Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2013

Miðvikudagurinn 15. maí 2013

 

A og B

gegn

skipuðum umsjónarmanni C hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 14. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C hdl., sem tilkynnt var með bréfi, dags. 5. mars 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt af umboðsmanni skuldara þann 19. maí 2011 og var umsjónarmaður skipaður samdægurs.

Frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings var fyrst sent kröfuhöfum í maí 2012 og í annað sinn þann 22. janúar 2013. Mótmæli bárust frá Arion banka og Íbúðalánasjóði þar sem kærendur höfðu ekki lagt til hliðar í samræmi við greiðslugetu, samkvæmt síðara frumvarpi, sbr. 12. gr. lge.

Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi, dags. 5. mars 2013, ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns, dags. 5. mars 2013, kemur fram að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi fyrst verið sent kröfuhöfum í maí 2012. Kærendur hafi þá verið búin að leggja fyrir 1.500.000 krónur. Frumvarp hafi verið sent kröfuhöfum í annað sinn 22. janúar 2013. Við það frumvarp bárust athugasemdir Arion banka þess efnis að þar sem kærendur hafi ekki lagt til hliðar í samræmi við greiðslugetu samþykki bankinn ekki framkomið frumvarp. Í tölvupósti bankans hafi jafnframt komið fram að þegar fyrra frumvarpið var sent kröfuhöfum höfðu kærendur lagt fyrir 1.500.000 krónur í greiðsluskjóli, en síðan þá séu liðnir 7,5 mánuðir og ekkert hafi bæst við þá fjárhæð. Greiðslugeta kærenda sé jákvæð um 235.000 krónur og hefðu kærendur því átt að leggja fyrir þá fjárhæð í 7,5 mánuði. Umsjónarmaður hafði samband við kærendur samdægurs og upplýsti um framkomnar athugasemdir bankans og óskaði eftir upplýsingum um sparnað þeirra. Fulltrúi umsjónarmanns móttók reikning og gögn frá kærendum og sendi skýringar til Arion banka.

Þann 8. febrúar 2013 barst umsjónarmanni svar Arion banka. Að mati bankans og miðað við greiðslugetu kærenda  hefðu þau getað lagt fyrir 1.762.500 krónur á áðurnefndu sjö mánaða tímabili. Bankinn hafi hafnað skýringum kærenda og bent á að ýmsar greiðslur í reikningum kærenda félli undir „tómstundir“ í framfærslutöflu. Þá séu meðal framlagðra reikninga útgjöld sem heyri undir framfærslutöflu umboðsmanns skuldara og eigi því ekki að minnka greiðslugetu kærenda. Einnig hafi komið fram í svari bankans að sú fjárhæð sem kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir sé töluvert hærri en samtala á framlögðum reikningum. Bankinn muni því ekki samþykkja frumvarpið nema kærendur leggi fram hærri fjárhæð en 1.500.000 krónur. Með tölvupósti þann 8. febrúar barst umsjónarmanni einnig höfnun við frumvarpinu frá Íbúðalánasjóði. Í tölvupósti sjóðsins kom fram að samkvæmt nýju frumvarpi hafi kærendur ekki lagt frekari fjármuni til hliðar frá því að fyrra frumvarpið var lagt fram þrátt fyrir greiðslugetu. Enn fremur greinir í tölvupóstinum að sjóðurinn myndi ekki samþykkja frumvarpið.

Umsjónarmaður upplýsti kærendur um stöðuna og lýstu kærendur í kjölfarið yfir að þau vildu leita nauðasamninga með bréfi, dags. 28. febrúar 2013.

Að mati umsjónarmanns hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum skv. 12. gr. lge., einkum a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt þeim lið ber skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem kærendur þurfa til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Greiðslugeta kærenda á tímabilinu hafi verið góð, eða yfir 200.000 krónur á mánuði og kærendum borið að leggja þá fjárhæð fyrir mánaðarlega.

Umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur kærenda og kröfuhafa komist á, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kærenda

Í kæru er ekki gerð grein fyrir kæruefni. Þá voru í kæru ekki tilgreindar kröfur kærenda eða rökstuðningur fyrir þeim. Þau lögðu hins vegar fram reikninga um ýmis útgjöld þeirra frá árinu 2011 til og með 2013. Kærendur hafa upplýst að þau hyggist ekki gera sérstakar kröfur eða leggja fram rökstuðning í málinu, en kærð sé ákvörðun umsjónarmanns í heild sinni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggir 18. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka.

Umsjónarmaður vísar í ákvörðun sinni til þess að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum skv. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í þeim lið kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. laganna, meðal annars hvort hann hefur lagt til hliðar af tekjum sínum fé umfram framfærsluþörf sína og fjölskyldu sinnar og ekki gripið til stærri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Meðal gagna málsins eru ýmsir reikningar kærenda frá árunum 2011–2013. Eftir skoðun kærunefndar á þeim reikningum er ljóst að hluti þeirra fellur innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara og skýrir því ekki ástæðu þess að kærendur hafi ekki lagt til hliðar samkvæmt greiðslugetu. Meðal annars má finna reikninga vegna bifreiðar, heimilistækja, tölvubúnaðar, dýralækna o.s.frv. en slík útgjöld falla ekki innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Jafnframt kemur fram í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan skuldari leiti greiðsluaðlögunar sé honum skylt að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Eins og áður segir eru skuldurum settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár sem safnast fyrir í greiðsluskjóli. Kærendum var í fyrsta lagi skylt að geyma það fé sem var umfram framfærslu og í öðru lagi var þeim skylt að ráðstafa ekki fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Ljóst er að kærendur hafa hvorugu sinnt og ber því þegar af þeirri að ástæðu að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta