Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Icelandair ehf.

 

Mismunun á grundvelli aldurs. Frávísun.

Kærandi kærði þá meðferð I ehf. að krefja hann um skilríki í innanlandsflugi en ekki börn. Þar sem ákvæði laga nr. 63/2022 sem breyttu lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, öðlast ekki gildi varðandi mismunandi meðferð á grundvelli aldurs fyrr en 1. júlí 2024, var kærunni vísað frá nefndinni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. desember 2022 er tekið fyrir mál nr. 17/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 10. nóvember 2022, kærði A þá meðferð Icelandair ehf. að krefja hann um skilríki í innanlandsflugi en ekki börn. Kærandi telur að með meðferðinni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

     

    NIÐURSTAÐA

  3. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti, þjóðernis­uppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafn­réttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og um störf kærunefndar jafnréttis­mála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  4. Af kæru má ráða að hún beinist að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnu­markaðar. Ákvæði laganna um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs öðlast hins vegar ekki gildi fyrr en 1. júlí 2024, sbr. 2. málsl. 12. gr. laga nr. 63/2022, um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta). Þegar af þeirri ástæðu er málinu vísað frá kærunefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta