Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2008. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. febrúar 2009

í máli nr. 25/2008:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum            

Hinn 29. desember 2008 kærði Logaland ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði í útboðinu „14451: Blóðflokkunarvélar fyrir Blóðbanka Landspítala háskólasjúkrahús“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefndin stöðvi þegar í stað innkaupaferli eða gerð samnings við Fastus ehf., á grundvelli ofangreinds útboðs, sbr. meðfylgjandi tilkynningu í tölvupósti frá Ríkiskaupum, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 2. Að nefndin felli úr gildi ákvörðun kaupanda vegna kaupanna og leggi fyrir hann að auglýsa útboð á nýjan leik eða hann felli niður tiltekna ólögmæta skilmála í útboðsgögnum.

 3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda.

 4. Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða Ríkiskaup greiði umbjóðanda mínum kostnað við að hafa kæruna uppi.“

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi, dags. 28. janúar 2009, krafðist kærði þess að hafnað yrði kröfu kæranda. Kærandi sendi athugasemdir við greinargerð kærða, dags. 1. og 2. febrúar 2008.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar. 

I.

Í júní 2008 auglýsti kærði eftir tilboðum í blóðflokkunarvélar, handvirk tæki til blóðflokkunar og skimunar á blóðflokkunarmótefnum ásamt hvarfefnum. Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og með tölvupósti, dags. 18. desember 2008, tilkynnti kærði að „ákveðið [hefði] verið að velja tilboð II frá Fastusi ehf.“.

                                                          II.

Kærandi telur að rökstuðningur fyrir vali tilboðs hafi verið ófullnægjandi. Þá telur kærandi að mat á tilboði hans hafi verið haldið alvarlegum göllum, m.a. að kærði hafi farið rangt með staðreyndir.

 

III.

Kærði segir að við endurmat tilboða í janúar 2009 hafi komið í ljós að tilboð það sem talið var hagstæðast, þ.e. tilboð Fastusar merkt tilboð II, hafi reynst ógilt. Við endurmat tilboða hafi jafnframt komið fram að af þeim tilboðum sem voru gild hafi tilboð Fastusar merkt I verið hagstæðast en tilboð kæranda hafi verið þriðja hagstæðast. 

IV.

Í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 kemur fram að ef kærunefnd útboðsmála telur að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum geti hún, eftir kröfu kæranda, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Samkvæmt 71. gr. laga nr. 84/2007 skal kaupandi eingöngu líta til gildra tilboða við ákvörðun um gerð samnings. Kærði hefur þegar lýst því yfir að tilboðið sem tekið var „reyndist vera ógilt“. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd útboðsmála verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 og því sé rétt að stöðva hið kærða innkaupaferli.

                                              

                                                 Ákvörðunarorð:

Innkaupaferli í kjölfar útboðsins „14451: Blóðflokkunarvélar fyrir Blóðbanka Landspítala háskólasjúkrahús (Tender no. 14451: Automated and manual micro column technique system and supplies for blood grouping, phenotyping, screening and identification of blood group antibodies)“ er stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

  

 

                                                               Reykjavík, 2. febrúar 2009.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson                                                             

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 2. febrúar 2009.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta