Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 144/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 144/2019

Miðvikudaginn 6. nóvember 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 22. október 2019, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 144/2019 þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri frá 1. janúar 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 29. nóvember 2018, sótti kærandi um ellilífeyri frá 1. janúar 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að samkvæmt innsendum gögnum myndi kærandi ekki fá greiðslur frá B fyrr en í maí 2019. Því væri skilyrði um að allir skyldubundnir lífeyrissjóðir samþykki töku lífeyris fyrir 67 ára aldur ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 14. ágúst 2019. Staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri frá 1. janúar 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði að nýju í máli kæranda.

Í beiðni kæranda kemur fram að beiðni um endurupptöku byggi á því að úrskurðarnefnd hafi ekki tekið tillit til röksemda kæranda varðandi réttindamál. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segi eftirfarandi á bls. 5: „Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að það sé skilyrði greiðslna ellilífeyris fyrir 67 ára aldur að umsækjandi hafi fengið samþykki allra þeirra lífeyrissjóða sem viðkomandi hefur greitt iðgjöld í til að hefja töku lífeyris hjá þeim fyrir 67 ára aldur.“

Kærandi geri athugasemd við það að úrskurðurinn byggi á því að hann hafi greitt í B en kærandi hafi aldrei greitt í þann lífeyrissjóð.

III.  Niðurstaða

Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 14. ágúst 2019. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri frá 1. janúar 2019.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún sé byggð á því að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi byggst á röngum upplýsingum. Kærandi byggir á því að hann hafi ekki greitt í B.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi greitt í C. Þá segir að C hafi verið lokað árið 1997 eftir sameiningu D og E og stofnaður hafi verið sjóður með nýjum samþykktum, F. Í þeim sjóði hafi verið búin til réttindi handa þeim sem greitt höfðu í C og höfðu ekki fengið iðgjöld sín endurgreidd þegar þeir hafi hætt störfum hjá D.

Úrskurðarnefnd taldi ljóst af framangreindum upplýsingum í kæru að kærandi hefði greitt iðgjöld í C, forvera B, og þannig áunnið sér réttindi hjá B. Úrskurðarnefnd telur ekkert benda til þess að úrskurðinn hafi verið byggður á röngum upplýsingum.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 144/2019 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 144/2019, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta