Mál nr. 9/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 9/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar, þar sem hún hafi ekki tilkynnt um starf hjá fyrirtækinu X á tímabilinu 1. júlí til 31. júlí 2010. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 154.535 kr. með 15% álagi, skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 12. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 11. nóvember 2009 og fékk greiddar atvinnuleysistryggingar í samræmi við rétt sinn.
Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í októbermánuði 2010, komu í ljós tekjur kæranda í júnímánuði 2010 að fjárhæð 414.000 kr. vegna starfs hennar hjá fyrirtækinu X ehf. Kærandi hafði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um tekjur vegna tilfallandi vinnu eða hlutastarfs.
Með bréfi, ,dags. 7. október 2010, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim tekjum er hún hafði á sama tíma og hún þáði greiðslu atvinnuleysistrygginga. Engin gögn bárust frá kæranda.
Með bréfi, dags. 22. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga henni til handa yrðu stöðvaðar þar sem umbeðin gögn höfðu ekki borist stofnuninni.
Þann 2. nóvember 2010 skilaði kærandi eyðublaði með tilkynningu um tekjur og launaseðil til Vinnumálastofnunar. Kærandi upplýsti á eyðublaðinu að til hafi staðið hjá sér að vinna hjá X allt sumarið 2010 en „ekki varð úr því“. Samkvæmt launaseðli hafði kærandi starfað hjá fyrirtækinu X ehf. í júnímánuði 2010.
Með bréfi, dags. 15. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar þar sem hún hafði verið við vinnu samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er Vinnumálastofnun taldi að hún hefði ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.
Í tölvupósti til Vinnumálastofnunar, dags. 7. febrúar 2010, segir kærandi að hún hafi ekki tilkynnt um laun sín sem hún hafi fengið óvænt sökum vankunnáttu, enda hafi verið um óvænta, tilfallandi vinnu að ræða. Segir kærandi að hún hafi haldið að um leið og skattar eru greiddir af starfi fengi Vinnumálastofnun tilkynningu og því hefði hún haldið að henni bæri ekki skylda til þess að tilkynna stofnuninni um störf sín og tekjur.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. janúar 2011, segir kærandi að hún hafi óvænt fengið starf hjá fyrirtæki foreldra sinna vegna veikinda föður síns. Kærandi segir að hún hafi hringt í Vinnumálastofnun og látið vita af því að hún væri í tilfallandi starfi en henni hafi ekki verið sagt að gera formlega grein fyrir því. Ekki er að finna neina athugasemd í samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar, um símtal kæranda með tilkynningu um tilfallandi vinnu.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. maí 2011, áréttar Vinnumálastofnun að með lögum nr. 134/2009 til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Fram komi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins sem orðið hafi að lögum nr. 134/2009, að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt, skv. 10. gr. laganna, eða um tilfallandi vinnu, eins og kveðið er á um í 35. gr. a. sömu laga.
Vinnumálastofnun vísar til afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum um að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar með eins dags fyrirvara, sbr. 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar og telur að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Það er álit Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki fært fram ástæður fyrir því að hún hafi ekki tilkynnt um vinnu í júnímánuði 2010 til stofnunarinnar. Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að stöðva skuli greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda og að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það er einnig niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júlí til 31. júlí 2010, er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, að fjárhæð 154.535 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. maí 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur meðal annars að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.
Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009. Helsti tilgangur ákvæðisins er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.
Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 var gildandi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skýrð nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum þar sem hann hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.
Í ljósi atvika máls verður að skýra nánar síðastnefnda lagaákvæðið, sbr. 11. gr. laga nr. 134/2009. Ákvæðið er svohljóðandi:
Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.
Samkvæmt þessu ákvæði gildir sú meginregla að atvinnuleitandi þurfi að tilkynna tilfallandi vinnu með eins dags fyrirvara. Frá þessari meginreglu eru gerðar tilteknar undantekningar. Ráða má af athugasemdum greinargerðar við þá frumvarpsgrein laga nr. 134/2009 sem síðar varð 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar að þessi tilkynningarskylda sé liður í því að koma í veg fyrir að þeir sem verði uppvísir að því að vinna á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir fái greiddar atvinnuleysisbætur geti komið með þá skýringu að eingöngu sé um tilfallandi vinnu að ræða, jafnvel þótt vinnan hafi staðið yfir í einhvern tíma. Tilgangur ákvæðisins er því að bæta eftirlit og koma í veg fyrir að þeir sem séu virkir á vinnumarkaði geti jafnframt fengið greiddar atvinnuleysisbætur eða sætt biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna á sama tíma.
Kærandi starfaði í tvær vikur í júní 2010 fyrir fyrirtækið X ehf. Áður en að því kom hafði hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar, dags. 11. nóvember 2009. Færslur eru til um samskipti kæranda og Vinnumálastofnunar frá árunum 1998, 2000, 2003, 2004 og 2008–2010, sbr. samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda. Kærandi hafði því langa reynslu af samskiptum við Vinnumálastofnun áður en hún sinnti starfinu í júní 2010.
Kærandi heldur því fram að hún hafi hringt í Vinnumálastofnun og látið vita af því að hún væri í tilfallandi starfi en henni hafi ekki verið sagt að gera formlega grein fyrir því. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta þessa frásögn kæranda. Kærandi hefur sjálf upplýst að hún hugðist vinna allt sumarið 2010 fyrir X ehf. en úr því hafi ekki orðið. Þetta þýðir að kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita fyrir fram um þau áform að hún hygðist starfa allt sumarið 2010. Kærandi mætti á eftirlitsfund í Hafnarhúsinu í Reykjavík 13. júlí 2010 og eru engar vísbendingar um að kærandi hafi við það tækifæri veitt starfsmönnum Vinnumálastofnunar upplýsingar um það starf sem hún hafði sinnt í mánuðinum á undan. Þegar til alls framangreinds er litið verður ekki talið að Vinnumálastofnun hafi brotið á leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, áður en hin kærða ákvörðun var tekin.
Í málinu liggur fyrir að kærandi starfaði í tvær vikur í júní 2010. Um tilfallandi vinnu var að ræða í skilningi 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. laga nr. 134/2009. Kærandi veitti ekki upplýsingar um þessa tilfallandi vinnu fyrr en eftir að Vinnumálastofnun stöðvaði greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar með bréfi, dags. 7. október 2010. Með hliðsjón af 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 35. gr. a. sömu laga, verður sú ákvörðun staðfest að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda og hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrr en hún hefur starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Með vísan til 3. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 39. gr. sömu laga, verður sú ákvörðun staðfest að kærandi endurgreiði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi, samtals 154.535 kr., sbr. færslu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda, dags. 2. desember 2010. Ástæða þykir til að taka þetta sérstaklega fram þar sem það hefur verið á reiki í málflutningi Vinnumálastofnunar fyrir úrskurðarnefndinni hvort fjárhæðin 154.535 kr. sé með eða án álagsins.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. desember 2010 í máli A þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og kærandi skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrr en hún starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júlí til 31. júlí 2010, samtals að fjárhæð 154.535 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson