Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 102/2012

Mánudaginn 2. júní 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara 24. maí 2012 um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 14. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. júní 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 20. júlí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 30. júlí 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1952. Hann er einhleypur og býr ásamt tveimur uppkomnum sonum sínum í 79 fermetra eigin íbúð að B götu nr. 10 í sveitarfélaginu C.

Kærandi hefur lokið námi til löggildingar fasteignasala en er nú atvinnulaus. Hann fær atvinnuleysisbætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Mánaðarlega hefur hann til ráðstöfunar 192.608 krónur að meðaltali.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 1996. Á þeim tíma hafi hann skilið við eiginkonu sína og árin þar á eftir hafi verið erfið, sérstaklega eftir að kærandi var greindur með meinvörp í vélinda. Hann hafi farið í lyfjameðferð en verið óvinnufær og mjög veikburða meðan á meðferðinni stóð. Hafi hann verið nokkur ár að ná heilsu og á meðan hafi skuldir hlaðist upp. Árið 2000 hafi hann verið úrskurðaður gjaldþrota. Kveðst kærandi hafa samið við hið opinbera og Innheimtustofnun sveitarfélaga um skuldir og hafi honum tekist að standa við samningana í nokkur ár. Við atvinnu- og tekjumissi hafi möguleikar til að standa við samningana orðið að engu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 50.327.670 krónur og falla þar af 8.084.662 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 til 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. mars 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Jafnframt var honum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Fyrir liggur krafa tollstjóra á hendur kæranda vegna ógreidds virðisaukaskatts að fjárhæð 2.936.119 krónur en krafan byggist á álagningu. Embætti umboðsmanns skuldara sendi umsjónarmanni tölvupóst 27. desember 2011 þar sem fram kom að embættið hefði gert þau mistök að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun, en á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hefði átt að synja umsókninni. Með bréfi 28. desember 2011 vísaði umsjónarmaður málinu aftur til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr., vegna nefndrar virðisaukaskattskuldar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2012 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður. Byggðist sú ákvörðun á því að óhæfilegt þætti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í málinu er kærð synjun tollstjórans í Reykjavík um að fella ekki niður virðisaukaskattskuldir kæranda frá 2001 og 2012. Einnig niðurstaða Innheimtustofnunar sveitarfélaga um að gefa ekki eftir gamlar meðlagsskuldir þótt samningur hafi verið í gildi. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á virðisaukaskattskuld kæranda. Í ljósi málatilbúnaðar kæranda og þess að hann er ólöglærður verður að skilja kæru hans til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála á þann veg að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveður þá skuld sem stöðvað hafi vinnu umboðsmanns skuldara vera virðisaukaskattskuld frá árunum 2001 og 2002 að höfuðstól 668.000 krónur en dráttarvextir séu 2.270.000 krónur. Greiðslum kæranda vegna þessarar skuldar hafi verið ráðstafað inn á eldri skatta og meðal annars þess vegna sé fjárhæð virðisaukaskattskuldarinnar svo há. Vaxtabætur sem kærandi hafi fengið undanfarin fjögur ár hafi ekki verið nýttar til að lækka þessa skuld heldur hafi þeim verið ráðstafað til lækkunar á almennum gjöldum.

Að mati kæranda hafa hvorki embætti umboðsmanns skuldara né umsjónarmaður fylgt því eftir sem þessir aðilar kváðust mundu gera. Með bréfi 23. mars 2011 hafi tollstjóri boðið honum að gera samning um greiðslur. Á sama tíma hafi Innheimtustofnun sveitarfélaga krafist greiðslu. Samkomulag hafi orðið milli kæranda og umboðsmanns skuldara um að kærandi sæi um innheimtustofnun en umboðsmaður um tollstjóra. Hafi kærandi gert samning við innheimtustofnun og standi sá samningur enn. Umboðsmaður hafi á hinn bóginn látið hjá líða að ganga frá samningi við tollstjóra og hafi möguleiki til að gera slíkan samning fallið niður um mitt ár 2012.

Til að afsaka af hverju umboðsmaður hafi ekki sinnt þessu vísi embættið til 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sem fjalli um saknæma háttsemi. Umrædd skuld sé frá 2002 og eigi nefnd lagagrein ekki við enda sex ára refsirammi fallinn úr gildi 2008. Það sé ljótt hjá jafn góðri stofnun og umboðsmanni skuldara að reyna að blekkja kæranda af því að stofnunin hafi gleymt að fylgja eftir erindi sem hún hafi tekið að sér.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar segir að í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Að sögn umsjónarmanns nemi virðisaukaskattskuld kæranda 2.549.279 krónum. Kærandi gæti þurft að sæta refsiábyrgð vegna skuldarinnar samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Að mati umsjónarmanns hefði því borið að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við meðferð umsóknar hans.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuli skuldara gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 26. mars 2012 þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Kærandi hafi afhent umboðsmanni ýmis gögn 10. apríl 2012. Hafi hann talið líkur á að hluti virðisaukaskattskuldar væri fyrndur en við nánari athugun umboðsmanns skuldara og samkvæmt gögnum frá tollstjóra hafi komið í ljós að svo var ekki.

Eignastaða kæranda hafi verið neikvæð um langt skeið og tekjur hans undanfarin ár hafi ekki verið háar. Miðað við fjárhag kæranda og fjárhæð virðisaukaskattskuldar kæranda verði að telja óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 17/2011 segi meðal annars: „Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild um greiðsluaðlögun vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðslu slíkra skuldbindinga eða ekki.“

Greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge. sé tiltölulega nýtt úrræði og því hafi ýmsir þættir þess skýrst eftir því sem meðferð mála hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmönnum með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi undið fram. Þannig þyki nú ljóst að tollstjóri telji sér að mestu óheimilt að semja um eftirgjöf skulda vegna vangoldins virðisaukaskatts í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Þessi afstaða tollstjóra hafi ekki legið fyrir með jafn skýrum hætti við meðferð umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun. Við töku ákvörðunar um heimild til greiðsluaðlögunar hafi heldur ekki legið fyrir ofangreindur skilningur kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sbr. úrskurð í máli nr. 17/2011, um samspil f-liðar 3. gr. og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við mat á því hvort hæfilegt þætti að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Þyki þannig hafa komið fram upplýsingar sem hindri að greiðsluaðlögun nái fram að ganga. Hafi umboðsmaður skuldara talið rétt og að ekki yrði hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 2.549.279 krónur hið minnsta. Skilja verður málatilbúnað umboðsmanns skuldara þannig að embættið hafi í upphafi gert mistök með því að heimila kæranda að leita greiðsluaðlögunar þar sem hann hafi staðið í skuld við tollstjóra vegna virðisaukaskatts. Tæpum tíu mánuðum síðar eða 27. desember 2011 hafi mistökin orðið ljós. Hafi embættið þá látið umsjónarmann með greiðsluaðlögunarumleitunum vita og í kjölfarið hafi umsjónarmaður vísað málinu aftur til umboðsmanns skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, og hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Eftir því sem ráðið verður af gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 31.000.000 króna. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi, þ.e. ógreiddum virðisaukaskatti, nemur samkvæmt gögnum málsins alls 2.936.119 krónum eða 5,51% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem hafði bakað sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur, sem nam um 8,3% af heildarskuldum og var ekki smávægileg með hliðsjón af eignum skuldara, með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar. Uppfyllir kærandi þar með ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar. Þrátt fyrir að umboðsmaður skuldara hafi ekki beint málinu í réttan farveg í upphafi telur kærunefndin að það breyti engu fyrir niðurstöðu málsins.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta