Mál nr. 25/2008
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 19. febrúar 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 25/2008.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 1. september 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 7. ágúst 2008. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, var hafnað. Með kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, móttekinni 17. október 2008, krefst kærandi þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði breytt og honum úthlutað atvinnuleysisbótum frá og með 7. ágúst 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að málinu verði vísað aftur til stofnunarinnar.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 7. ágúst 2008 en samkvæmt vinnuveitendavottorði var honum sagt upp vegna samdráttar. Þann 14. ágúst 2008 frestaði Vinnumálastofnun að taka afstöðu til umsóknar kæranda þar sem hann hafði unnið hjá hlutafélaginu X ehf. sem hann var sjálfur eigandi að. Jafnframt bentu upplýsingar úr opinberum skrám til þess að kærandi væri formaður stjórnar félagsins, ritaði firmu þess ásamt meðstjórnanda og væri með prókúruumboð. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 14. ágúst 2008, var þessi ákvörðun kynnt og óskað eftir því að hann legði í fyrsta lagi fram yfirlit yfir greiðslu tryggingagjalds síðastliðna tólf mánuði, í öðru lagi yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess og í þriðja lagi tiltekin gögn er staðfesta kynnu stöðvun rekstrar. Í bréfinu var tekið fram að umbeðnar upplýsingar þyrftu að berast Vinnumálastofnun innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins en að öðrum kosti myndi ákvörðun stofnunarinnar byggjast á fyrirliggjandi gögnum.
Þegar hvorki gögn né skýringar bárust frá kæranda innan tilskilins frests var hin kærða ákvörðun tekin þann 1. september 2008 og kynnt kæranda með bréfi dagsettu 3. september 2008. Ákvörðunin var reist á 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að mati stofnunarinnar uppfyllti kærandi ekki skilyrði f-, g- og h-liða þeirrar greinar.
Kæran var móttekin 17. október 2008 og með henni fylgdi ítarlegur rökstuðningur kæranda. Kærandi telur sig ekki hafa verið sjálfstætt starfandi einstakling í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar heldur hafi hann verið launamaður. Þetta byggir hann á skilgreiningu b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Að hans mati hafi ekki verið lögð sú skylda á hann að gera upp reglulega staðgreiðslu sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Hann hafi þvert á móti verið launamaður þar til að honum hafi verið sagt upp. Af launum hans hafi verið greitt samkvæmt lögum um tryggingagjald. Fyrrverandi vinnuveitandi hans hafi verið persóna að lögum og því „aðrir“ í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hugtakið launamaður er skilgreint. Kærandi telur að engu máli skipti þótt hann eigi hlut í félaginu sem hann áður starfaði hjá, ekki síst vegna þess að hann eigi ekki meirihluta í félaginu. Með rökstuðningi kæranda fylgdi vottorð frá Skattstjóranum í R, dags. 17. október 2008, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekkert reiknað endurgjald greitt á árinu 2008. Annað vottorð frá Skattstjóranum, einnig dags. 17. október 2008, gefur til kynna að kærandi hafi fengið 300.000 kr. laun fyrstu sex mánuði ársins 2008. Kærandi bendir á að X ehf. sé enn í fullum rekstri og hann komi þar hvergi nærri daglegum rekstri eða störfum enda er hann þar ekki á launaskrá eftir að störfum hans sem launamanns lauk. Að mati kæranda á 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki við í hans tilviki þar sem hann hafi ekki verið sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Athugasemdir Vinnumálastofnunar bárust úrskurðarnefndinni 4. desember 2008. Að mati Vinnumálastofnunar telst kærandi sjálfstætt starfandi einstaklingur þar sem hann taldist starfa við rekstur eigin einkahlutafélags þar sem hann hafði ráðandi stöðu vegna eignar- og stjórnunaraðildar. Samkvæmt f-, g- og h-liðum 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þarf sjálfstætt starfandi einstaklingur að hafa stöðvað rekstur, sbr. 20. gr., leggja fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr., og hafa staðið skil á greiðslu tryggingargjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi ekki lagt fram umbeðin gögn vegna sjálfstæðrar starfsemi þrátt fyrir ósk þar að lútandi. Að mati stofnunarinnar voru þær skýringar sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefndina ekki stofnuninni kunnar áður en hún afgreiddi umsókn hans. Stofnunin krefst þess því á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að málinu verði vísað aftur til stofnunarinnar.
Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, mótteknu 22. desember 2008, kom hann á framfæri enn frekari athugasemdum sínum við málatilbúnað Vinnumálastofnunar. Hann hafnar þeirri kröfu stofnunarinnar að málinu verði vísað til hennar aftur og fer fram á það að úrskurðarnefndin ljúki málinu. Þetta byggir hann aðallega á því að hann hafi ekki sýnt tómlæti á meðan málið var til meðferðar hjá Vinnumálastofnun þar sem frá upphafi málsins hafi legið ljóst fyrir að hann væri ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur. Hann hafi komið þeim skilningi á framfæri með símtölum sínum við starfsmenn Vinnumálastofnunar. Kærandi vísaði jafnframt til tölvupóstsamskipta sem hann hafði haft við starfsmenn Vinnumálastofnunar áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Að mati kæranda skipta eignir hans ekki máli við afgreiðslu umsóknar hans og ótækt sé að opinber stofnun leggi að mönnum að afsala sér eigum sínum með þeim hætti sem starfsmenn Vinnumálastofnunar gera. Að lokum segir í bréfi kæranda: „Ég álít almannahagsmuni standa til þess að úr máli þessu verði skorið af kærunefndinni og ítreka því kröfu mína um að nefndin snúi við úrskurði Vinnumálastofnunar.“
Vinnumálastofnun var sent nefnt bréf kæranda og meðfylgjandi gögn þess til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 29. desember 2008.
2.
Niðurstaða
Krafa Vinnumálastofnunar um að málinu verði vísað aftur til afgreiðslu stofnunarinnar er reist á 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga en þar kemur efnislega fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt, eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kærandi hefur hafnað því að málið verði fengið Vinnumálastofnun að nýju til endurumfjöllunar. Kröfu Vinnumálastofnunar er því hafnað.
Í b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er skilgreint hvað felst í hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Ákvæðið hljóðar svo:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur:Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Sá sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári telst ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga þessara.“
Fyrri málsliður ákvæðisins byggir á því að viðkomandi einstaklingur hafi haft ráðandi stöðu í félagi því sem greiðir honum laun, vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Óumdeilt er að félagið X ehf. greiddi kæranda laun hans. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár var kærandi annar stofnenda félagsins, stjórnarformaður, prókúruhafi og ritaði firma þess með hinum stofnanda félagsins. Kærandi hafði því ráðandi stöðu í félaginu samkvæmt almennum skilningi á fyrri hluta b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki er unnt að horfa framhjá upplýsingum hlutafélagaskrár og skal miða við að þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar.
Í síðari málslið ákvæðisins kemur fram að ekki sé nægilegt að umsækjandi um atvinnuleysisbætur hafi ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar í félagi til að teljast „sjálfstætt starfandi“ heldur þarf starf hans í þágu félagsins að hafa verið í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi.
Áhersla er hér lögð á umfang vinnu hins sjálfstætt starfandi einstaklings og skal umfang hennar vera slíkt að honum beri reglulega að standa skil á staðgreiðslu af launum sínum. Ef umfang vinnunnar er á hinn bóginn svo lítið að einstaklingur fái heimild skattyfirvalda til að greiða staðgreiðslu aðeins einu sinni á ári telst hann ekki vera sjálfstætt starfandi í skilningi laganna. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er samkvæmt þessu sá sem ber skyldu til að greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi. Samkvæmt 7. gr. A. 2. málsl. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, hvílir slík skylda á öllum þeim sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, en þeim ber skylda til að reikna sér endurgjald sem er eigi lægra en hefði vinnan verið innt af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Til fyllingar framangreindu ákvæði setur fjármálaráðherra árlega viðmiðunarreglur um það lágmarks endurgjald sem sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu reikna sér. Skyldan til að reikna sér endurgjald hvílir þannig á öllum sjálfstætt starfandi einstaklingum og endurgjaldið skal að lágmarki vera það sem hinar sérstöku reglur fjármálaráðherra tilgreina.
Kærandi hefur framvísað yfirliti frá skattayfirvöldum þar sem fram kemur að hann greiddi staðgreiðslu af „launum“ fyrstu sex mánuði ársins 2008. Hann framvísaði einnig yfirliti sem sýnir að hann fékk ekkert „reiknað endurgjald“ árið 2008. Þetta hefur kærandi talið vera staðfestingu á að hann sé ekki „sjálfstætt starfandi“ heldur „launamaður“. Nefndin leitaði skýringa á því hvers vegna endurgjald kæranda er nefnt „laun“ en ekki „reiknað endurgjald“ á hinum framlögðu vottorðum. Skýringin reyndist vera sú að í tölvukerfum skattsins er gerður greinarmunur á endurgjaldi þeirra einstaklinga sem eru með rekstur á eigin kennitölu og annarra sjálfstætt starfandi einstaklinga, en í tilviki hinna fyrrnefndu er endurgjaldið nefnd „reiknað endurgjald“ en í tilviki hinna síðarnefndu er það nefnt „laun“. Í öllum tilvikum er hins vegar um að ræða „endurgjald“ og á þeim öllum hvílir skyldan til að reikna sér endurgjald sem er að lágmarki það endurgjald sem tilgreint er í viðmiðunarreglum fjármálaráðherra. Áðurnefndan greinarmun á skilgreiningu endurgjalds í tölvukerfi skattayfirvalda má rekja til þess tíma er ólíkar reglur giltu um skattskil þeirra sem eru með rekstur á eigin kennitölu og annarra sem í dag teljast til sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Af öllu framansögðu þykir ljóst að hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur í 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er ætlað að ná yfir þá einstaklinga sem annars vegar hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar hjá því fyrirtæki sem þeir þiggja laun hjá og hins vegar vinna svo umfangsmikla vinnu að þeim beri að standa skil á staðgreiðslu af endurgjaldi sem er að lágmarki það sem viðmiðunarreglur fjármálaráðherra tilgreina. Aðeins þeir sem vinna svo umfangslitla vinnu að þeim er heimilt að greiða staðgreiðslu aðeins einu sinni á ári falla utan skilgreiningar laganna á sjálfstætt starfandi einstaklingum. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu er staðfest geta að svo hafi verið háttað um kæranda. Af framangreindu er ljóst að kærandi telst vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga er lýst í 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þar er meðal annars að finna eftirtalin skilyrði:
f. hefur stöðvað rekstur, sbr. 20. gr.,
g. leggur fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr.
Samkvæmt framangreindum skilyrðum á sjálfstætt starfandi einstaklingur ekki rétt á bótum nema hann sýni fram á að rekstri á fyrirtæki hans hafi verið hætt. Hafi rekstri hins vegar ekki verið hætt virðast fá úrræði fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga til að öðlast rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta önnur en að losa sig undan þeim tengslum við fyrirtækið sem gera hann sjálfstætt starfandi. Hér er því tilkomin skýring á þeim leiðbeiningum Vinnumálastofnunar að kærandi geti öðlast rétt til atvinnuleysisbóta ef hann afsalar sér eignarhlut í fyrirtæki sínu. Þar sem kærandi framvísaði ekki staðfestingu á stöðvum rekstrar átti hann ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á þeim tíma er hann sótti um bætur.
Með hliðsjón af framanrituðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun um synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta frá 7. ágúst 2008.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. september 2008 um synjun á bótarétti A er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Sératkvæði Helga Áss Grétarssonar
I.
Í atkvæði meirihlutans er þeirri kröfu Vinnumálastofnunar hafnað að fá málið aftur til endurumfjöllunar. Ég er sammála þeirri niðurstöðu og rökstuðningnum fyrir henni.
II.
Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 14. ágúst 2008, voru honum sett ýmis skilyrði til að hann gæti komist á atvinnuleysisbætur. Þessi skilyrði voru ákveðin í kjölfar upplýsinga um tengsl kæranda við launagreiðanda sinn og var kæranda gefinn stuttur frestur til að grípa til margháttaðra ráðstafana til að uppfylla skilyrðin. Framsetning þessara skilyrða byggðist á að kærandi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Að mínum dómi var fyllsta ástæða fyrir Vinnumálastofnun að vanda hér betur til verka þar sem kærandi var skráður launamaður fyrstu sex mánuði ársins 2008. Þannig hefði verið nægjanlegt af hálfu stofnunarinnar að krefja kæranda fyrst um sinn um nánari gögn og skýringar áður en málið var sett í þann farveg sem gert var með áðurnefndu bréfi stofnunarinnar.
Vinnumálastofnun neytti ekki heimildar skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til að afla gagna frá skattyfirvöldum og ýmsum öðrum opinberum stofnunum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Slíkt hefði þó verið til þess fallið að vanda betur til töku hinnar kærðu ákvörðunar. Einnig ber að hafa í huga að sé ákvörðun Vinnumálastofnunar kærð þá hefur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ekki heimild til að afla gagna frá þeim aðilum sem nefndir eru í framanröktu lagaákvæði.
Framangreinda annmarka á málsmeðferð Vinnumálastofnunar tel ég aðfinnsluverða.
III.
Almennt á að afmarka efni skilgreininga laga eftir orðanna hljóðan. Alþekkt er að sömu hugtök hafa ekki alltaf sömu merkingu í skilningi ólíkra laga. Í þessu máli lýtur ágreiningurinn fyrst og fremst að túlkun á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt fyrri málslið b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem er svohljóðandi:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi.“
Að mínum dómi felur þessi málsliður í sér tvö sjálfstæð skilyrði, annars vegar að viðkomandi einstaklingur starfi fyrir sjálfan sig eða aðila sem tengist sér og hins vegar að umfang starfseminnar sé þess eðlis að honum sé gert að skila staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi með tilteknum hætti. Sé litið til skilgreiningarinnar á launamanni í a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er rætt um launað starf í annarra þjónustu. Af þessu má draga þá ályktun að munur sé gerður á hugtakinu laun og hugtakinu reiknuðu endurgjaldi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Lög um atvinnuleysistryggingar eru sérlög og þau eru yngri en lög um tekjuskatt, nr. 90/2003. Beiting hugtaka við framkvæmd skattalaga getur að mínu mati ekki haggað orðalagi skilgreininga í lögum um atvinnuleysistryggingar.
Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að þeir sem falla ekki undir skilgreiningu sjálfstætt starfandi einstaklinga og starfa hjá félögunum sem launamenn teljist til launamanna í skilningi frumvarpsins óháð eignarhlut. Jafnframt segir í athugasemdunum að gert sé ráð fyrir að við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur teljist launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi frumvarpsins verði meðal annars litið til ákvarðana skattyfirvalda um hvernig skattskilum þeirra var háttað samkvæmt gildandi lögum og reglum um tekjuskatt.
Í málum sem að nokkru leyti eru eðlislík því sem hér er til umfjöllunar hefur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða talið að atvinnuleitandi sé ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. mál nr. 46/2007 frá 9. nóvember 2007 og mál nr. 56/2007 frá 13. desember 2007. Niðurstaðan um þetta atriði í þessum tveimur málum byggðist fyrst og fremst á áðurnefndu skilyrði b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um tiltekið umfang hinnar sjálfstæðu starfsemi, þ.e. að sjálfstætt starfandi einstaklingi væri skylt að skila staðgreiðslu endurgjalds og tryggingargjalds með ákveðnum hætti.
Óumdeilt er að kærandi hafi haft náin tengsl við það félag sem greiddi honum laun. Ekki hefur hins vegar verið sýnt fram á að honum hafi verið gert að gera upp reiknað endurgjald. Skilyrði b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um umfang starfseminnar er því óuppfyllt í tilviki kæranda. Eins og málatilbúnaði aðila er háttað og þau gögn sem hafa verið lögð fram telst kærandi ekki hafa verið sjálfstætt starfandi einstaklingur þegar hann sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta hinn 7. ágúst 2008.
Krafa kæranda um að hann fái greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar hans 7. ágúst 2008 byggir á að hann hafi þá verið launamaður sem hafi nýlega verið sagt upp. Meðhöndlun Vinnumálastofnunar á máli hans gat aldrei leitt til þess að þessi krafa hans væri tekin til meðferðar á efnislegum forsendum. Þessi þáttur málsins er að mínum dómi illa rannsakaður. Úr því sem komið er tel ég þó nægjanleg gögn og rök liggja fyrir í málinu til að taka þá ákvörðun að veita kæranda atvinnuleysisbætur frá og með 7. ágúst 2008 á þeim grundvelli að honum hafi verið sagt upp sem launamanni.
Með hliðsjón af framanrituðu tel ég rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og að kærandi eigi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með umsóknardegi.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með 7. ágúst 2008.
Helgi Áss Grétarsson