Úrskurður nr. 350/2016
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 6. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 350/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU16030022
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru, dags. 2. mars 2016, kærði […], f.h. […], fd. 7. maí 1990, ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. febrúar 2016, um að synja kæranda um skráningu á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar við EES-ríkisborgara.
Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnunin taki mál kæranda til efnismeðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, maki hans og dóttir þeirra sóttu um hæli á Íslandi 28. maí 2014. Þann 17. júlí 2014 drógu þau hælisumsóknir sínar til baka. Þann 5. nóvember 2014 sóttu þau aftur um hæli hér á landi. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2014, var kæranda, dóttur hans og maka synjað um hæli hér á landi. Kærandi sótti um skráningu hér á landi vegna fjölskyldusameiningar við EES-ríkisborgara þann 28. apríl 2015 og var þeirri umsókn hafnað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. febrúar 2016. Forsendur synjunar á umsókn kæranda var að réttur maka hans hafði verið felldur niður, en með ákvörðun dags 11. febrúar 2016 var réttur maka kæranda til dvalar á Íslandi felldur niður á þeim grundvelli að dvöl hennar samrýmdist ekki tilgangi og skilyrðum útlendingalaga.
Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála, dags. 2. apríl 2016. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust samtímis kæru. Með tölvupósti þann 4. apríl 2016 óskaði kærunefnd eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Gögn málsins bárust kærunefnd þann 14. apríl 2016 en Útlendingastofnun gerði ekki athugasemdir við kæruna. Þá bárust frekari gögn og upplýsingar frá kæranda 6. apríl, 29. maí, 1. og 3. júní og 7., 12. og 27. september 2016.
Ákvörðun í máli maka kæranda var einnig kærð til kærunefndar sem hefur lokið meðferð sinni á máli hennar með úrskurði, dags. í dag, 6. október 2016.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Ákvörðun Útlendingastofnunar byggði á því að réttur maka kæranda til dvalar hér á landi, sem EES-borgari, hefði verið felldur niður, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, og væri því grundvöllur fyrir skráningu kæranda sem maki EES-borgara hér á landi brostinn, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Því var skráningu kæranda sem maki EES-borgara synjað af stofnuninni.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur að kærandi vísi til röksemda í greinargerð til Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2016. Í þeirri greinargerð kemur fram að kærandi og eiginkona hans hafi upphaflega sótt um hæli hér á landi, en hafi verið ráðlagt að draga þá umsókn til baka og sækja heldur um fjölskyldusameiningu. Kærandi kveðst ekki hafa kennitölu hér á landi og sé í umtalsverðum vandræðum vegna þess, svo sem að hann geti ekki fengið vinnu þrátt fyrir að honum hafi boðist vinna. Vegna þess hvað ferlið hafi tekið langan tíma hafi maka kæranda þótt [...] til skamms tíma. Hún hafi verið skráð hjá félagsþjónustu […] og hafi sinnt virkniúrræðum, auk þess sem hún hafi sótt um fjölda starfa. Maki kæranda telur það hafa áhrif á atvinnumöguleika að kærandi hafi ekki kennitölu. Kærandi kveður fjölskyldu sína vilja byggja upp líf á Íslandi. Þau sjái ekki fram á að [...] í viðbót og óskar kærandi eftir því að tekið verði tillit til erfiðra aðstæðna fjölskyldunnar og þess hve erfiðlega gangi fyrir kæranda að fá staðfesta stöðu á Íslandi. Maki kærandi telur að hún muni fá vinnu að lokum og að kæranda bíði starf um leið og umsókn um fjölskyldusameiningu verði samþykkt. Að mati kæranda megi rekja þær tafir sem orðið hafa á málinu að einhverju leyti til þess hve mál þeirra hafi verið lengi í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Maki kæranda bendir á að samkvæmt meginreglunni um frjálsa för launþega sé henni heimilt að vera á Íslandi í atvinnuleit í sex mánuði, sbr. lög nr. 47/1993. Maki kæranda kveðst sannarlega vera í atvinnuleit. Hún sé ekki þiggjandi atvinnuleysisbóta frá vinnumálastofnun. Hafi maki kæranda farið fram yfir þau tímamörk sem um ræði sé það að miklu leyti rekjanlegt til þess tíma sem afgreiðsla umsókna hennar og kæranda hafi tafist hjá Útlendingastofnun.
Í greinargerð kæranda á kærustigi er því haldið fram af hálfu kæranda að 3. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sé heimildarákvæði. Engin lagaskylda hvíli á Útlendingastofnun að brottvísa EES- eða EFTA-borgurum úr landi þótt þeir eigi í einhverjum erfiðleikum með að sjá sér farborða í lengri tíma en 36. gr. eða 36. gr. a kveði á um.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um skráningu á Ísland vegna fjölskyldusameiningar við EES-ríkisborgara.
Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum.
Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 (hér eftir útlendingalög) er EES- eða EFTA-borgara, sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 36. gr. a., heimilt að dveljast á landinu á meðan réttur EES- eða EFTA-borgarans til dvalar varir. Samkvæmt 37. gr. a. útlendingalaga gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. eftir því sem við á, um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 36. gr. a. Umsækjandi hefur því rétt til að dveljast hér svo lengi sem maki hans hefur rétt til dvalar.
Með úrskurði, dags. í dag, felldi kærunefnd útlendingamála úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að réttur maka kæranda til dvalar hér á landi sem EES-borgari væri niður fallinn, og lagði fyrir stofnunina að gefa út skráningarvottorð til handa kæranda að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Með vísan til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um skráningu á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar við EES-ríkisborgara, grundvallaðist á því að réttur maka kæranda væri niður fallinn, verður ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson