Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 18. ágúst 1998

Þriðjudaginn 18. ágúst 1998 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 4/1998

Vegagerðin

gegn

Eigendum Eyja I og II,

Kaldrananeshreppi, Strandasýslu.

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 6. mars 1998, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 19. mars 1998 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 11,13 ha. landspildu úr landi Eyja I og II, Kaldrananeshreppi. Þá var einnig krafist mats á bótum fyrir 11.000 m³ af burðarlagsefni sem ráðgert er að taka úr tveimur námum í landi Eyja. Tilefni eignarnámsins er lagning nýs vegar á svæðinu.

Stærð hins eignarnumda lands er þannig til komin:

Land undir vegsvæði

16,5 ha.

Land undir skeringar

1,23 ha.

Frádráttur v. vegsvæðis gamals vegar

-6,60 ha.

Samtals

11,13 ha.

Eignarnámsþolar eru eftirtaldir eigendur jarðanna Eyjar I og II, en hið eignarnumda er hluti úr óskiptu landi jarðanna:

Eigendur Eyja I:

Benjamín Sigurðsson, kt. 301017-3169, Kaplaskjólsvegi 29, Reykjavík.

Fanney Sigurðardóttir, kt. 200642-3829, Framnesvegi 11, Reykjavík

Siguður Hólm Sigurðsson, kt. 040346-2799, Greniteig 7, Keflavík.

Guðrún Sigurðardóttir, kt. 080249-2259, Njálsgötu 112, Reykjavík.

Kristjana Guðjónsdóttir, kt. 050955-5009, Berjarima 6, Reykjavík.

Sigþrúður Sigurðardóttir, kt. 061015-4779, Kleppsvegi 64, Reykjavík.

Bernódus Sigurðsson, kt. 190920-4619, Laugavegi 161, Reykjavík.

Guðmundína Sigurðardóttir, kt. 010129-2149, Hringbraut 128, Keflavík.

Anna Andrésdóttir, kt. 190662-3069, Klapparstíg 3, Keflavík.

Guðmar Andrésson, kt. 310155-4549, Keilufelli 12, Reykjavík.

Guðrún Ingibjörg Andrésdóttir, kt. 101260-2599, Brekkulæk, Akureyri.

Andrea Sigurrós Andrésdóttir, kt. 150965-3499, Hjallagötu 6, Sandgerði.

Eigendur Eyja II:

Sigurður Gizurarson, kt. 020339-4709, Víkurströnd 6, Seltjarnarnesi.

Halldór Svansson, kt. 040145-7299, Bergstaðastræti 28b, Reykjavík.

Bjarni E. Thoroddsen, kt. 080245-3439, Fífuseli 18, Reykjavík.

Sigurður Ingi Sigmarsson, kt. 200342-4029, Dimmuhverfi 9, Kópavogi.

Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 19. mars 1998. Til þess fundar voru allir eignarnámsþolar boðaðir með ábyrgðarbréfi dags. 10. mars 1998. Eignarnámsþolinn Sigurður Gizurarson mætti og lagði hann undir rekstri málsins fram málflutningsumboð sér til handa frá eftirtöldum eignarnámsþolum: Benjamín Sigurðssyni, Halldóri Svanssyni, Bjarna E. Thoroddsen, Sigurði Inga Sigmarssyni, Fanneyju Sigurðardóttur, Sigurði Hólm Sigurðssyni, og Guðmari Andréssyni. Aðrir eignarnámsþolar sinntu ekki boðun. Við fyrstu fyrirtöku málsins lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu um ótiltekinn tíma.

Fimmtudaginn 14. maí 1998 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Sættir voru reyndar en án árangurs. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerða af hálfu aðila til 12. júní 1998.

Föstudaginn 12. júní 1998 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgigögnum en samkomulag varð um að eignarnámsþolar fengju frest til 30. júlí 1998 til framlagningar greinargerðar af sinni hálfu.

Fimmtudaginn 30. júlí 1998 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð auk fleiri gagna. Aðilar og matsmenn voru sammála um að munnlegur flutningur málsins væri óþarfur og var málið því, að framlagningunni lokinni, tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er gerð krafa til þess að bætur fyrir hið eignarnumda land og burðarlagsefni verði ákvarðaðar með hliðsjón af verðum í framlagðri orðsendingu eignarnema nr. 13/1997 um landbætur o.fl. Með vísan til orðsendingarinnar er gerð krafa um að bætur til eignarnámsþola verði eftirfarandi:

Andvirði 16,5 ha. lands undir vegsvæði

kr. 85.800-

Andvirði 1,23 ha. lands undir skeringar

kr. 6.396-

Frádráttur v. 6,60 ha. vegsvæðis gamla vegar

(kr. 34.320-)

Bætur alls fyrir eignarnumið land

kr. 57.876-

Bætur fyrir 11.000 m³ burðarlagsefnis

kr. 99.000-

Samtals

kr.156.876-

Af hálfu eignarnema er sérstaklega vísað til 45. gr. vegalaga sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 47. gr. vegalaga varðandi mat á bótum fyrir hið eignarnumda. Eignarnemi tekur fram að ekki sé búið á jörðunum og því hafi eignarnámið ekki í för með sér röskun á búskap eða búskaparaðstöðu. Þá er sérstaklega tekið fram að enginn hafi fasta búsetu á jörðinni.

Eignarnemi bendir á að hinn nýji vegur muni að mestu leyti liggja á sama stað og núverandi vegur er fyrir utan u.þ.b. 1.000 m. kafla þar sem veglínan er færð ofar í landið. Þá er meiningin að leggja veginn á nýjum stað yfir Fossá. Breytingin sem verður felst einkum í breikkun og hækkun vegarins og breyttri legu hans til samræmis við nútíma kröfum um þægindi og öryggi í akstri.

Eignarnemi bendir á að engin skerðing verði á ræktun eða ræktunarlandi. Frádrátt gamla vegsvæðisins frá hinu eignarnumda byggir eignarnemi á áðurnefndu ákvæði í 2. mgr. 47. gr. vegalaga. Eignarnemi tekur sérstaklega fram að hafi eignarnámsþolar eða fyrri eigendur eignast bótarétt á hendur eignarnema vegna gamla vegarins, hljóti sá réttur að vera löngu niður fallinn vegna fyrningar og álitaefni því tengd vart til úrlausnar í máli þessu. Af hálfu eignarnema er við það miðað að vegsvæði gamla vegarins sé 12 m. breytt að meðaltali.

Varðandi hið eignarnumda malarefni tekur eignarnemi fram að efnið sé nýtanlegt í burðarlagsefni en það hafi óheppilega kornadreifingu. Þá bendir eignarnemi á að aðrir nýtingar eða sölumöguleikar á efninu séu ekki fyrir hendi.

Að mati eignarnema eru fyrirhugaðar framkvæmdir til verulegra hagsbóta fyrir eignarnámsþola þar sem núverandi vegur um land Eyja krefjist verulegara endurbóta til að geta talist fullnægjandi miðað við nútíma kröfur um gæði vega.

Eignarnemi bendir á að ekki liggi fyrir nein gögn um verðmæti malarefnis eða lands á þessu svæði og því beri að líta til orðsendingar hans nr. 13/1997, en haft sé samráð við Bændasamtök Íslands við útgáfu hennar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar gera kröfu til þess að bætur fyrir hið eignarnumda verði metnar mun hærri en sú fjárhæð sem eignarnemi telur raunhæfa. Telja eignarnámsþolar bætur að fjárhæð kr. 600.000- nær lagi. Eignarnámsþolar benda á að jörðin Eyjar í Kaldrananeshreppi sé afar sérstæð landareign, náttúrufegurð mikil og jörðin hafi verið ein auðugasta jörð Strandasýslu á sl. öld þar sem hlunnindi voru þar mikil. Eignarnámsþolar telja að jörðin eigi eftir að verða afar vinsælt sumarhúsa- og útivistarsvæði á komandi árum.

Eignarnámsþolar telja vandséð að hægt sé að svipta þá umráðum yfir landi sínu eða fella kvaðir á umráð yfir því nema þeir verði af þeim sökum fyrir óhagræði eða öðru tjóni. Eignarnámsþolar benda sérstaklega á að undirlendi á jörðinni sé mjög lítið og landræman fyrir framan Bolafjöll þoli ekki að mikið sé tekið af henni svo að ógerlegt verði eða lítt eftirsóknarvert að reisa þar sumarhús.

Eignarnámþolar telja að við mat á bótum fyrir hið eignarnumda skuli, eins og tekið er fram í 1. mgr. 47. gr. vegalaga, líta til árlegs afraksturs af landinu sem meta skal. Eignarnámsþolar telja þó að einnig beri að líta til þeirra vona sem bundnar eru við framtíðarnýtingu jarðarinna og að við það mat verði m.a. að huga að því hversu vel jörðin er fallin til útivistar og sumarhúsabyggðar, sem líkleg er til að verða að veruleika á nætu áratugum.

Eignarnámsþolar mótmæla því að einungis verði tiltið til markaðsverðs við ákvörðun bóta í máli þessu. Telja þeir að leggja skuli til grundvallar nytjavirði fasteignarinnar ef með þeim mælikvarða sé hægt að sýna fram á meira tjón en með mati byggðu á markaðsverði. Eignarnámsþolar telja að nytjavirðishugtakið geti í raun verið þvíþætt. Annars vegar einstaklingslegt nytjavirði og hins vegar hlutlægt nytjavirði og beri að miða við þá aðferð sem gefi hærri niðurstöðu.

Eignarnámsþolar mótmæla því að eignarnemi geti dregið vegsvæði gamla vegarins frá því svæði sem greiða skuli bætur fyrir nú. Í þessu sambandi halda eignarnámsþolar því fram að ekki sé um fullkominn beinan eignarrétt eignarnema að ræða yfir landsvæðinu undir gamla veginum, enda hafi eignarnemi einungis öðlast ítaksrétt yfir því landi, þar sem hann hafi ekki haft vörslur landsins, sem sé skilyrði fyrir því að eignarnemi geti hafa eignast landið fyrir hefð. Eignarnámsþolar vísa í þessu sambandi til 7. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.

Eignarnámsþolar benda á að þrátt fyrir að á jörðinni sé enginn búskapur stundaður hafi fólk dvalist stóran hluta ársins á jörðinni og nytjað hlunnindi hennar s.s. hrognkelsi, reka og eggver. Þá séu sérstaklega hagstæð skilyrði í eyjunum til æðarræktar.

Varðandi hið eignarnumda malarefni benda eignarnámsþolar á að eignarnámsþolum hafi oft verið úrskurðaðar eða dæmdar bætur fyrir malartöku, jafnvel þó engum öðrum kaupendum efnisins hafi verið til að dreifa.

VI. Álit matsnefndar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin gengið og vettvang og kynnt sér aðstæður. Fallast ber á það með eignarnámsþolum að undirlendi jarðarinnar sé afar lítið og því öll skerðing á því bagaleg. Þá mun hinn nýji vegur á köflum liggja mjög nærri fallegri og ósnortinni strandlengjunni. Á hitt ber hins vegar að líta að hið eignarnumda land er stórgrýtt og ónýtanlegt til ræktunar. Náttúrufegurð er mikil á svæðinu og eru ferðalög um Strandir vinsæl yfir sumartímann. Ekkert liggur þó fyrir um að eftirspurn sé eftir sumarbústaðalóðum í landi Eyja. Ekki liggja fyrir nein gögn um verðmæti sambærilegs lands á svæðinu, þá liggja ekki heldur fyrir upplýsingar um mögulegt tekjutap eignarnámsþola vegna eignarnámsins. Við matið telst því rétt að líta nokkuð til orðsendingar eignarnema að teknu tilliti til aðstæðna í máli þessu, sem lýst hefur verið.

Fallast ber á það með eignarnema að til frádráttar því landi sem tekið er eignarnámi nú skuli koma vegsvæði hins gamla vegar sem um landið liggur með vísan til 2. mgr. 47. gr. vegalaga.

Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar bætur fyrir 11,13 ha. land eignarnámsþola í máli þessu vera kr. 90.000-. Matsfjárhæð breytist ekki þó fyrirhuguð veglína breytist lítilsháttar.

Við mat á 11.000 m³ burðarlagsefnis ber að líta til þess að efnið er utan markaðssvæða. Ekkert liggur fyrir um mögulega nýtingu þess til annars en í burðarlagsefni fyrir eignarnema. Þá þykir ljóst að efnistakan muni ekki rýra verðmæti jarðarinnar vegna sjónmengunar. Með vísan til þessa þykja hæfilegar bætur fyrir malarefnið vera kr. 99.000-.

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 360.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, eigendum jarðanna Eyja I og II, Kaldrananeshreppi, Strandasýslu, kr. 189.000- í bætur fyrir hið eignarnumda land og malarefni.

Þá greiði eignarnemi eignarnámsþolum kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 360.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Helgi Jóhannesson, hrl., formaður

Vífill Oddsson, verkfr.

Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta