73/1999 Úrskurður frá 23. mars 1999 í málinu nr. A-73/1999
Hinn 23. mars 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-73/1999:
Kæruefni
Með bréfum, dagsettu 3. mars sl., kærðu [A], [B] og [C] meðferð læknadeildar Háskóla Íslands á beiðnum þeirra um aðgang að nánar tilteknum prófum í deildinni á árunum 1990 til 1998.
Með bréfi, dagsettu 10. mars sl., var kæran kynnt læknadeild háskólans og því beint til hennar að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðna kærenda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en hinn 18. mars sl. Jafnframt var þess óskað að ákvörðun deildarinnar yrði birt kærendum og nefndinni eigi síðar en á hádegi þann dag. Ef deildin kysi að synja kærendum um aðgang að þeim upplýsingum, er beiðnir þeirra lytu að, var þess ennfremur óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál ljósrit eða afrit af þeim skjölum eða gögnum innan sama frests. Í því tilviki var deildinni auk þess gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kærurnar og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sama frests. Með bréfi kennslusviðs háskólans til úrskurðarnefndar, dagsettu 12. mars sl., var nefndinni tilkynnt að beiðnum kærenda hefði verið synjað og umsögn veitt um kæruefnið. Því fylgdu jafnframt afrit af bréfum kennslusviðsins til kærenda og sýnishorni af leiðbeiningum til próftaka með dæmum um það hvernig taka eigi (krossa)próf við deildina. Með bréfi, dagsettu 16. mars sl., létu kærendur einnig í té umsögn um svör kennslusviðs háskólans til sín.
Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti í nefndinni við afgreiðslu málsins.
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærendur fóru með bréfum, dagsettum 20. janúar sl., fram á að fá afhent afrit af prófum í eftirgreindum námskeiðum á fyrsta ári í læknisfræði frá árunum 1990 til 1998:
2. Námskeið nr. 02.01.04-966 Eðlisfræði
3. Námskeið nr. 02.01.01-966 Efnafræði I
Læknadeild háskólans svaraði beiðnum kærenda með samhljóða bréfum, dagsettum 10. febrúar sl., þar sem fram kom að erindi þeirra hefðu verið móttekin og væru til athugunar í deildinni. Með öðrum samhljóða bréfum frá kennslusviði háskólans, dagsettum 12. mars sl., var kærendum tilkynnt að beiðni þeirra væri hafnað með vísan til 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í bréfum þessum kom fram að um krossapróf (fjölvalsspurningar) væri að ræða, sem ekki væru afhent öðrum en þeim sem þau þreyta og að stúdent fái þau ekki afhent að prófi loknu. Þetta hafi verið hin almenna vinnuregla og rökin þau að mikil vinna liggi að baki samningu slíkra krossaprófa og einstakar spurningar væru notaðar aftur og aftur. Kennari semji mikinn fjölda spurninga (spurningabanka), úr vel afmörkuðu námsefni og síðan væri valinn úr þeim tilteknn fjöldi spurninga í hvert skipti sem prófað væri í námsefninu, með tilliti til þess að prófið væri sem jafnast að þyngd frá ári til árs. Krossapróf geymi þannig tilteknar upplýsingar um fyrirhuguð próf í sama námskeiði. Af hálfu háskólans var því haldið fram að prófin yrðu þýðingarlaus og næðu ekki tilgangi sínum, ef allar spurningarnar væru á almanna vitorði, og allar forsendur þeirra brygðust, ef afhenda yrði verkefnin. Gífurleg frumvinna yrði að eiga sér stað í hvert skipti sem leggja ætti fyrir slíkt próf. Hér væri því mikið í húfi, ekki bara fyrir eina deild skólans, heldur margar, ef ekki flestar.
Umsögn háskólans til úrskurðarnefndar var samhljóða svari þeirra til kærenda.
Í umsögn kærenda til úrskurðarnefndar um svar háskólans, dagsettri 16. mars 1999, var synjun stofnunarinnar mótmælt og ákvörðun hennar ekki talin eiga sér stoð í lögum.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum, sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum, sem greinir í 4.-6. gr. s.l. Markmið upplýsingaskyldu stjórnvalda samkvæmt upplýsingalögum er m.a. að gefa almenningi kost á að fá upplýsingar um áður afgreidd mál hjá stjórnvöldum, svo hægt sé að meta hvort stjórnvöld hafi gætt samræmis og jafnræðis við úrlausn mála.
Samkvæmt 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er þó heimilt að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga, ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almanna vitorði. Í skýringum við þetta ákvæði frumvarps þess, er varð að upplýsingalögum, sagði að með prófi væri átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standa fyrir, enda væri augljóst að nauðsynlegt væri að halda öllum prófgögnum leyndum áður en þau væru þreytt, ættu þau að geta gefið óvilhalla niðurstöðu. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. s.l. fellur þessi heimild hins vegar niður jafnskjótt og ráðstöfunum eða prófraunum er að fullu lokið, nema ákvæði 5. gr. eða 1.-3. tölul. 6. gr. laganna eigi við, enda er þá eðli máls samkvæmt ekki lengur fyrir hendi nein þörf til að halda þeim leyndum.
Próf þau er kærendur hafa óskað eftir aðgangi að voru lögð fyrir próftaka og þreytt á árunum 1990 til 1998. Samkvæmt skýru ákvæði 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga á heimild til að takmarka aðgang að slíkum gögnum aðeins við þangað til próf eru lögð fyrir próftaka og fellur niður jafnskjótt og prófi er lokið, sbr. 1. mgr. 8. gr. s.l. Enda þótt próf í sama námskeiði kunni frá ári til árs að geyma sams konar spurningar, þ. á m. fjölvalsspurningar, hefur því þó ekki verið haldið fram af hálfu háskólans að um nákvæmlega sömu próf sé að ræða. Af þeim sökum verður ekki á það fallist að aðgangur að spurningum í teknum prófum sé til þess fallinn að skerða árangur af síðari próftöku með sama sniði í sömu námskeiðum. Að þessu virtu verður ekki talið að skilyrði séu til þess að takmarka aðgang hinum umbeðnu prófum/gögnum á grundvelli 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Með vísan til 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga er það niðurstaða nefndarinnar að skylt sé að veita þeim aðgang, enda verður ekki séð að neinir þeir hagsmunir, sem verndaðir eru af 5. gr. eða 1.-3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, eigi hér við.
Háskóla Íslands ber að veita [A] aðgang að prófum í inngangi að líffæra- og lífeðlisfræði á fyrsta ári í læknisfræði, námskeiði nr. 02.02.01-966, frá árunum 1990 til 1998, [B] aðgang að prófum í eðlisfræði á fyrsta ári í læknisfræði, námskeiði nr. 02.01.04-966, frá árunum 1990 til 1998, og [C] aðgang að prófum í efnafræði á fyrsta ári í læknisfræði, námskeiði nr. 02.01.02-966, frá árunum 1990 til 1998.
Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir