því með erindi, dags. 23. janúar 2023, að greiðsla Fæðingarorlofssjóðs yrði færð afturvirkt frá júlí 2022 til tímabilsins 3. september til 20. október 2022.

Framangreint ákvæði 4. málsl. 2. mgr. 38. gr. ffl. kveður á um að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk að hámarki þrjá mánuði aftur í tímann eftir að umsókn berst þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 37. gr. ffl. Ákvæðið kveður því ekki á um afturvirkar tilfærslur á greiðslum fæðingarstyrks heldur á einvörðungu við þær tilteknu aðstæður sem lýst er í 4. málsl. 2. mgr. 38. gr. ffl., sbr. og 1. mgr. 37. gr.

Beiðni kæranda um tilfærslu á fæðingarstyrk námsmanna barst þann 23. janúar 2023, í kjölfar erindis Fæðingarorlofssjóðs til hans eftir að sjóðurinn fékk upplýsingar um launatekjur hans úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Líkt og rakið hefur verið og fyrir liggur í málinu, sbr. vottorð B, dags. 27. janúar 2023, fékk kærandi greiðslu launa í júlí 2022 en tilkynning um greiðsluna barst Fæðingarorlofssjóði sex mánuðum síðar. Þar sem um sé að ræða laun fyrir unna vinnu samkvæmt vottorðinu hafi kæranda mátt vera ljóst að hann væri að þiggja fæðingarstyrk samhliða greiðslu launa. Af þeim sökum og því sem rakið hefur verið að framan verður ekki fallist á kröfu kæranda um tilfærslu á fæðingarstyrk námsmanna milli tímabila. Þá telur úrskurðarnefndin jafnframt að kærandi hafi ekki sýnt fram á með skriflegum gögnum að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl. þannig að fella beri niður 15% álag á höfuðstól endurgreiðslukröfunnar.   

Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir þannig sýnt að kærandi fékk ofgreiddar 190.688 kr. fyrir júlí 2022, að viðbættu 15% álagi, samtals 219.292 kr. Ákvæði 41. gr. ffl. er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að endurgreiðslukrafan verði felld niður.

Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið júlí 2022 að fjárhæð 219.292 kr. því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. febrúar 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir júlí 2022 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta