Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2011

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Skjólskógum á Vestfjörðum

Uppsögn.

Skjólskógar á Vestfjörðum sögðu kæranda, sem er kona, upp störfum þann 23. september 2010. Kærandi taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum með því að segja henni upp störfum fremur en öðrum hvorum þeirra karlmanna er störfuðu hjá stofnuninni. Skjólskógar á Vestfjörðum töldu hins vegar að uppsögn kæranda hefði verið nauðsynleg í ljósi mikils niðurskurðar á fjárframlögum til Skjólskóga á Vestfjörðum. Kærunefnd jafnréttismála taldi að með uppsögn kæranda hefði verið brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 2. september 2011 er tekið fyrir mál nr. 5/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 18. maí 2011, kærði kærandi, A, uppsögn úr starfi skógfræðings hjá Skjólskógum á Vestfjörðum er átti sér stað þann 23. september 2010 og taldi að með henni hefði verið farið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi dagsettu 3. júní 2011, nefndin óskaði einnig eftir frekari gögnum frá kæranda sama dag. Kærði óskaði eftir fresti þann 16. júní 2011 til að skila inn athugasemdum og bárust athugasemdir 30. júní 2011, sem kynntar voru kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. júlí 2011.
  4. Kærandi kom frekari athugasemdum á framfæri með bréfi, dagsettu 14. júlí 2011. Kærða var með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. júlí 2011, gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda. Kærði sendi inn athugasemdir með tölvupósti 5. ágúst 2011 en engar frekari athugasemdir né gögn bárust nefndinni.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina

    MÁLAVEXTIR
  6. Kærði í máli þessu, Skjólskógar á Vestfjörðum, er stofnun um eitt fimm landshlutaverkefna í skógrækt er starfrækt eru á grundvelli laga nr. 95/2006 um landshlutaverkefni í skógrækt. Samkvæmt 5. gr. laganna skipar landbúnaðarráðherra þriggja manna stjórn fyrir hvert landshlutaverkefni. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur. Á árinu 2010 störfuðu þrír starfsmenn hjá kærða, kærandi í 80% starfi og tveir karlmenn í fullu starfi en annar þeirra gegndi starfi framkvæmdastjóra. Kærandi hafði, áður en starfshlutfall hennar jókst hinn 1. janúar 2006, starfað hjá kærða frá 1. apríl 2000 sem skógfræðingur í 67% starfi, framkvæmdastjórinn hafði starfað frá febrúar 2000 og hinn karlmaðurinn hafði frá 1. júní 2001 gegnt starfi svæðisstjóra. Kærandi sinnti starfi sínu frá heimili sínu að Bjarnarfirði en svæðisstjórinn hafði starfsstöð á skrifstofu stofnunarinnar á Þingeyri.
  7. Á 46. fundi stjórnar kærða þann 1. júní 2010 var tekin ákvörðun um að ef ekki fengist leyfi til að nýta 2,2 milljón króna rekstrarafgang frá árinu 2009 yrði sagt upp einum starfsmanni Skjólskóga í júní með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í fundargerð 47. stjórnarfundar, er haldinn var 7. september 2010, kemur fram að leyfi hafi fengist til að nýta 1,7 milljón af rekstrarafganginum. Í ljósi frekari fyrirsjáanlegs niðurskurðar þótti ekki ástæða til þess að hverfa frá fyrri ákvörðun. Á fundinum var tekin ákvörðun um að segja kæranda upp störfum frá og með 1. október með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
  8. Eftir að kærandi fékk uppsagnarbréfið í hendur lögðu starfsmenn kærða sameiginlega fram tillögu til kærða þess efnis að í stað uppsagnar kæranda tækju allir starfsmenn á sig hlutfallslega starfsskerðingu. Var sú tillaga, er kynnt var á 48. stjórnarfundi þann 30. september 2010, meðal annars studd þeim rökum að með því yrði verkefnið faglega sterkara. Kærði féllst ekki á þessa tillögu en ákvað að standa við fyrri ákvörðun um uppsögn.
  9. Í framhaldi af þessum ákvörðunum óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni. Rökstuðningur barst kæranda með bréfi, dagsettu 16. desember 2010, þar sem vísað var til uppsagnarbréfs og fundargerða.
  10. Kærandi taldi þetta ófullnægjandi rökstuðning og leitaði því til Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) um aðstoð og óskaði félagið enn rökstuðnings fyrir uppsögn kæranda.
  11. Því erindi var svarað með bréfi, dagsettu 14. febrúar 2011. Þar var vísað til fyrri bréfa um rök fyrir uppsögn kæranda og auk þess nefnt að sú staðreynd að heimild hefði verið veitt fyrir nýtingu 1,7 milljóna kr. rekstrarafgangs hefði orðið til þess að uppsögn hefði verið frestað um þrjá mánuði

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  12. Kærandi telur að atvik málsins sýni að ekki hafi verið staðið að uppsögn hennar með málefnalegum hætti. Upphafleg ástæða þess að kærði hafi tekið ákvörðun um nauðsyn uppsagnar hafi ekki gengið eftir, auk þess sem engin rök hafi verið færð fyrir því hvers vegna kæranda hafi verið sagt upp en ekki öðrum hvorum karlmanninum.
  13. Kærandi bendir á að sú ákvörðun um uppsögn, sem hafi verið tekin þann 1. júní 2010, hafi grundvallast á því að ekki myndi fást leyfi til að nýta 2,2 milljón króna rekstrarafgang fyrra árs. Í fundargerð frá 7. september 2010 komi fram að leyfi hafi fengist til að nýta 1,7 milljón af þeirri fjárhæð. Þeirri fjárhæð hafi hins vegar verið ráðstafað til annars en launa. Með þessu telur kærandi að forsendur fyrri ákvörðunar hafi brostið. Engin sérstök rök hafi því verið færð fyrir nauðsyn þess að segja upp starfsmanni.
  14. Þá telur kærandi að þó fullt tilefni hefði verið til þess að fækka starfsmönnum kærða þá hafi engin rök verið færð fyrir því hvers vegna kæranda var sagt upp en ekki öðrum hvorum karlmanninum sem starfa hjá kærða. Að mati kæranda hafi kærða borið að gera sérstaka grein fyrir því þegar í upphafi hvers vegna kæranda hafi verið sagt upp, hvaða ástæður aðrar en kyn hennar hafi ráðið þeirri ákvörðun. Engar sérstakar ástæður hafi þó verið færðar fram af hálfu kærða, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um rökstuðning ákvörðunarinnar.
  15. Þegar svo háttar til sem í þessu tilviki hafi kærða borið að sýna fram á þegar í upphafi að aðrar ástæður en kyn kæranda hafi legið til grundvallar ákvörðuninni. Það hafi hann ekki gert og því telur kærandi líkur leiddar að því að raunin hafi verið sú að kyn kæranda hafi legið þar til grundvallar, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
  16. Við mat á því hvort brotið hafi verið gegn einstaklingi í þessu efni beri samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa sé gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu. Við slíkt mat telur kærandi sig taka þeim starfsmönnum, sem sátu fyrir um störf, fram í verulegum atriðum.
  17. Kærandi telur að í fyrsta lagi hafi hún meiri menntun en karlarnir tveir. Kærandi sé menntuð í skógfræði frá háskólanum í Edinborg í Skotlandi, hafi B.S. gráðu í vistfræði og -honours (4. ár) í skógfræði. Áður hafi kærandi lokið tveimur og hálfu ári í læknisfræði við HÍ. Annar karlanna hafi B.S. gráðu í búsvísindum frá Hvanneyri og hinn karlinn, framkvæmdastjórinn, hafi lokið B.S. gráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010.
  18. Kærandi nefnir að hún hafi haft lengstan starfsaldur hjá kærða. Hún hafi tekið þátt í undirbúningi verkefnis kærða allt frá árinu 1996 og unnið sem ritari undirbúningsnefndar áður en verkefnið var formlega sett á stofn árið 2000. Síðan þá hafi hún starfað sem skógfræðingur verkefnisins, gert allar skógræktaráætlanir, stundað kennslu fyrir skógarbændur og stjórnað faglegum hluta verkefnisins. Þá hafi kærandi séð um svæðisverkstjórn á Ströndum, í Inndjúpi og Reykhólasveit frá árinu 2006.
  19. Kærandi telur einsýnt að framhjá henni hafi verið gengið þegar ákvörðun var tekin um fækkun starfsmanna. Engin sérstök rök hafi verið færð fyrir þeirri ákvörðun að segja upp einu konunni sem hafi að verkefninu starfað. Hún telur að ómálefnalega hafi verið staðið að ákvörðun um uppsögn hennar og að leiddar séu líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis við þessa ákvörðun.

    SJÓNARMIÐ SKJÓLSKÓGA Á VESTFJÖRÐUM
  20. Kærði hafnar því alfarið að kynferði hafi ráðið því hvaða starfsmanni Skjólskóga var sagt upp störfum við lok árs 2010. Því er einnig hafnað að spurning geti vaknað um val milli framkvæmdastjóra kærða og kæranda við þessar aðstæður.
  21. Kærði bendir á að ákvörðun um fækkun starfa hafi verið tekin á grundvelli þess að fyrir lá að í hallarekstur stefndi árið 2010 og lækkun fjárframlaga á fjárlögum 2011 myndi nema um fjórum milljónum króna. Fjárveiting af fjárlögum til Skjólskóga á Vestfjörðum árið 2010 hafi verið kr. 43.700.000 en fjárveiting í fjárlagafrumvarpi 2011 hafi numið kr. 37.905.000. Fyrir hafi legið að gera mætti ráð fyrir enn frekari niðurskurði á árinu 2012, sem hafi slökkt vonir um að samdráttarskeiði væri lokið með árinu 2011. Kærði hafi búið við stöðugan niðurskurð á fjármagni til rekstrar frá árinu 2008 en það ár hafi fjárveiting verið 52 milljónir króna á verðlagi þess árs.
  22. Þar sem kærði hafi stefnt í rekstrarhalla á árinu 2010, hafi verið farið fram á að nota rekstrarafgang frá 2009 upp á 2,2 milljónir króna til að ná endum saman árið 2010. Leyfi hafi fengist til að nota 1,7 milljónir króna í þessu skyni og hafi það orðið til þess að slegið var á frest að segja upp einum starfsmanni.
  23. Kærði nefnir að unnið hafi verið að því frá því í desember 2008 að draga sem mest úr kostnaði við framkvæmdir og annan rekstur. Einnig hafi verið leitað nýrra verkefna fyrir kærða sem gætu skilað tekjum, einkum verkefna sem hafi krafist faglegrar þekkingar og reynslu skógfræðings. Verkefnaleit hafi ekki borið árangur. Það hafi því legið fyrir a.m.k. frá miðju ári 2009 að kærði yrði að skera niður í starfsmannahaldi.
  24. Stjórn kærða hafi ákveðið á fundi sínum þann 7. september 2010 að kæranda yrði sagt upp störfum og að starfslok yrðu 31. desember 2010. Ástæða uppsagnar hafi verið gefin í uppsagnarbréfi, þ.e. lækkun á fjárveitingum og fyrirsjáanlegur samdráttur á starfsemi stofnunarinnar af þeim sökum.
  25. Kærði nefnir að frá stofnun hafi sú hefð skapast að eftirlits- og ráðgjafarhlutverk stjórnar hafi einnig tekið til starfsmannamála og framkvæmdastjóri í hafi þeim efnum haft náið samstarf við stjórn.
  26. Í umræðum á stjórnarfundi kærða hafi það verið metið svo að skynsamlegast væri að segja kæranda upp fremur en öðrum starfsmönnum. Stjórnin hafi talið mikilvægt að verja eða veikja ekki aðal starfsstöð verkefnisins á Þingeyri en lögð hafi verið niður starfsstöð í Bjarnarfirði. Þetta hafi stjórnin talið mikilvægt atriði, einkum í ljósi þess að allar líkur væru á enn frekari niðurskurði í starfsmannahaldi að ári og einnig talsverð óvissa um hvort verkefnið yrði til með sama formi árið 2011. Á þessum tíma hafi legið fyrir í ráðuneyti tillögur um sameiningu verkefna, til dæmis sameiningu kærða við Vesturlandsskóga eða sameiningu allra fimm verkefnanna undir einn hatt.
  27. Fyrirsjáanlega yrði ekki mikið álag á kærða við gerð nýrra skógræktaráætlana, þar sem aðeins fimm nýir samningar hafi legið fyrir. Framkvæmdastjóri sé með skógfræðimenntun og hafi því getað sinnt faglegu hlutverki stofnunarinnar sem aðstæður krefðust hverju sinni með annarri vinnu, meðal annars vegna minnkandi umsvifa verkefnisins.
  28. Kærði hafi talið að við þessar aðstæður hafi honum borið að leggja höfuð áherslu á að standa við skuldbindingar á framkvæmd lögboðins hlutverks síns og því hafi verið réttlætanlegt að niðurskurður kæmi meðal annars niður á þá mjög sterkri faglegri stöðu verkefnisins. Kærði hafi talið að svæðisstjóri með starfsstöð á Þingeyri gegndi það mikilvægu hlutverki að ekki væri skynsamlegt að segja honum upp störfum. Hér hafi einkum átt við sérverksvið hans utan venjulegs svæðisstjórahlutverks en það sé einkum umsjón með öllum gögnum landupplýsinga sem tengjast starfseminni og umsjón með framkvæmdaskráningum og útreikning á uppgjöri framkvæmdaframlaga. Þau verk séu unnin í nánu og daglegu samstarfi við framkvæmdastjóra og séu á ábyrgð hans en hann hafi einnig starfsstöð á Þingeyri.
  29. Ekki hafi borið árangur að leita að tekjuskapandi verkefnum fyrir kærða sem krefðust sérfræðiþekkingar skógfræðings.
  30. Kærði nefnir að allir starfsmenn hafi lagt fram tillögu um að annar háttur yrði hafður á við niðurskurð í starfsmannahaldi, þannig að starfshlutfall yrði lækkað hjá öllum en engum sagt upp. Þetta var meðal annars rökstutt með því að þessi leið hafi verið farin hjá öðrum sams konar verkefnum. Kærði hafi metið það svo að skynsamlegra væri að segja kæranda upp störfum. Meiri sparnaður myndi nást með uppsögn starfsmanns en með lækkuðu starfshlutfalli enda alltaf nokkur kostnaður tengdur störfum hvert sem starfshlutfall viðkomandi væri.
  31. Framkvæmdastjóri kærða hafi farið að vilja stjórnar enda hafi hann talið að ef ekki hefði verið kostur á öðru en segja upp einum starfsmanni hafi uppsögn kæranda verið illskásti kosturinn, meðal annars af þeim sökum að verkefnið yrði illa starfshæft með tvo starfsmenn staðsetta hvorn á sinni starfsstöðinni en um 260 km vegalengd sé á milli starfsstöðva.
  32. Kærði nefnir að staðhæfing kæranda um að reynsluminni og minna menntaðir starfsmenn hafi haldið störfum sínum sé ekki rétt þar sem annar þeirra sem hafi haldið starfi sínu hafi a.m.k. ekki minni reynslu af skógrækt og skógræktarframkvæmdum en kærandi. Hvorugur samstarfsmanna hafi fengið framgöngu í starfi við uppsögn kæranda. Framkvæmdastjóri hafi gegnt því starfi samfellt frá 4. febrúar 2000 og ekki hlotið aðra framgöngu en samkvæmt gildandi stofnanasamningi kærða við Félag íslenskra náttúrufræðinga.
  33. Kærði nefnir að staðhæfing kæranda um að 1,7 milljón króna hafi verið varið til annars en launa standist ekki, þar sem heimild til að nýta rekstrarafgang hafi haft það í för með að uppsögn kæranda hafi verið frestað um þrjá mánuði.
  34. Kærði telur jafnframt að fullyrðing kæranda um að hún hafi lengstan starfsaldur starfsmannanna þriggja hjá kæranda standist ekki.
  35. Með bréfi kærða frá 28. júní 2011 fylgdu starfslýsingar þeirra starfsmanna er starfað höfðu hjá stofnuninni en kærunefnd hafði sérstaklega óskað eftir að slíkar upplýsingar yrðu látnar í té.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  36. Kærandi bendir á að í röksemdum kærða komi fram ýmsar skýringar á uppsögn kæranda sem ekki hafi verið byggt á eða haldið fram þegar uppsögnin hafi átt sér stað né þegar hafi verið krafist frekari rökstuðnings fyrir uppsögninni. Er þar átt við röksemdir er lúta að mikilvægi þess að veikja ekki starfsstöð á Þingeyri.
  37. Kærandi mótmælir staðhæfingu kærða um mikilvægi starfsstöðvar á Þingeyri umfram starfsstöð í Bjarnarfirði. Hún tiltekur að 40% þeirra 52 skógarjarða sem kærði á að sinna séu innan 100 km frá Bjarnarfirði en yfir 200 km frá Þingeyri. Ferðakostnaður sparist því tæplega með niðurlagningu stöðvar í Bjarnarfirði .
  38. Þá kannast kærandi ekki við að vandamál hafi komið upp í samskiptum starfsmanna vegna fjarlægðar. Gott netsamband sé nú komið á í Bjarnarfirði.
  39. Þá vill kærandi árétta að framkvæmdastjóri kærða hafi síðastliðin þrjú ár verið í fullu námi samhliða starfi sínu hjá verkefninu Í athugasemdum kærða sé meðal annars á því byggt að þar sem framkvæmdastjórinn búi yfir skógfræðimenntun geti hann sinnt faglegu hlutverki stofnunarinnar. Þá menntun hafi hann ekki haft fyrr en í júní 2010 en fram að því hafi kærandi verið ein starfsmanna verkefnisins með menntun skógfræðings auk reynslu sem slíkur. Þá skuli áréttað að gerður hafi verið nýr ráðningarsamningur við framkvæmdastjóra frá og með 1. janúar 2011 og laun hans hækkuð. Megi jafnvel líta svo á að uppsögn kæranda hafi staðið í beinu samhengi við lok náms framkvæmdastjórans.
  40. Kærandi mótmælir því sem haldið er fram í athugasemdum kærða að fagleg umsvif verkefnisins hafi minnkað. Það sé rétt að aðeins hafi verið gerðir fimm nýir samningar á árinu en það sé meðaltal þess fjölda samninga sem gerðir hafi verið þau ár sem kærði hafi verið starfandi. Gerð skógræktaráætlunar taki nokkrar vikur fyrir hvern aðila ef vel eigi að vera, kortlagning svæðisins, samráð við landeiganda og fræðsla til hans, áætlanagerð, textagerð um aðstæður og skógræktina, auk kortagerðar og myndvinnslu. Vandlega gerð skógræktaráætlun sé í raun grunnur fyrir vel heppnaðri skógrækt.
  41. Kærandi bendir á að stórir aðilar sem hafi gróðursett mikið séu nú að ljúka gróðursetningu á sínum jörðum og því ráðrúm til að taka inn nýja aðila sem eru á biðlista. Það sé reynsla af þessu starfi að eitt til tvö ár sé góður undirbúningstími.
  42. Kærandi bendir á að kærði hafi nú starfað í 10 ár og tímabært að taka út árangur gróðursetninga til að læra megi af því um skilyrði á Vestfjörðum og þróa áfram vinnu við áætlanagerðina og verkefnið í heild sinni. Einnig þurfi að þróa og kenna faglega skógarumhirðu svo að vaxandi skógar verði sem bestir. Verkefni skógfræðings séu því alls ekki að minnka stórlega. Kærandi hafi einnig sinnt fjölda annarra verkefna þar á meðal svæðisverkstjórn á Ströndum, Inn-Djúpi og Reykhólasveit.
  43. Varðandi þá röksemd kærða að réttlætanlegt sé að niðurskurður komi niður á faglegri stöðu verkefnisins er því mótmælt sérstaklega og vakin athygli á því að í yfirlýsingu þessari felist viðurkenning á því að með uppsögn kæranda hafi meira menntuðum einstaklingi verið fórnað fyrir minna menntaðan.
  44. Kærandi telur að verkefni við uppgjör framkvæmdaframlaga og framkvæmdaskráning gætu hæglega rúmast í verkahring skógfræðings, enda um einfaldan útreikning að ræða sem krefjist engrar sérþekkingar. Hún sé sérlega talnaglögg, hafi mjög góða tölfræðilega menntun og hafi auk þess séð um bókhald fyrir smærri fyrirtæki. Landupplýsingakerfið hafi verið bæði í höndum svæðisstjóra á Þingeyri og skógfræðings, enda hafi kærandi séð um alla kortagerð og innfærslu landupplýsinga og áætlana í grunninn. Kærandi hafi farið á tilheyrandi námskeið til að vinna með grunninn. Það sé því erfitt að skilja gríðarlegt mikilvægi þess að hafa starfsmann til að sinna þessu tvennu utan þess að segja bændum til sem svæðisstjóri en til þess hafi svæðisverkstjórinn á Þingeyri enga menntun.
  45. Röksemdum kærða um að leit að tekjuskapandi verkefnum hafi ekki borið árangur er mótmælt af hálfu kæranda og telur hún engin gögn hafa verið lögð fram um hvað hafi verið unnið í því efni.
  46. Um óhagræði af því að hafa tvo starfsmenn í starfi í 300 km fjarlægð frá skrifstofum þeirra telur kærandi að það að hafa starfsmenn staðsetta á Þingeyri og í Bjarnarfirði hefði haft ótvíræða kosti vegna ferða til skógarbænda.
  47. Kærandi bendir á að starfslýsingar sem lagðar séu fram af hendi kæranda í máli þessu séu samdar eftir að mál þetta kom til, þ.e. í tilefni kærumáls þessa og beri að skoða í því ljósi. Að mati kæranda hafi starfslýsingarnar því ekki sönnunargildi sem slíkar enda einhliða samdar af kærða eftir á. Kærandi bendir á að annar starfsmanna kærða hafi ekki séð um kortagerð í mörg ár, sú vinna hafi verið á hendi kæranda.
  48. Af framlögðum ferilskrám megi ráða að kærandi hafi ótvírætt meiri menntun en starfsmenn kærða. Þar muni sérstaklega um „honours“ árið í Edinborgarháskóla en árangur hennar á því prófi jafngildi meistaraprófi sem nægi til þess að kærandi kæmist beint í doktorsnám í breska háskólakerfinu. Kærandi telur 10 ára reynslu sína sem starfandi skógfræðingur auk fjögurra ára undirbúnings- og hugmyndavinnu fyrir kærða talsvert meiri en þá reynslu sem framkvæmdastjórinn búi yfir. Ferilskrá kæranda sýni faglegan metnað hennar og stöðuga símenntun. Hún hafi jafnlangan starfsaldur hjá verkefninu og framkvæmdastjóri og lengri en hinn starfsmaðurinn. Hún hafi auk þess lengstan starfsaldur sem skógfræðingur.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  49. Kærði tekur fram að því sé ekki mótmælt að með uppsögn kæranda hafi verkefnið Skjólskógar á Vestfjörðum sett niður faglega. Þegar um sé að ræða stofnun með aðeins þrjá starfsmenn sem allir hafi sérfræðimenntun sé ólíklegt að unnt sé að hagræða með fækkun starfsmanna öðru vísi en það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir verkefnið.
  50. Varðandi starfslýsingar tekur kærði fram að síðan farið hafi verið að vinna með stafræn upplýsingagögn árið 2002 undir handleiðslu framkvæmdastjóra hafi svæðisstjórinn borið hita og þunga af því tæknisviði, fram til 2006 hafi hann fengið öll kortagögn frá skógfræðingi á pappírsformi og séð um að koma þeim á stafrænt form.

    NIÐURSTAÐA
  51. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsmönnum við uppsögn úr starfi á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  52. Þegar Skjólskógar á Vestfjörðum tóku ákvörðun hinn 7. september 2010 um að segja kæranda upp störfum störfuðu þrír starfsmenn hjá kærða. Kærandi, sem er kona, var þá í 80% starfi sem skógfræðingur með starfsstöð á heimili sínu í Bjarnarfirði, en svæðisstjóri og framkvæmdastjóri, sem báðir eru karlmenn, störfuðu í fullu starfi á skrifstofu verkefnisins á Þingeyri. Í gögnum frá kærða kom fram að sumurin 2001–2007 hefði starfað sumarstarfsmaður sem svæðisstjóri á austurhluta starfssvæðis kærða en frá árinu 2008 hefðu verkefni sumarstarfsmannsins skipst milli kæranda og núverandi svæðisstjóra.
  53. Eins og áður segir er atvinnurekanda óheimilt samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að mismuna á grundvelli kyns við uppsögn úr starfi. Við mat á því hvort kærði hafi brotið gegn fyrrgreindu lagaákvæði er nauðsynlegt að afmarka hverjir þeir starfsmenn voru sem til greina kom að segja upp störfum. Eins og að framan greinir störfuðu hjá kærða þrír starfsmenn, kærandi, svæðisstjóri á Þingeyri og framkvæmdastjóri. Framkvæmdastjóri er ráðinn af stjórn, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2006. Framkvæmdastjóri hefur því sérstöðu umfram aðra starfsmenn, sem eru ráðnir af framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur verkefnisins, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2006. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en vegna fjárskorts hafi staðið til að segja upp starfsmanni en ekki framkvæmdastjóra, enda leiðir beint af 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2006 að framkvæmdastjóra ber að starfa við verkefnið. Við mat á því hvort brotið hafi verið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og hvort kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis við uppsögn úr starfi er því rétt að bera saman menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og aðra sérstaka hæfileika kæranda annars vegar, og svæðisstjóra kærða á Þingeyri hins vegar.
  54. Kærandi er með B.S. próf í vistfræði með Honours í skógfræði og hóf störf hjá kærða 1. apríl 2000. Verkefni kæranda voru fólgin í fræðslu, kennslu, leiðbeiningum og samskiptum við skógarbændur á öllu starfssvæði kærða, úttektir á árlegum framkvæmdum með svæðisstjórum, einkum frá og með 2008 þegar ekki var ráðinn sumarstarfsmaður á Ströndum og Austur-Barðastrandasýslu. Kærandi hafði umsjón, ein eða með öðrum, bæði innan stofnunar og utan, með ýmsu útgefnu fræðsluefni eða ritum á vegum kærða eða annarra. Sérfræðisvið kæranda fólst í gerð ræktunaráætlana, þ.m.t. ræktunarkorta og gróðurkortlagningu, úttekt á árangri skógræktar og tölfræðilegri úrvinnslu, umsjón með kennsluefni og kennslu á grunnnámskeiðum skógarbænda í samstarfi við aðra starfsmenn, gerð árlegra framkvæmdaáætlana í samstarfi við framkvæmdastjóra, kennslu á námskeiðum hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í útseldri vinnu frá kærða og úttektum á plöntum frá skógarplöntuframleiðendum.
  55. Svæðisstjórinn, sem er með B.S. gráðu í búfræði frá Hvanneyri, hóf störf hjá kærða 1. júní 2001. Verkefni svæðisstjóra fólust í ábyrgð á framkvæmdum á hans svæði og gerð árlegra framkvæmdaáætlana í samstarfi við framkvæmdastjóra, árlegri úttekt framkvæmda og samskiptum við bændur á hans svæði. Sérfræðisvið svæðisstjóra var samkvæmt upplýsingum kærða rekstur gagnagrunns, opinber upplýsingagjöf auk umsjónar með gildandi ræktunaráætlunum, frágangur útgáfu stafrænna landupplýsinga (kortagerð), umsjón og ábyrgð á stafrænum landupplýsingum, utanumhald og vinnsla uppgjörsgagna framkvæmda. Skilja ber upplýsingagjöf kærða svo að verkefni við kortagerð hafi að hluta til verið á hendi kæranda frá árinu 2006.
  56. Við samanburð á þeim þáttum sem taldir eru upp í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 ber að líta til þess að menntun kæranda er á sviði vistfræði, en menntun svæðisstjórans á sviði búvísinda. Þá er kærandi með fjögurra ára háskólanám að baki (honours) en svæðisstjórinn þriggja ára háskólanám. Verður því kærandi talin að minnsta kosti jafnhæf og svæðisstjórinn til að gegna starfi sínu á grundvelli menntunar, auk þess sem menntun kæranda er bæði lengri og fellur betur að því sérsviði sem kærði starfar á. Kærandi hefur lengri starfsreynslu en svæðisstjórinn; kærandi hóf störf hjá kærða þann 1. apríl 2000, svæðisstjórinn þann 1. júní 2001. Upplýst er að kærandi hafði áður starfað að undirbúningi verkefnisins. Sérþekking kæranda til starfa hjá kærða er að minnsta kosti jafnmikil og svæðisstjórans, en af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi með ýmsum hætti leitast við að auka þekkingu sína og hæfni, meðal annars með greinaskrifum, þátttöku í ráðstefnum og námskeiðum, fyrirlestrum o.fl.
  57. Af samanburðinum sést að kærandi er að minnsta kosti jafnhæf og svæðisstjórinn til að gegna veigamiklum þáttum þess starfs er kærði hefur haft með höndum, og að mörgu leyti má ætla að kærandi sé hæfari til þess en núverandi svæðisstjóri. Verður því að telja að leiddar hafi verið líkur að því að kærandi hafi sætt mismunun á grundvelli kynferðis, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við uppsögn úr starfi. Kærða ber við þær aðstæður að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðunar hans.
  58. Fyrir kærunefnd jafnréttismála hefur kærði rökstutt ákvörðun um uppsögn kærða, meðal annars með því að heppilegt hafi verið að leggja niður starfsstöð verkefnisins í Bjarnarfirði fremur en að veikja starfsstöðina á Þingeyri. Kærði hefur engin gögn lagt fram svo sem um kostnað eða annað sem styður þessa fullyrðingu.
  59. Kærði hefur fyrir kærunefnd lagt áherslu á mikilvægi sérverkefna svæðisstjórans er starfaði á Þingeyri, þ.e. umsjón með öllum gögnum landupplýsinga, umsjón með framkvæmdaskráningum og útreikning á uppgjöri framkvæmdaframlaga en þessi verk séu unnin í nánu og daglegu samstarfi við framkvæmdastjóra og á ábyrgð hans. Jafnframt hefur verið upplýst að frá 2006 hafi tiltekin verkefni við kortagerð færst frá svæðisstjóranum til kæranda. Kærði hefur hins vegar ekki sýnt fram á að þessi störf séu það sérhæfð eða krefjist slíkrar sérfræðikunnáttu að þau hefðu ekki getað færst til kæranda eða framkvæmdastjóra kærða. Verður og ekki annað ráðið af gögnum málsins en kærandi hafi sinnt hluta þessara starfa meðan hún var í starfi hjá kærða.
  60. Kærði hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að málefnalegt mat hafi átt sér stað eða að málefnalegar ástæður að öðru leyti hafi legið til grundvallar ákvörðun um uppsögn kæranda umfram þann starfsmann er gegndi starfi svæðisstjóra. Að þessu virtu og þeim samanburði á menntun og hæfni starfsmanna kærða er áður greinir er það álit nefndarinnar að kærði hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um uppsögn kæranda.
  61. Með vísan til framangreinds hefur kærði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar hann sagði kæranda upp starfi skógfræðings hjá kærða hinn 7. september 2010.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Skjólskógar á Vestfjörðum brutu gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við uppsögn A úr starfi skógfræðings hjá kærða.

  

Erla S. Árnadóttir

Grímur Sigurðsson

Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta