Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. nóvember 1998

(Malarnám, vegarlagning, beitarland, fjallagrös, veiði, silungsveiði, rjúpnaveiði, hreindýraveiði, 2. gr. laga nr. 11/1973, 45. gr. laga nr. 45/1994, 47. gr. laga nr. 45/1994, vegalög, stjórnarskrá, ónæði, átroðningur, afréttur, umhverfismat)

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 7/1998

Vegagerðin

gegn

Sesselju Níelsdóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Eyþór Einarsson, grasafræðingur, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 11. ágúst 1998, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 18. ágúst 1998, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina, að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 41,6 ha. landspildu úr landi Háreksstaða á Jökuldalsheiði. Þá var einnig krafist mats á bótum fyrir 265.000 m³ af malarefni sem eignarnemi tók eignarnámi úr sömu jörð. Eignarnámsþoli er eigandi Háreksstaða, Sesselja Níelsdóttir, kt. 140725-4559, Marklandi 14, Reykjavík.

Tilefni eignarnámsins er lagning þjóðvegar nr. 1 á nýju vegstæði á svokallaðri Háreksstaðaleið, milli Langadals og Ármótasels. Vegurinn liggur á u.þ.b. 10,4 km. kafla um land Háreksstaða. Vegarlagningin krefst nokkurs magns af marlarefni og því er eignarnám á fyrrgreindu efni nauðsynlegt.

Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þriðjudaginn 18. ágúst 1998. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og gekk matsnefndin, ásamt aðilum á vettvang og kynnti sér aðstæður. Eignarnámsþoli samþykkti að eignarnemi hæfi framkvæmdir við vegargerðina, þó mati væri ekki lokið. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 1. september 1998.

Þriðjudaginn 1. september 1998 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu síðan frestað til frekari framlagningar af hálfu eignarnema til 15. september 1998.

Að beiðni aðila var fyrirtökunni þann 15. september frestað og var málið næst tekið fyrir föstudaginn 18. september 1998. Eignarnemi lagði fram nokkur skjöl og var málinu að því loknu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til mánudagsins 12. október 1998.

Að beiðni lögmanns eignarnámsþola var fyrirtöku málsins þann 12. október frestað og var málið tekið fyrir þann 22. október 1998. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 9. nóvember 1998.

Mánudaginn 9. nóvember 1998 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar án árangurs. Fór þá fram munnlegur flutningur málsins og að honum loknum var málið tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignanemi vísar til þess að samkvæmt 45. gr. vegalaga, sbr. og 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skuli greiða fullar bætur fyrir land sem lagt er undir vegi og jarðefni sem tekið er eignarnámi til vegagerðar. Eignarnemi bendir á að í téðu ákvæði vegalaga sé tekið fram, að engar bætur skuli greiða fyrir eignarnám á óyrktu landi, nema álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það. Af hálfu eignarnema er á því byggt að engar bætur eigi að greiða, takist eignarnámsþola ekki að sýna fram á fjárhagslegt tjón af völdum eignarnáms á óyrktu landi. Eignarnemi vísar einkum til stjórnarskrárinnar, vegalaga og ólögfestra reglna íslensks réttar um ákvörðun eignarnamsbóta varðandi mat á bótum fyrir hið eignarnumda. Eignarnemi vísar til þess að í 47. gr. vegalaga séu gefnar viðmiðanir sem fara beri eftir við mat á bótum fyrir eignarnám samkvæmt vegalögum. Segir þar m.a. í 1. mgr., að taka skuli tillit til árlegs afrakstrar af landi því er um ræði. Ennfremur skuli athuga vandlega allt sem haft geti áhrif á verðmæti þess er meta skuli. Á hinn bóginn skuli taka tillit til hagsbóta sem eignarnámsþolum hlotnist, og haft geti áhrif á verðmæti eigna hans, og virða til lækkunar bótum. Þá bendir eignarnemi á að í 2. mgr. 47. gr. vegalaga sé gert ráð fyrir því, að í einhverjum tilvikum, megi meta bætur fyrir átroðning af völdum þess, að lagður er nýr vegur um lönd eignarnámsþola.

Eignarnemi telur að hið eignarnumda land sé bæði gróið og ógróið svæði. Vísar eignarnemi í þessu sambandi til niðurstöðu gróðurfarsathugunar sem Náttúrufræðistofnun Íslands gerði vegna framkvæmdarinnar og lögð hefur verið fram. Eignarnemi kveður eignarnámsþolum hafa verið boðnar bætur fyrir hið eignarnumda á grundvelli orðsendingar eignarnema nr. 13/1997. Samkvæmt því tilboði hafi andvirði 26 ha. gróins lands verið metnir á kr. 135.200- og 15,6 ha. ógróins lands verið metnir á 11.232-. Að auki hafi verið tekið fram í tilboðinu að kæmi til þess að greiða skyldi bætur fyrir malarefnið, þá væri verðið kr. 4,50 pr. m³ fyrir fyllingarefni, kr. 9,00 pr. m³ fyrir burðarlagsefni og kr. 18,00 pr. m³ fyrir efni í bundin slitlög. Eignarnemi kveður verð í núgildandi orðsendinu, nr. 26/1998, vera óbreytt frá orðsendingu nr. 13/1997. Eignarnemi kveður eignarnámsþola hafa hafnað tilboðinu og því sé það niður fallið og með öllu óskuldbindandi fyrir eignarnema. Eignarnemi bendir á að fasteignamat alls landsins sé einungis kr. 47.000- og því hafi tilboð eignarnema numið u.þ.b. þreföldu fasteignamatsverði jarðarinnar allrar. Eignarnemi kveður tilboðið hafa miðast við að landið væri hefðbundið landbúnaðarland, en það sé í raun einungis sumarbeitarland fyrir sauðfé og því örugglega mun verðminna en gengur og gerist um landbúnaðarland í byggð. Eignarnemi telur eignarnámið ekki hagga á neinn hátt beitarafnotum að því marki að áhrif hafi á búskap, auk þess sem einungis hluti landsins sé nýtilegur sem beitarland.

Eignarnemi telur ekki sýnt fram á að eignarnámið skerði verulega fjallagrasanytjar á svæðinu, enda sé heiðin víðlend og því líkur til að grös finnist víðar en nákvæmlega í hinni fyrirhugðu veglínu. Þá bendir eignarnemi á að nytjarnar virðist ýmsum takmörkunum háðar, þar sem vaxtahraði fjallagrasa sé lítill og því auðvelt að ganga nærri hlunnindunum með oftínslu.

Eignarnemi mótmælir því að nokkur veiðihlunnindi séu í landi Háreksstaða og vísar í því sambandi m.a. til þess að engin slík hlunnindi séu metin til fasteignamatsverðs jarðarinnar. Eignarnemi vísar einnig til þess sem fram kemur í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna vegarlagningarinnar, sem lögð hefur verið fram í málinu, að áhrif vegarins á varp fugla í heiðinni verði óveruleg og sömu sögu er að segja um áhrif hins fyrirhugaða vegar á hreindýr. Þá bendir eignarnemi á að hreindýraveiðar séu háðar miklum takmörkunum og teljist ekki til hefðbundinna veiðihlunninda jarða þar sem fjöldi dýra sem leyfilegt er að veiða ár hvert sé takmarkaður verulega með reglum þar að lútandi. Varðandi almennt ónæði og átroðning telur eignarnemi engin hætta á slíku, enda komi vegurinn til með að liggja víðs fjarri byggð. Telur eignarnemi vegarlagninguna miklu frekar opna möguleika eignarnámsþola til frekari nýtingar jarðarinnar þar sem aðkoma sé nú betri að áður afskekktum hlutum hennar. Þá vísar eignarnemi einnig til þess að samkvæmt arðsemisútreikningum sé einungis gert ráð fyrir að u.þ.b. 105 bílar aki um veginn á dag, þannig að augljóst sé að slík umferð komi ekki til með að valda verulegu ónæði á svæðinu.

Hvað hið eignarnumda malarefni varðar telur eignarnemi að malartekjan fari fram á afréttarlandi sem sé einungis nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé. Eignarráð eignarnámsþola séu því með þeim takmörkunum sem af þessu leiði. Hann geti ekki kallað til eignarréttar yfir jarðefnum þar sem réttur til nýtingar þeirra tilheyri ekki hefðbundnum afnotum eiganda afréttarlands á öræfum. Eignarnemi viðurkennir því ekki bótarétt eignarnámsþola vegna malarnámsins, en óskar engu að síður eftir því að matsnefndin taki afstöðu til verðmætis hins eignarnumda malarefnis. Varðandi mat á efninu bendir eignarnemi á að efnið sé víðs fjarri öllum markaðssvæðum og eini mögulegi kaupandi sé eignarnemi sjálfur. Þá bendir eignarnemi á að mikið magn af möl sé á svæðinu og þörf eignarnema fyrir efni sé veruleg og því sé rétt að meta bæturnar lægri á hvern rúmmetra sem tekinn er.

Eignarnemi mótmælir sérstaklega verðhugmyndum eignarnámsþola sem fram koma í greinargerð hans og telur þær víðsfjarri raunveruleikanum auk þess sem bætur af þeirri stærðargráðu myndu fela í sér óeðlilega auðgun eignarnema vegna eignarnámsins.

V. Sjónarmið eignarnámþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að honum verði ákvarðaðar kr. 50.088.695- í bætur vegna eignarnámsins auk málskostnaðar. Eignarnámsþoli bendir á að Háreksstaðir sé landmikil jörð, u.þ.b. 10.000 ha. að stærð. Jörðin sé víða vel gróin og þannig hátti til á því svæði sem tekið hefur verið eignarnámi að þar séu vaxtaskilyrði fyrir fjallagrös sérstaklega heppileg vegna þurrlendis. Þá sæki hreindýr, rjúpur og gæsir mikið í landið vegna þess hversu gróið það er. Eignarnemi telur fasteignamatsverð jarðarinnar ekki tækt til viðmiðunar varðandi verðmat á bótum, enda sé ekki nein þörf á að finna út heildarverðmæti jarðarinnar, þar sem verðrýrnun sú sem hlýst af vegaframkvæmdunum, sé það sem meta þurfi því það sé raunverulegt tjón eignarnámsþola. Eignarnámsþoli telur einfaldast og réttast að bæturnar séu metnar út frá nýtingu og nýtingarmöguleikum jarðarinnar og þar með afrakstri hennar. Þetta eigi þó ekki við um mat á malarefninu.

Eignarnámsþoli bendir á að fjallagrös séu mikil á svæðinu og hafi þau verið nýtt með skipulögðum hætti undanfarin ár og gefið af sér miklar tekjur. Aðili á Höfn í Hornafirði hafi tínt grös á svæðinu svo árum skipti og hafi greiðslur hans til landeigenda numið kr. 734.540- sl. 5 ár eða kr. 146.908- að meðaltali á ári. Eignarnámsþoli hefur m.a. lagt fram rekstar- og efnahagsreikninga þess aðila sem stundað hefur fjallagrasatínslu á svæðinu. Eignarnámsþoli telur þessi gögn sýna svo ekki verði um villst að nýting grasanna geti verið verulega ábótasöm. Eignarnámsþoli bendir á að aðal fjallagrasasvæðið sé einmitt á því svæði sem fyrirhugað er að hinn nýi vegur liggi. Þá telur eignarnámsþoli að nýtinarmöguleikar grasa annars staðar í heiðinni munu verulega spillast með tilkomu vegarins, þar sem sölumöguleikar grasanna byggist að verulegu leiti á því að um hreina náttúruafurð sé að ræða. Mengun af völdum aukinnar umferðar geti hæglega sett verulegt strik í reikninginn hvað þetta varði, auk þess sem verulega aukin hætta sé á að óviðkomandi tíni grös á ferðalagi sínu um veginn. Eignarnámsþoli bendir á að markaður fyrir fjallagrös fari nú stækkandi og mikil þróunarstarfsemi sé á þessu sviði. Eignarnámsþoli telur að verðrýrnun jarðarinnar vegna vegarlagningarinnar eigi m.a. að reikna út frá skertum tekjumöguleikum af fjallagrasatínslu.

Eignarnámsþoli telur að miða verði við það við ákvörðun bótanna að eignarnemi sjálfur hefði sjálfur getað tínt nefnd fjallagrös. Miðað við meðaltalstínslu sl. ára hefði mátt gera ráð fyrir u.þ.b. 1.193 kg. á ári af grösum sem hefði mátt selja á kr. 1.500- pr. kg. Eignarnámsþoli telur ekki ólíklegt að eignarnámsþoli hefði getað tínt meira magn og fengið hærra verð fyrir það og gerir því ráð fyrir því að heildartekjur á ári hefðu getað numið kr. 2.000.000- á ári. Með hliðsjón af þessu telur eignarnámsþoli að bætur vegna missis fjallagrasaréttindanna skuli reikna út með eftirfarandi hætti:

Heildartekjur á ári kr. 2.000.000-

Kostnaður við tínslu (laun og tæki)( kr. 400.000- )

Hagnaður kr. 1.600.000-

Tekjuskattur 39,02%( kr. 624.320- )

Nettó tekjurkr. 975.680-

Vaxtatekjur 975.680-/0,9 kr. 1.084.089-

Fjármagnstekjuskattur 1.084.089- x 10% kr. 108.409-

Höfuðstóll, 5% vaxtafótur 1.084.089-/0,05 kr. 21.681.780-

Tekjuskattur 39.02% 21.681.780/0,6098 kr. 35.555.556-

Eignarnámsþoli telur með vísan til ofangreindra útreikninga að einungis bætur að fjárhæð kr. 35.555.556- geti tryggt að hann verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni af missi fjallagrasahlunninda vegna vegarlagningarinnar.

Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega að malarefni í landi Háreksstaða sé verðlaust eins og haldið er fram af eignarnema. Eignarnámsþoli bendir á að eignarnemi hafi þegar samþykkt að greiða fyrir mölina og hljóti sú yfirlýsing að teljast bindandi. Þá vísar eignarnámsþoli einnig til dóms Hæstaréttar frá árinu 1993 bls. 1538, þar sem því sé slegið föstu að malarefni hafi verðgildi í sjálfu sér sem beri að bæta, jafnvel þótt óvíst sé um hvort að annar markaður sé fyrir hendi, hvort efnið geti nýst til annars en til vegagerðar og þrátt fyrir að malarefni hafi líklega verið óþrjótandi í landi eignarnámsþola. Eignarnámsþoli gerir ekki sérstaka athugasemd við útreikninga eignarnema á magni hins eignarnumda malarefnis, en telur að til viðbótar skuli einnig bæta þá möl sem fer undir hinn nýja veg. Telur eignarnámsþoli þetta efni vera um 25.000 m³ og því sé heildarmagn malarefnis sem greiða eigi bætur fyrir 300.000 m³. Eignarnámsþoli telur að við mat á verðmæti malarinnar skuli m.a. líta til þess að kostnaður við efnistökuna sé óverulegur vegna góðs aðgangs að malarnánunum auk þess sem hinn nýji vegur liggi mjög nærri námunum. Eignarnámsþoli vísar til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta frá 20. júní 1998 í máli Vegagerðarinnar gegn Pétri Guðmundssyni og frá 30. apríl 1998 í máli Vegagerarinnar gegn eigendum Miðfells, varðandi verð á hinu eignarnumda malarefni. Eignarnámsþoli telur með vísan til þessara úrskurða og atvika allra að hæfilegar bætur fyrir malarefnið séu kr. 20 pr. m³ eða samtals kr. 6.000.000- fyrir allt efnið.

Eignarnámsþoli telur auk ofangreinds að greiða skuli bætur fyrir skerðingu á veiðihlunnindum á jörðinni, en þar sé hægt að veiða hreindýr, rjúpu, gæsir og silung. Eignarnámsþoli telur ljóst að þessi hlunnindi muni skerðast vegna vegarlagningarinnar og þess ónæðis sem aukin umferð komi til með að hafa á svæðinu, og þá skerðingu beri að bæta. Útreikningur eignarnámsþola á þessum þætti er eftirfarandi:

Hreindýr kr. 150.000-

Rjúpa og gæsir kr. 200.000-

Silungurkr. 30.000-

Tekjuskerðing á árikr. 380.000-

Tekjuskerðing kr. 380.000-

Kostnaður( kr. 50.000- )

Hagnaður kr. 330.000-

Tekjuskattur 39,02%( kr. 105.666- )

Nettó tekjurkr. 224.334-

Vaxtatekjur 224.334-/0,9 kr. 249.260-

Fjármagnstekjuskattur 10% kr. 22.433-

Höfuðstóll 5% vaxtafótur 249.260- / 0,05 kr. 4.985.200-

Tekjuskattur 39,02% (4.985.200/0,6098) kr. 8.175.139-

Með vísan til framangreindra útreikninga telur eignarnámsþoli að hæfilegar bætur fyrir skert veiðihlunnindi séu kr. 8.175.139-.

Eignarnámsþoli gerir, auk þess sem að framan greinir, kröfu um kr. 208.000- (40 ha. x kr. 5.200-) í bætur fyrir skerðingu á beitarréttindinum vegna lagningar vegarins og kr. 150.000- í bætur fyrir átroðning, ónæði og óhagræði við nýtingu landsins.

Samtals gerir því eignarnámsþoli eftirfarandi kröfu vegna eignarnámsins:

Fjallagrös kr. 35.555.556-

Veiðihlunnindi kr. 8.175.139-

Malarnám kr. 6.000.000-

Beitarréttur kr. 208.000-

Átroðningur o.fl.kr. 150.000-

Samtalskr. 50.088.695-

Að auki gerir eignarnámsþoli kröfu til málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

VI. Álit matsnefndar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Þá hafa ýmis gögn verið lögð fram í málinu, þ.m.t. nákvæm skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna vegarlagningarinnar, ásamt fylgigögnum.

Að áliti matsnefndarinnar er allt hið eignarnumda land vel gróið beitarland. Þá liggur fyrir að hluti gróðurs á svæðinu eru fjallagrös sem nýtt hafa verið í gegnum tíðina. Ljóst er að hinn fyrirhugaði vegur mun liggja á gjöfulasta fjallagrasasvæðinu. Ekki er þó fallist á það með eignarnámsþola að vegarlagningin muni eyðileggja möguleika á nýtingu fjallagrasa annars staðar í landi eignarnámsþola, enda virðist útbreiðsla fjallagrasa vera nokkuð mikil á svæðinu.

Fallist er það með eignarnámsþola að hið eignarnumda malarefni sé aðgengilegt fyrir eignarnema og ber að líta til þess við ákvörðun bóta fyrir það. Á hitt er hins vegar einnig að líta, að efnið er utan allra markaðssvæða og óraunhæft að nokkur eftirspurn verði eftir marlarefninu af hálfu annarra en eignarnema.

Með hliðsjón af því hversu vel gróið land eignarnámsþola er og því að hinn nýji vegur mun skera landið á góðum hluta þess, þykir matsnefndinni verðlagning eignarnema á beitarlandi sem kemur fram í orðsendingu nr. 26/1998, sem lögð hefur verið fram í málinu, ekki gefa rétta mynd af verðmæti hins eignarnumda lands í máli þessu. Eignarnámið tekur til lands sem er 41,6 ha. að stærð. Með hliðsjón af framansögðu og aðstæðum öllum þykir matsnefndinni hæfilegar eignarnámsbætur fyrir það land vera kr. 300.000-. Ekki þykja efni til að greiða að auki bætur fyrir missi beitarafnota landsins svo sem krafist er af eignarnámsþola.

Ekki er fallist á útreikninga eignarnámsþola hvað varðar meint tjón hans vegna röskunar á fjallagrasalendum á jörðinni. Fyrir liggur að leigutekjur eignarnámsþola vegna grasatínslu á svæðinu hafa numið kr. 146.908- á ári að meðaltali sl. 5 ár. Verður að líta til þeirrar fjárhæðar við mat á bótum vegna eignarnámsins nú. Ekki hefur verið sýnt fram á að tekjur eignarnámsþola af fjallagrösum falli alfarið niður vegna eignarnámsins, enda er fjallagrös að finna víða í landi Háreksstaða. Þá er einnig á það bent að mengunarhætta er mjög óveruleg vegna lítillar umferðar um hinn nýja veg auk þess sem fjallagrösin eru mikinn hluta ársins undir snjó og taka því ekki í sig loftmengun á þeim tíma. Ekki verður séð að útreikningur sá sem eignarnámsþoli hefur lagt fram yfir mögulegar tekjur hans af fjallagrasatínslu gefi raunhæfa mynd af tjóni hans vegna eignarnámsins. Með hliðsjón af framanrituðu þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna skerðingar á fjallagrasalendum vera kr. 900.000-.

Að áliti matsnefndarinnar þykir rétt að líta til orðsendingar eignarnámsþola við mat á bótum fyrir hið eignarnumda malarefni. Fyrir liggur að 173.000 m³ af malarefninu munu verða notaðir sem fyllingarefni, 72.500 m³ sem neðra burðarlagsefni og 19.500 m³ sem efra burðarlagsefni. Hæfilegar bætur fyrir malarefnið teljast vera kr. 1.606.500-. Ekki er fallist á kröfu um að greiddar verði sérstakar bætur fyrir malarefni sem fyrir er á svæði því sem tekið er eignarnámi og hinn nýji vegur mun liggja um, enda telst eignarnemi hafa greitt fyrir það efni með greiðslu bóta fyrir landið.

Að áliti matsnefndarinnar hefur eignarnámsþoli ekki sýnt fram á neitt tjón á veiðihlunnindum vegna eignarnámsins og ekki þykja efni til að ákvarða sérstakar bætur fyrir ónæði eða truflun af völdum eignarnámsins, enda verður ekki séð að sú truflun rýri verðgildi jarðarinnar nokkuð.

Með vísan til framanritaðs þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna eignarnámsins vera kr. 2.806.500-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 357.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 480.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Sesselju Níelsdóttur, kt. 140725-4559, Markarlandi 14, Reykjavík, kr. 2.806.500- í eignarnámsbætur og kr. 357.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 480.000- í ríkissjóð í kostnað vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

_________________________________

Helgi Jóhannesson

Vífill Oddsson                                    Eyþór Einarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta