Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 7/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. janúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 7/2016

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15100005

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 13. október 2015, kærði […], f.h. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2015, um að synja kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði afturkölluð og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi. Til vara krefst kærandi þess að synjun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnunni verði gert að endurskoða ákvörðun sína.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var fyrst veitt dvalarleyfi vegna námsdvalar með gildistíma frá 27. júní 2014 til 1. febrúar 2015. Þá fékk kærandi útgefið dvalarleyfi vegna náms og takmarkað atvinnuleyfi með gildistíma frá 29. desember 2014 til 1. júlí 2015. Það leyfi var svo endurnýjað með gildistíma til 31. ágúst 2015. Kærandi sótti þá um endurnýjun dvalarleyfis vegna námsdvalar 10. ágúst 2015. Þeirri umsókn var synjað með hinni kærðu ákvörðun með vísan til þess að kærandi hefði ekki náð fullnægjandi námsárangri á vorönn 2015.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 13. október 2015. Kærunefnd óskaði þann 14. október 2015 eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 22. október 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 18. nóvember 2015.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 12. gr. e útlendingalaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna, þar sem kærandi hafi ekki lokið a.m.k. 75% af fullu námi og þannig ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur til endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms. Fullt nám sé 30 einingar á önn og hafi kærandi aðeins lokið 20 einingum eða u.þ.b. 67% af fullu námi. Á grundvelli þessa verði stofnunin að synja umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms þar sem útlendingalög heimili engar undanþágur frá framangreindu skilyrði.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði afturkölluð og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi. Til vara krefst kærandi þess að synjun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnunni verði gert að endurskoða ákvörðun sína.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi komið hingað til lands í september árið 2014 með dvalarleyfi á grundvelli náms og hafið nám við Háskóla Íslands. Hún hafi lagt stund á grunndiplómanám sem nefnist íslenska sem annað mál – hagnýtt nám, en um sé að ræða grunn fyrir frekara nám í íslensku fyrir útlendinga. Kærandi hafi lokið 30 ECTS einingum á haustönn 2014. Hún hafi haldið áfram náminu á vorönn 2015. Þegar stóð til að hún tæki munnlegt próf sem gilti 50% af 10 ECTS áfanga á vorönn hafi hún lagst í heiftúðlega flensu. Þrátt fyrir það hafi hún mætt í prófið því henni væri ókunnugt um hvort henni væri heimilt að að þreyta sjúkrapróf. Í ljósi veikindanna hafi kæranda gengið illa í prófinu og ekki staðist áfangann. Kærandi getur þess að hún hafi hafið nám til BA-gráðu í íslensku sem öðru máli í september 2015.

Kærandi heldur því fram í greinargerð sinni að Útlendingastofnun hafi borið að líta til aðstæðna kæranda þegar hún sótti um endurnýjun á dvalarleyfi sínu en fram hafi komið í umsókn kæranda að hún hafi verið veik þegar hún þreytti próf og henni hafi ekki staðið til boða að fara í endurtektarpróf. Kærandi hafi ekki getað lokið 75% af námi sínu með fullnægjandi árangri eins og 4. mgr. 12. gr. e-liðar laga um útlendinga segi til um þar sem fullt nám á önn samanstandi aðeins af þremur 10 ECTS áföngum. Þannig sé ekki hægt að uppfylla ákvæði laganna nema ljúka prófum með fullnægjandi árangri í öllum fögum líkt og kærandi gerði á fyrstu önn sinni í náminu haustið 2014.

Þá heldur kærandi því fram að lögjafna megi frá 14. gr. laga um útlendinga þannig að ákvæðið eigi einnig við um ákvæði 4. mgr. 12. gr. e laganna. Í 14. gr. laganna er kveðið á um að víkja megi frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 11. gr. um framfærslu hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð vegna veikinda og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Með þessu megi fella veikindi er hrjáðu kæranda undir 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga. Ljóst sé að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að lögjöfnun sé beitt í tilviki kæranda. Kærandi telur að eðli lögjöfnunar sé samofið hugmyndum um jafnræði. Þannig megi segja að heimild til lögjöfnunar sé að láta lagaákvæði ná út fyrir sinn þrengsta ramma til jafnræðis fyrir borgarana. Til þess að skilyrði lögjöfnunar séu fyrir hendi þurfa tilvik að vera samkynja og eðlislík og svo sé í tilviki kæranda.

Kærandi kveðst hafa sýnt fram á góða þekkingu á námsefninu, stundi áfram nám við Háskóla Íslands og stefni að ljúka BA-námi vorið 2018. Kærandi uppfylli öll önnur skilyrði til áframhaldandi dvalar hér á landi og sé því ekkert sem komi í veg fyrir að henni verði veitt áframhaldandi heimild til dvalar hér á landi, verði lögjöfnun beitt á umrætt ákvæði laganna og þannig tekið tillit til skammvinnra veikinda kæranda í umræddu prófi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 10. ágúst 2015 um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga nr. 96/2002.

Í 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi vegna náms samkvæmt ákvæðinu skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna náms á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. 12. gr. e og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst samkvæmt ákvæðinu fullnægjandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 50% af fullu námi. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga telst fullt nám vera 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá teljast einstök námskeið ekki til náms. Í máli þessu var um það að ræða að kærandi sótti í annað sinn um framlengingu dvalarleyfis vegna náms og þurfti hún því að sýna fram á 75% námsárangur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi 30 ECTS einingum á haustönn 2014 en 20 ECTS einingum á vorönn 2015. Kærandi var því með 100% námsárangur á haustönn en 67% námsárangur á vorönn. Sé námsárangur kæranda á skólaárinu lagður saman var kærandi með 87% námsárangur á skólaárinu 2014-2015. Samkvæmt kennsluskrá Háskóla Íslands er tilhögun náms kæranda þannig að fullt nám telst til 60 ECTS eininga, þ.e. skólaárið allt telst til fulls náms. Líkt og áður greinir lauk kærandi 87% af fullu námi og uppfyllir kærandi því skilyrði 2. og 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga til endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms.

Að öllu framangreindu virtu ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og að veita kæranda dvalarleyfi skv. 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to issue a residency permit to the appellant with reference to Paragraph 4 of Article 12 of the Foreigner´s Act, subject to other conditions of the Act.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta