Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 171/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. ágúst 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 171/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, kærði meðferð umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 30. október 2012, en samkvæmt Vinnumálastofnun var frestur til að skila inn gögnum með umsókn um atvinnuleysisbætur runninn út. Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá byrjun september 2012 en Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að meðferð umsóknar kæranda og að töf á skráningu megi rekja til eigin mistaka kæranda.

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 18. apríl 2008 og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn frá þeim tíma á eftirtöldum tímabilum: 18. apríl til 19. ágúst 2008, 4. nóvember 2008 til 29. júní 2010, 30. júní 2010 til 23. maí 2011 og 13. september 2011 til 8. mars 2012.

Þann 7. september 2012 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda þar sem fram kemur að kærandi hafi lagt inn umsókn um atvinnuleysisbætur en frestur til að skila inn gögnum hafi runnið út þremur dögum fyrr. Kærandi óskaði eftir upplýsingum um það með hvaða hætti hann gæti gengið frá umsókn sinni til stofnunarinnar. Kæranda var svarað samdægurs og honum greint frá því að þegar frestur til að staðfesta umsókn með undirritun er liðinn er umsókn eytt úr kerfinu. Því þyrfti hann að fylla út umsókn að nýju og mæta á þjónustuskrifstofu til að staðfesta umsóknina og skila inn gögnum.

Þann 17. september 2012 barst Vinnumálastofnun skattkort kæranda og þann 25. september 2012 barst vinnuveitendavottorð frá B hf. Kærandi kom 26. október 2012 á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og skrifaði undir umsókn og fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi.

Í kæru, dags. 30. október 2012, greinir kærandi frá því að 13. ágúst 2012 hafi honum verið sagt upp störfum og hann hafi þá skráð sig á atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun á Suðurlandi hafi aðeins viljað samþykkja kæranda á skrá frá 26. október 2012. Kærandi fer fram á að fá bætur aftur í tímann, alla vega frá byrjun september. Hann hafi ekki getað greitt reikninga frá mánaðamótum ágúst/september og safni nú upp skuldum, þökk sé óliðlegheitum starfsmanna Vinnumálastofnunar á Selfossi.

Kærandi rekur mál sitt með eftirfarandi hætti í kæru: Þann 13. ágúst 2012 hafi kærandi misst vinnuna og skráð sig samdægurs hjá Vinnumálastofnun. Þann 1. september 2012 hafi hann látið senda skattkort og vinnuveitendavottorð til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi 7. september 2012 sent Vinnumálastofnun tölvupóst og spurt út í umsóknina. Svörin sem hann hafi fengið hafi verið þess efnis að hann þyrfti að fylla út nýja umsókn. Kærandi hafi 12. september 2012 sent sama aðila hjá Vinnumálastofnun tölvupóst þess efnis að þegar hann hafi skráð sig á „sínar síður“ sé ekki boðið upp á að fylla út nýja umsókn. Svarið sem hann hafi fengið hafi verið að hann ætti að stofna nýjan notanda. Daginn eftir gerði kærandi nýja umsókn og þá hefðu skattkort og vinnuveitendavottorð átt að hafa borist Vinnumálastofnun fyrir löngu. Kærandi hafi 24. september 2012 sent Vinnumálastofnun póst þar sem hann hafi spurt hvort hann væri ekki búinn að skila inn öllum gögnum, með því að vera búinn að senda skattkort og vinnuveitendavottorð, en hafi ekki fengið við því svar. Kærandi hafi 26. október 2012 farið til Vinnumálastofnunar á Selfossi og fengið þær upplýsingar að hann færi á skrá hjá stofnuninni frá og með þeim degi.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. febrúar 2013, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta lúti að 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og á grundvelli þeirrar lagagreinar hafi stofnunin sett verklagsreglur um meðferð umsókna um atvinnuleysisbætur. Eftir að umsókn um greiðslur atvinnuleysisbóta hefur verið lögð inn til Vinnumálastofnunar með rafrænum hætti í gegnum heimasíðu stofnunarinnar er umsækjanda veittur tveggja vikna frestur til að staðfesta umsóknina með undirritun sinni á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar og skila inn viðeigandi gögnum. Ef umsækjandi hefur ekki staðfest umsóknina innan frestsins fær hann senda áminningu í tölvupósti um að umsókn hans verði eytt ef hann mætir ekki á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar innan viku. Verður að telja það lágmarkskröfu að umsækjandi um atvinnuleysisbætur staðfesti umsókn sína með undirskrift sinni enda er ekki notast við rafrænar undirskriftir í umsóknarferli á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Allir umsækjendur eru upplýstir um framangreindan frest þegar þeir sækja um atvinnuleysisbætur.

Kæranda hafi láðst að mæta á skrifstofu Vinnumálastofnunar, skrifa undir umsókn og skila inn gögnum, líkt og færsla í samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun, dags. 7. september 2012, beri með sér. Kærandi hafi því útbúið nýja umsókn og sent í pósti skattkort sem hafi verið móttekið 17. september 2012 og vinnuveitendavottorð hafi verið móttekið 25. september 2012. Kæranda hafi þó enn láðst að mæta á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og skrifa undir umsókn eins og öllum umsækjendum um atvinnuleysisbætur beri að gera. Þann 26. október 2012 hafi kærandi svo mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og þar sem fyrri umsóknum hafði verið eytt hafi ný umsókn verið útbúin sem kærandi hafi skrifað undir. Kærandi hafi því verið skráður á atvinnuleysisskrá frá 26. október 2012 og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn frá þeim degi í samræmi við 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu hafi kærandi fyrst átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta 26. október 2012 og fallist því Vinnumálastofnun ekki á kröfu kæranda um afturvirka greiðslu bóta fyrir tímabilið 13. ágúst 2012 til 25. október 2012.

Loks tekur Vinnumálastofnun fram að kærandi hafi áður sótt um atvinnuleysisbætur og hafi því átt að vera ljóst hvernig umsóknarferlið gengur fyrir sig. Þá megi ráða af athugasemdum frá 20. september og 24. október 2011 í samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar að hann hafi áður lent í sömu vandræðum í umsóknarferlinu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. febrúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. febrúar 2013. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Í bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, er honum tilkynnt að afgreiðsla máls hans muni tefjast fyrir nefndinni vegna gríðarlegs fjölda kærumála.  

 


 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem var svohljóðandi er atvik máls áttu sér stað:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður samþykkja umsóknina með undirritun sinni.

Vinnumálastofnun hefur sett sér verklagsreglur um meðferð umsókna um atvinnuleysisbætur á grundvelli framangreindrar greinar. Í þeim kemur meðal annars fram að umsækjanda ber innan tveggja vikna frá því hann leggur inn umsókn að koma á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar og staðfesta umsókn með undirritun sinni. Það gerði kærandi hins vegar ekki og upplýsir sjálfur í kæru sinni að hann hafi ekki fyrr en 26. október 2012 farið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Selfossi. Kærandi ber því reyndar við að hafa stundum ekki fengið svar frá stofnuninni þegar hann hafi haft samband en samskiptasaga kæranda og Vinnumálastofnunar ber með sér að kæranda hafi mátt vera það fullljóst að honum bar að staðfesta nýja umsókn sína með undirritun, enda hafði hann áður þurft að gera það samkvæmt samskiptasögunni.

Þá er 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum.

Samkvæmt þessum málslið átti kærandi þannig rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá 26. október 2012 er hann undirritaði umsókn sína um atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram er það staðfest að réttilega hafi verið staðið að meðferð máls kæranda hjá stofnuninni.


 

Úrskurðarorð

Réttilega var staðið að meðferð máls A hjá Vinnumálastofnun og á hann rétt á atvinnuleysisbótum frá og með 26. október 2012, að öðrum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar uppfylltum.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta