Hoppa yfir valmynd

Nr. 174/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 174/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17010027

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 13. desember 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 20. júlí 2016 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 19. desember 2016.Þann 31. janúar 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðninni var lagður fram tölvupóstur starfsmanns Útlendingastofnunar til talsmanns kæranda, dags. 28. desember 2016, ásamt tölvupóstsamskiptum milli talsmanns kæranda og starfsmanns Útlendingastofnunar, dags. 24.-27. janúar 2017. Kærunefnd sendi fyrirspurn þann 15. mars sl. til barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og óskaði eftir frekari upplýsingum varðandi barnaverndarmál kæranda sem og flutning hans til […]. Svar barst við fyrirspurn nefndarinnar þann 16. mars.

II. Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda um endurupptöku byggir á því að í málinu séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi verið byggð á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Sé því farið fram á að málið verði endurupptekið hjá kærunefndinni og að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar hans og vísa honum aftur til Þýskalands verði felld úr gildi og stofnuninni gert að taka umsókn hans um hæli til efnismeðferðar á Íslandi.

Fram kemur í greinargerð kæranda að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt föður sínum í mars á síðasta ári. Með ákvörðun sem þeim var birt þann 26. júlí 2016 hafi umsóknum þeirra verið synjað um efnismeðferð og feðgunum vísað til Þýskalands sbr. d-liður 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Ákvörðunin hafi verið staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála sem birtur hafi verið þann 19. desember 2016.

Hinn 29. desember sl. hafi talsmanni kæranda borist upplýsingar um að kærandi hafi verið vistaður utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002, […]. Hafi talsmaður kæranda verið í símasambandi við stjórnvöld og barnavernd, án þess að komist hafi verið að niðurstöðu um hvernig bregðast skyldi við breyttum aðstæðum drengsins. Ljóst sé að í kjölfar vistunar kæranda utan heimilis hafi hann ekki lengur verið í fylgd forsjáraðila hér á landi og teljist því fylgdarlaust barn. Séu forsendur fyrir ákvörðun stjórnvalda um að senda hann til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þá þegar brostnar.

Fram kemur í greinargerð að undir lok janúarmánaðar hafi talsmaður kæranda fengið fregnir af því að unnið væri að flutningi kæranda til […], í samstarfi við barnavernd Hafnarfjarðar og barnaverndaryfirvöld í […]. Starfsmaður barnaverndar hafi kveðið að hann hafi fengið staðfestingu frá Útlendingastofnun á því að honum væri heimilt að hafa samband við yfirvöld í […] vegna málsins. Talsmaður kæranda hafi í kjölfarið átt í síma- og tölvupóstsamskiptum við Útlendingastofnun, sem staðfesti fyrirhugaðan flutning kæranda til […] án þess að lagalegur grundvöllur ákvörðunarinnar kæmi fram. Því virðist sem Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun, þó engin formleg ákvörðun liggi fyrir, um að réttara væri að senda kæranda til […] í stað Þýskalands. Hafi slík ákvörðun verið tekin, hafi það verið gert án þess að kæranda gæfist kostur á að ræða við talsmann sinn vegna hælisumsóknarinnar, og í raun án vitneskju talsmanns kæranda.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd sem flóttamaður á Íslandi hafi ekki verið tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem Þýskaland hafi talist bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar. Forsendur þeirrar ákvörðunar séu nú verulega breyttar þar sem barnaverndaryfirvöld hafi vistað kæranda utan heimilis. Þá hafi hvorki Útlendingastofnun né kærunefndin tekið formlega afstöðu til þess hvort óhætt sé að senda kæranda til […] í ljósi lagaákvæða og alþjóðlegra skuldbindinga um vernd flóttamanna og bann við endursendingum þangað sem líf fólks eða frelsi er í hættu. Þá hafi umsókn hans ekki verið afgreidd með tilliti til ákvæða 74. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða.

Áður en unnt sé að senda kæranda til heimaríkis þurfi að endurupptaka málið og taka umsókn hans um vernd til efnismeðferðar hér á landi. Hér skuli á það bent að samkvæmt bæði lögum og alþjóðasamningum sé stjórnvöldum óheimilt að hafa samband við stjórnvöld í heimaríki kæranda fyrr en gengið hafi verið úr skugga um að hann sé ekki flóttamaður, þ.e. fyrr en umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi verið afgreidd. Þetta hafi engu að síður verið gert þó umsókn kæranda um vernd hafi ekki verið skoðuð og því síður afgreidd hér á landi.

Í greinargerð kæranda tekur talsmaður fram að henni sé ekki kunnugt um þær lagalegu forsendur sem Útlendingastofnun telji sig hafa fyrir því að senda kæranda til […]. Barnaverndaryfirvöld í Hafnarfirði hafi meinað henni að hitta kæranda á þeim forsendum að afgreiðslu hælisumsóknar hans sé lokið hér á landi og að kærandi gegni því ekki lengur hlutverki talsmanns hans á grundvelli laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi staðfest þennan skilning barnaverndarnefndar og ekki hlutast til um að kærandi fengi tækifæri til þess að ræða við talsmann sinn um þann farveg sem mál hans hafi verið komið í.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Beiðni um endurupptöku er lögð fram af hálfu talsmanns kæranda, sbr. 30. gr. laga um útlendinga, og er byggð á því að atvik málsins hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Þann 29. desember 2016, eftir að úrskurðað hafi verið í máli kæranda hjá kærunefnd, hafi talsmanni kæranda borist þær upplýsingar að kærandi hafi verið vistaður utan heimilis […] og því séu breyttar aðstæður í málinu í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem kærandi hafi verið vistaður utan heimilis sé hann ekki lengur í fylgd forsjáraðila hér á landi og teljist því fylgdarlaust barn.

Í 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga kemur fram að fylgdarlaust barn sé barn sem kemur fylgdarlaust inn á yfirráðasvæði ríkis, svo lengi sem það hefur ekki í reynd verið tekið í umsjá foreldra eða fullorðins einstaklings sem beri ábyrgð á því samkvæmt lögræðislögum. Þetta á einnig við ef barnið er skilið eftir án fylgdar eftir að það kemur á yfirráðasvæði ríkis.

Fyrir liggur að kærandi kom hingað til lands í fylgd föður síns. Samkvæmt upplýsingum í endurupptökubeiðni og fylgigögnum með henni var hann síðar tekinn úr umsjá föður síns og komið fyrir tímabundið hjá fósturfjölskyldu að tilhlutan barnaverndarnefndar. Ekkert liggur þó fyrir um að barnaverndaryfirvöld hafi í kjölfarið farið fram á að faðir yrði sviptur forsjá. Verður því ekki lagt annað til grundvallar af hálfu kærunefndar en að faðir kæranda fari með forsjá hans og lögformlegt fyrirsvar, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd hefur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fóru kærandi og faðir hans til […] þann 7. febrúar 2017 með aðstoð Útlendingastofnunar og barnaverndaryfirvalda. Kærunefnd fellst því ekki á að kærandi hafi verið skilinn eftir án fylgdar eða umönnunar hér á landi og verður því ekki litið svo á að kærandi hafi verið fylgdarlaus hér á landi í skilningi laga um útlendinga nr. 80/2016 þegar hann var tekinn úr umsjá föður síns.

Ekki verður séð af endurupptökubeiðni að faðir kæranda hafi óskað eftir endurupptöku eða haft nokkra aðkomu að málinu. Þar sem beiðni um endurupptöku stafar ekki frá réttum aðila verður ekki hjá því komist að vísa henni frá kærunefnd.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er vísað frá.

The appellant’s request is dismissed.

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                          Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta