Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 28/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 28. júlí 2021
í máli nr. 28/2021:
Orka náttúrunnar ohf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Ísorku ehf.

Lykilorð
Endurupptökubeiðni hafnað.

Útdráttur
Hafnað var kröfu Orku náttúrunnar ohf. um að úrskurður kærunefndar útboðsmála 11. júní 2021 í máli nr. 44/2020 yrði endurupptekin.

Með erindi mótteknu hjá kærunefnd útboðsmála 25. júní 2021 krafðist Orka náttúrunnar ohf. að úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 11. júní 2021 í máli nr. 44/2020 á milli sömu aðila yrði endurupptekin. Í greinargerð Reykjavíkurborgar 30. júní 2021 var tekið undir kröfu um endurupptöku málsins en Ísorka ehf. lagðist gegn endurupptöku málsins í greinargerð móttekinni 7. júlí 2021. Þá gerði Ísorka ehf. kröfu um að endurupptökubeiðanda og Reykjavíkurborg yrði gert að greiða sér málskostnað vegna meðferðar þessa hluta málsins.

I

Mál þetta á rætur sínar að rekja til þess að í júlí 2020 óskaði Reykjavíkurborg eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur hleðslustöðva á stæðum á þremur nánar tilteknum svæðum í Reykjavík. Í útboðsgögnum kom meðal annars fram að innifalið í tilboðsverði skyldi vera allur kostnaður, þ.m.t. búnaður, tengingar og rekstur á hleðslustöðvum fyrir rafbíla og rekstur þjónustuvers. Búnaður skyldi fjarlægður í lok samningstíma. Skyldi þjónustuveitandi hafa heimild til gjaldtöku á stæðum fyrir sölu raforku og notkun á hleðslustöðvum. Þá kom fram að útboðið skiptist í þrjá hluta og að bjóða mætti í einn, tvo eða alla hluta, en ekki mætti bjóða í hluta tilboðsliða. Jafnframt var tekið fram að útboðið hefði ekki verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboð voru opnuð 20. ágúst 2020 og bárust tilboð frá fjórum fyrirtækjum. Tilboð endurupptökubeiðanda var lægst en tilboð Ísorku ehf. næstlægst. Í opnunarfundargerð kom fram að kostnaðaráætlun vegna hluta 1 í útboðinu næmi 3.600.000 krónum, 3.450.000 krónum vegna hluta 2 og 3.750.000 krónum vegna hluta 3. Með bréfi Reykjavíkurborgar 2. október 2020 var bjóðendum tilkynnt að Reykjavíkurborg hefði samþykkt að ganga að tilboði endurupptökubeiðanda í alla hluta útboðsins. Væri því kominn á bindandi samningur um þjónustuna.

Með kæru 8. október 2020 kærði Ísorka ehf. útboðið til kærunefndar útboðsmála og gerði meðal annars þær kröfur að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að ganga að tilboði endurupptökubeiðanda yrði felld úr gildi, að kærunefnd veitti álit sitt á skaðabótaskyldu Reykjavíkurborgar, að samningur Reykjavíkurborgar og endurupptökubeiðanda yrði lýstur óvirkur og að hið kærða útboð yrði fellt úr gildi og lagt yrði fyrir Reykjavíkurborg að bjóða innkaupin út að nýju. Byggði Ísorka ehf. meðal annars á því að endurupptökubeiðandi fullnægði ekki kröfum útboðsgagna um tæknilegt hæfi auk þess sem útiloka hafi átt endurupptökubeiðanda frá þátttöku í útboðinu vegna hagsmunatengsla. Þá var jafnframt byggt á því að sá samningur sem boðinn hafi verið út hafi verið sérleyfissamningur umfram viðmiðunarfjárhæð samkvæmt reglugerð nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Reykjavíkurborg og endurupptökubeiðandi mótmæltu kröfum og málatilbúnaði Ísorku ehf. og kröfðust þess að kröfum fyrirtækisins yrði vísað frá eða hafnað.

Kærunefnd útboðsmála kvað upp úrskurð í málinu 11. júní 2021. Í úrskurðinum var byggt á því að af gögnum málsins mætti ráða að öll áhætta af rekstri hleðslustöðvanna hafi átt að vera í höndum þess bjóðanda sem yrði fyrir valinu og að endurgjald hans hafi átt að felast í rétti hans til að hagnýta sér þjónustuna með gjaldtöku. Því yrði að leggja til grundvallar að Reykjavíkurborg hafi í raun stefnt að gerð sérleyfissamnings í skilningi 23. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og 5. tl. 2. mgr. 5. gr. fyrrgreindrar reglugerðar um sérleyfi. Þá taldi kærunefnd einnig að miða yrði við að virði þess samnings sem stefnt hefði verið að því að gera hefði verið umfram viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar, þegar tekið væri tillit til áætlaðrar veltu samningsins yfir samningstíma hans, áætlaðs kostnaðar við kaup og uppsetningu búnaðar, áætlaðra greiðslna frá varnaraðila á samningstímanum og þess framlags sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir að varnaraðili léti af hendi. Var því talið að málið heyrði undir valdsvið kærunefndar. Af þessu leiddi einnig að Reykjavíkurborg hafði borið að birta tilkynningu um fyrirhugaða veitingu sérleyfisins á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við ákvæði sérleyfisreglugerðarinnar og þar sem það hafði ekki verið gert hefði Reykjavíkurborg brotið gegn ákvæðum hennar. Þá taldi kærunefnd að krafa Ísorku ehf. um óvirkni hefði komið fram innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga um opinber innkaup. Þar sem ekki hefði verið tilkynnt um hið kærða útboð á Evrópska efnahagssvæðinu komst kærunefndin að því að sá samningur sem hefði verið gerður á grundvelli útboðsins hefði verið gerður heimildarlaust án auglýsingar og var hann því lýstur óvirkur, sbr. a. liður 1. mgr. 115. gr. laga um opinber innkaup, auk þess sem Reykjavíkurborg var gert að bjóða út hin kærðu innkaup að nýju. Þá var Reykjavíkurborg gerð stjórnvaldssekt að fjárhæð 4.000.000 krónur, sbr. b. liður 1. mgr. 118. gr. laganna. Jafnframt var talið að Reykjavíkurborg hefði bakað sér bótaskyldu gagnvart Ísorku ehf. vegna kostnaðar fyrirtækisins af undirbúningi tilboðs og þátttöku í hinu kærða útboði.

II

Endurupptökubeiðandi byggir kröfu sína á 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu eigi málsaðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þær upplýsingar sem kærunefnd útboðsmála hafi haft um magntölur sem lágu til grundvallar áætlun um veltu hins útboðna samnings hafi verið rangar og ekki byggst á bestu fáanlegu upplýsingum. Við tilboðsgerð sína hafi endurupptökubeiðandi miðað við allt aðrar forsendur en kærunefnd hafi gert í úrskurði sínum. Kærunefnd hafi ekki kallað eftir nærtækustu gögnum um áætlaða veltu samningsins, þ.e. viðskiptaáætlunum þeirra sem gerðu tilboð. Endurupptökubeiðandi geti ekki verið látinn bera hallann af vafa um verðmæti samnings. Kærunefnd hafi borið hefðbundna rannsóknarskyldu stjórnvalds gagnvart endurupptökubeiðanda og geti ekki lagt annað til grundvallar en bestu upplýsingar. Ákvörðun nefndarinnar hafi verið mjög íþyngjandi gagnvart endurupptökubeiðanda og vafi um forsendur fyrir henni ætti að mæla gegn því að slík ákvörðun sé tekin. Nefndin hafi jafnframt átt að hafa frumkvæði að því að leita eftir betri upplýsingum ef hún teldi fyrirliggjandi upplýsingar ófullnægjandi.

Þá er byggt á því að í þeim gögnum sem kærunefndin hafði undir höndum og komu frá Reykjavíkurborg, hafi verið gert ráð fyrir útsöluverði raforku að fjárhæð 20 krónur fyrir hverja kílóvattstund og að selt magn raforku á hvert stæði næmi um 49 kílóvattstundum á dag. Þá hafi einnig verið gert ráð fyrir tekjum vegna stæðagjalds, þ.e. þess tíma sem bíll sé í sambandi við hleðslustöð. Hafi verið miðað við að gjaldið næmi 120 krónum fyrir hverja klukkustund og að alls yrðu seldar 840 klukkustundir á dag. Miðað við þessar forsendur hafi Reykjavíkurborg talið að heildarvelta yfir átta ára samningstíma yrði ríflega 625,6 milljónir króna. Endurupptökubeiðandi sé ekki sammála að bæta við þessa veltu kostnaðarliðum sem hafi fallið á bjóðanda sjálfan við rekstur samnings, beinum greiðslum frá Reykjavíkurborg til bjóðanda og ýmsum stofnkostnaði, líkt og kærunefnd hafi gert. Við mat á virði samninga eigi að skoða áætlaða veltu en önnur atriði komi ekki til skoðunar nema sérstaklega standi á. Ákvæði 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfi feli í sér heimild til mats en ekki þurfi alltaf að taka tillit til allra þátta í öllum tilvikum. Burt séð frá því lagalega ágreiningsefni séu það hinar reikningslegu forsendur sem endurupptökubeiðnin byggi á, bæði hvað varðar matið á orkusölunni og á stæðagjaldi.

Við tilboðsgerð sína hafi endurupptökubeiðandi byggt á því að hægt yrði að selja 413 kílóvattstundir af raforku af hverju stæði á mánuði. Reynslan hafi jafnframt sýnt að hleðsla á hverri slíkri einingu taki um 15 mínútur. Það hafi því mátt gera ráð fyrir 13,77 kílóvattstundum fyrir hvert stæði á dag og þar af leiðandi 206 mínútum í nýtingu hvers stæðis að meðaltali á dag eða sem nemi nærri þremur og hálfri klukkustund á hverjum degi ársins, eða um 14% nýtingu á sólarhring alla daga ársins að jafnaði. Þessi áætlun hafi verið byggð á raunnotkun annarra stöðva. Notkun og nýting í rafhlöðuverkefni sem unnið hafi verið með Reykjavíkurborg bendi til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Í þeim gögnum sem hafi verið lögð fyrir kærunefnd útboðsmála hafi hins vegar verið byggt á allt öðru og algerlega óraunhæfu mati á aðstæðum. Svo virðist sem nýtingin hafi verið ákveðin með hliðsjón af hleðslustöð í miðbæ Reykjavíkur þar sem ekki sé tekið gjald fyrir orkuna. Í þeim gögnum sem lögð hafi verið fyrir kærunefnd hafi verið gert ráð fyrir þrefalt meiri raforkusölu en sem viðskiptaáætlun endurupptökubeiðanda hafi miðað við. Samkvæmt því virðist úrskurður kærunefndar byggja á því að nýting hverrar einustu stöðvar allan ársins hring væri 12,2 klukkustundir eða meira en 50% miðað við sólarhring. Þetta sé óraunhæft viðmið og enn fjarlægara þegar tekið sé tillit til þess að stór hluti stæðanna er við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Hvað varði stæðagjald sé miðað við að gjaldið sé tvær krónur á mínútu í hverri hleðslu, en þetta sé ekki í samræmi við almenna verðskrá endurupptökubeiðanda sem miði nú við 0,5 krónur á mínútu og auk þess sé sá tími sem notaður sé í útreikningunum margfalt sá sem bjóðendur gátu reiknað með. Af þessu leiði að útreikningar sem liggi til grundvallar niðurstöður kærunefndar séu byggðar á ótraustum og beinlínis röngum forsendum. Betri rannsókn um þennan grundvallarþátt málsins hefði leitt til annarrar niðurstöðu. Hefði það verið gert hefði komið í ljós að áætluð velta fyrir allan samningstímann án virðisaukaskatts næmi tæplega 135 milljónum króna eða ríflega 200 milljónum króna að teknu tilliti til annarra þeirra liða sem kærunefnd taldi rétt að horfa einnig til við mat á því hvort verðmæti samningsins væri umfram viðmiðunarfjárhæð. Skekkja um mat á verðmæti samningsins sé margföld og hafði augljóslega ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins.

Reykjavíkurborg byggir á því að hún hafi notið aðstoðar sjálfstæðra ráðgjafa við gerð kostnaðaráætlunar sem send hafi verið kærunefnd útboðsmála við meðferð málsins. Eftir að krafa um endurupptöku málsins hafi komið fram hafi verið óskað eftir frekari skýringum frá ráðgjöfunum og afstöðu þeirra til þess hvort ákveðnir liðir í þeirri í kostnaðaráætlun, fyrst og fremst magntölur vegna notkunar, kynnu að hafa verið ofmetnir. Í svari ráðgjafana hafi komið fram að mikil óvissa hafi verið fólgin í gerð áætlunarinnar þar sem rauntímanotkun stöðva hafi ekki legið fyrir. Miðað við þær forsendur sem fram hafi komið um raunsölu eins aðila hafi kostnaðaráætlun þeirra gert ráð fyrir 3,5-faldri raunsölu þessa eina aðila. Út frá þessum tölum yrði að teljast líklegt að kostnaðaráætlun hafi innifalið ofmat á notkun og þar með ofmat á virði samnings. Upphæð samnings færi þannig langt undir sérleyfismörk hefði þessar forsendur verið notaðar í upphaflegri áætlunargerð. Byggir Reykjavíkurborg á því að þessi svör ráðgjafanna renni stoðum undir þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Ísorka ehf. byggir á því að við mat á virði samnings eigi að horfa til mats kaupanda sjálfs samkvæmt 8. gr. sérleyfisreglugerðarinnar. Af því leiðir að mat og forsendur annarra aðila, s.s. endurupptökubeiðanda, hafi enga þýðingu við mat á verðmæti samnings. Þá eigi ekki að horfa til gagna um umfang samnings eftir samningsgerð við mat á virði samningsins. Horfa skuli til forsendna og áætlunar kaupanda samkvæmt áætluðu virði á þeim tíma þegar tilkynning um sérleyfi er send eða þegar kaupandi hefur valferli fyrir sérleyfi. Þá beri að horfa til þess að þau gögn sem endurupptökubeiðandi byggi á taki aðeins til afmarkaðs fjögurra mánaða tímabils á afmörkuðum fjölda stöðva, og hafi þau því ekkert forspárgildi um virði samningsins á gildistíma hans, s.s. með væntingum um fjölgun rafbíla. Þá sé gögnin að rekja til þess tíma er samkomutakmarkanir voru í gildi vegna Covid faraldurs og því gefa þessi gögn ekki rétta mynd af notkun til framtíðar. Þá hafi forsendur Reykjavíkurborgar sem lágu til grundvallar mati þess verið vel raunhæfar og miði í reynd við afkastagetu sem sé minni en helmingur þeirra krafna sem gerðar hafi verið til afkastagetu uppsettra hleðslustöðva í útboðinu. Þá hafi endurupptökubeiðandi aldrei gert athugasemdir við forsendur og mat Reykjavíkurborgar að þessu leyti fyrr en nú. Þá sé það hvorki hlutverk Ísorku ehf. né kærunefndar að yfirfara forsendur mats Reykjavíkurborgar enda sé ekki um augljósa reiknivillu að ræða. Öll þau gögn sem endurupptökubeiðandi hafi vísað til hafi enga þýðingu í málinu eða hafi þegar legið til grundvallar málsatvikum í úrskurði kærunefndar. Varhugavert sé ef kærunefnd láti eigin gögn bjóðenda verða hluta af mati á virði samninga eða geti verið grundvöllur endurupptöku máls. Þá séu verulegar líkur á því að áhætta af útboði færist yfir á kaupanda eftir samningsgerð, s.s. ef aðili getur fengið mál endurupptekið þar sem raunvelta eða virði samnings reynist lægri en forsendur kaupanda að loknu útboði og samningsgerð. Hafi endurupptökubeiðandi verulegan skaða af úrslitum málsins verði hann að snúa sér til Reykjavíkurborgar með kröfur vegna þess. Þá hafi kærunefnd ekki brotið gegn rannsóknarreglu en fyrir liggi fjöldi bréfa og tölvupósta til endurupptökubeiðanda og Reykjavíkurborgar þar sem þeim hafi ítrekað verið gefið tækifæri til að svara sjónarmiðum Ísorku ehf. og fyrirspurnum nefndarinnar um áætlað virði samningsins.

III

Samkvæmt 7. mgr. 108. gr. laga um opinber innkaup fer að öðru leyti en þar greinir eftir stjórnsýslulögum um meðferð kærumála fyrir nefndinni. Meginreglan er því sú að kærunefndinni er óheimilt að breyta úrskurðum sínum eftir að þeir hafa verið tilkynntir aðila máls, sbr. 1. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Frá því gildir þó sú undantekning að aðili máls á rétt til þess samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að mál hans sé tekið til meðferðar á ný innan þriggja mánaða frá því úrskurður nefndarinnar var tilkynntur hafi hann byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Aðili getur því m.a. krafist endurupptöku hafi mál ekki verið nægjanlega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga áður en ákvörðun var tekin.

Sá úrskurður kærunefndar útboðsmála sem krafist er að verði endurupptekinn byggði á því að Reykjavíkurborg hafi í raun stefnt að gerð sérleyfissamnings í skilningi 23. tl. 1. mgr. 2. gr. laga opinber innkaup og 5. tl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins og að virði hans hefði verið umfram viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðisins eins og það ætti að meta samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. og 4. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar ræðst skylda til útboðs af verðmæti sérleyfis „samkvæmt mati kaupanda“ á þeim tíma þegar tilkynning um sérleyfi er send eða á þeim tíma þegar kaupandi hefur valferli fyrir sérleyfi. Aðilar máls geta dregið í efa réttmæti þessa mats og teflt fram margvíslegum sjónarmiðum málflutningi sínum til stuðnings.

Eins og hér háttaði til mat Reykjavíkurborg ekki verðmæti sérleyfisins í öndverðu eins og skylt var. Reykjavíkurborg freistaði þess hins vegar undir rekstri málsins að bæta úr þessu með því að leggja fram mat sem Reykjavíkurborg sagði raunhæft og byggja á þeim forsendum sem sérfræðingar hennar lögðu til grundvallar áður en útboðið var auglýst.

Eins og hér háttaði til höfðu allir aðilar máls tækifæri til að andmæla mati Reykjavíkurborgar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ísorka ehf. gerði ýmsar athugasemdir við matið við rekstur málsins og taldi að veltan væri vanáætluð. Endurupptökubeiðandi gerði hins vegar engar athugasemdir við matið eða þær forsendur sem það byggði á. Rétt þykir að hafa þetta í huga þótt tómlæti endurupptökubeiðanda leiði ekki til þess að hann glati rétti til að krefjast endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd taldi að lokum rétt að leggja mat Reykjavíkurborgar til grundvallar niðurstöðu sinni, þó að teknu tilliti til áætlaðs kostnaðar við kaup og uppsetningu búnaðar, áætlaðra greiðslna frá varnaraðila á samningstímanum og þess framlags sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir að varnaraðili léti af hendi. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að úrskurður kærunefndar sé að þessu leyti byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Fremur virðist sem þau nýju gögn sem nú hafa verið lögð fram skjóti undir hana enn traustari stoðum.

Fyrir lá við uppkvaðningu úrskurðarins að mat Reykjavíkurborgar var háð ýmis konar óvissu, líkt og að framan greinir. Mat Reykavíkurborgar fól þó í sér viðleitni til að spá fyrir um heildarveltu sérleyfishafa á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir sérfræðingum hennar áður en útboðið var auglýst. Sú spá byggði á margvíslegum gefnum forsendum. Þannig er fram komið í tölvuskeyti sem Reykjavíkurborg hefur lagt fram við meðferð endurupptökubeiðninnar að við matið hafi verið til staðar mikil óvissa þar sem rauntímanotkun stöðva hafi ekki legið fyrir. Ekki hafi hins vegar verið óskað eftir raungögnum vegna notkunar á stöðvum frá helstu söluaðilum þar sem gert hafi verið ráð fyrir að þeir myndu taka þátt í útboðinu. Óvarlegt hafi því verið talið að setja sig í samband við þá og byggja kostnaðaráætlun á gögnum frá einum eða fleirum tilvonandi þátttakendum útboðs. Þetta styður við forsendur úrskurðar kærunefndar. Nefndin miðaði þannig við í úrskurði sínum, þótt málflutningur aðila hafi ekkert tilefni gefið til að nefna það sérstaklega, að ráðgjafar borgarinnar hefðu unnið matið án teljandi aðkomu endurupptökubeiðanda, sbr. m.a. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 46. gr. laga um opinber innkaup. Möguleg óvissa í mati sem leiðir af þessu getur því eins og hér háttar til tæpast verið ástæða til endurupptöku.

Endurupptökubeiðandi hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að sú óvissa sem einkennir mat Reykjavíkurborgar á tekjum sérleyfishafa hafi verið umfram það sem við hafi mátt búast. Endurupptökubeiðandi hefur reyndar sjálfur bent á að miklar breytingar eigi sér stað á þeim markaði sem sérleyfið lýtur að. Þannig muni þörf fyrir hleðslulausnir „einungis færast í aukana“ á næstu árum og að mikil fjölgun muni verða á hleðslum á kvöldin og á nóttunni. Virðist því á þessu stigi varhugavert að slá nokkru föstu um að mat Reykjavíkurborgar á tekjum sérleyfishafa hafi verið byggt á röngum forsendum eða að öðru leyti verið ófullnægjandi þannig að ástæða sé til að efast um niðurstöður þess. Matið tók til tekna á átta ára tímabili og byggði á því að árstekjur af sérleyfinu yrðu jafnar á því öllu. Í því fólst tiltekin jafnaðarnálgun sem kærunefndin taldi ásættanlega en sem gjalda yrði varhug við ef tekjur á fyrsta ári væru áætlaðar úr hófi lágar. Jafnvel þótt rök séu þannig færð fyrir því að tekjurnar á stuttu tímabili rétt í upphafi sérleyfistímans séu lægri en sérfræðingar Reykjavíkurborgar miðuðu við þá felur slíkt ekki í sér fullnægjandi vísbendingar um ofmat tekna þegar litið er til samningstímans í heild. Þótt endurupptökubeiðandi hafi við tilboðsgerð sína, eða telji nú, rétt að leggja til grundvallar aðrar forsendur en Reykjavíkurborg gerði við sitt mat verður ekki talið að í því felist að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Þá fæst ekki séð að tilefni hafi verið til frekari rannsóknar málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar lá svo fyrir að Reykjavíkurborg hafði ráðist í framkvæmdir sem voru í beinum tengslum við gerð þess samnings sem boðinn var út. Nefndin taldi sig ekki hafa svigrúm til að líta fram hjá kostnaði af þessu framlagi Reykjavíkurborgar til sérleyfishafa, sbr. 4. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Í endurupptökubeiðninni eru ekki lagðar fram neinar upplýsingar eða rök sem leiða til annarrar niðurstöðu. Þvert á móti hefur endurupptökubeiðandi nú lagt fram minnisblað unnið af honum 13. júlí 2020 og uppfært 27. ágúst 2020 þar sem greiðsla Reykjavíkurborgar á innviðum í þágu sérleyfisins er sögð grundvöllur þess að endurupptökubeiðandi hugðist skila inn „núll“ tilboði í útboðinu.

Með vísan til alls framangreinds verður því að hafna kröfu endurupptökubeiðanda um endurupptöku málsins.

Með hliðsjón af niðurstöðu máls og umfangi þess verður endurupptökubeiðanda gert að greiða Ísorku ehf. 500.000 krónur málskostnað vegna þessa hluta málsins.

Ákvörðunarorð:

Kröfu Orku náttúrunnar ohf., um að úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 11. júní 2021 í máli nr. 44/2020 verði endurupptekinn, er hafnað.

Orka náttúrunnar ohf. greiði Ísorku ehf. 500.000 krónur í málskostnað.


Reykjavík, 28. júlí 2021

Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta