Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 65/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                              

Miðvikudaginn 18. febrúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 65/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun Reykjanesbæjar


og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 11. nóvember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar, dags. 16. september 2014, á umsókn hans um beingreiðslusamning.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um beingreiðslusamning hjá Reykjanesbæ til að greiða sjálfur þá aðstoð sem hann þarf en kærandi er bundinn við hjólastól vegna afleiðinga slyss. Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi Fjölskyldu- og félagsmálaráðs þann 12. september 2014 sem samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskyldu- og félagsmálaráð telur að hér sé um að ræða samning sem er ígildi NPA samnings. NPA hefur ekki verið lögfest á Íslandi, en er í gangi hjá nokkrum sveitarfélögum sem tilraunaverkefni. Reykjanesbær er ekki þátttakandi í slíku verkefni og getur ekki orðið við erindinu.

Niðurstaða Fjölskyldu- og félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. september 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 11. nóvember 2014. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 11. desember 2014, var beiðni um greinargerð ítrekuð. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 19. desember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. janúar 2015, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki sótt um NPA styrk líkt og fram komi í synjun sveitarfélagsins. Hann hafi bent á að það væri hægt að styðjast við þann samning vegna umsóknar hans eins og gert væri í mörgum sveitarfélögum en kærandi telur að um mismunun sé að ræða milli sveitarfélaga.

 

III. Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi óskað eftir greiðslu frá sveitarfélaginu í stað þjónustu en hann sé með félagslega heimaþjónustu og nýti lögbundna þjónustu sveitarfélagsins. Kærandi hafi ætlað að nýta fjármagnið í að kaupa sér aðstoð eftir þörfum og hentugleika hverju sinni. Beiðni kæranda hafi verið synjað þar sem um væri að ræða ígildi NPA samnings (notendastýrð persónuleg aðstoð) en sveitarfélagið hafi ekki verið þátttakandi í tilraunaverkefni um NPA.


VI. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjanesbæ beri að gera þjónustusamning við kæranda um beingreiðslur vegna þeirrar þjónustu sem hann telur sig þurfa á að halda þannig að hann geti skipulagt þá aðstoð sjálfur.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þá hafa sveitarfélögin með höndum innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.

Í 25. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 26. gr. kemur fram að með félagslegri heimaþjónustu skuli stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Með félagslegri heimaþjónustu er átt við hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegan stuðning, gæslu og umönnun barna og unglinga, sbr. 27. gr. laganna. Þá segir í 28. gr. laganna að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki.

Lög nr. 40/1991 og lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk í samræmi við reglur sveitarstjórnar. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992 ber Reykjanesbær ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar. Reykjanesbær hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk með reglum um félagsþjónustu í Reykjanesbæ sem samþykktar voru í bæjarstjórn 20. janúar 1998. Sú þjónusta sem Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar getur veitt fötluðu fólki samkvæmt framangreindum reglum er liðveisla, ferðaþjónusta og félagsleg heimaþjónusta. Óski fatlaður einstaklingur eftir þjónustu á grundvelli framangreindra reglna er gerður þjónustusamningur við viðkomandi, sbr. gr. 9.2.4 reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ. Þjónusta samkvæmt þjónustusamningi er almennt veitt af starfsfólki Reykjanesbæjar enda er það meginform þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 59/1992. Samkvæmt IV. kafla bráðabirgaðákvæða laganna hefur þó verið komið á sérstöku samstarfsverkefni um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) en miðað er við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa. Í því skyni að móta ramma um fyrirkomulag NPA leitast sveitarfélög í samræmi við 3. mgr. IV. kafla bráðabirgðaákvæða laganna, við að bjóða fötluðu fólki NPA til reynslu í tiltekinn tíma.

Líkt og áður er rakið lýtur beiðni kæranda að því að hann fái greiðslur frá sveitarfélaginu í stað þjónustu svo hann geti sjálfur skipulagt þá þjónustu sem hann þarf á að halda. Tekið skal fram að hvorki lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 né reglur Reykjanesbæjar um félagsþjónustu gera ráð fyrir að umsækjandi um þjónustu geti fengið greiðslur í stað þjónustu sem veitt er af starfsfólki sveitarfélagsins. Undantekning frá því er hið svokallaða tilraunaverkefni um NPA sem kveðið er á um í IV. kafla bráðabirgðaákvæða laganna en því lauk í árslok 2014. Á Alþingi liggur þó fyrir frumvarp um breytingu á lögum nr. 59/1992 þar sem lagt er til að samstarfsverkefni um NPA verði framlengt um tvö ár eða til ársloka 2016. Þá er ekki útilokað að sveitarfélag ákveði í tilteknum tilvikum að útfæra þjónustu við fatlaða einstaklinga þannig að þeir fái greiðslur í stað þjónustu. Sveitarfélagi ber þó að gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum við mat á því hverjum skuli boðin slík útfærsla. Af hálfu Reykjanesbæjar hefur komið fram að sveitarfélagið hafi ekki verið þátttakandi í tilraunaverkefni NPA. Þá verður ekki séð að sveitarfélagið hafi gert beingreiðslusamninga við einstaklinga í sömu stöðu og kærandi.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja umsókn kæranda um beingreiðslusamning hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum enda fær kærandi félagslega heimaþjónustu og nýtir lögbundna þjónustu sveitarfélagsins. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjanesbæjar um synjun á umsókn A um beingreiðslusamning er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta