Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 537/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 537/2020

Fimmtudaginn 11. febrúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. október 2020, um að synja beiðni hans um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 1. júlí 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá Vinnumálastofnun á tímabilinu mars 2020 til júní 2020. Með símtali 28. september 2020 óskaði kærandi eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um greiðslur atvinnuleysisbóta frá júlí 2020 og vísaði til þess að hann hafi sent stofnuninni almenna umsókn eftir að hafa lokað umsókn um minnkað starfshlutfall. Kæranda var tjáð að engin umsókn hefði borist og sendi kærandi því stofnuninni umsókn þann dag og óskaði eftir greiðslum atvinnuleysisbóta frá 1. júlí 2020 í stað umsóknardags. Með ákvörðun, dags. 20. október 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 67%. Beiðni kæranda um að umsókn tæki gildi 1. júlí 2020 var synjað með vísan til 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. október 2020. Með bréfi, dags. 27. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. nóvember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að kærandi hafi verið á hlutabótaleiðinni frá vori 2020 en sótt um atvinnuleysisbætur þegar hann hafi alveg misst vinnuna. Umsókn kæranda hafi ekki skilað sér vegna vandamáls með tölvukerfið en kærandi hafi komist að því í september 2020. Kærandi hafi talið að töf á greiðslu atvinnuleysisbóta væri vegna seinagangs Vinnumálastofnunar en hann hafi sannanlega verið atvinnulaus og eigi því rétt á atvinnuleysisbótum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi í 1. mgr. 29. gr. laganna að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun bendir á að það sé grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til stofnunarinnar. Stofnunin telji sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur lengra aftur en frá dagsetningu umsóknar atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 28. september 2020. Vinnumálastofnun hafi því ekki getað vitað að hann væri án atvinnu fyrr en á þeim tíma. Stofnunin telji að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta afturvirkt frá 1. júlí 2020.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Ljóst er að Vinnumálastofnun tók við umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur 28. september 2020. Kærandi á því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006, þrátt fyrir að hafa verið atvinnulaus frá 1. júlí 2020. Framangreind skilyrði laganna eru ströng og engar undantekningar á þeim þar að finna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. október 2020, um að synja beiðni A, um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 1. júlí 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta