Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 58/2012

Miðvikudaginn 13. febrúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 58/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Húnaþings vestra

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 5. júní 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Húnaþings vestra, dags. 1. mars 2012, á beiðni hans um húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi á lögheimili í Húnaþingi vestra en býr í Reykjavík í bílskúr við B en bílskúrinn er innréttaður sem íbúð. Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Húnaþingi vestra með ódagsettri umsókn, mótt. 14. september 2011. Umsókn kæranda var synjað með bréfi starfsmanns Húnaþings vestra, dags. 13. janúar 2012, með þeim rökum að húsnæðið sem kærandi leigir sé skráð sem bílskúr og því ekki hægt að greiða húsaleigubætur nema því verði breytt. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs með bréfi, dags. 13. febrúar 2012. Félagsmálaráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 29. febrúar 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„5. Húsaleigubætur:

[A] óskar eftir að umsókn sín um húsaleigubætur verði tekin upp í félagsmálaráði en henni var hafnað vegna þess að húsnæðið er skráð sem bílskúr.

Félagsmálaráð staðfestir ákvörðun fræðslu- og velferðarsviðs.“

 

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 1. mars 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 5. júní 2012. Með bréfi, dags. 6. júní 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Húnaþings vestra vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Húnaþings vestra barst með bréfi, dags. 18. júní 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 21. júní 2012, var bréf Húnaþings vestra sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi vísar til þess að fyrri leigjendur húsnæðisins hafi fengið greiddar húsaleigubætur frá öðru sveitarfélagi vegna húsnæðisins. Kærandi bendir á að húsnæðið sé ekki hugsað til annarra nota en sem íbúðarhúsnæði og það standi í grónu íbúðarhverfi í Reykjavík. Kærandi telur því að 4. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, eigi ekki við.

 

 

III. Sjónarmið Húnaþings vestra

 

Í athugasemdum sveitarfélagsins vegna kærunnar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem húsnæði sem hann leigi sé í Fasteignaskrá Íslands skráð sem bílskúr. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997 greiðast bætur ekki þegar húsnæði til annarra nota en íbúðar er leigt til íbúðar. Óskað hafi verið eftir leiðbeiningum velferðarráðuneytisins um hvernig líta eigi á umrætt húsnæði sem skráð sé sem bílskúr en notað sem venjuleg íbúð, sérstaklega í ljósi þess að aðrir leigjendur hafi fengið húsaleigubætur frá öðrum sveitarfélögum líkt og kærandi og leigusali hafi staðfest. Ráðuneytið hafi talið að ekki væri unnt að greiða húsaleigubætur nema skráningu hjá Fasteignaskrá Íslands yrði breytt.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Húnaþingi vestra hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um húsaleigubætur vegna leigu á bílskúr við Langholtsveg 103 en bílskúrinn er innréttaður sem íbúð.

 

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, koma húsaleigubætur aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að með íbúðarhúsnæði í lögunum sé átt við venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og séu lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Í 4. mgr. 7. gr. kemur fram að húsaleigubætur greiðist ekki þegar húsnæði til annarra nota er leigt til íbúðar að öllu leyti eða hluta. Ákvæði 4. mgr. 7. gr. laganna er samhljóða ákvæði 4. mgr. 8. gr. eldri laga um húsaleigubætur, nr. 100/1994, en um hið síðargreinda segir í athugasemdum við frumvarp til laganna að ákvæðið komi í veg fyrir að unnt verði að fá bætur út á húsnæði sem ætlað er til annarra nota en íbúðar. Hér sé til dæmis átt við atvinnuhúsnæði sem leigt er til íbúðar að hluta eða öllu leyti.

 

Húsnæði það semkærandi leigir er samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá Íslands 32,5 m2 bílskúr og í leigusamningi kemur fram að um sé að ræða herbergi, bað og stofu með eldhúskrók. Húsnæðið er því notað til íbúðar og hefur verið innréttað með það í huga. Ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997 gerir þó kröfu um að húsnæði sé ekki ætlað til annarra nota en íbúðar. Bílskúr verður tvímælalaust talinn ætlaður til annarra nota en íbúðar jafnvel þótt hann sé í raun notaður til íbúðar. Leiguhúsnæði það sem hér um ræðir uppfyllir því ekki skilyrði 1. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997 og á kærandi ekki rétt á greiðslu húsaleigubóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Húnaþings vestra, dags. 1. mars 2012, um synjun á umsókn A, um húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta