Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 1/2022, úrskurður 2. mars 2023

 

Fimmtudaginn 2. mars 2023 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 1/2022

 

Vegagerðin

gegn

Agli Marteini Benediktssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 14. júní 2022 fór Vegagerðin ohf., kt. 680269-2899, Suðurhrauni 3, 210 Garðabæ (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á landspildu í landi Dilksness, landnúmer 173417, undir vegsvæði þjóðvegar, Hringveg um Hornafjörð.

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþoli er Egill Marteinn Benediktsson, kt. […]., [heimilisfang]. Hann er eigandi spildunnar að Dilksnesi, landnúmer 173417.

 

Matsandlagið er nánar tiltekið:

305 fermetra spilda í landi Dilksness milli vegstöðva 14680 og 14780, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar, til viðbótar 741 fermetra spildu í landi Dilksness á milli sömu vegstöðva sem þegar hefur sætt eignarnámi og bætur komið fyrir, sbr. úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 13/2019.

 

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 30. júní 2022. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt fjórum tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram tölvubréf 27. júní 2022 frá byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa og tölvubréf matsnefndar til eignarnema 30. júní 2022 þar sem honum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna nýja skjalsins sem eignarnámsþoli lagði fram. Þá var af hálfu matsnefndarinnar bókað:

 

„Fært er til bókar að formaður hafi með símtali við eignarnámsþola fyrr í dag, 30. júní 2022, gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart honum. Í símtalinu var eignarnámsþola kynnt fyrirtakan í dag og málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Þá var eignarnámsþola leiðbeint um að samkvæmt lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skuli eignarnemi greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn, óháð niðurstöðu matsnefndar í matsmáli, og eignarnámsþola bent á möguleika þess að leita til lögmanns vegna reksturs matsmálsins. Eignarnámsþola var og leiðbeint um hlutverk matsnefndar samkvæmt lögum nr. 11/1973, þ. á m. um að nefndin sé stjórnsýslunefnd skipuð sérfræðingum sem taki sjálfstæða afstöðu til úrlausnar ágreinings um eignarnámsbætur og annað endurgjald sem ákveða eigi samkvæmt lögum nr. 11/1973 og hvað teljist fullar bætur í merkingu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.“

 

Einnig var bókað:

 

„Fært er til bókar að eignarnámsþoli hafi í símtali við formann í dag, 30. júní 2022, upplýst að hann myndi leggja fram í dag tölvubréf frá byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar, þar sem fram kæmi að óheimilt væri að byggja á landi hans vegna nálægðar þess við þjóðveg.“

 

Því næst var fært til bókar að eignarnemi teldi að vettvangsathugunar væri ekki þörf í málinu og eignarnámsþoli hefði heldur ekki talið þörf á því í símtali við formann 30. júní 2022. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð. Loks fór matsnefnd þess á leit við eignarnema að upplýst yrði um eftirfarandi atriði:

 

„Í fyrsta lagi að upplýst verði um stærð spildu lands Dilksness sem eignarnámsþoli heldur eftir, að framkvæmd eignarnema frágenginni. Í öðru lagi er þess óskað að landamerki Dilksness verði færð inn á kort eigarnema. Í þriðja lagi að upplýst verði um stærð þess lands innan Dilksness sem lendir innan áhrifasvæðis þjóðvegar samkvæmt grein 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð nr. 90/2003 fyrir og eftir framkvæmdir eignarnema. Í fjórða lagi að upplýst verði nánar um atvik að því að mælingar á landi eignarnámsþola í þágu framkvæmdar eignarnema hafi misfarist, hvernig þetta hafi verið leiðrétt, svo og hvernig 305 fermetra viðbótarspildunni, sem nú sé tekin eignarnámi, hafi verið fundinn staður næst þjóðveginum, sbr. kort sem eigarnemi hefur lagt fram í málinu. Í fimmta lagi að lagðar verði fram upplýsingar um hina eignarnumdu spildu í landi eignarnámsþola samkvæmt upphaflegum mælingum, þ. á m. kort, sem lágu til grundvallar við meðferð máls matsnefndar nr. 13/2019.“

 

Föstudaginn 3. febrúar 2023 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 30. júní 2022. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt fjórum tölusettum fylgiskjölum og athugasemdir hans, svo og tvö tölvubréf eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum. Einnig höfðu matsnefndinni borist greinargerð eignarnámsþola ásamt þremur tölusettum fylgiskjölum auk tveggja tölvubréfa eignarnámsþola til matsnefndar ásamt tveimur fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram vinnuskýrsla vegna vinnu lögmanns hans. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni. Fært var til bókar að matsnefnd færi þess á leit við lögmann eignarnema að upplýst yrði um hverrar tegundar vegur meðfram spildu eignarnámsþola hefði verið fyrir framkvæmdir eignarnema. Þá var bókað eftir lögmönnum að þeir teldu sig ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Með tölvubréfi eignarnema 3. febrúar 2023, sem innihélt meðal annars tvær myndir, barst svar við fyrirspurn matsnefndar um hverrar tegundar vegur meðfram spildu eignarnámsþola hefði verið fyrir framkvæmdir eignarnema. Með tölvubréfi eignarnámsþola 6. sama mánaðar bárust athugasemdir hans vegna síðastgreinds tölvubréfs eignarnema ásamt fimm myndum og fimm fylgiskjölum. Þá brást eignarnemi á ný við með tölvubréfi sama dag.

 

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi vekur athygli á að hann hafi áður tekið eignarnámi 741 fermetra spildu í landi eignarnámsþola að Dilksnesi vegna sömu framkvæmdar. Tiltekur eignarnemi að hin eignarnumda spilda hefði þurft að vera 1.046 fermetrar og muni þar 305 fermetrum sem nauðsynlegt sé að taka eignarnámi nú. Um sé að ræða svæði næst veginum, á milli vegstöðva 14680 og 14780. Mistök hafi átt sér stað í mælingum á vegum eignarnema sem hann harmi og því sé nauðsynlegt að taka eignarnámi viðbótarland, 305 fermetra. Hafi eignarnemi beðið eignarnámsþola afsökunar á þessu. Eignarnemi kveður nýtt vegsvæði vegar verða 40 metrar á breidd, það er 20 metrar frá miðlínu vegar til hvorrar handar, og að ráðgert sé að vegsvæði í landi Dilksness verði samtals 1.046 fermetrar (741 + 305 fermetrar) þegar tekið hafi verið tillit til fyrra eignarnáms, sbr. úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 13/2019.

 

Eignarnemi kveðst hafa reynt að semja við eignarnámsþola um bætur en án árangurs. Hann bendir á að samskiptum aðila sé lýst í gögnum sem lögð hafi verið fyrir matsnefndina. Eigi eignarnemi því ekki aðra kosti í stöðunni en að krefjast eignarnáms svo vilji löggjafans nái fram að ganga.

 

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 60 krónur á fermetra, eða 600.000 krónur á hektara. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna 305 fermetra landspildu eignarnámsþola í landi Dilksness milli vegstöðva 14680 og 14780 18.300 krónum (305 fermetrar x 60 krónur á fermetra). Eignarnemi vísar til þess að tilboð þetta sé í samræmi við úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 13/2019 og að hann hafi greitt bætur í samræmi við þann úrskurð, þ. á m. bætur vegna áhrifa vegarins á það land sem eftir standi.

 

Þeim spurningum sem matsnefnd bar upp við eignarnema í fyrirtöku 30. júní 2022 svarar hann á þessa leið:

 

Fyrsta spurning matsnefndar laut að því að upplýst yrði um stærð spildu lands Dilksness sem eignarnámsþoli héldi eftir, að framkvæmd eignarnema frágenginni. Eignarnemi kveður óumdeilt að spildan hafi verið 8.427 fermetrar fyrir framkvæmdir. Í matsmálinu nr. 13/2019 hafi spildan verið skert um 741 fermetra og í þessu máli sé fyrirhuguð skerðing 305 fermetrar. Samtals nemi skerðing á spildunni því 1.046 fermetrum (741+305). Eftir framkvæmdirnar verði landspildan því 7.381 fermetri (8.427–1.046).

 

Önnur spurning matsnefndar laut að því að landamerki Dilksness skyldu færð inn á kort eigarnema sem eignarnemi og gerði.

 

Þriðja spurning matsnefndar laut að því að upplýst yrði um stærð þess lands innan spildunnar að Dilksnesi sem lenti innan áhrifasvæðis þjóðvegar samkvæmt grein 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð fyrir og eftir framkvæmdir eignarnema. Eignarnemi kveður áhrifasvæðið ekki munu stækka eftir framkvæmdirnar þar sem 100 metra línan frá kantlínu vegar hafi fyrir framkvæmdirnar náð út fyrir lóðina. Þar sem nýi vegurinn sveigi frá lóðinni megi segja að áhrifasvæðið minnki (ef eitthvað). Möguleikar eignarnámsþola til uppbyggingar á lóðinni breytist því ekki frá því sem var fyrir framkvæmdir/eignarnám. Af hálfu eignarnema er áréttað að eignarnám nú á 305 fermetra spildu næst núverandi vegi í (norð)vestri breyti engu um þetta. Vegna málatilbúnaðar eignarnámsþola um stofn- og tengivegi og meintan mun á áhrifasvæði þeirra telur eignarnemi rétt að taka fram að ekki sé gerður munur á þessum vegur að því er varðar fjarlægð mannvirkja frá vegi í d. lið greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð. Hann bendir á að um skilgreiningu á slíkum vegum og öðrum þjóðvegum sé fjallað í 2. mgr. 8. gr. vegalaga. Þá bendir eignarnemi á að sveitarfélagið beri ábyrgð á skipulagi og skuli vegir lagðir í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir,s br. 1. og 2. mgr. 28. gr. vegalaga. Vegurinn sem eignarnámið varði sé í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins.

 

Fjórða spurning matsnefndar laut að því að upplýst yrði nánar um atvik að því að mælingar á landi eignarnámsþola í þágu framkvæmdar eignarnema hefðu misfarist, hvernig þetta hefði verið leiðrétt, svo og hvernig 305 fermetra viðbótarspildunni, sem nú væri tekin eignarnámi, hefði verið fundinn staður næst þjóðveginum, sbr. kort sem eigarnemi hefði lagt fram í málinu. Eignarnemi kveður hnitsett landamerki ekki hafa verið fyrir hendi þegar eignarnemi hafi sent eignarnámsþola kynningarbréf vegna framkvæmdanna í mars 2016. Svar við bréfi eignarnema hafi borist frá eignarnámsþola með bréfi 21. mars 2016. Með bréfi eignarnámsþola hafi fylgt meðal annars óhnitsettur uppdráttur af lóðinni þar sem fram hafi komið að stærð hennar væri 8.427 fermetrar. Á grundvelli þessa uppdráttar frá eignarnámsþola hafi eignarnemi hnitsett lóðina. Miðað hafi verið við runna sem afmörkuðu lóðina í (norð)vestri. Sjáist þeir meðal annars vel á tveimur fyrirliggjandi uppdráttum frá 15. september 2022 (skjöl merkt A og B). Eftir að landið hafi verið hnitsett af þriðja aðila hafi komið í ljós að staðsetningin hafi ekki verið alveg rétt. Sjáist þetta á fyrirliggjandi uppdrætti frá 15. september 2022 (skjal merkt B) sem sýni landamerki sem eignarnemi hafi miðað við eftir að hann fékk upplýsingar frá eignarnámsþola á sínum tíma (auðkennd með svartri línu) og hins vegar rétt hnitsett landamerki (auðkennd með rauðri línu). Sjáist að landamerkin hafi færst til (norð)vesturs í átt að veginum. Sé þetta ástæða þess að nauðsynlegt sé að fara aftur í eignarnám vegna þeirra 305 viðbótarfermetra sem færslan á landamerkjunum hefur í för með sér. Ekki hafi verið ágreiningur á milli eignarnema og eignarnámsþola um stærð og staðsetningu spildunnar fram að því að hún var hnitsett. Hér ítrekar eignarnemi að eignarnámsþoli hafi aldrei gert athugasemdir við upphaflega afmörkun lóðarinnar sem byggt hafi á gögnum frá honum sjálfum.

 

Fimmta spurning matsnefndar laut að því að lagðar yrðu fram upplýsingar um hina eignarnumdu spildu í landi eignarnámsþola samkvæmt upphaflegum mælingum,       þ. á m. kort, sem legið hefðu til grundvallar við meðferð máls matsnefndar nr. 13/2019. Eignarnemi vísar um þetta til svars við fjórðu spurningunni, þar sem gerð hafi verið grein fyrir ástæðum þess að spildan hafi verið mæld 741 fermetri en ekki 1.046 fermetrar. Jafnframt að lagður hafi verið fram í málinu uppdráttur sem fylgt hafi matsbeiðni í matsmáli nr. 13/2019 sem sýni að spildan hafi þá verið mæld 741 fermetri. Sú mæling hafi byggt á upplýsingum eignarnámsþola um að spildan væri óhnitsett og hafi lína í (norð)vestri verið dregin út fyrir runna þar sem virtust marka lóðina, sbr. áðurgreinda umfjöllun.

 

Varðandi tölvubréf byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 27. júní 2022 sem eignarnámsþoli hefur lagt fram í málinu, bendir eignarnemi á að í svari byggingarfulltrúans sé bent á gildandi ákvæði vegalaga og skipulagsreglugerðar varðandi veghelgunarsvæði og fjarlægð mannvirkja frá vegum. Um þetta vísar eignarnemi til þess sem áður greini í svari sínu við þriðju spurningu matsnefndar um áhrifasvæði vegarins, þar sem fram komi að ekki verði breytingar á áhrifasvæði vegarins og þar með möguleikum eignarnámsþola til uppbyggingar lóðarinnar frá því sem var fyrir framkvæmdir/eignarnám. Þá vísar eignarnemi til þess að þegar matsmál nr. 13/2019 hafi verið rekið fyrir matsnefndinni hafi eignarnámsþoli látið þess getið að hann hefði ætlað að byggja bílaverkstæði á lóðinni en eignarnemi kveður sveitarfélagið hafa hafnað öllum hans hugmyndum. Eignarnemi tiltekur að honum sé ekki kunnugt um forsendur eignarnámsþola fyrir kaupum á lóðinni en staðreyndin sé sú að sveitarfélagið hafi ekki tekið vel í hugmyndir hans um uppbyggingu á lóðinni auk þess sem ákvæði d. liðar greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð og 32. gr. vegalaga takmarki möguleika hans til uppbyggingar.

 

Eignarnemi bendir á að matsnefnd hafi kveðið upp úrskurð í máli nr. 13/2019 á milli sömu aðila vegna sömu framkvæmdar og þar hafi meðal annars verið úrskurðaðar bætur vegna meintrar verðrýrnunar þess lands sem eignarnámsþoli haldi eftir, svo og bætur fyrir meint rask og ónæði á framkvæmdatíma. Eignarnemi telur að ekki sé lagagrundvöllur til að úrskurða bætur aftur vegna þessara liða.

 

Varðandi málatilbúnað eignarnámsþola vísar eignarnemi til þess að það sé rangt hjá eignarnámsþola að eignarnemi hafi fyrstur viðrað hugmyndir um skiptingu á landi við eignarnema. Hið rétta sé að eignarnámsþoli hafi óskað eftir því að eignarnemi kannaði fyrir sig hvort mögulegt væri að Sveitarfélagið Hornafjörður væri til í að skipta á lóðum við sig. Til þess að freista þess að leysa málið í sátt hafi eignarnemi kannað þennan möguleika hjá sveitarfélaginu við dræmar undirtektir þess. Getur eignarnemi þess að hann bjóði almennt ekki land í skiptum í eignarnámsmálum þar sem hann sé yfirleitt ekki eigandi að landi nema undir vegsvæði. Ennþá síður geti hann ráðstafað annarra manna landi eins og sveitarfélagsins í skiptum.

 

Varðandi kröfu eignarnámsþola á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973, um að eignarnámið verði látið ná til allrar spildunnar, tiltekur eignarnemi að eignarnámið nú á 305 fermetra viðbótarspildu breyti engu um nýtingu eignarnámsþola á því landi sem hann haldi eftir. Í úrskurði matsnefndar í máli nr. 13/2019 hafi eignarnámsþola verið úrskurðaðar bætur fyrir eignarnumið land og vegna verðrýrnunar á því landi sem hann heldur eftir auk bóta fyrir rask og ónæði. Eignarnemi heldur því fram að sá úrskurður hljóti að hafa fordæmisgildi í þessu máli varðandi landverð. Hann telur engar forsendur til að úrskurða frekari bætur vegna verðrýrnunar lands, rasks og ónæðis, en slíkar bætur hafi þegar verið greiddar eignarnámsþola vegna sömu framkvæmdar. Þá telur hann engar forsendur til að fallast á að eignarnámið verði látið taka til spildunnar allrar svo sem eignarnámsþoli hafi aðallega krafist, eða frekari bætur greiddar fyrir verðrýrnun á jörðinni en þegar hafi verið gert svo sem hann krefst til vara. Áhrifasvæði vegarins sé enda það sama fyrir og eftir framkvæmdir.

 

Loks mótmælir eignarnemi sem ósönnuðum þeim staðhæfingum eignarnámsþola að fyrir framkvæmdir eignarnema hefði verið unnt að koma upp íbúðabyggð á spildunni og að framkvæmdirnar hafi spillt þeirri fyrirætlan. Eignarnemi mótmælir einnig harðlega málskostnaðarreikningi eignarnámsþola sem hann kveður óhóflegan.

 

Við munnlegan flutning málsins fyrir matsnefnd var eignarnemi inntur eftir því hverrar tegundar vegur meðfram spildu eignarnámsþola hefði verið fyrir framkvæmdir eignarnema. Af hálfu eignarnema er fram komið að í 2. mgr. 8. gr. vegalaga sé fjallað um flokkun þjóðvega og þar sé í a. lið fjallað um stofnvegi. Hafi vegur þeirrar tegundar legið og liggi enn framhjá spildu eignarnámsþola að Dilksnesi, í átt að þéttbýli á Höfn. Telur eignarnemi engan vafa á að ákvæði d. liðar í grein 5.3.2.5 í byggingarreglugerð, sem kveði á um 100 metra fjarlægðartakmörk, taki til þess vegar eins og nýs Hringvegar eftir framkvæmdir eignarnema. I tilgreindu ákvæði sé einmitt vísað til stofn- og tengivega varðandi 100 metra fjarlægðarmörk. Verði því engin breyting á áhrifasvæði vegarins eftir framkvæmdir. Loks áréttaði eiganrnemi að skipulagsmál á hverjum tíma væru á forræði sveitarstjórna, ekki eignarnema, svo og að fyrirliggjandi gögn bæru hvorki skýrt með sér að leyfi hefði fengist til húsbyggingar á spildu eignarnámsþola, né ef svo væri hvað það væri sem komið hefði í veg fyrir það. Ekki væri við eignarnema að sakast í þessu samhengi.

 

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli krefst þess aðallega að eignarnámið verði látið taka til landspildu hans í heild á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 og fullt verð komi fyrir hana. Til vara krefst hann þess að eignarnemi greiði fullt verð fyrir það land sem tekið verði eignarnámi „og að honum verði bætt að fullu það tjón sem orðið hefur á því landi sem lýtur ekki eignarnámi, enda ónothæft.“

 

Eignarnámsþoli kveðst frá upphafi hafa verið alfarið á móti nýtingu lands hans undir þjóðveg, þótt hann geri sér grein fyrir þeirri nauðsyn sem liggi að baki framkvæmdum við slíkan veg. Hann telur þær bætur sem honum hafi verið boðnar ekki vera í samræmi við fjárfestingu hans, sem og þá verðmætarýrnun sem orðið hafi á landi hans vegna framkvæmda og eignarnáms. Eignarnámsþoli telur ljóst að þær forsendur sem eignarnemi hafi lagt upp með í upphafi séu ekki lengur fyrir hendi.

 

Varðandi stærð þess lands sem tekið hafi verið eignarnámi bendir eignarnámsþoli á að með bréfi eignarnema 31. ágúst 2017 hafi eignarnámsþola verið tilkynnt um fyrirhugaðar framkvæmdir um land eignarnámsþola vegna lagningar Hringvegar um Hornafjarðarfljót. Í bréfinu hafi verið ráðgert að tekinn yrði 741 fermetri af landi eignarnámsþola undir nýtt vegsvæði en nú hafi eignarnemi krafist 305 fermetra til viðbótar, sem sé 41% umfram það sem eignarnemi hafi upphaflega áætlað. Heildarkrafa eignarnema nemi 1.046 fermetrum af landi eignarnámsþola. Heildarflatarmál lands hans nemi 8.400 fermetrum. Því sé um að ræða 12% skerðingu á landareign hans. Eignarnámsþoli kveður þetta verulega skerðingu á landi hans og krefst þess að matsnefnd taki sérstaklega tillit til þessa við úrlausn málsins.

 

Eignarnámsþoli kveður hafa staðið til að eignarnemi myndi hafa milligöngu um að eignarnámsþola yrði útvegað annað land ef þess yrði óskað og því yrði við komið og þetta verði ráðið að áðurgreindu bréfi eignarnema 31. ágúst 2017 til eignarnámsþola. Eignarnámsþoli vísar til þess að í bréfi eignarnema 9. nóvember 2017 til sín hafi eignarnemi borið um dræmar undirtektir sveitarfélagsins og talið að þessi möguleiki væri fullreyndur, svo og að ekki yrði hjá því komist að skerða eignarréttindi eignarnámsþola í tengslum við framkvæmdirnar. Eignarnámsþoli telur ljóst að eignarnemi hafi ekki lagt sig fram við að reyna að verða við þessari ósk eignarnámsþola um að hann fengi annað land í skiptum fyrir sitt land. Hann telur eignarnema aðeins hafa aðhafst til málamynda og að engar raunverulegar tilraunir í þessa veru hafi verið gerðar. Þessu til staðfestu hafi eignarnámsþoli beint erindi til bæjarráðs Hornafjarðar 7. desember 2017 þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um þá fullyrðingu eignarnema að möguleikar til lóðarskipta hefðu verið fullreyndir. Eignarnámsþoli kveður fundargerð bæjarráðs 18. desember 2017 staðfesta að ekkert erindi þessa efnis hafi borist bæjarráði.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því harðlega að áhrif af framkvæmdum og töku lands ættu ekki að hafa teljandi áhrif á það land sem hann heldur eftir, svo sem eignarnemi hafi haldið fram í málinu. Eignarnámsþoli vísar til fyrirspurnar eiginkonu sinnar 27. júní 2022 til byggingarfulltrúa Hornafjarðar vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda sinna fyrir landi sínu í Dilksnesi. Eignarnámsþoli bendir á að í svari byggingarfulltrúans segir að hann hafi fundið ákvæði í skipulagsreglugerð (d. lið greinar 5.3.2.5) sem í raun komi í veg fyrir byggingu íbúðar- eða frístundahúss á lóðinni þar sem lágmarksfjarlægð frá stofnvegi að íbúðarhúsi skuli vera a.m.k. 100 metrar samkvæmt reglugerðinni. Í svari byggingarfulltrúans komi jafnframt fram tillaga um að eignarnámsþoli byggi bara gestahús sem gæti hugsanlega fallið undir 50 metra undanþágureglu vegna annarra húsa. Eignarnámsþoli kveðst ekki hafa hug á þessu.

 

Að öllu þessu virtu telur eignarnámsþoli ljóst að allar forsendur sem eignarnemi hafi gefið eignarnámsþola í öndverðu séu brostnar. Eignarnámsþoli telur að eignarnemi hafi ekki verið í góðri trú þegar tillögur hans voru lagðar fram í upphafi. Eignarnámsþoli kveður ljóst að hann hafi orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á legu vegvæðis þjóðvegar um land hans. Fyrir framkvæmdir eignarnema hafi þar verið tengivegur sem ekki hafi haft sömu áhrif á útgáfu byggingarleyfis vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda eignarnámsþola. Raunar hafi þarna aðeins verið afleggjari áður og af hálfu eignarnámsþola er staðhæft að áhrifasvæði vegarins aukist við framkvæmdir eignarnema. Þess vegna mótmælir eignarnámsþola því sem fram sé komið af hálfu eignanema, um að áhrifasvæði vegar fyrir spildu eignarnámsþola sé óbreytt fyrir og eftir framkvæmdir eignanema.

 

Þannig fullyrðir eignarnámsþoli að þegar hann eignaðist spilduna og allt fram til þess að framkvæmdir eignarnema raungerðust hefði verið unnt að koma upp íbúðabyggð á spildunni og að framkvæmdirnar hafi spillt þeirri fyrirætlan. Áðurgreind synjun byggingarfulltrúa á erindi eignarnámsþola 27. júní 2022 um fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir sé til vitnis um þessa breytingu sem framkvæmdir eignarnema hafi í för með sér.

 

Við munnlegan flutning málsins fyrir matsnefnd var eignarnemi inntur eftir því hverrar tegundar vegur meðfram spildu eignarnámsþola hefði verið fyrir framkvæmdir eignarnema og kvað eignarnemi engar breytingar verða á áhrifasvæði vegarins eftir framkvæmdirnar. Í þessu samhengi byggir eignarnámsþoli á því að hann hafi fjárfest í þessari lóð á sínum tíma til að reisa þar íbúðarhús. Lóðin hafi staðið við afleggjarann til Hafnar þegar hún hafi verið keypt. Nú sem fyrr sé um að ræða lóð þar sem stutt sé niður á fast og hún þar af leiðandi heppileg til byggingar húsnæðis. Hafi eignarnámsþoli lagt fram gögn sem fylgt hafi lóðinni þegar hún hafi verið keypt af Nesjahreppi, auk veðbókarvottorða og mynda. Eignarnámsþoli telur ljóst að þegar hann hafi eignast landið hafi sveitarfélagið mælt með því að stofnað yrði lögbýli á spildunni, sbr. uppdrátt sem liggi fyrir í málinu, sem aftur færi sönnur á að á landinu hefði mátt byggja íbúðarhús. Eignarnámsþoli hafnar alfarið athugasemdum og mótmælum eignarnema í þá veru að óheimilt hafi verið að reisa húsnæði á spildunni fyrir framkvæmdir eignarnema.

 

Eignarnámsþoli bendir á friðhelgi eignarréttar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og fyrirmæla í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 um að matsnefnd geti að kröfu eiganda ákveðið að eignarnám skuli ná til fasteignar í heild ef eignin skerðist með þeim hætti við eignarnám að sá hluti hennar sem eftir er verði ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign. Aðalkrafa hans lýtur sem áður greinir að því að eignarnámið verði látið taka til alls lands hans samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 og var sú krafa áréttuð við munnlegan flutnings málsins fyrir matsnefnd, en til vara að fullar bætur komi fyrir það land hans sem sæti nú eignarnámi svo og fyrir tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna landsins sem hann haldi eftir enda sé það ónothæft.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Matsnefnd eignarnámsbóta sker úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973. Með matsbeiðni 14. júní 2022 fór eignarnemi þess á leit við matsnefnd að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu úr landi eignarnámsþola að Dilksnesi.

 

Eignarnám á landspildu eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til vegalagningar frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegsvæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

 

Með úrskurði matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 13/2019 voru ákveðnar bætur til handa eignarnámsþola úr hendi eignarnema vegna eignarnáms á 741 fermetra spildu úr landi Dilksness í þágu sömu framkvæmdar og mál þetta varðar samtals að fjárhæð 1.275.040 krónur. Voru bætur í fyrsta lagi ákveðnar 44.460 krónur fyrir 741 fermetra spilduna sem sætti eignarnámi (60 krónur á fermetra). Í öðru lagi bætur að fjárhæð 230.580 krónur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegsvæði og aukin umferð hefði á nánar tilgreint land sem eignarnámsþoli héldi eftir, það er verðrýrnun á 7.686 fermetra landi sjávarmegin vegar þar sem vegurinn skipti landspildunni þannig að óhagræði hlytist af (30 krónur á fermetra). Í þriðja lagi bætur að fjárhæð 1.000.000 krónur fyrir rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Af hálfu eignarnema hefur verið upplýst í málinu að mistök hafi átt sér stað í mælingum á hans vegum, að nýtt vegsvæði í landi eignarnámsþola að Dilksnesi sé í reynd 1.046 fermetrar en ekki 741 fermetrar og því sé nauðsynlegt að taka eignarnámi 305 fermetra viðbótarspildu úr landi eignarnámsþola (1.046–741).

 

Kemur þá til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um bætur úr hendi eignarnema vegna eignarnáms á matsandlaginu, spildu eignarnámsþola í landi Dilksness.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta hefur ekki farið á vettvang í máli þessu því aðilar töldu ekki þörf á því, en það gerðu formaður nefndarinnar og annar tveggja matsmanna á hinn bóginn undir meðferð matsmáls nr. 13/2019 sem lokið var með úrskurði 10. október 2019 eins og áður greinir. Eignarnámið tekur til áðurgreindrar 305 fermetra landspildu í landi Dilksness (milli vegstöðva 14680 og 14780). Vegsvæði nýs Hringvegar tekur eins og áður greinir til 1.046 fermetra spildu í landi eignarnámsþola að Dilksnesi og þar af hefur eignarnemi þegar tekið eignarnámi og greitt bætur fyrir 741 fermetra. Því sætir nú eignarnámi 305 fermetra viðbótarspilda úr landi eignarnámsþola að Dilksnesi. Vettvangsathugun vegna meðferðar máls nr. 13/2019 leiddi í ljós grösugt beitiland á smáspildunni Dilksnesi.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt matsnefnd hafi við úrlausn fyrri mála haft upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 13/2019 og tíu aðra úrskurði nefndarinnar frá sama degi. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir þá viðbótarlandspildu sem krafa eignarnema tekur til og fer undir nýtt vegsvæði. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 60 krónur á fermetra, sem taki mið af úrskurði matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 13/2019 vegna spildu úr sama landi, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins nú því um þrjú ár eru liðin frá því úrskurðað var í málinu. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi nú 75 krónum á fermetra eða 75.000 krónum á hektara og hefur þá verið tekið tillit til verðlagsáhrifa. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna, sbr. áðurgreindan úrskurð matsnefndar í máli nr. 13/2019. Fyrir 305 fermetra landspildu í landi Dilksness (milli vegstöðva 14680 og 14780) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 22.875 krónur (305x75).

 

Í málinu hefur eignarnámsþoli uppi kröfu samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973. Í því ákvæði segir að skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, getur matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar. Um ákvæðið segir í lögskýringargögnum:

 

„Verið getur að eignarnám þurfi ekki vegna þeirra framkvæmda, sem eru tilefni þess, að ná til eignar í heild sinni, en sá hluti eignarinnar, sem eftir stendur, verði svo lítill eða að öðru leyti ólánlegur, að eigandi hans hafi litla sem enga hagsmuni af að halda honum eða hann jafnvel orðið eigandanum til fjárhagslegrar byrði. Þegar svo stendur á, er ekki óeðlilegt að eignarnemi verði skyldaður til að taka við eigninni allri, ef krafa kemur fram um það af hálfu eiganda, enda yrði oftast um óverulega hækkun eignarnámsbóta af þeim sökum að ræða.“

 

Eignarnámsþoli hafði ekki uppi kröfu á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 í fyrra málinu nr. 13/2019 sem lokið var með úrskurði matsnefndar 10. október 2019, en naut heldur ekki lögmannsaðstoðar við rekstur fyrra matsmálsins. Fyrir liggur að samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2003, nánar tiltekið ákvæði d. liðar greinar 5.3.2.5 hennar, hvílir byggingarbann á landi matsþola sem liggur í 100 metra fjarlægð frá stofn- og tengivegum og í 50 metra fjarlægð frá öðrum þjóðvegum eða almennum vegum eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Hér eru aðstæður þær að fyrir framkvæmdir eignarnema mun spilda eignarnámsþola að Dilksnesi hafi verið 8.427 fermetrar. Eldri þjóðvegur lá þá frá suðvestri til norðausturs samsíða nyrðri hluta spildunnar. Mun allt land spildunnar hafa fallið undir áhrifasvæði þjóðvegarins sé miðað við áhrifasvæði í 100 metra fjarlægð frá veginum. Með upphaflegu eignarnámi tók eignarnemi til sín 741 fermetra og með viðbótareignarnáminu tekur eignarnemi nú til sín 305 fermetra, eða samtals 1.046 fermetra. Að viðbótareignarnáminu frágengnu heldur eignarnámsþoli því eftir 7.381 fermetra spildu. Nýr þjóðvegur liggur í breyttri stefnu frá austri til vesturs um nyrsta hluta spildu eignarnámsþola. Af málatilbúnaði eignarnema og korti sem hann hefur lagt fram í málinu verður ráðið að eftir framkvæmdirnar verði engin breyting á stærð áhrifasvæðis þjóðvegar, heldur taki áhrifasvæði hans nú sem fyrr til allrar spildu eignarnámsþola að Dilksnesi. Þessu hefur eignarnámsþoli mótmælt með vísan til þess að vegurinn hafi verið annarrar tegundar fyrir framkvæmdir eignarnema og áhrifasvæðið fyrir landi spildunnar því aukist þegar þær raungerðust. Samkvæmt gögnum sem eignarnemi aflaði að beiðni matsnefndar verður ráðið að vegurinn hafi fyrir og eftir framkvæmdir stöðu stofnvegar og þar með er ljóst að áhrifasvæði vegarins er óbreytt fyrir og eftir framkvæmdir. Þá er ósönnuð sú staðhæfing eignarnámsþola að fyrir framkvæmdir eignarnema hefði verið unnt að koma upp íbúðarbyggð á spildunni og að þeir möguleikar hafi skerst með öllu við framkvæmdirnar. Hvorki breyta í því samhengi bréf Nesjahrepps 8. júní 1989 til eignarnámsþola þess efnis að hreppsnefnd hafi verið meðmælt því að stofnað yrði lögbýli á spildunni, tölvubréf skipulagsfulltrúa Hornafjarðar 27. júní 2022 til eignarnámsþola, sem einfaldlega staðfestir að spildan öll sé bundin af 100 metra áhrifasvæði stofnvegar samkvæmt skipulagsreglugerð, eða önnur gögn sem liggja fyrir í málinu.

 

Að áliti matsnefndar skerðist það land spildunnar sem eignarnámsþoli heldur eftir umtalsvert við eignarnámið, eða samtals um 12,4% að teknu tilliti til upphaflega eignarnámsins og viðbótareignarnámsins. Þótt einungis viðbótareignarnámið sé til úrlausnar í þessu máli er annað ófært en að líta til heildaráhrifa eignarnámsins við mat á skerðingu fasteignar eignarnámsþola í merkingu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973, ella yrði lagaákvæðið markleysa. Það er þó einnig álit matsnefndar að þjóðvegur hafi um árabil legið samsíða spildu eignarnámsþola og að sams konar höft muni nú stafa af nýjum þjóðvegi eins og áður af eldri þjóðvegi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. maí 2009 í máli nr. 346/2008 og úrskurð matsnefndar 28. júní 2022 í máli nr. 7/2021. (VS: Ath. í 7/2021 var hins vegar um mjög stórt land að ræða þannig að stærðirnar voru öðruvísi - að nokkru önnur sjónarmið eiga við í tilviki smáspildu á borð við þessa hér í Dilksnesi) Matsnefnd telur að skerðingunni verði þannig ekki jafnað til þess að framkvæmdir eignarnema hafi þau áhrif að eignarnámsþoli geti ekki eftir framkvæmdir eignarnema nýtt spilduna á eðlilegan hátt sem sjálfstæða eign eins og krafist er í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973.

 

Fyrir þessa skerðingu er það á hinn bóginn álit matsnefndar að eignarnámsþoli eigi tilkall til bóta fyrir verðrýrnun vegna fjárhagslegra áhrifa sem framkvæmdir eignarnema hafa á land spildunnar þannig að óhagræði hlýst af. Hér er reyndar til þess að líta að þegar hafa verið ákveðnar bætur til handa eignarnámsþola vegna þessa bótaliðar með úrskurðinum í máli nr. 13/2019. Þar voru bætur fyrir þessa verðrýrnun á því landi sem eignarnámsþoli heldur eftir ákveðnar helmingur fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 30 krónur á fermetra eða 300.000 krónur á hektara. Í úrskurðinum var það álit nefndarinnar að nýr vegur lægi að landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun yrði á landi sjávarmegin vegar sem næmi 7.686 fermetrum í landi Dilksness (það er því landi spildunnar sem eignarnámsþoli héldi eftir að eignarnámi frágengnu) og þóttu hæfilegar eignarnámsbætur vera 230.580 krónur (7.686x30). Voru stærðarútreikningar þessir reistir á útreikningum eignarnema. Þar sem matsandlagið reyndist stærra en miðað hafði verið við í fyrri eignarnámsákvörðuninni, svo skeikaði 305 fermetrum (7.686–7.381 = 305), er ljóst að þessi liður var ofbættur sem nam 9.150 krónum (305x30) og skal hann því koma til frádráttar bótum vegna viðbótareignarnámsins. Þar sem þetta síðara mál er á hinn bóginn til komið vegna mistaka eignarnem er það niðurstaða matsnefndar að eignarnámsþoli verði ekki látinn bera hallann af því.

 

Það er síðan álit matsnefndarinnar að ekki komi til frekara rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma en bætt var með úrskurðinum í máli nr. 13/2019. Er því hafnað kröfu eignarnámsþola sem að því snýr.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola vera samtals 22.875 krónur.

 

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola 2.860.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.000.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða eignarnámsþola, Agli Benedikt Marteinssyni, 22.875 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og 2.860.000 krónur í málskostnað.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

Valgerður Sólnes

 

 

            Gústaf Vífilsson                                                         Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta