Hoppa yfir valmynd

Nr. 109/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 109/2019

Fimmtudaginn 6. júní 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 13. mars 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 22. febrúar 2019, á umsókn hans um milliflutning samkvæmt reglum um þjónustuíbúðir fyrir aldraða.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er búsettur í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar. Með umsókn, dags. 20. ágúst 2018, óskaði kærandi eftir milliflutningi í aðra þjónustuíbúð í sama húsnæði vegna ónæðis og mengunar frá bílastæði húsnæðisins. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 21. janúar 2019, á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 22. febrúar 2019 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. mars 2019. Með bréfi, dags. 14. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 23. apríl 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé búsettur í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar. Einu opnanlegu gluggar íbúðar hans snúi út að bílastæði stofnunarinnar en þar séu bílar oft lengi í gangi. Kærandi hafi starfað sem [...] allan sinn starfsaldur en í því starfi hafi hann fengið [...] sem hann hafi fundið fyrir síðan við ákveðnar aðstæður. Hann hafi nokkrum sinnum þurft að flýja íbúðina vegna óþæginda af bílastæðinu. Kærandi hafi því óskað eftir flutningi í aðra íbúð innan stofnunarinnar. Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála óski eftir að velferðarráð Reykjavíkurborgar taki mál hans til endurskoðunar á grundvelli heilbrigðisástands síns.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að við mat á umsókn kæranda um milliflutning hafi verið tekið tillit til búsetu í Reykjavík, húsnæðisstöðu, heilsufars kæranda, félagslegra aðstæðna ásamt öðrum atriðum sem hafi komið til skoðunar. Kærandi hafi haft athugasemdir við mengun vegna bifreiða en ekki aðrar athugasemdir við húsnæðið sjálft.

Vegna umsóknar kæranda hafi verið efnt til fundar þann 9. apríl 2019 af hálfu ráðgjafa hans með forstöðumanni þjónustukjarnans. Á fundinum hafi verið lagðar fram tillögur að úrbótum á aðstæðum fyrir framan inngang hússins og hvernig hægt væri að koma til móts við kæranda og draga úr þeirri mengun sem um ræðir. Fyrirhugað sé að setja upp skilti með tilmælum um að bifreiðar verði ekki hafðar í gangi þegar lagt sé fyrir framan húsið og stefnt að því að lokið verði við uppsetningu skiltanna sumarið 2019. Þá hafi ráðgjafi einnig beint þeim tilmælum til þeirra starfsmanna sem sinntu akstursþjónustu að slökkt yrði á bifreiðum á meðan beðið væri eftir farþegum fyrir utan þjónustukjarnann. Að lokum hafi vörumóttaka verið færð og fari nú fram við annan inngang en ekki fyrir framan íbúð kæranda sem dragi úr umferð sendibíla. Það hafi því verið mat þjónustumiðstöðvar að komið hefði verið til móts við þarfir kæranda varðandi það ónæði sem stafi af íbúð hans. Þar sem umsókn um milliflutning hafi einungis lotið að framangreindum atriðum hafi skilyrði milliflutnings því ekki verið uppfyllt.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að ekki væri þörf fyrir milliflutning í tilviki kæranda. Lögð hafi verið mikil vinna í að koma til móts við óskir kæranda með aðgerðum sem komi í veg fyrir umrætt ónæði sem kærandi verði fyrir. Það hafi verið mat nefndarinnar að reyna ætti vægari úrræði og úrbætur á núverandi húsnæði áður en umsókn um milliflutning væri samþykkt. Ljóst sé að hin kærða ákvörðun hafi ekki brotið gegn reglum Reykjavíkurborgar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða ákvæðum annarra laga. Því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um milliflutning samkvæmt reglum um þjónustuíbúðir aldraðra.

Markmið laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast, miðað við þörf og ástand hins aldraða. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Um öldrunarþjónustu er síðan fjallað í IV. kafla laga nr. 125/1999. Þjónustuíbúðir aldraðra falla undir opna öldrunarþjónustu, sbr. 13. gr. laganna, en þar segir í 4. tölul. 1. mgr. að þjónustuíbúðir aldraðra geti verið sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir. Í 1. mgr. 1. gr reglna Reykjavíkurborgar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða kemur fram að þær séu ætlaðar þeim sem þurfi aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 125/1999. Forsenda þess að geta sótt um þjónustuíbúð er að umsækjandi uppfylli öll skilyrði 4. gr. reglnanna.

Kærandi hefur verið búsettur í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar frá því í X 2018 en óskaði eftir milliflutningi í aðra þjónustuíbúð í sama húsnæði af heilsufarsástæðum. Kærandi hefur haldið því fram að mikið ónæði og mengun stafi af bílastæði fasteignarinnar en einu opnanlegu gluggar íbúðarinnar snúi út á bílastæði.

Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að við mat á umsókn kæranda um milliflutning hafi verið tekið tillit til búsetu í Reykjavík, húsnæðisstöðu, heilsufars kæranda, félagslegra aðstæðna ásamt öðrum atriðum sem hafi komið til skoðunar. Þar sem kærandi hafi ekki gert athugasemdir við húsnæðið sjálft hafi skilyrði milliflutnings ekki verið uppfyllt. Þá hefur Reykjavíkurborg greint frá því að gripið hafi verið til tiltekinna ráðstafana til að draga úr mengun og koma til móts við aðfinnslur kæranda.

Í framangreindum reglum er ekki kveðið á um sérstök skilyrði fyrir milliflutningi. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því við mat á umsókn kæranda að leggja almenn sjónarmið til grundvallar og meta málið heildstætt. Reykjavíkurborg hefur lagt mat á aðstæður kæranda og fallist á að þörf sé á úrbótum. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg lagði fram áætlun um úrbætur til að draga úr mengun eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni, og ekki hefur reynt á hvort úrbætur  hafi verið fullnægjandi, telur nefndin að reyna verði á  þær úrbætur áður en gripið er til annarra ráðstafana.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest. 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 22. febrúar 2019, um synjun á umsókn A, um milliflutning samkvæmt reglum um þjónustuíbúðir aldraðra, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta