Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 98/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 98/2018

Miðvikudaginn 11. apríl 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. mars 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála þá afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að ekki væri heimilt að greiða uppbót/styrk til bifreiðakaupa ef áður hefði verið veitt uppbót/styrkur vegna sömu bifreiðar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi til Tryggingastofnunar ríkisins 6. janúar 2018 greindi kærandi frá því að hann hefði hug á að kaupa bifreið sem hann hafi áður fengið styrk frá stofnuninni til að kaupa. Kærandi spurði hvort stofnunin myndi veita honum styrk vegna þessara hugsanlegu bifreiðakaupa. Með tölvubréfi Tryggingastofnunar til kæranda 9. janúar 2018 var honum greint frá því að styrkur/uppbót mætti ekki hafa verið greidd áður vegna sömu bifreiðar. Sama dag óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir svari stofnunarinnar. Rökstuðningur barst með tölvubréfi Tryggingastofnunar 13. febrúar 2018. Í rökstuðningnum kemur meðal annars fram að það sé meginregla að ekki sé hægt að fá tvisvar greitt vegna sama hlutarins, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í samræmi við þessa meginreglu sé það verklag hjá Tryggingastofnun að veita ekki uppbót/styrk vegna sömu bifreiðar oftar en einu sinni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. mars 2018.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. janúar 2018 um að honum sé óheimilt að kaupa aftur bifreiðina X og nota til þess uppbót til bifreiðakaupa frá stofnuninni verði endurskoðuð.

Í kæru kemur meðal annars fram að í svari Tryggingastofnunar við fyrirspurn kæranda segi: „Styrkur/uppbót má ekki hafa verið greiddur áður vegna sömu bifreiðar“. Kærandi greinir frá því að X 2009 hafi hann keypt sér bifreiðina X og fengið til kaupanna uppbót til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun. Þann X 2013 hafi hann selt bifreiðina. Þá eru gerðar athugasemdir við túlkun Tryggingastofnunar ríkisins á 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Í kæru gerir kærandi jafnframt ýmsar athugasemdir við verklag Tryggingastofnunar, meðal annars rafræn samskipti stofnunarinnar. Einnig gerir kærandi athugasemdir við að uppbót vegna reksturs bifreiðar hafi verið stöðvuð hjá honum á árinu 2013.

III. Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af kæru verði ráðið að hún lúti einungis að afgreiðslu stofnunarinnar frá 9. janúar 2018, enda er gerð skýr krafa um að sú afgreiðsla verði endurskoðuð. Fyrir liggur að með tölvubréfi til Tryggingastofnunar ríkisins 6. janúar 2018 spurðist kærandi fyrir um hvort hann fengi styrk til bifreiðakaupa ef hann keypti bifreið sem hann hafi áður fengið styrk frá stofnuninni til að kaupa. Með hinni kærðu afgreiðslu, þ.e. tölvubréfi Tryggingastofnunar til kæranda 9. janúar 2018, var kæranda greint frá því að styrkur/uppbót megi ekki hafa verið greidd áður vegna sömu bifreiðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af framangreindu megi ráða að í tölvubréfi Tryggingastofnunar frá 9. janúar 2018 felist einungis svar við fyrirspurn kæranda frá 6. janúar 2018 en ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Afgreiðslan er því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Í þeim tilgangi að upplýsa málið nægilega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hvort stofnunin hefði tekið stjórnvaldsákvörðun varðandi fyrirhuguð bifreiðakaup kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur engin umsókn borist frá kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og því liggur ekki fyrir formleg ákvörðun í málinu.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta