Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 341/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 341/2023

Þriðjudaginn 12. september 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. júní 2023, vegna umsóknar hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. júní 2023, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann 20. júní 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. júní 2023, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 314.586 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. júlí 2023. Með bréfi, dags. 24. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 8. ágúst 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. ágúst 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að málið snúi að túlkun fæðingarorlofssjóðs á því hvað teljist vera fullt nám, hvað teljist vera fullt starf og hvernig skuli líta á tímabil starfs og náms.

Kærandi kveður málavexti vera þá að hún hafi verið í fullu námi við Háskólann í Reykjavík og með námi unnið hjá lögmannsstofu í hlutastarfi. Hún hafi unnið eftir skóla 1-2 daga í viku en síðan í fríum svo sem jólafríi, páskafríi og sumarfríi fullt starf. Fæðingarorlofssjóður hafi samþykkt að undanskilja þá mánuði sem hún hafi verið undir 25% starfshlutfalli en hafni því að undanskilja þá mánuði þar sem hún hafi unnið með skóla og starfshlutfall farið yfir 25%.

 

Í orðskýringum laga um fæðingar- og foreldraorlof komi fram að fullt nám og samfellt starf þurfi ekki að afmarkast af heilum almanaksmánuðum. Fæðingarorlofssjóður hins vegar neiti að taka tillit til þess að í tilfelli kæranda þá endurspegli þeir tveir almanaksmánuðir þar sem hún hafi farið yfir 25% ekki atvinnuþátttöku hennar og hafi dregið niður rétt hennar til fæðingarorlofs um u.þ.b. 100.000 kr. á mánuði.

 

Í svörum fæðingarorlofs þegar óskað hafi verið eftir rökstuðningi hafi kæranda verið veittar eftirfarandi skýringar:

 

„Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um útreikning viðmiðunartímabils, þar segir að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingardag barns. Hér er því um að ræða heila almanaksmánuði og miða skal við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði. Skilgreining starfsmanns á innlendum vinnumarkaði er foreldri sem vinnur launað starf samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli, sbr. 4. tl. 4. gr. sömu laga.

 

Við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eru sóttar tekjur úr staðgreiðsluskrá og sýna þær upplýsingar fram á að þú sért tekjuhærri í desember 2021, maí 2022 og ágúst 2022 en þá mánuði sem við höfum undanskilið og fengið launaseðla frá og því er ekki heimilt að undanskilja. Ef þú telur að við eigum að taka fleiri mánuði út vegna þess að þú hafir verið í minna en 25% starfshlutfalli þessa umræddu mánuði óskum við eftir launaseðlum frá þeim mánuðum.“

 

Kærandi telur að þarna sé fæðingarorlofssjóður að gefa sér þær forsendur að miða skuli við heila almanaksmánuði þar sem ekkert komi fram í lögunum um að miða skuli við heila almanaksmánuði. Þar sem kærandi uppfylli kröfur alla þá mánuði um fullt nám þá ætti að líta svo á þrátt fyrir að atvinnuþátttaka hennar fari umfram 25% í 3 mánuðum þar sem hún hafi einnig verið í námi eigi ekki að skerða rétt hennar til greiðslna. Með þessu sé verið að lækka heildartekjur hennar töluvert þrátt fyrir að launin séu meðtalin.

 

Til vara krefst kærandi þess að meta skuli þá mánuði sem fóru yfir 25% með fæðingarstyrk að lágmarki til útreiknings til meðallauna en laun í janúar séu undir fæðingarstyrk.

 

Í janúar hafi kærandi unnið 60 klst. en í desember 57,25 klst. Samkvæmt lögum um fæðingarorlof sé 25% starf 43 klst. Þess megi geta að ef launatímabil vinnuveitanda væri sem dæmi frá 20. til 20. hvers mánaðar hefðu báðir þessir mánuðir verið undanskildir og ýti það enn frekar undir að ekki sé rétt að líta á mánuðina sem almanaksmánuði í tilfelli kæranda. Það sé ósanngjarnt því það skerði rétt hennar til orlofs gríðarlega og í raun hefði verið betra fyrir kæranda að vinna 31,25 klst. minna og hefði hún þá komið betur fjárhagslega út úr því, því sé í raun verið að refsa henni fyrir að vinna í jólafríi fremur en að vera bara í fríi.

 

Á grundvelli ofangreinds fari kærandi fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála fallist á að Fæðingarorlofssjóði beri að líta svo á að desember, janúar og ágúst skulu einnig verða undanskildir til útreiknings fæðingarorlofs þar sem starfshlutfall með skóla er undir 25% þrátt fyrir að í þessum almanaksmánuðum fari það yfir en í lögunum komi skýrt fram að starf eða nám þurfi ekki að afmarkast af heilum almanaksmánuðum og ber því að líta á tímabilið í heild en ekki hlutfalla niður á mánuði enda skekki það rétta mynd af þeim tekjumissi sem kærandi verði fyrir í fæðingarorlofi.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dags. 5. maí 2023 hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna fæðingar barns þann 20. júní 2023. Auk umsóknar kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi legið fyrir námsferilsyfirlit, dags. 6. júní 2023, launaseðlar vegna febrúar til apríl 2023 ásamt upplýsingum úr skrám skattyfirvalda.

 

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sé kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

 

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. ffl. og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðað við fyrirliggjandi gögn, sbr. greiðsluáætlun til kæranda dags. 6. og 26. júní 2023.

 

Ágreiningur málsins snúi að útreikningi greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði og þá um það hvort heimilt sé að undanskilja þá mánuði sem kærandi hafi verið í námi á viðmiðunartímabili greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en kærandi hafi jafnframt starfað sem starfsmaður hluta viðmiðunartímabils.

 

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. komi fram að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og skuli miðað við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

 

Í 4. mgr. 23. gr. ffl. komi meðal annars fram að til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1.-3. mgr. teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a-[f] lið[um] 2. mgr. 22. gr. Auk þess skuli telja til launa greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa.

Í 5. mgr. 23. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1.–3. mgr.

Skilgreiningu á starfsmanni sé að finna í 4. tölul. 4. gr. ffl. en þar komi fram að starfsmaður sé foreldri sem vinnur launað starf í annarra þjónustu samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Hið sama gildir um foreldri samkvæmt 3. tölul. sem starfar við eigin rekstur samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í félagi sem það á 25% eða minni eignarhlut í.

Loks komi fram í 1. mgr. 22. gr. ffl. að fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið 20. júní 2023 og því hafi, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið desember 2021- nóvember 2022.

 

Í kæru geri kærandi þá kröfu að mánuðirnir desember 2021, janúar 2022 og ágúst 2022 verði undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar þar sem hún hafi verið í námi á þeim tíma. Á þessu tímabili hafi kærandi jafnframt verið starfsmaður og þegið greiðslur frá vinnuveitanda sínum samkvæmt skrám skattyfirvalda og staðfestingu kæranda sjálfs. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og staðfestingu kæranda sjálfs í kæru var kærandi í yfir 25% starfi sem starfsmaður á tímabilinu desember 2021, janúar 2022 og ágúst 2022. Í samræmi við það telst kærandi hafa verið á innlendum vinnumarkaði mánuðina desember 2021, janúar 2022 og ágúst 2022 og ber því að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda líkt og mánuðina maí-ágúst 2022 og október-nóvember 2022. Fæðingarorlofssjóður hefur þegar undanskilið frá útreikningi mánuðina febrúar til apríl 2022 og september 2022 þar sem kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði þá mánuði.

 

Þá vísar kærandi í kæru sinni til orðskýringa í 4. gr. þar sem fram kemur að í ákveðnum tilvikum geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki heilum almanaksmánuðum, t.d. við mat á rétti foreldra til greiðslna. Í 23. gr. ffl. sem fjallar um viðmiðunartímabil og útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði kemur skýrt fram að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þá kemur fram í athugasemdum við 1. mgr. 23. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 144/2020 að „Með mánuðum er átt við almanaksmánuði og er þá miðað við samfellt tímabil sem stendur í tólf almanaksmánuði á undan fæðingarmánuði barns.“ Þar sem ákvæði 23. gr. ffl. séu skýr um það að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sé Fæðingarorlofssjóði ekki heimilt að miða við hluta af mánuði við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í kæru fari kærandi fram á það til vara að þeir mánuðir sem laun kæranda séu undir fjárhæð fæðingarstyrks námsmanna séu metnir til útreiknings með fjárhæð fæðingarstyrks námsmanna í stað heildarlauna. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof sé gerður skýr greinarmunur á réttindum foreldra á vinnumarkaði annars vegar og foreldra í námi hins vegar og er engin heimild í lögunum til að meta nám sem starfstíma eða til fjárhæðar við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris. Þá sé tekið fram í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. ffl. að miða skuli við heildarlaun þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald skv. 2. mgr. hafi komið til og því ljóst að löggjafinn gerir ráð fyrir því að heildarlaun geti verið lág eða jafnvel engin þá almanaksmánuði sem foreldri sé á innlendum vinnumarkaði. Þá komi fram í 4. mgr. 23. gr. ffl. hvað telst til launa á innlendum vinnumarkaði eins og að rakið hafi verið og í 5. mgr. 23. gr. ffl. komi fram að útreikningar skuli byggjast á upplýsingum um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Ljóst sé að varakrafa kæranda uppfyllir ekki framangreind skilyrði 1., 4. og 5. mgr. 23. gr. ffl. og því sé ekki hægt að fallast á hana.

 

Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 26. júní 2023, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 26. júní 2022, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 314.586 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að undanskilja desember 2021, janúar 2022 og ágúst 2022 sem kærandi var í námi og vinnu á viðmiðunartímabili greiðslna samkvæmt 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.)

 

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi starfaði á innlendum vinnumarkaði í samfellt sex mánuði fyrir fæðingardag barns og uppfyllir því skilyrði laganna um að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var þann X. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar tímabilið desember 2021 til og með nóvember 2022.

Í 5. mgr. 23. gr. laganna er kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda.

Í 4. mgr. 23. gr. ffl. segir að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a- til f-liðum 2. mgr. 22. gr. og greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa.

Óumdeilt er að kærandi var starfsmaður í meira en 25% starfshlutfalli, sbr. 2. tölul. 4. gr. ffl., á tímabilunum desember 2021, janúar 2022 og ágúst 2022. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. bar Fæðingarorlofssjóði við útreikning mánaðarlegra greiðslna til kæranda úr sjóðnum réttilega að reikna 80% af heildarmeðaltali launa kæranda þá mánuði, en t.d. ekki til að meta umrædda mánuði sem fóru yfir 25% starfshlutfall til fæðingarstyrks að lágmarki til útreiknings meðallauna.

Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í hinni kærðu ákvörðun, dags. 26. júní 2023, er í samræmi við ákvæði laga nr. 144/2020. Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. júní 2023, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta