Hoppa yfir valmynd

Nr. 51/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 51/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23100103

 

Kæra [...] og barns hans

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. október 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Georgíu ( hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 4. október 2023, um að synja umsóknum hans og barns hans, [...], fd. [...], ríkisborgara Georgíu, um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið og á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir börn, sbr. 1. mgr. 78. gr. og 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að honum og barni hans verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið og á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi 29. nóvember 1999 sem var endurnýjað nokkrum sinnum en samkvæmt skráningu í Þjóðskrá Íslands var lögheimili kæranda flutt til heimaríkis 10. maí 2005. Var það gert í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda í tíð þágildandi laga um útlendinga, nr. 96/2002 vegna fyrri refsidóma hans. Var honum gert að sæta endurkomubanni til sjö ára en fyrrgreind ákvörðun var staðfest með úrskurði Dómsmálaráðuneytisins, dags. 1. nóvember 2004. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki 18. maí 2018 en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. desember 2018.

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið 24. janúar 2023 en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4 október 2023, og var ákvörðun birt samdægurs fyrir kæranda með rafrænum hætti. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að eftir heildarmat á aðstæðum kæranda hafi hann, að mati stofnunarinnar, ekki sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, og var umsókn hans því synjað. Leit stofnunin m.a. til tengsla kæranda við heimaríki, þar sem hann hafði dvalist óslitið í nær 18 ár ásamt því að hafa eignast og alið upp barn þar. Þá leit stofnunin einnig til fjölskyldusjónarmiða en samkvæmt mati Útlendingastofnunar væru fjölskyldutengsl hans ívið meiri í heimaríki vegna dóttur sinnar. Þá væru ekki slík umönnunarsjónarmið í málinu að mælt væri með útgáfu umbeðins dvalarleyfis.

Barn kæranda lagði inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við kæranda 14. desember 2022. Var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar 4. október 2023 með vísan til þess að umsókn kæranda hefði verið synjað.

Hinn 17. október 2023 kærði kærandi ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda og barns hans, ásamt viðbótargögnum, barst kærunefnd 1. nóvember 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð reifar kærandi málsatvik og málsástæður sínar. Hann kveðst hafa sterk fjölskyldutengsl við Ísland en hann fluttist til landsins árið 1999, eftir að hafa gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Hann hafi dvalist hér og starfað til ársins 2005 en á meðan dvölinni hafi staðið hafi hann aðlagað sig að íslenskri menningu, lært tungumálið og hlotið inngöngu í háskólanám áður en hann hafi yfirgefið landið. Foreldrar, tvær systur og þrjár systurdætur kæranda hafi einnig hafið dvöl á Íslandi og þau séu öll íslenskir ríkisborgarar í dag. Kærandi hafi gengið í gegnum erfitt tímabil í kjölfar skilnaðar, atvinnumissis og alvarlegs þunglyndis sem hafi leitt hann á braut afbrota og í kjölfarið hafi kæranda verið brottvísað og gert að sæta endurkomubanni.

Kærandi hafi dvalið í heimaríki í rúm 18 ár og bætt ráð sitt. Hann hafi kynnst konu, og eignast með henni dóttur, sem einnig sækir um dvalarleyfi. Vísað er til ákvæða 78. gr. laga um útlendinga og 19. gr. reglugerðar um útlendinga og telur kærandi sig uppfylla viðeigandi lagaskilyrði, einkum vegna fjölskyldutengsla hans. Hér á landi eigi kærandi móður, tvær systur og þrjár systurdætur en faðir kæranda hafi fallið frá í fyrra og verið jarðsunginn hér á landi. Kveður kærandi andlát föður síns hafa sýnt sér hversu mikilvægt það sé fyrir sig að dveljast með fjölskyldu sinni hér á landi. Vísað er til þess að kærandi sé einstæður faðir og eigi ekki aðra fjölskyldumeðlimi í heimaríki en dóttur sína og telur kærandi hana munu njóta góðs af því að búa nálægt fjölskyldu sinni í öruggu umhverfi á Íslandi. Feðginin hafi ferðast hingað til lands eftir því sem þau höfðu tök á. 

Rakin eru félagsleg og menningarleg tengsl kæranda en vísað er til þess að hann og dóttir hans hafi góð tök á íslenskri tungu, og þá hafi kærandi ráðið sig til starfa hjá gamla vinnustaðnum sínum. Myndi flutningur til Íslands tákna nýtt upphaf í lífi kæranda, og vilji hann bæta upp fyrir þau brot sem hafi leitt til brottvísunar hans fyrir um 18 árum síðan. Frá því tímamarki hafi hann ekki komist í kast við lögin og lifað reglusömu lífi.

Kærandi kveður öll skilyrði fyrir útgáfu umbeðins dvalarleyfis fyrir hendi og vísar til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 32/2018, dags. 15. febrúar 2018, hvað brotaferil í skilningi c-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga varðar. Kærandi geri athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og telur stofnunina ekki hafa framkvæmt heildstætt mat á fjölskylduaðstæðum sínum en fyrst og fremst vikið að skyldleika hans til ættingja hér á landi, samanborið við dóttur sína. Telur kærandi Útlendingastofnun ekki hafa framkvæmt það mat sem henni beri skylda til, samkvæmt viðeigandi laga- og reglugerðarákvæðum og telur ómálefnalegt að telja að hann geti ekki átt sérstök tengsl hér við landið þrátt fyrir að eiga tengsl við heimaríki.

Þá kveður kærandi umönnunarsjónarmið eiga við í málinu en móðir hans glími við veikindi og hafi gert í áratugi og sé henni mjög mikilvægt að sonur hennar geti aðstoðað hana við þá umönnun sem hún þarfnist. Um þann þátt málsins vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 172/2021, dags. 20. apríl 2021. Þá gerir kærandi athugasemdir við að reifuð séu atvik er lúta að brotaferli hans í málsatvikalýsingu sem hafi ekki áhrif á mál hans, sbr. c-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga.

Meðal annarra fylgigagna eru ljósmyndir af kæranda og dóttur hans ásamt ættingjum þeirra, bæði á Íslandi, í heimaríki og á ferðalögum annars staðar, ráðningarsamningur við [...].

Í greinargerð vegna barns kæranda er vísað til hinnar kærðu ákvörðunar en barnið kveðst hafa sterk fjölskyldutengsl við Ísland og sækir um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við föður sinn, sbr. 1. mgr. 71. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að við þetta mat þurfi að líta til þess tíma sem útlendingur hafi dvalist hér og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Þá segir enn fremur í umræddum athugasemdum að skoða skuli hvert mál sjálfstætt og tengsl útlendings við Ísland metin í samhengi við tengsl hans við önnur lönd, t.d. heimaland eða fyrra dvalarland, í því skyni að meta hvort tengsl hans við landið séu orðin meiri en við viðkomandi land.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins dvaldi kærandi hér á landi á árunum 1999 til 2005 en var í kjölfar þess brottvísað frá landinu og gert að sæta endurkomubanni. Í kjölfar þess dvaldist hann í heimaríki í um 18 ár og eignaðist þar barn, sem sækir um dvalarleyfi samhliða föður sínum. Fyrir liggur að dvöl kæranda hér landi á grundvelli dvalarleyfis var lengur en tvö ár, sbr. a-liður 19. gr. reglugerðar um útlendinga, en töluvert langt er liðið frá fyrri dvöl, sbr. b-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt niðurlagi ákvæðisins verður dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla því ekki veitt nema önnur tengsl séu mjög sterk.

Við mat á fjölskyldutengslum samkvæmt a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og d-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga hefur kærunefnd m.a. litið til þess að í 17. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að nánustu aðstandendur séu maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára eða eldri. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi eigi móður, fædda árið [...], tvær systur og þrjár systurdætur á Íslandi en auk þess hafi faðir kæranda verið jarðsunginn hér á landi. Á hinn bóginn á kærandi, að óbreyttu, ólögráða dóttur, í heimaríki. Hvort tveggja dóttir kæranda og móðir teljast til nánustu aðstandenda í skilningi laga um útlendinga en önnur skyldmenni hans falla ekki að framangreindum skilgreiningum laganna. Er því ljóst að kærandi hefur rík fjölskyldutengsl við Ísland.

Við mat á því hvort dvalarleyfi verði veitt á grundvelli sérstakra tengsla skal einnig horfa til umönnunarsjónarmiða samkvæmt a-lið 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og e-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga, þ.e. hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem sé tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort einhver aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður. Gögn málsins og frásögn kæranda benda til þess að móðir kæranda eigi við langvarandi veikindi að stríða og kveðst kærandi ætla að sinna umönnun hennar. Ekkert í gögnum málsins bendir þó til þess að kærandi sé háður einhverjum hérlendis. Kærunefnd tekur undir það mat Útlendingastofnunar að móðir kæranda hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og fagfólki til umönnunar sinnar en gögn málsins benda ekki til þess að hún hafi hingað til þurft á sérstakri umönnun að halda. Telur nefndin umönnunarsjónarmið í málinu ekki slík að þau mæli með veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Líkt og kemur fram í hinni kærðu ákvörðun, og greinargerð kæranda, hefur c-liður 19. gr. reglugerðar um útlendinga ekki þýðingu, enda hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið hafi ekki fullnægjandi lagastoð, sbr. úrskurð nr. 32/2018, dags. 15. febrúar 2018. Hefur brotaferill kæranda því ekki áhrif á málið með beinum hætti, en þó með óbeinum hætti enda var brotaferill kæranda meginástæða fyrir lokum dvalar hans hér á landi árið 2004.

Líkt og fram kemur í 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga skal fara fram heildstætt mat á tengslum kæranda við landið en einnig kemur fram í athugasemdum við lagaákvæðið að tengsl hans skuli metin í samanburði við önnur lönd, t.d. heimaríki eða önnur dvalarlönd. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi 47 ára gamall en hann dvaldist í um fimm ár hér á landi þegar hann var á þrítugsaldri. Á þeim tíma hafi kærandi m.a. stundað atvinnu og skráð sig í nám en kærandi hefur þó aðeins dvalið hér á landi um skemmri tíma í nokkur skipti frá því að endurkomubanni hans lauk árið 2012.

Líkt og þegar hefur komið fram hefur kærandi rík fjölskyldutengsl við landið. Af ákvæði 2. málsl. 5. mgr. sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og d-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga má þó álykta að meira verði að koma til en fjölskyldutengsl svo að leitt geti til útgáfu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið, svo sem tengsl á grundvelli atvinnuþátttöku, eða önnur menningar- eða félagsleg tengsl, auk umönnunarsjónarmiða. Þá eru mönnunarsjónarmið ekki slík að þau mæli með útgáfu umbeðins dvalarleyfis. Langt er liðið frá því að kærandi dvaldi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis og stundaði atvinnu og skráði sig í nám. Þrátt fyrir rík fjölskyldusjónarmið, einkum það að kærandi eigi móður hér á landi sem telst til náins aðstandanda í skilningi 17. tölul. 3. gr. sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, er það niðurstaða nefndarinnar að í málinu séu ekki önnur tengsl af slíku vægi að þau mæli með útgáfu umbeðins dvalarleyfis. Í því samhengi bendir nefndin einkum á að kærandi stofnaði til fjölskyldulífs í heimaríki og hefur stundað þar atvinnu og séð fyrir sér og fjölskyldu sinni frá því hann yfirgaf Ísland 2004. Þá benda gögn málsins til þess að tengsl hans séu ekki slík að þau megi ekki rækta frá heimaríki, líkt og hann hefur gert undanfarna tæpa tvo áratugi. Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Líkt og þegar hefur komið fram sótti barn kæranda um dvalarleyfi fyrir aðstandendur, sbr. 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, en umsókn hennar grundvallast á fjölskyldusameiningu við kæranda. Í ljósi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er staðfest með úrskurði þessum er verður ákvörðun stofnunarinnar í máli barns kæranda einnig staðfest.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærunefnd hefur nú yfirfarið hina kærðu ákvörðun, fylgigögn málsins og málsmeðferð Útlendingastofnunar að öðru leyti og telur ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar í máli kæranda. Þá bendir kærunefnd á að umfjöllun Útlendingastofnunar um brotaferil kæranda á bersýnilega við í málsatvikalýsingu enda hefur fyrri dvöl, þ. á m. upphaf og lok dvalar, áhrif á þá umsókn sem nú er til umfjöllunar.

Samantekt

Með vísan til framangreinds eru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hans staðfestar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta