68/1998 Úrskurður frá 17. desember 1998 í málinu nr. A-68/1998
Hinn 17. desember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-68/1998:
Með bréfi, dagsettu 18. nóvember sl., kærði [...] synjun fjármálaráðuneytisins, dagsetta 13. nóvember sl., um að veita honum aðgang að öllum skjölum sem varða núverandi fyrirkomulag á skattlagningu bifreiðahlunninda ráðherra.
Með bréfi, dagsettu 26. nóvember sl., var kæran kynnt fjármálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 4. desember sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, sem kæran laut að, innan sama frests.
Umsögn fjármálaráðuneytisins, dagsett 4. desember sl., barst úrskurðarnefnd hinn 8. desember sl., ásamt þeim gögnum sem er að finna í ráðuneytinu og snerta ákvörðun bifreiðahlunninda til ráðherra samkvæmt núgildandi lögum og reglum.
Með bréfi, dagsettu 12. desember sl., var leitað eftir því við fjármálaráðuneytið að nefndinni yrðu látin í té afrit af beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, bréfi þess til kæranda, dagsettu 13. nóvember sl., og gögnum er því kynnu að hafa fylgt. Voru afrit af þeim gögnum send nefndinni með bréfi fjármálaráðuneytisins, dagsettu 14. desember sl.
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að með ódagsettu bréfi til fjármálaráðuneytisins fór kærandi fram á að fá aðgang að öllum skjölum, sem varða núverandi fyrirkomulag á skattlagningu bifreiðahlunninda ráðherra, þ.m.t. endurritum af bréfum sem ráðuneytið hefði sent um málið.
Fjármálaráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 13. nóvember sl. Í bréfi þessu var kæranda gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um bifreiðahlunnindi ráðherra á svofelldan hátt: "Reglur um bifreiðamál ríkisins þar á meðal ráðherra er að finna í reglugerð nr. 580/1991, um bifreiðamál ríkisins. Samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar getur ráðherra fengið bifreið sem er í eigu og rekstri ríkisins til afnota í þágu embættis síns og til takmarkaðra einkanota, svo sem aksturs milli vinnustaðar og heimilis og annarra einstakra ferða. Á grundvelli þessarar reglu er ráðherrum ákvörðuð bifreiðahlunnindi. Af bifreiðahlunnindum er skilað staðgreiðslu skv. lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og er við mat á hlunnindum miðað við reglur ríkisskattstjóra um takmörkuð afnot sbr. auglýsing nr. 16/1998, um skattmat í staðgreiðslu á árinu 1998."
Auk svarsins var kæranda látið í té ljósrit af bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, útgefinni 1. janúar 1998, auðkenndri RSK 603. Honum var hins vegar synjað um aðgang að gögnum, er hafa að geyma upplýsingar um einstakar fjárhæðir í þessu sambandi, á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Í kæru til nefndarinnar tekur kærandi sérstaklega fram að beiðni hans beinist ekki að hlunnindum einstakra ráðherra, heldur að þeirri reglu, sem um útreikninga þeirra gilda, en hana telur kærandi að sé að finna í skráðum heimildum. Þá telur hann að til séu skráðar reglur um almennar takmarkanir á notkun bifreiðanna.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Eins og að framan greinir tekur kærandi fram í kæru sinni til úrskurðarnefndar að beiðni hans um aðgang að gögnum beinist ekki að upplýsingum um bifreiðahlunnindi einstakra ráðherra, heldur að þeirri reglu sem um útreikninga þeirra gilda. Þar af leiðandi tekur beiðnin einvörðungu til skjala er hafa að geyma þess konar upplýsingar.
Fjármálaráðuneytið hefur sem fyrr segir látið úrskurðarnefnd í té þau skjöl, sem það kveður að til séu í ráðuneytinu og varði, eins og orðrétt segir í bréfi þess til nefndarinnar, dagsettu 4. desember sl., "ákvörðun bifreiðahlunninda til ráðherra samkvæmt núgildandi lögum og reglum". Þar er í fyrsta lagi að finna yfirlit yfir bifreiðahlunnindi einstakra ráðherra samkvæmt þeim reglum, sem ráðuneytið vísar til í svarbréfi sínu til kæranda, dagsettu 13. nóvember sl., svo og einstök skjöl sem varða slík hlunnindi einstakra ráðherra. Í annan stað eru meðal skjalanna bréf ráðuneytisins varðandi frádrátt staðgreiðslu af launum einstakra ráðherra vegna þessara hlunninda. Samkvæmt framansögðu tekur beiðni kæranda ekki til síðastgreindra bréfa.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í þessum greinum er að finna undantekningar frá meginreglunni um upplýsingarétt almennings og ber því að skýra þær þröngt.
Í 5. gr. upplýsingalaga er að finna svofellt ákvæði: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Af lögskýringargögnum verður ráðið að upplýsingar um föst laun og önnur launakjör opinberra starfsmanna, þ. á m. ráðherra, séu ekki undanþegnar aðgangi almennings á grundvelli greinarinnar, heldur einungis upplýsingar um heildarfjárhæð launa hjá hverjum starfsmanni, svo og upplýsingar um heildarverðmæti hlunninda, sem jafnað verður til launa, þ. á m. verðmæti bifreiðahlunninda.
Með skírskotun til þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að hið tilvitnaða ákvæði í 5. gr. upplýsingalaga standi ekki í vegi fyrir því að kæranda verði veittur aðgangur að þeim hluta minnisblaðs, sem dagsett er 14. mars 1998, þar sem fram koma reglur um það hvernig reikna beri bifreiðahlunnindi einstakra ráðherra. Hins vegar er á minnisblaðinu að finna upplýsingar um verðmæti bifreiðahlunninda hjá einstökum ráðherrum og eiga þær samkvæmt framansögðu að fara leynt. Skv. 7. gr. upplýsingalaga ber fjármálaráðuneytinu því að veita kæranda aðgang að hluta minnisblaðsins. Ljósrit af því fylgir eintaki af úrskurði þessum, sem sent verður ráðuneytinu, þar sem nefndin hefur merkt við þann hluta sem hún telur undanþeginn aðgangi kæranda.
Hin kærða ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að synja kæranda, [...], um aðgang að gögnum, sem varða núverandi fyrirkomulag á skattlagningu bifreiðahlunninda ráðherra, er staðfest, að öðru leyti en því að veita ber honum aðgang að hluta minnisblaðs um staðgreiðslu af bifreiðahlunnindum ráðherra 1998, dagsettu 14. mars 1998.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson