Mál nr. 10/2011
Fimmtudaginn 9. júní 2011
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 5. apríl 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. mars 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. janúar 2011, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi.
Með bréfi, dags. 13. apríl 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 2. maí 2011.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. maí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust í tölvubréfi, dags. 19. maí 2011.
I.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi greinir frá því að með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. janúar 2011, hafi honum verið synjað um fæðingarstyrk til námsmanna í fullu námi. Grundvöllur synjunarinnar sé sá að nám hans sé verklegt, við erlent sjúkrahús. Ekki sé um frekari rökstuðning að ræða í bréfinu, en í því sé reifað efni 4. mgr. 7. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), með áorðnum breytingum, sbr. c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Að mati kæranda er þetta ekki réttmætur grundvöllur synjunar um fæðingarstyrk og í bréfi sjóðsins sé reyndar ranglega vitnað til 3. mgr. 7. gr. ffl.
Synjun Fæðingarorlofssjóðs hafi skort rökstuðning og því hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir synjuninni. Í svari Fæðingarorlofssjóðs hafi með sama hætti og í upphaflegri synjun, verið reifað orðalag fyrrgreindra ákvæða laga og reglugerða. Ekki hafi hins vegar, frekar en í upphaflegri synjun, verið vikið að þeim megin sjónarmiðum sem hafi verið ráðandi við mat sjóðsins á því hvort aðstæður hans rúmuðust innan 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. ffl. - sem óhjákvæmilega hljóti þó að hafa farið fram við afgreiðslu umsóknar hans. Kærandi greinir frá því að það sé alls ekki ljóst af svörum sjóðsins hver sé ákvörðunarástæðan fyrir synjun umsóknarinnar. Vísar kærandi í þessu samhengi til 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga (ssl.) um þær kröfur sem gera verður til stjórnvalds um efni rökstuðnings fyrir stjórnvaldsákvörðun, máli sínu til stuðnings.
Kærandi greinir frá því að nám hans við erlendan háskóla geti ekki eitt og sér útilokað að hann fái styrk. Kærandi kveðst leggja stund á framhaldsnám á sérsviði, sem ekki sé kennt á Íslandi og hann eigi enn lögheimili á Íslandi. Aðsetur sé hins vegar skráð í D-landi. Í þessu samhengi vekur kærandi athygli á að 3. mgr. 19. gr., sbr. 7. gr., ffl. geri ráð fyrir undanþágu frá lögheimilisskilyrði, sbr. „hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“ Það sama segi í reglum sjóðsins: „Foreldri sem er námsmaður erlendis og hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis getur átt rétt á greiðslu fæðingarstyrks enda hafi foreldrið átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og uppfyllir skilyrði um fullt nám.“
Kærandi telur að túlkun sjóðsins á því að þetta tiltekna nám falli ekki undir skilgreiningu ffl. á „fullu námi“ sé alveg órökstudd. Lögin (og reglur sjóðsins) skilgreini fullt nám sem „75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“ Ekki fáist séð að nánari viðmið hafi verið gefin út um hvað teljist fullnægjandi í þessu tilliti í reglum/á vefsíðu sjóðsins, önnur en fullnægjandi námsárangur og að hlutaðeigandi hafi sannanlega flutt erlendis til að stunda nám.
Kærandi greinir frá því að hann hafi hætt störfum á B 30. apríl 2010 og hafið verklegt nám á Ei sem tengt sé C-háskóla í D-landi 25. júní 2010. Um sé að ræða fullt fjögurra ára nám, sem veiti sérfræðingsleyfi í F. Það sé ekki uppbyggt af svokölluðum ECTS einingum, frekar en annað sambærilegt nám. Kærandi kveðst vera á styrk (e. stipend) frá C-háskóla, meðan á námi stendur. Óhjákvæmilega sé hluti náms kæranda fólginn í störfum á háskólasjúkrahúsinu (þ.e. verklegir þættir), samhliða bóklegu námi og fyrirlestrasókn. Sá þáttur námsins sem fólginn sé í störfum á sjúkrahúsinu sé ekki launaður sérstaklega og styrkurinn sé óháður því hversu umfangsmikil slík störf kunni að vera. Kærandi leggur áherslu á að hann sé í D-landi á svokallaðri J1-vegabréfsáritun (þ.e. Jl visa), sem felur í sér blátt bann við launaðri vinnu, hvort heldur innan eða utan háskólasjúkrahússins þar sem hann stundar nám.
II.
Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.
Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram kærandi hafi með umsókn, dags. 3. nóvember 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 3. janúar 2011. Með umsókninni hafi fylgt bréf frá E, dags. 8. desember 2010, tölvupóstar milli Fæðingarorlofssjóðs og maka kæranda frá 2. nóvember - 28. desember 2010, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 3. nóvember 2010, og fæðingarvottorð, dags. 20. janúar 2011, og bréf Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. desember 2010. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands.
Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. janúar 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi væri í verklegu námi við erlent sjúkrahús.
Í kjölfar synjunarinnar hafi borist tölvubréf frá maka kæranda, dags. 9. febrúar 2011, þar sem óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi. Hafi þeim tölvupósti verið svarað 15. febrúar 2011.
Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Í 3. mgr. 19. gr. ffl. komi fram sú meginregla að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði þar á undan. Heimilt sé þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Hið sama gildi þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægir öðrum skilyrðum um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.
Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008 og c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda sé fætt Y. desember 2010 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. desember 2009 fram að fæðingardegi barnsins.
Samkvæmt tölvubréfi frá maka kæranda, dags. 2. nóvember 2010, flutti kærandi til D-lands til að hefja sérnám í F sem hafi hafist þann 16. júní 2010. Kærandi sé á styrk (e.stipend) hjá C-háskóla, sem sé ætlaður til að greiða fyrir húsaskjól og brýnustu nauðsynjar til daglegs lífs. Í tölvubréfinu segi einnig orðrétt að kærandi sé í 4 ára sérfræðingaprógrammi við C-háskóla (2010-2014). Ekki sé um að ræða eiginlegar annir eða einingar sem hann klári, þar sem námið sé að mestum hluta verknám. Jafnframt sé ítrekað í tölvupóstinum að kærandi fái árlegan styrk (fasta upphæð) frá skólanum og hann hafi ekki möguleika á að taka launaða aukavinnu með skólanum.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með tölvubréfi, dags. 3. nóvember 2010, hafi verið óskað eftir því að kærandi sendi staðfestingu frá skólanum um uppsetningu náms og námsframvindu. Kæranda hafi jafnframt verið sent bréf, dags. 20. desember 2010, þar sem óskað hafi verið eftir staðfestri námsframvindu frá því að nám hafi hafist, hve mörgum ECTS einingum kærandi hafi lokið.
Í tölvubréfi frá maka kæranda, dags. 28. desember 2010, sé ítrekað það sem kom fram í tölvubréfi, dags. 2. nóvember 2010, en jafnframt hafi verið bætt við að námið sé nokkurs konar „allt eða ekkert“ nám sem veiti sérfræðingaleyfi í F eftir 4 ár.
Í bréfi sem hafi borist frá C-háskóla, dags. 8. desember 2010, komi meðal annars fram að kærandi hafi hafið störf 16. júní 2010 og áætlað sé að hann klári þjálfun 30. júní 2014.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með kæru hafi fylgt afrit af vegabréfsáritun kæranda til D-lands, dags. 28. apríl 2010. Á henni komi meðal annars fram að styrkur til kæranda fyrir tímabilið 16. júní 2010 – 24. júní 2011 sem greiddur sé af E nemi X sem sé um 5,2 milljónir kr. Fæðingarorlofssjóður bendir á að á heimasíðunni, megi meðal annars sjá að kærandi sé skráður sem PGY – 1. Á yfirlit yfir styrki (e.stipends) komi fram að styrkur til PGY – 1 árið 2011 – 2012 sé X sem geri rúmlega 5,3 milljónir kr. Styrkurinn fari svo stighækkandi eftir PGY stigum og þannig sé styrkur fyrir PGY – 7 X eða um 6,6 milljónir kr.
Samkvæmt framangreindu telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi sé í launuðu verknámi við erlent háskólasjúkrahús í F-læknisfræði. Með hliðsjón af því líti sjóðurinn svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.
Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 8. mars 2011.
III.
Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.
Kærandi greinir frá því að í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sé vikið að styrkfjárhæðum og vegabréfsáritunum. Hann áréttar að það tímabil sem umsókn hans um fæðingarstyrk varði sé tímabilið Y. desember 2009 til Y. desember 2010. Á vegabréfsárituninni sem umsókn hans og kæru fylgdi sé tilgreind rétta styrkfjárhæðin. Það sé hins vegar rétt að hann sé PGY-1 tímabilið frá 16. júní 2010 til 30. júní 2011 (styrkur að fjárhæð X). Kærandi greinir frá því að í ljósi þess að um sé að ræða fjögurra ára prógramm liggi jafnframt fyrir að hann fari hæst upp í PGY-4.
Hvað varði skilgreiningu „launa“ þá andmælir kærandi málatilbúnaði sjóðsins. Hann bendir á að laun séu yfirleitt í samhengi við tiltekið vinnuframlag, en styrkur sé föst fjárhæð. Eins og fram hafi komið sé umræddur styrkur eina fjáröflunarleið hans á meðan á náminu stendur.
Að mati kæranda er rökstuðningur sjóðsins fátæklegur og ófullnægjandi. Slík takmörkun á réttindum foreldra og skattborgara, sem felst í synjuninni, er að hans mati óréttmæt þegar horft er til gildandi laga, reglna og lögskýringargagna. Það standi Fæðingarorlofssjóði nær, sem opinberri stofnun, að sjá til þess að reglur þær sem sjóðurinn starfar eftir séu skýrar og ótvíræðar.
IV.
Niðurstaða.
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi hinn 6. janúar 2011, sbr. einnig tölvubréf sjóðsins til kæranda, dags. 15. febrúar sama ár.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur.
Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.
Samkvæmt gögnum málsins er barn kæranda fætt hinn Y. desember 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. desember 2009 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt vottorði frá E, dags. 8. september 2010, hefur kærandi verið X í sérnámsstöðu í F við háskólasjúkrahúsið frá 16. júní 2010 og áætlað sé að hann ljúki þjálfun/menntun sinni 30. júní 2014. Einnig kemur fram í vottorðinu að kærandi hafi lokið sex mánuðum af umræddu námi sínu við sjúkrahúsið.
Að mati nefndarinnar liggur því fyrir að kærandi var í fullu námi í samfellda sex mánuði fyrir fæðingu barns hans Y. desember 2010 í skilningi ffl. og hefur sýnt viðunandi námsárangur samkvæmt vottorði E, dags. 8. september 2010. Í synjun fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. janúar 2011, sem og tölvubréfi sjóðsins til kæranda, dags. 15. febrúar sama ár, virðist á því byggt að nám kæranda sé verklegt nám við erlent sjúkrahús. Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. einnig c. lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 er ekki gerður sá munur á verknámi á Íslandi og erlendis, svo sem gert var með eldri reglugerð. Verður synjun á umsókn kæranda því ekki byggð á því að nám hans felist í verknámi erlendis. Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs til nefndarinnar virðist synjun sjóðsins jafnframt byggð á því að umrætt verknám sé launað. Að mati nefndarinnar verður ekki séð að styrkgreiðslur til kæranda, sem nema fastri upphæð óháð vinnuframlagi hans, geti haft áhrif á réttindi hans til fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt ffl., en dvöl kæranda í D-landi byggir á námsmannaáritun og hefur hann ekki atvinnuleyfi þar. Fjárhæð styrksins hefur ekki áhrif þar á að mati nefndarinnar.
Með vísan til framangreinds telst kærandi hafa verið í fullu námi og sýnt viðunandi námsárangur í skilningi ffl. í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Verður því hin kærða ákvörðun felld úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er felld úr gildi.
Jóna Björk Helgadóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson