Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 119/2012

Fimmtudaginn 5. júní 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 29. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. júní 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. júlí 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 27. júlí 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina og aftur með bréfi 24. október 2012. Viðbótargreinargerð kærenda barst kærunefndinni 7. nóvember 2012.

I. Málsatvik

Kærandi A er fæddur árið 1970 og kærandi B árið 1966. Þau búa í eigin húsnæði að C götu nr. 8 í sveitarfélaginu D ásamt syni sínum.

Kærandi A er viðskiptafræðingur að mennt og kærandi B snyrtifræðingur. Samkvæmt umsókn um greiðsluaðlögun nema heildar­ráðstöfunar­tekjur kærenda um 312.089 krónum á mánuði eftir frádrátt skatts.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar og ábyrgðarskuldbindinga. Hafi fjárhagsörðugleikar þeirra staðið yfir í þó nokkurn tíma en þeir hafi hafist þegar kærandi B varð atvinnulaus á árunum 2001 og til 2003. Hafi hún þá hafið rekstur leikfangaverslunar sem farið hafi í þrot árið 2008. Það ár hafi kærendur keypt heildverslun með barnavörur og leikföng en hún hafi farið í þrot seinni hluta árs 2009. Hafi kærendur þá stofnað nýtt félag sem yfirtekið hafi rekstur heildverslunarinnar en rekstur nýja félagsins hafi verið mjög erfiður.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 49.240.447 krónur en þar af falla námslán að fjárhæð 979.422 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2000–2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. júní 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði endurskoðuð. Má skilja kröfugerðina sem svo að farið sé fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Segir í kæru að skuldavandræði kærenda verði meðal annars rakin til rekstrar kærenda á X ehf. Kærandi A sé stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Nú sé X ehf. þrotabú sem sé í höndum skiptastjóra hjá lögmannsstofunni Y ehf. Samkvæmt samtali kærenda við lögmann stofunnar séu engar líkur á að kærandi A verði sóttur til saka vegna skulda félagsins á opinberum gjöldum, annars vegar vegna þess hversu lág fjárhæð hennar sé og hins vegar þar eð ekki sé um ólöglega háttsemi að ræða heldur hafi félagið verið í eðlilegum en erfiðum rekstri. Ekki sé búið að gera þrotabúið upp og því viti enginn hver endanleg fjárhæð skuldarinnar verði.

Telja kærendur að gera eigi greinarmun á félögum sem skulda tiltölulega lága fjárhæð í opinber gjöld, líkt og eigi við um þau og þeirra félag, og á félögum er skulda tugi milljóna króna og sem eru ekki í eigu fólks er hafi veðsett heimili sín og foreldra sinna. Segja kærendur muninn á einyrkjum og bændum og kærendum, sem stofnað hafi einkahlutafélag utan um fyrirtæki sitt, nær engan. Kærendur, líkt og einyrkjar og bændur, hafi lagt allt undir til þess að hafa vinnu og fá laun til að standa straum af afborgunum lána og til þess að hafa í sig og á. Þyki kærendum að gera eigi greinarmun á rekstri ólíkra einkahlutafélaga og leggja eigi mat á áhættu varðandi eignir eigenda. Ekki sé rétt að setja öll einkahlutafélög undir sama hatt vegna þess eins hvert félagaformið er. Atvinnurekstur kærenda hafi verið samofinn heimilisrekstri þeirra í þeim skilningi að gengi fyrirtækið illa myndi heimilisreksturinn gera það sömuleiðis.

Því miður hafi rekstur kærenda ekki gengið eins og vonir þeirra hafi staðið til og sitji þau nú „í súpunni“ með þá ákvörðun sína að hafa farið í fyrirtækjarekstur á sínum tíma. Því miður séu það ekki einungis kærendur sem eigi hagsmuna að gæta í þessu máli heldur einnig foreldrar kæranda B vegna ábyrgða sem þau hafi veitt kærendum.

Fara kærendur fram á að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði endurskoðuð með framangreint í huga.

Í viðbótargreinargerð, sem fram kom undir rekstri málsins fyrir kærunefndinni, mótmæla kærendur því að 1.770.000 krónur skuli talin há fjárhæð í ljósi alls þess sem gengið hafi á í samfélaginu síðastliðin ár. Um allháa fjárhæð sé að ræða miðað við laun verkafólks en alls ekki miðað við laun forstjóra. Fjárhæðin sé einnig smámunir miðað við þær fjárhæðir sem afskrifaðar hafi verið hjá mörgum fyrirtækjum og velta kærendur upp þeirri spurningu hversu miklum skatttekjum ríkissjóður hafi séð af vegna hruns bankanna og lífeyrissjóða. Þyki kærendum þessi forsenda synjunar hljóma eins og fyrirsláttur.

Varðandi þá forsendu að stóran hluta skulda kærenda megi rekja til atvinnurekstrar segja kærendur í greinargerðinni að heimilisrekstur þeirra sé samofinn því hvernig fyrirtækinu hafi gengið og því sé ekki hægt að horfa á það tvennt sem aðskilda hluti sem ekki hafi áhrif hvor á annan. Umsókn kærenda hafi verið hafnað því þau hafi ætlað að byggja upp framtíð sína með fyrirtækjarekstri og til þess hafi þau þurft að veðsetja eigin íbúð ásamt íbúðum annarra. Þá spyrja kærendur hvort unnt sé að leggja að jöfnu lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og lge. svo sem gert sé með samanburði við dóm Hæstaréttar í máli nr. 721/2009.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara segir að embættinu beri við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. greinarinnar komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt d-lið beri við mat á því að taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Umboðsmaður skuldara vísar til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 13/2011 en þar hafi nefndin staðfest ákvörðun umboðsmanns um synjun um heimild til greiðsluaðlögunar. Í því máli hafi umboðsmaður skuldara talið að kærandi hefði bakað sér skuldbindingu með refsiverðum hætti vegna vangoldins virðisaukaskatts, en krafan var að hluta byggð á áætlun skattstjóra. Kærunefndin hafi ekki talið óhætt að byggja synjun um greiðsluaðlögun á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ef mikil óvissa væri um fjárhæð skulda sem til skoðunar kæmu samkvæmt ákvæðinu.

Í máli þessu nemi skuldir sem til skoðunar komi vegna d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. samtals 5.005.872 krónum að meðtöldum þeim hluta krafnanna sem byggist á áætlunum skattstjóra. Ákvörðun umboðsmanns skuldara í málinu byggist þó fyrst og fremst á því að höfuðstóll þeirra skulda sem byggjast á raunálagningu nemi 1.771.744 krónum. Í kæru dragi kærendur þá fjárhæð ekki í efa. Verði að telja að sú fjárhæð sé í sjálfu sér allhá og að með skuldinni hafi kærendur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra með refsiverðum hætti. Til samanburðar hafi Hæstiréttur í dómi sínum í máli nr. 721/2009 byggt höfnun sína á staðfestingu á nauðasamningi til greiðsluaðlögunar meðal annars á því að vangreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 1.780.437 krónur yrði að teljast allhá fjárhæð.

Í hinni kærðu ákvörðun er einnig litið til þess að fjárhagserfiðleikar kærendar séu fyrst og fremst til komnir vegna atvinnurekstrar þeirra. Af athugasemdum með frumvarpi til lge. sé ljóst að það hafi ekki verið vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði. Í greinargerð sinni fyrir kærunefndinni vísar umboðsmaður í úrskurð kærunefndar í máli nr. 56/2011. Í því máli hafi 70% skuldbindinga kæranda stafað frá atvinnurekstri hans. Þyki ljóst af niðurstöðu kærunefndarinnar í því máli að þegar fjárhagserfiðleikar séu tilkomnir vegna atvinnurekstrar skuli taka tillit til þess við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge.

Bendir umboðsmaður á að meirihluti skuldbindinga kærenda sé tilkominn vegna atvinnurekstrar. Bæði sé um ábyrgðarskuldbindingar að ræða og skuldbindingar sem kærendur skuldi. Samtals standi ábyrgðarskuldbindingar kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í 38.003.836 krónum en um sé að ræða sjálfskuldarábyrgðir vegna skulda félaga sem nú séu gjaldþrota, að undanskildum einum víxli sem þó virðist einnig tengjast atvinnurekstri kærenda. Persónulegar skuldir kærenda nemi samtals 49.240.447 krónum. Samanlagt nemi skuldbindingar sem hvíli á kærendum 87.244.283 krónum. Ef gengið yrði út frá því að ábyrgðarskuldbindingarnar einar tengdust atvinnurekstri yrði að álykta að 44% heildarskuldbindinga kærenda stöfuðu frá atvinnurekstri. Hluti persónulegra skuldbindinga kærenda stafi þó einnig frá atvinnurekstri og sé fjárhæð þeirra 10.058.672 krónur. Þá nemi samanlögð fjárhæð skuldbindinga sem með vissu megi telja að stafi frá atvinnurekstri 48.062.508 krónum eða 55% af heildarskuldbindingum kærenda.

Segir í greinargerð umboðsmanns að þeir þættir sem hér hafa verið raktir séu hluti af því mati sem fram hafi farið samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. um það hvort óhæfilegt þyki að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Sérstakt tillit hafi verið tekið til sjónarmiða samkvæmt d-lið málsgreinarinnar en einnig hafi sú staðreynd haft vægi að meirihluti skuldbindinga stafi frá atvinnurekstri. Ekki verði litið framhjá þeim sjónarmiðum sem birtast í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lge. og vitnað hafi verið til í hinni kærðu ákvörðun. Eftir heildstætt mat á atvikum máls, aðstæðum kærenda og stöðu að öðru leyti hafi það verið niðurstaða umboðsmanns skuldara að óhæfilegt þyki að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun á heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar. Einnig er í ákvörðun umboðsmanns skuldara vísað til þess að það hafi ekki verið vilji löggjafans að þeir sem væru fyrst og fremst í greiðsluvanda vegna atvinnurekstrar nýttu þetta úrræði. Stór hluti skulda kærenda væri tilkominn vegna atvinnurekstrar sem ekki væri samofinn heimilisrekstri kærenda.

Óumdeilt er í málinu að kærandi A var stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. á því tímabili sem hér skiptir máli. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á staðgreiðslu launagreiðanda að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur og getur kærunefndin því ekki miðað úrlausn sína við annað en að skyldur kæranda A sem stjórnarmanns og prókúruhafa félagsins á tímabilinu hafi verið í samræmi við það. Eiga ofangreind ákvæði samkvæmt því við um kæranda A sem fyrirsvarsmann X ehf. Skiptir hér ekki máli þótt það kunni að vera mat skiptastjóra þrotabús félagsins að kærandi A muni ekki þurfa að axla nefnda ábyrgð enda er forræði slíkra mála hjá skattyfirvöldum og eftir atvikum dómstólum.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Samkvæmt gögnum málsins nemur vörsluskattskuld X ehf. vegna vangoldinnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts samtals 5.005.872 krónum að meðtöldum þeim hluta sem byggist á áætlunum skattstjóra. Höfuðstóll skattskuldarinnar er byggist á raunálagningu er 1.771.744 krónur. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi A bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1088.

Í ljósi þessa ber kærunefndinni að meta aðstæður í samræmi við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um 12.858.694 krónur og tekjur þeirra lágar. Skuldir vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. nema alls 5.005.872 krónum sem telja verður háa fjárhæð. Skuldir þessar nema um 10,2% af heildarskuldum kærenda. Eins og fram kemur í greinargerð umboðsmanns skuldara byggist ákvörðun hans fyrst og fremst á því að höfuðstóll skattskulda sem byggjast á raunálagningu nemi 1.771.744 krónum. Jafnvel þó einungis yrði miðað við þá fjárhæð verður hún að teljast allhá. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi A hefur stofnað til þessara skulda með framangreindri háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu verulegar miðað við fjárhag kærenda og að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta