Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 181/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. mars 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 181/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hafi á fundi sínum þann 10. júlí 2010 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur frá 10. maí 2010. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. september 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í vottorði Iðnskólans í Hafnarfirði, dags. 13. janúar 2010, er staðfest að kærandi var nemandi við Iðnskólann á haustönn 2007, vorönn 2008, haustönn 2009 og vorönn 2010. Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi lokið vorönn 2010 og flutt til sveitarfélagsins B vegna fjárhagserfiðleika. Þar eigi hún fjölskyldu og hafi farið þangað til þess að njóta stuðnings fjölskyldunnar, en hún sé einstæð móðir átta ára gamallar stúlku. Kærandi kveðst ekki hafa ákveðið að hætta námi, hún hafi lokið 3. bekk vorið 2010 og ætli í 4. bekk haustið 2011 ef allt gangi upp.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 10. febrúar 2011, kemur fram að samkvæmt þeim gögnum sem fylgt hafi umsókn kæranda hafi hún verið skráð í Iðnskólann í Hafnarfirði á vorönn 2010, en hún hafi ekki verið skráð á haustönn 2010 þótt hún hafi ekki lokið námi sínu.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2010, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum sama dag fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur og ákveðið hafi verið að fresta afgreiðslu umsóknarinnar og óska eftir skriflegum upplýsingum frá henni um það hvers vegna hún hafi hætt námi. Var kæranda enn fremur bent á ákvæði 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segir að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur en hefur hætt námi án gildra ástæðna eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2011, er vísað til 1. mgr. 55. laga um atvinnuleysisbætur og bent á að í athugasemdum við umrædda grein frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og í raun falli fá tilvik þar undir. Kærandi hafi verið skráð í nám hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Samkvæmt vottorði frá skólanum hafi hún ekki verið skráð í námskeið á haustmisseri 2010. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki lokið síðasta ári hárgreiðslunáms hjá skólanum. Kærandi hafi fært fram skýringar á því hvers vegna hún hafi hætt námi. Lúti þær aðallega að fjárhagsaðstæðum og að hún hafi flutt til fjölskyldu sinnar í sveitarfélaginu B.

Fram kemur að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Beri því að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum eða hætta námi sínu, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hún hafi hætt námi teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysisbætur

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. mars 2011. Bréf kæranda barst 22. febrúar 2011.

 

2.

Niðurstaða

Í máli þessu er fjallað um tímabundna niðurfellingu bóta, en kærandi á rétt á bótum að liðnum biðtíma. Reglur um biðtíma hafa þann tilgang að koma í veg fyrir að fólk segi upp starfi sínu eða hætti námi til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Reglurnar undirstrika þannig það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks.

Málið lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysisbætur, sbr. a-lið 18. gr. laga nr. 134/2009 en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.
Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, segir að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Vísað er til umfjöllunar um 54. gr. í því sambandi. Í umfjöllun um 54. gr. kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega gildar ástæður í lögum og reglugerðum og meta verði hvert tilvik fyrir sig. Sem dæmi um gildar ástæður eru nefndar þær ástæður þegar maki hins tryggða hefur störf í öðrum landshluta og fjölskyldan þarf af þeim sökum að flytja og heilsufarsástæður hins tryggða.

Af framangreindu er ljóst að ef ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður þegar hætt er námi eða starfi er sagt lausu þegar annað starf er ekki í boði, þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Fjárhagsástæður hafa almennt ekki talist gildar ástæður í þessu sambandi.

Kærandi ákvað að gera hlé á námi sínu við Iðnskólann í Hafnarfirði og skráði sig ekki til áframhaldandi náms á haustönn 2010. Ástæður þess sagði hún vera að hún hafi ekki haft efni á því að stunda námið áfram og að hún hafi flutt til fjölskyldu sinnar í sveitarfélaginu B.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður sem kærandi hefur fært fram séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um tímabundna niðurfellingu bóta­réttar kæranda er því staðfest.

Það athugast að bótaréttur kæranda fellur niður í tvo mánuði en ekki í 40 daga eins og kveðið var á um í hinni kærðu ákvörðun, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og því ákvæði var breytt með 18. gr. laga nr. 134/2009.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. júlí 2010 um niðurfellingu atvinnuleysisbóta A í tvo mánuði frá og með 10. maí 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta