Mál nr. 73/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 73/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. janúar 2011, ákvað stofnunin á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A. Ástæða þess var sú að hún tilkynnti ekki um launaða vinnu sína hjá X og Y í júní til ágúst 2010 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins hjá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 19. janúar 2011, en þeirri beiðni synjaði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 16. febrúar 2011. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða dagsetta 14. maí 2011 og var hún móttekin 16. maí 2011.
Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til málsins og er bréf stofnunarinnar dags. 22. júní 2011. Þar kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar verið tilkynnt með bréfi, dags. 4. janúar 2011. Frá þeim degi byrji kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar að líða. Þann 20. janúar 2011 hafi Vinnumálastofnun borist beiðni um endurupptöku málsins frá kæranda reist á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þann 16. febrúar 2011 hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi að beiðni hennar um endurupptöku hafi verið synjað þar sem engar nýjar upplýsingar hafi komið fram í málinu og að ekki verði séð að stofnunin hafi byggt ákvörðun sína á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, rofni kærufresturinn við beiðni um endurupptöku en haldi síðan áfram að líða er ákvörðun um synjun liggur fyrir. Í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé dagsett 14. maí 2011 telji Vinnumálastofnun að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
2.
Niðurstaða
Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skýra verður þessi ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar meðal annars með hliðsjón af svohljóðandi 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga:
Af þessu ákvæði leiðir að kærufrestur hættir að líða þegar aðili stjórnsýslumáls óskar eftir endurupptöku málsins en fari svo að endurupptökubeiðni sé hafnað heldur kærufresturinn áfram að líða að nýju, þ.e. það sem eftir er af honum, frá þeim tíma er synjun um endurupptöku er tilkynnt aðila.
Hin kærða ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. janúar 2011, og verður lagt til grundvallar að kæran hafi verið komin til kæranda 5. janúar 2011. Við það hófst kærufresturinn, sbr. 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Hinn 19. janúar 2011 barst Vinnumálastofnun beiðni kæranda um endurupptöku málsins en þá höfðu 14 dagar liðið frá upphafi kærufrestsins. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. febrúar 2011, var endurupptökubeiðni kæranda hafnað. Lagt er til grundvallar að sú ákvörðun hafi verið komin til kæranda 17. febrúar 2011. Við það hóf kærufresturinn aftur að líða og var hann þá þrír mánuðir að frádregnum þeim 14 dögum sem þegar höfðu liðið í janúar 2011. Kæran í málinu barst úrskurðarnefndinni 16. maí 2011 og barst því eftir að kærufresturinn var liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru í máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson