Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 489/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 489/2019

Miðvikudaginn 25. mars 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 22. nóvember 2019, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2019 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn þann 1. maí 2019 og var umsókninni synjað með bréfi, dags. 30. júlí 2019, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænum umsóknum þann 2. og 4. september 2019. Með ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. og 24. september 2019, var umsóknum kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 5. október 2019, og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. október 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 9. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. janúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. janúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á að úrskurður Tryggingastofnunar verði endurskoðaður og að kærandi verði metinn til fullrar örorku í samræmi við læknisvottorð C sem mat hann óvinnufæran frá 1. ágúst 2017.

Í kæru kemur fram að í kjölfar lítils árangurs endurhæfingar hafi kærandi, að undirlagi sálfræðings, sótt um örorku til Tryggingastofnunar en verið synjað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Við skoðun gagna málsins hafi komið í ljós að vegna breytinga á starfsmannahaldi hjá VIRK hafi orðið mistök við gerð meðferðarlokaskýrslu sem hafi verið leiðrétt. Í kjölfar leiðréttingarinnar og framlagningar nýrra gagna hafi kærandi aftur sótt um örorku en Tryggingastofnun hafi synjaði beiðni kæranda á sömu forsendum.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir framangreindri niðurstöðu, enda hafi verið talið að um mistúlkun gagna hafi verið að ræða. Færð hafi verið rök fyrir því sjónarmiði í bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 5. október 2019. Í svari stofnunarinnar, dags. 24. september 2019, hafi komið fram að ný gögn breyti ekki fyrri niðurstöðu. Ljóst sé að Tryggingastofnun breyti ekki fyrri úrskurði, þrátt fyrir að búið sé að sýna fram á að ákvörðunin hafi verið byggð á misskilningi.

Í kæru er greint frá X uppeldisskilyrðum kæranda, hann hafi ungur farið í neyslu og sé með margar greiningar um geðræna kvilla. Snemma árs X hafi kærandi kynnst X […]. Í kæru er greint frá lýsingu á aðstæðum þeirra. Fljótlega hafi komið í ljós að kærandi réði ekki við vinnu, enda hafi það farið svo að hann hafi misst vinnuna. Kærandi hafi farið í endurhæfingu hjá VIRK og hafi lagt sig allan fram en fljótlega hafi orðið ljóst að vandi hans væri stærri en svo að þátttaka á vinnumarkaði væri í sjónmáli, enda hafi sálfræðingur kæranda, sem VIRK hafi útvegað honum, sagt að hann ætti ekki erindi á vinnumarkað að svo stöddu og að næsta skref hjá honum væri að sækja um örorku. Þegar að því kæmi að hann yrði betur í stakk búinn mætti reyna endurhæfingu aftur en það yrði ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum. Í kjölfarið hafi kæranda verið vísað úr þjónustu VIRK. D hafði verið með umsjón með endurhæfingunni en þangað virðist misskilningur Tryggingastofnunar eiga rót sína að rekja.

Þegar kærandi hafi sótt um örorku hafi legið fyrir þó nokkuð af gömlum gögnum þar sem staða kæranda hafi verið metin, svo sem starfsgetumat sem bæði sálfræðingur og læknir hafi komið að, þjónustulokaskýrsla VIRK og læknisvottorð skrifað af lækni sem hafi annast kæranda í X ár. Allir fagaðilar sem hafi komið að matinu telji kæranda eiga við fjölþætta geðsjúkdóma að etja, auk líkamlegra einkenna. Þessir aðilar séu einnig sammála um að kærandi sé óvinnufær með öllu og að þátttaka á vinnumarkaði í fyrirsjáanlegri framtíð sé óraunhæf. Sá eini sem sé ósamála þessu sé forstöðumaður D sem sé menntaður X. Hún hafi skrifað umsögn um endurhæfingu kæranda þar sem hún hafi metið það svo að árangur endurhæfingarinnar hefði verið betri ef hann hefði sinnt henni betur. Hún hafi algerlega litið fram hjá því hve sjúkdómar kæranda hafi hamlað honum við endurhæfinguna og þá hafi hún gert að engu mat E sálfræðings sem hafi bent á að kærandi hafi sinnt sálfræðiþjónustu vel í endurhæfingunni. Einnig sé litið fram hjá því að öll önnur þjónusta sem kæranda hafi verið boðin hafi krafist félagslegra samskipta sem hann eigi mjög erfitt með vegna sjúkdómanna flemturröskun og félagsfælni.

Af einhverjum orsökum hafi þessi ógætilega athugasemd X vegið þyngra en orð allra annarra meðferðar- og matsaðila hvort sem um sé að ræða lækni sem hafi annast kæranda í fjölda ára, sálfræðing sem hann treysti fyrir sálu sinni eða sérfræðing VIRK sem hafi skrifað þjónustulokaskýrslu.

Til að undirstrika þetta hafi kærandi sótt aftur um að komast í endurhæfingu hjá VIRK og hafi svarið sem hann hafi fengið lýst stöðunni nokkuð vel en þar komi fram að það sé mat sálfræðings og geðlæknis á vegum VIRK að meðhöndla þurfi persónuvanda kæranda sem og alvarleg einkenni kvíða og þunglyndis innan heilbrigðiskerfisins áður en frekari starfsendurhæfing verði reynd.

Í læknisvottorði C sé vísað í skor á Becks DI- og AI-kvarða, ADHD, þunglyndi, kvíða, ofsakvíða, ofvirkniröskun og geðdeyfð. Mat hans sé að kærandi sé óvinnufær frá 1. ágúst 2017 og að ekki sé útlit fyrir að það breytist í náinni framtíð sem sé samhljóða mati annarra lækna og sálfræðinga.

Umboðsmaður kæranda sé þess fullviss að hann sé á engan hátt hæfur á vinnumarkað að svo stöddu þar sem andleg og líkamleg heilsa hans hamli því að hann geti sinnt vinnu svo að vel fari. Það skjóti skökku við að kærandi sé of veikur til að sinna endurhæfingu eins og rökstutt mat VIRK sýni, en samt sem áður ekki nógu veikur til að vera metinn til örorku að mati Tryggingastofnunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði, sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila, og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. 

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögunum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 4. september 2019, og með örorkumati, dags. 24. september 2019, hafi honum verið synjað um örorkulífeyri með vísan til fyrri bréfa Tryggingastofnunar, dags. 30. júlí og 10. september 2019.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 24. september 2019 hafi legið fyrir umsókn, dags. 4. september 2019, læknisvottorð C, dags. 30. ágúst 2019, starfsgetumat VIRK, dags. 26. febrúar 2019, þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 29. ágúst 2019, og svör kæranda við spurningalista, mótteknum 21. maí 2019.

Áður hafi borist umsókn, dags. 1. maí 2019, læknisvottorð C, dags. 11. apríl 2019, og starfsgetumat, dags. 26. febrúar 2019. Óskað hafi verið eftir gögnum með bréfi, dags. 2. maí 2019, en þeirri umsókn hafi verið vísað frá þann 22. júlí 2019 á grundvelli þess að gögn hafi ekki borist. Málið hafi verið tekið upp að nýju og með bréfi, dags. 30. júlí 2019, hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyris á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Einnig hafi borist umsókn, dags. 2. september 2019, og með örorkumati, dags. 10. september 2019, hafi umsókn kæranda verið synjað á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki tilefni til að breyta fyrri ákvörðun. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi með bréfi, dags. 5. október 2019, og hafi hann verið veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. október 2019.

Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyrir fyrir tímabilið 1. desember 2018 til 31. maí 2019, eða í samtals sex mánuði.

Í læknisvottorði, dags. 11. apríl 2019, og samhljóða læknisvottorði, dags. 30. ágúst 2019, komi fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu ofvirkniraskanir, þunglyndi, flemturröskun og persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum. Í greinargerð stofnunarinnar er gerð frekari grein fyrir efni vottorðsins.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 26. febrúar 2019, komi fram að kærandi sé ekki að færast nær vinnumarkaði og að starfendurhæfing hjá VIRK teljist fullreynd. Mælt sé með að hann klári eftirfylgd hjá sálfræðingi og D en hann sé að flytja […].

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 29. ágúst 2019, komi fram að við þjónustulok hafi kæranda verið vísað í meðferð/rannsóknir í heilbrigðiskerfinu. Ástæða þjónustuloka sé sögð vera sú að einstaklingur sé að flytja […] og að starfsendurhæfing sé fullreynd að sinni.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá svörum kæranda við spurningalista, mótteknum 24. september 2019.

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 30. ágúst 2019. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Þunglyndi

Persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum

Felmturröskun

Ofvirkniröskun]“

Varðandi fyrra heilsufar kæranda vísar C í fyrra vottorð skrifað af F. Samkvæmt vottorði C hefur kærandi verið óvinnufær frá 1. ágúst 2017 og það er mat læknisins að ekki megi búast við að færni hans aukist. Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í vottorðinu:

„[...] Hefur haldist illa í vinnu, gengur vel fyrstu 1-3 mánuðina en síðan lendir hann í því ítrekað að missa fótana, missir metnað / finnur fyrir kvíða og þunglyndi og missir loks vinnuna. Er með ADHD þunglyndi kvíði verið hjá sálfræðing v. þessa. Óskað eftir lyfjameðferð samhliða sálfræðimeðferð. […] Sjá gögn Virk endurhæfing telst fullreynd. Scoraði 45 stig á Becks DI, 50 stig á Becks AI […]

Fengið greiningar ofsakvíða og persónuröskun auk ofvirknioröskunar og geðdeyfð.“

Einnig liggur fyrir eldra læknisvottorð C, dags. 11. apríl 2019, sem er samhljóða framangreindu vottorði. Í fyrirliggjandi læknisvottorði G, dags. 20. nóvember 2018, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningunum:

„Blandin kvíða- og geðlægðarröskun

Attention deficit hyperactivity disorder“

Um sjúkrasögu segir:

„Hefur verið þunglyndur frá X ára aldri. Talaði ekki um það fyrr en nýlega. […] Hefur gengið vel í vinnu, þangað til að hann gerir mistök, og þá leggst það þungt á hann, og fer að kvíða öðrum mistökum, fer síðan að hringja sig inn veikan útaf kvíða við mistök, og missir þá vinnu. Endurtekur sig við næstu vinnu. Kvíði síðan við að sækja um nýja vinnu. Er með sjálfsvígshugsanir, lágt sjálfsmat. Finnst eins og að hann geti ekki gert hluti, líður eins og hann sé minni en aðrir.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem lagður var fram með umsókn kæranda um örorku, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda er greint frá því að hann eigi erfitt með að sitja á stól, beygja sig og krjúpa og að hann eigi við andleg vandamál að stríða, hann sé með þunglyndi, kvíða, ADHD og félagsfælni.

Í starfsendurhæfingarmati VIRK, dags. 26. febrúar 2019, kemur fram að líkamlegir og andlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda. Þar eru tilgreindar eftirfarandi ástæður: Ofþyngd, ómeðhöndlað X, þunglyndi, kvíði, ADHD, persónuleikaröskun og áfallaeinkenni. Í samantekt og áliti segir meðal annars:

„Ítrekuð áföll hjá honum í æsku og hegðunarerfiðleikar. Fer í neyslu fíkniefna og klárar ekki X. […] Mikil neysla, geðrof og andfélagsleg hegðun á tímabili en hættir í neyslu fyrir X-X árum. […] [Kærandi] hefur verið í starfsendurhæfingu en átt erfitt með að mæta, hefur þó nýtt sér sálfræðimeðferðina. Á geðgreiningarviðtali og sálfræðiprófum koma fram víðtæk geðræn einkenni og mikil áfallasaga. Helstu hamlandi einkenni eru persónuleikaröskun, þunglyndi, felmtursröskun og ADHD. Einnig eru áfallaeinkenni og einkenni jaðarpersónuleikaröskunar beint tengd úr æskunni. Ljóst er að einkennin eru mjög hamlandi og hann er ekki að færast nær vinnumarkaði. Tel starfsendurhæfingu því full reynda en mæli með að hann klári eftirfylgd hjá sálfræðingi og X en hann er að flytja […].“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 21. ágúst 2019, kemur meðal annars fram að andlegir og líkamlegir þættir kæranda hafi mikil áhrif á færni hans og félagslegir þættir hafi talsverð áhrif á hans færni. Í samantekt og áliti læknis segir:

„X árs gamall maður með langa sögu um aðlögunarerfiðleika, kvíða og þunglyndiseinkenni. Ólst upp við erfiðar aðstæður og mjög takmöruð vinnusaga fyrir hendi. Var í neyslu á tímabili, lenti í afbrotum en verið edrú eftir […]. Löng saga um félagsfælni og samskipti verið honum erfið. Lágt sjálfstraust til staðar, hræddur um að mistakast og endist yfirleitt stutt á vinnustöðum. Á í raun erfitt með að fara út úr húsi og dagleg kvíðaköst til staðar. Nýgreindur með X […]. […] Fyrir liggur greinargerð D frá febrúar 2019. Þar sem fram kemur að mætingar hans hafi verið mjög slakar. Einnig liggur fyrir mat E sálfræðings frá 26.2.2019 sem hluti af þessu mati. Í niðurstöðum hans segir m.a. „Á geðgreiningarviðtali og sálfræðiprófum koma fram víðtæk geðræn einkenni og mikil áfallasaga. Helstu hamlandi einkenni eru persónuleikaröskun, þunglyndi, felmtursröskun og ADHD. Einnig eru áfallaeinkenni og einkenni jaðarpersónuleikaröskunar beint tengd úr æskunni. Ljóst er að einkenni eru mjög hamlandi og hann er ekki að færast nær vinnumarkaði. Tel starfsendurhæfingu því full reynda og mæli með starfsgetumati læknis hjá VIRK.“ Niðurstaða undirritaðs í samræmi við niðurstöðu E, hamlandi einkenni fyrir hendi og langt frá vinumarkaði. starfsendurhæfing því fullreynd á þessum tímapunkti og mælt með áframhaldandi eftirfylgd innan heilbrigðiskerfisins. Ljóst er að starfsgeta þessa einstaklings er mikið skert. Vegna mikilla einkenna mælt með aðkomu geðlæknis

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin fullreynd. Ekki talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.“

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 10. október 2019, segir um ástæðu þjónustuloka:

„Vísað í meðferð/rannsóknir í heilbrigðiskerfinu“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum toga og að hann hefur verið í starfsendurhæfingu. Samkvæmt læknisvottorði C er kærandi óvinnufær og telur læknirinn að ekki megi búast við að færni hans aukist. Í starfsgetumati VIRK frá 21. ágúst 2019 kemur fram að starfsendurhæfing sé fullreynd og var kæranda vísað til meðferðar og/eða rannsóknar í heilbrigðiskerfinu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af starfsgetumati VIRK að endurhæfing á þeirra vegum sé fullreynd en ekki verður sú ályktun dregin af matinu að ekki sé möguleiki á frekari endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið í endurhæfingu og fengið greiddan endurhæfingarlífeyri vegna þess í sex mánuði, en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekari endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2019 þess efnis að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                           Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta