Hoppa yfir valmynd

1212/2024. Úrskurður frá 9. september 2024

Hinn 9. september 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1212/2024 í máli ÚNU 23110004.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. nóvember 2023, kærði […], fréttamaður á Ríkisútvarpinu, synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.
 
Hinn 8. október 2023 birtist tilkynning á vef Stjórnarráðs Íslands með yfirskriftina „Íslendingar í Ísrael verða sóttir“. Þar komu fram upplýsingar um að utanríkisráðherra hefði ákveðið að senda far­þegaflugvél á vegum íslenska ríkisins til Ísraels. Henni væri ætlað að ferja heim um 120 Íslend­inga sem þar væru strandaglópar vegna ófriðarástandsins í landinu sem hefði sett allar samgöngur úr skorðum. Ísland hygðist bjóða Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum laus sæti í vélinni sem ekki nýtt­ust fyrir íslenska ríkisborgara. Degi síðar birtist önnur tilkynning á sama vef þar sem meðal annars kom fram að Íslendingarnir kæmu heim frá Jórdaníu í stað Ísraels. Með tölvupósti til utanríkisráðuneytis, dags. 16. október 2023, óskaði kærandi eftir að fá afhent öll samskipti í tengsl­um við framangreinda ákvörðun utanríkisráðherra auk upplýsinga um allan kostnað.
 
Utanríkisráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi 2. nóvember 2023 en með því fylgdu skjöl, nr. 1 til 35, sem ráðuneytið taldi sér heimilt að afhenda kæranda. Í bréfinu var rakið að upplýsingar hefðu verið afmáðar úr skjölum nr. 20 og 32 með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, ann­ars vegar vegabréfanúmer starfsmanna utanríkisráðuneytisins og hins vegar upplýsingar um fjár­hæðir í samningi utanríkisráðuneytisins við Icelandair. Þá kom fram að ráðuneytið teldi sér ekki unnt að afhenda frekari samskipti með vísan til 9. gr. og 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.
 
Með tölvupósti 8. nóvember 2023 óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir upplýsingum frá kær­anda hvort að kæra hans varðaði öll þau gögn eða upplýsingar sem utanríkisráðuneytið hefði synjað um aðgang að. Samkvæmt svari kæranda, sem barst nefndinni degi síðar, var ekki gerður ágrein­ingur um þann hluta ákvörðunar utanríkisráðuneytisins sem laut að því að afmá fyrrgreindar upplýsingar úr skjölum nr. 20 og 32.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt utanríkisráðuneytinu 10. nóvember 2023 og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Loks var óskað eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði aflað afstöðu einstakra farþega og þeirra ríkja sem borgarþjónusta þess hefði verið í samskiptum við til afhendingar umbeðinna gagna.
 
Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni 1. desember 2023 og meðfylgjandi henni voru þau gögn sem ráðuneytið taldi að kæran lyti að, nr. 36 til 167.
 
Í umsögninni er rakið að skjöl nr. 36–103 hafi að geyma ýmis tölvupóstssamskipti og viðhengi við samskiptin sem varði borgaraþjónustumál. Borgaraþjónusta sé einn mikilvægasti þáttur í starf­semi utanríkisþjónustunnar, það sé að veita íslenskum ríkisborgurum vernd og aðstoð á erlendri grundu, sbr. ákvæði laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971. Að mati utanríkisráðuneytisins sé óheim­ilt að veita almenningi aðgang að upplýsingum um einstaka borgaraþjónustumál þar sem bæði sanngjarnt og eðlilegt sé að slíkar upplýsingar fari leynt, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Mikil­vægt sé að almenningur geti treyst því að samskipti og upplýsingar um einstaka borgara­þjón­ustu­mál verði ekki gerð opinber. Að öðrum kosti kynnu íslenskir ríkisborgarar að veigra sér við að hafa sam­band við borgaraþjónustuna þegar neyð steðji að erlendis. Um sé að ræða gríðarlega vand­með­farinn málaflokk og í mörgum tilvikum sé um að ræða samskipti við íslenska ríkisborgara í við­kvæmu ástandi. Upplýsingar um slík samskipti eigi ekki erindi við almenning eða fjölmiðla.
 
Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga feli í sér heimild til að veita almenningi aðgang að gögnum um einka­málefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari með því að sá samþykki sem í hlut eigi. Á það sé bent að árlega leiti hundruð einstaklinga til borgaraþjónustu ráðuneytisins og raunar varði það mál sem hér sé til umfjöllun eitt og sér hundruði einstaklinga. Í borgara­þjónustu­mál­um sé unnið eftir þeirri vinnureglu að ráðuneytið tjái sig ekki um einstök mál og veiti eðli máls­ins samkvæmt ekki aðgang að upplýsingum um þau mál. Að leita eftir samþykki allra þeirra sem upplýsingarnar varði sé ógerningur.
 
Utanríkisráðuneytið styður synjun sína um aðgang að skjölum nr. 104–167 við 2. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga. Í skjölunum sé að finna samskipti starfsmanna borgaraþjónustunnar við borgara­þjón­ustur erlendra ríkja í tengslum við ákvörðun um að bjóða ríkisborgurum nokkurra vinaþjóða laus sæti í vélinni sem ekki hafi nýst fyrir íslenska ríkisborgara. Almannahagsmunir krefjist þess að utanríkisþjónustan geti átt frjálsleg og greið samskipti við utanríkisþjónustur vinaþjóða vegna ein­stakra mála. Frjálsleg og greið samskipti við aðrar utanríkisþjónustur séu einkar mikilvæg fyrir íslensku utanríkisþjónustuna, til dæmis vegna þess að Norðurlöndin hafa gert með sér samkomulag um gagnkvæma aðstoð til ríkisborgara þeirra í borgaraþjónustumálum. Á grundvelli samkomu­lags­ins geti íslenskir ríkisborgara leitað aðstoðar norrænna sendi- og ræðisskrifstofa á stöðum þar sem Ísland hafi hvorki sendiskrifstofu né ræðismann. Með þessu leitist utanríkisráðuneytið við að tryggja íslenskum ríkisborgurum aðgang að nauðsynlegri aðstoð bjáti eitthvað á og aðstoðar sé þörf. Um sé að ræða mikilvægt úrræði fyrir íslenska ríkisborgara í vanda, sér í lagi í ljósi þess hve lítil utanríkisþjónusta Íslands sé og viðvera í mörgum ríkjum heimsins takmörkuð.
 
Afhending upplýsinga um samskipti af framangreindum toga geti haft skaðleg áhrif á tengsl Ís­lands við önnur ríki og möguleika utanríkisþjónustunnar til að leita liðsinnis borgaraþjónustu vina­ríkja. Afhending samskipta um borgaraþjónustumál muni hamla því að utanríkisþjónustan geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands. Þar að auki innihaldi umrædd gögn að jafnaði viðkvæmar upplýsingar um einstaka ríkisborgara viðkom­andi ríkis sem að mati ráðuneytisins sé óheimilt að afhenda samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Er­lend ríki og ríkisborgarar viðkomandi ríkja verði að geta treyst því að íslensk stjórnvöld geri slík sam­skipti eða upplýsingar um þeirra einkamál ekki opinber.
 
Umsögn utanríkisráðuneytisins var kynnt kæranda með tölvupósti 15. desember 2023 og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
 
Með fyrirspurn 4. júlí 2024 til utanríkisráðuneytisins óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýring­um á efni skjals nr. 104. Utanríkisráðuneytið svaraði erindinu samdægurs og útskýrði meðal annars að skjalið hefði að geyma samskipti á milli borgaraþjónustunnar og ræðismanns Íslands í Ísrael.
 
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum utanríkisráðuneytisins. Eins og áður hefur verið rakið afhenti utanríkisráðuneytið kæranda gögn nr. 1–35 í kjölfar beiðni hans en þar höfðu tilteknar upplýsingar verið afmáðar úr tveimur skjölum. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda er þessi þáttur ákvörðunar utanríkisráðuneytisins ekki hluti af kæruefni málsins og kemur því ekki til skoðunar í úrskurði þessum.
 
Þau gögn sem utanríkisráðuneytið synjaði kæranda um aðgang að, nr. 36–167, eiga það sammerkt að tengjast ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að senda farþegaflugvél á vegum íslenska ríkisins til að sækja íslenska ríkisborgara og aðra erlenda farþega sem var boðið far með vélinni. Umræddir ein­staklingar voru upphaflegir staddir í Ísrael en síðar fluttir til Jórdaníu og sóttir þangað.
 
Um rétt kæranda til aðgangs að gögn­unum fer eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt ákvæð­inu er þeim sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrir­liggj­andi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Þá er til þess að líta að kær­andi er fréttamaður en úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að fjöl­miðlar geti haft tilgreinda hagsmuni af aðgangi að gögnum vegna almenns hlutverks þeirra, sbr. t.d. úrskurð nr. 1202/2024.
 

2.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins er synjun á afhendingu gagna nr. 104–167 reist á 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikil­vægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upp­lýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Þar að auki byggir utanríkisráðuneytið á að gögnin innihaldi við­kvæmar upplýsingar um einstaka ríkisborgara tiltekinna ríkja sem óheimilt væri að afhenda sam­kvæmt 9. gr. upplýsingalaga. 
 
Í athugasemdum við ákvæðið í frum­varpi því sem varð að upplýs­ingalögum kemur fram að með orða­laginu „þegar mikilvægir almanna­hags­munir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýs­ing­ar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í 10. gr. laganna.
 
Þá segir að ákvæðið eigi við um pólitísk, viðskiptaleg eða annars konar samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki. Þeir hagsmunir sem ákvæðið eigi að vernda séu m.a. góð samskipti og gagn­kvæmt traust í skipt­um við önnur ríki. Beiðni um aðgang að slíkum samskiptum verði ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þeim sökum. Í ljósi þess að oft sé um veigamikla hagsmuni að ræða sé ljóst að varfærni sé eðli­leg við skýringu á ákvæðinu.
 
Í úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur við mat á því hvort heimilt sé að takmarka aðgang að gögnum á grundvelli 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga verið litið til þess hvort upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir snúi að viðkvæmum mál­efnum, samskiptaleiðum sem hætta er á að lokist ef upplýsingar sem þaðan berast yrðu á almanna­vit­orði, eða öðrum atriðum sem þykja raunverulega geta leitt til þess að traust erlendra stjórnvalda eða al­þjóða­stofn­ana á íslenskum stjórnvöldum glatist. Þá er enn fremur rétt að hafa í huga þau sjón­ar­mið sem vitnað er til í athugasemdum við ákvæðið um að gæta beri varfærni við skýringu á ákvæð­inu í ljósi þess hversu oft væri um veigamikla hagsmuni að ræða. Ákvæðið verður hins vegar ekki túlkað svo rúmt að stjórn­völd geti, með vísan til mikilvægis trúnaðar, takmarkað aðgang að öllum gögnum er varða samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir án atviksbundins mats, sbr. t.d. úrskurði nefnd­ar­innar nr. 898/2020, 1037/2021, 1048/2021 og 1124/2023. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að skilyrðið um almanna­hagsmuni væri þá í reynd þýðingarlaust.
 
Í umsögn utanríkisráðuneytisins er fjallað um þá almannahagsmuni sem ráðuneytið telur liggja að baki því að synja um aðgang að umbeðnum gögnum. Er þar meðal annars rakið að afhending upp­lýsinga af þeim toga sem umbeðin gögn hafa að geyma geti haft skaðleg áhrif á tengsl Íslands við önnur ríki og möguleika utanríkisþjónustunnar til að leita liðsinnis borgaraþjónustu vinaríkja.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir fyrirliggjandi gögn með hliðsjón af framan­greind­um sjónarmiðum. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu inniheldur skjal nr. 104, sem er skjáskot af textaskilaboðum, samskipti á milli borgaraþjónustu utanríkisráðuneytis og kjör­ræð­is­manns Íslands í Ísrael. Samkvæmt þessu verður að telja að umrædd samskipti feli ekki í sér sam­skipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Verður rétt­ur kæranda til aðgangs að skjalinu því ekki takmarkaður á grundvelli ákvæðisins en tekið verð­ur til skoðunar hvort að 1. málsl. 9. gr. standi í vegi fyrir afhendingu skjalsins í lið 3 hér á eftir.
 
Að öðru leyti en greinir hér að framan innihalda gögnin samskipti starfsmanna utanríkisráðuneytis­ins við fulltrúa ýmissa erlendra ríkja. Samskiptin lúta í öllum meginatriðum að skipulagningu þess að sækja ríkisborgara þessara ríkja og flytja þá heim með fyrrgreindri farþegaflugvél. Þá koma fram ýmsar upplýsingar um þessa erlendu ríkisborgara í gögnunum, svo sem nöfn, kennitölur, síma­númer, vegabréfanúmer og fleira.
 
Að virtu efni gagnanna fellst úrskurðarnefndin á það mat ráðuneytisins að ef gögnin yrðu afhent kynni það að hafa skaðleg áhrif á tengsl Íslands við umrædd ríki og þannig raska mikilvægum almanna­hagsmunum sem 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga er ætlað að vernda. Þá telur nefndin að ráðu­neytið hafi framkvæmt það hagsmunamat sem áskilið er að fari fram samkvæmt 10. gr. með hlið­sjón af innihaldi gagnanna. Með hliðsjón af framangreindu auk þess sem segir í athugasemdum við 2. tölul. 10. gr. um að varfærni sé eðlileg við skýringu á ákvæðinu, telur úrskurðarnefndin að ráðu­neytinu sé heimilt að takmarka aðgang kæranda að gögnunum. Með hliðsjón af eðli gagnanna telur úrskurðarnefndin enn fremur að ekki komi til álita að leggja fyrir ráðuneytið að veita aðgang að þeim að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Að þessu og öðru framangreindu gættu verður ákvörðun ráðuneytisins staðfest hvað varðar gögn nr. 105 til 167.
 

3.

Að framangreindu frágengnu stendur eftir að leysa úr rétti kæranda til aðgangs að gögnum nr. 36 til 104. Utanríkisráðuneytið telur sér óheimilt að afhenda umrædd gögn með vísan til 1. málsl. 9. gr. upp­lýsingalaga.
 
Í 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá sam­þykki sem í hlut á.
 
Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum segir að í grein­inni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einka­hags­muni. Þá segir eftirfarandi:
 

Stjórn­valdi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orð­um ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verð­ur að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjón­armiðum svo við­kvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

 
Að því er varðar takmörkun á aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:
 

Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grund­vall­ar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau rétt­læti undan­þágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagn­ar­skyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis laga­ákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að við­kvæm­ar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar að­gangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litar­hátt, kynþátt, stjórn­mála­skoð­anir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmd­ur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félags­leg vandamál. Aðrar upp­lýs­ingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum við­mið­um í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki við­kvæm­ar persónuupplýsingar sam­kvæmt per­sónu­verndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál ein­stak­linga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.

 
Við beitingu 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort gögn innihaldi upplýsingar sem varði einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Þá er aðilum sem falla undir gildissvið upplýsingalaga skylt samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna að veita aðgang að þeim hluta umbeðinna gagna sem ekki eru háðir tak­mörk­un­um samkvæmt 6.–10. gr. laganna. Skyldan nær þannig bæði til þess að meta rétt kæranda til að­gangs að hluta og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.
 
Í rökstuðningi utanríkisráðuneytisins er aðeins með almennum hætti fjallað um ástæður þess að umbeðin gögn skuli undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 1. málsl. 9. gr. upplýs­inga­laga. Er þannig ekki gerður greinarmunur á eðli einstakra upplýsinga þannig úrskurðarnefnd um upplýsingamál sé kleift að leggja mat á hvort aðgangur að einstökum upplýsingum sé til þess fallin að raska þeim einkahagsmunum sem ákvæðinu er ætlað að vernda. Þá verður ekki ráðið af gögn­um málsins að utanríkisráðuneytið hafi tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að veita kæranda aðgang að hluta gagnanna þannig að kæranda verði veittur aðgangur að upplýsingunum í gögn­un­um sem ekki varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í þessu samhengi skal á það bent að skjöl nr. 36–38, 41–42 og 44 virðast að hluta til innihalda sömu samskipti og kæranda var veittur aðgangur að með afhendingu skjala nr. 12–17, 26 og 30–31.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að meginmarkmiðið með kæruheimild til nefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórn­sýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röng­um lagagrundvelli, getur stjórn­valdi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr ann­mörk­unum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki um­fjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæru­heim­ild.
 
Þrátt fyrir að fyrir liggi efnisleg afstaða utanríkisráðuneytisins til afhendingar fyrirliggjandi gagna er það mat úr­skurðarnefndarinnar að málsmeðferð ráðuneytisins hafi ekki verið fullnægjandi hvað varð­ar synjun á beiðni kæranda um aðgang að gögnum nr. 36–104. Að mati úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál skortir þannig á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upp­lýs­ingalög gera ráð fyrir, og hefur nefndin takmarkaðar forsendur til að taka afstöðu til þess fyrst á kæru­stigi hvaða upplýsingar í gögnunum kunna að varða einka- og fjárhagsmálefni ein­stak­linga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 1. máls. 9. gr. upplýsingalaga og þá hvort að unnt sé að veita kæranda aðgang að hluta gagnanna eftir 3. mgr. 5. gr. upplýs­inga­laga. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórn­sýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða.
 
Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun að hluta til úr gildi og leggja fyrir utanríkisráðuneytið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar hvað varðar um­rædd gögn, þar sem tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun utanríkisráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2023, er felld úr gildi hvað varðar synjun á aðgangi að gögnum nr. 36 til 104 og lagt fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda, […], til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Að öðru leyti er ákvörðunin staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta