Hoppa yfir valmynd

Nr. 499/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 499/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070057

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. júlí 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 13. febrúar 2017. Kærandi kom til viðtala hjá Útlendingastofnun 21. febrúar og 22. mars 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. maí 2017, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Ítalíu á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Með úrskurði kærunefndar Útlendingamála, dags. 27. ágúst 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Kæranda var fylgt úr landi af Stoðdeild ríkislögreglustjóra til Ítalíu þann 13. nóvember 2017.

Kærandi kom aftur til landsins þann 27. febrúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd samdægurs. Kærandi kom til viðtala hjá Útlendingastofnun 6. og 10 maí 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 28. júní 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 23. júlí 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 6. ágúst 2018 ásamt fylgigögnum. Þann 6. september 2019 bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé fæddur og uppalinn í borginni […] í […] héraði í Pakistan og þar hafi hann verið búsettur þegar hann hafi lagt á flótta frá heimaríki. Hann hafi rekið verslun, […], í nágrannabænum […] þar sem hann hafi verslað með farsíma og annan búnað. Þann 18. nóvember 2015 hafi leyniþjónustan og lögregla í Pakistan framkvæmt leit í verslun kæranda og lagt hald á ýmis gögn, þ.m.t. gögn úr öryggismyndavélum og skrár sem tengdust kaupum og sölu á farsímum. Að leit lokinni hafi kærandi verið færður til yfirheyrslu á lögreglustöð og hafi hann þá gefið upp umbeðnar upplýsingar um tiltekna síma og símakort. Nokkru síðar hafi vopnaðir lögreglumenn framkvæmt aðra leit í verslun kæranda, að honum fjarstöddum. Þá hafi þeir síðar sama dag gert leit á heimili hans, þar sem faðir hans og móðir hafi verið, og tekið föður hans með sér. Þegar að faðir kæranda hafi verið látinn laus degi síðar hafi hann tjáð kæranda að yfirvöld hafi fundið símtæki og símakort í versluninni sem að þeirra sögn hafi verið notuð í tengslum við hryðjuverkastarfsemi. Þá hafi fundist klámefni á tölvu kæranda.

Kærandi kveðst af þeim sökum annars vegar vera grunaður um aðild að hryðjuverkastarfsemi og hins vegar um sölu klámefnis, sem sé andstætt íslömskum lögum og siðum. Hvort tveggja hafi það í för með sér að hann verði fangelsaður eða jafnvel drepinn af leyniþjónustu eða almenningi. Leyniþjónustan starfi utan ramma laganna auk þess sem það tíðkist í Pakistan að fólk sé tekið af lífi í nafni íslam. Þá sé fjölskylda hans einnig í hættu. Foreldrum hans hafi ítrekað borist hótanir eftir að hann hafi yfirgefið heimaríki. Jafnframt hafi bróðir hans horfið og óttist kærandi að hvarf hans tengist framangreindum atburðum. Að lokum kveðst kærandi glíma við heilsufarsvandamál. Hann hafi m.a. […] og hafi […].

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og öryggisástand landsins. Kveður kærandi að almennt öryggisástand þar í landi sé afar ótryggt, m.a. vegna árása og ofbeldis af hálfu hryðjuverkahópa. Heimildir beri með sér yfirvöld, m.a. lögregluyfirvöld, beiti pyndingum gegn borgurum landsins í skjóli refsileysis. Þá er einnig fjallað um kerfisbundið eftirlit yfirvalda með notkun efnis sem talið sé fara gegn íslam, þ.m.t. klámefni, og refsingar fyrir brot á lögum gegn guðlasti. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um misræmi í framburði hans um ástæður flótta. Í samræmi við beiðni þess efnis hafi hann gefið mjög takmarkaðar upplýsingar um ástæður flótta frá heimaríki í viðtali hjá stofnuninni þann 21. febrúar 2017 sem hafi krafist frekari skýringa í viðtölum þann 6. og 10. maí 2019. Hvað varðar misræmi um lengd dvalar kæranda í heimaríki árið 2016 telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki gert greinarmun á því hve lengi hann hafi dvalið í heimaríki og hve lengi hann hafi dvalið utan Schengen-svæðisins. Að framangreindu virtu telur kærandi rétt að frásögn hans, eins og hún birtist í viðtölum 6. og 10. maí, verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem megi annars vegar rekja til stjórnmálaskoðana, skv. skilgreiningu e-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, og hins vegar til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Að því er varðar ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana kveði kærandi að þær séu sjaldnast opinskátt byggðar á skoðunum heldur frekar settar fram sem meint saknæmt athæfi gagnvart yfirvöldum. Það eigi við í tilviki kæranda þar sem kærandi eigi yfir höfði sér refsingu og fordæmingu almennings vegna þess að yfirvöld hafi að ósekju bendlað hann við hryðjuverkastarfsemi. Hvað varðar ofsóknir á grundvelli aðildar að þjóðfélagshópi kveður kærandi að hann tilheyri hópi fólks sem sætir ofsóknum fyrir það annars vegar að vera bendlað við hryðjuverkastarfsemi og hins vegar fyrir að selja klámefni sem sé andstætt íslamstrú. Um sé að ræða bakgrunn, félagslega stöðu og einkenni sem kærandi geti ekki breytt.

Þá telur kærandi að þær aðgerðir sem yfirvöld hafi beitt gegn kæranda falli undir skilgreiningu 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Frásögn kæranda af ótta sínum fái stuðning í framangreindum heimildum um Pakistan, en samkvæmt þeim hafi yfirvöld, þ.m.t. leyniþjónustan og lögreglan, tekið þátt í fjölda ólöglegra aftaka, pyndinga og þvingaðra mannshvarfa. Þá komi m.a. fram að yfirvöld hafi innleitt í lög landsins fordæmingu og aðgerðir gegn fólki vegna notkunar á klámi og öðru sem talist getur „and-íslamskt“. Að framangreindu virtu teljist ótti kæranda ástæðuríkur. Þá telur kærandi að þeir sem hann óttist falli undir ákvæði a- og c- liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, enda óttist hann aðila sem fari með opinbert vald. Verði kæranda gert að snúa aftur til Pakistan telji hann jafnframt að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi óttist um öryggi sitt og frelsi verði honum gert að snúa aftur til Pakistan, en þarlend yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd. Í greinargerð kemur fram að almennt öryggisástand í Pakistan sé mjög ótryggt og yfirvöld beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum borgara sinna. Í greinargerð heldur kærandi því fram að hann eigi á hættu að sæta illri meðferð, pyndingum og dauðarefsingu í Pakistan.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að hann sé fórnarlamb viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. Þar af leiðandi uppfylli hann skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þann 6. september 2019 barst kærunefndinni viðbótargreinargerð kæranda þar sem hann gerir þrautaþrautavarakröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. febrúar 2018. Frá þeim tíma séu liðnir rúmir 18 mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi telji að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki hans. Kærandi heldur því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað pakistönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Freedom in the World 2019 – Pakistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • World Report 2019 – Pakistan (Human Rights Watch, 18. janúar 2019);
  • State of Human Rights in 2017 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2018);
  • Pakistan - Country Fact Sheet 2017 (version 1) (Bundesamt für Migration und Flüchtlinge, 9. apríl 2018);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer i Pakistan 2015–2016 (Utrikesdepartimentet, 26. apríl 2017);
  • Country Policy and Information Note Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, ágúst 2017);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • [...];
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 8. október 2019);
  • [...];
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 200 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í […] sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga bera gögnin með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í ofangreindri skýrslu stofnunar sem veitir ráðgjöf varðandi flóttafólk (e. Asylum Research Consultancy) kemur fram að öryggisástandið í Pakistan sé breytilegt eftir landshlutum en heimahérað kæranda, […], sé talið eitt af öruggustu héruðum landsins. Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í heimahéraði kæranda, […], sé starfandi umboðsmaður sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að heilbrigðiskerfið í Pakistan einkennist af lélegum innviðum jafnframt sem litlar kröfur séu gerðar til heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa. Þrátt fyrir að heilbrigðisaðstoð sé í boði fyrir alla þá sé góð læknisaðstoð forréttindi og eingöngu aðgengileg þeim sem geti greitt fyrir hana.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Af greinargerð kæranda má ráða að hann óttist illa meðferð af hálfu stjórnvalda og um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til Pakistan, vegna stöðu sinnar sem einstaklingar sem hafi verið bendlaður við hryðjuverkastarfsemi og sölu klámefnis.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Frásögn kæranda hvað varðar ástæður flótta var nokkuð á reiki í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í viðtali hjá stofnuninni þann 21. febrúar 2017 kvaðst kærandi hafa flúið heimaríki vegna líflátshótana talíbana. Þeir hafi bannað allar farsímaverslanir sem hafi haft til sölu klámfengið efni og ráðist á eigendur slíkra verslana. Kærandi hafi ekki haft klámfengið efni til sölu en talíbanar hafi þrátt fyrir það ráðist á hann. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. maí 2019 kvað kærandi að endurrit viðtalsins þann 21. febrúar 2017 hafi ekki verið rétt. Það hafi verið yfirvöld sem hafi bannað verslun hans en ekki talíbanar. Þá hafi hann haft til sölu klámefni í verslun sinni og hafi yfirvöld lagt hald á það.

Þann 10. maí 2019 var kærandi upplýstur af fulltrúa Útlendingastofnunar að viðtalið þann 21. febrúar 2017 hafi verið tekið upp á myndband sem staðfesti að það væri ekki villa í endurriti viðtalsins eins og kærandi hélt fyrst fram. Spurður út í framangreint ósamræmi í frásögn hans milli viðtala hjá Útlendingastofnun kvað kærandi að hann hafi verið hræddur um að deila vandamálum sínum með íslenskum yfirvöldum þegar mál hans hafi verið í meðferð í samræmi við Dyflinnarreglugerðina. Hann hafi því í viðtalinu þann 21. febrúar 2017 gefið stutt svör sem hafi þarfnast frekari útskýringa í síðari viðtölum. Þá hafi hann ekki borið nægilegt traust til íslenskra yfirvalda til að bera á borð ásakanir pakistanskra yfirvalda um að hann væri viðriðinn hryðjuverkastarfsemi. Telur kærunefnd að umrætt misræmi, sem lýtur að meginatriðum í frásögn kæranda, dragi úr trúverðugleika frásagnar hans í málinu.

Frásagnir kæranda um hvenær hann hafi snúið aftur til heimaríkis og hvað hann hafi dvalið þar lengi hafa ekki verið samhljóða. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 21. febrúar 2017 kvaðst kærandi hafa snúið aftur til Pakistan í júní eða júlí árið 2016 og dvalið þar í tvo til tvo og hálfan mánuð. Í viðtali þann 22. mars s.á. lagði kærandi hins vegar fram gögn sem hann kvað staðfesta að hann hafi snúið til baka til Pakistan í apríl eða maí 2016 og hafa dvalið þar í sex eða sjö mánuði. Í viðtali þann 6. maí 2019 kvaðst kærandi hafa farið til baka til Pakistan í febrúar árið 2016 og einungis hafa verið þar í tvo mánuði. Þá fór kærandi þess á leit við yfirlestur viðtalsins að endurriti viðtalsins yrði breytt á þá leið að hann hafi farið til baka til Pakistan í september 2016. Þann 10. maí 2019, þegar að framgreint ósamræmi var borið undir kæranda, kvaðst kærandi hafa verið utan Schengen-svæðisins í fimm til sex mánuði en hafa dvalið í Pakistan í tvo til þrjá mánuði, þ.e. ágúst, september og október 2016. Það var ennfremur niðurstaða kærunefndar útlendingamála í úrskurði nr. 437/2017 að framlögð gögn, þ.m.t. vegabréf kæranda, hafi ekki sýnt með fullnægjandi hætti fram á veru hans í Pakistan á þeim tíma sem gögnin tóku til eða samfellda dvöl hans utan Schengen-svæðisins í þrjá mánuði eða lengur. Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda hefur tekið verulegum breytingum eftir því sem liðið hefur á meðferð mála hans fyrir íslenskum stjórnvöldum. Misræmi hefur verið í frásögninni og stangast framburður kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun þann 6. og 10. mars 2019 á við framburð hans í viðtölum hjá stofnuninni þann 21. febrúar og 22. mars 2017 og þau gögn sem kærandi framvísaði þá. Þá hefur kærandi engin gögn fært fram sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af aðstæðum hans í Pakistan. Þar sem kærandi snéri aftur til heimalands eftir upphaflegan flótta sinn þaðan og dvaldi þar að eigin sögn í einhverja mánuði telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að hann leggi frekari grunn að málsástæðum sínum með trúverðugum gögnum. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda og skortur á gögnum henni til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta teljist ótrúverðug. Frásögn hans verður því ekki lögð til grundvallar í máli þessu.

Þá benda gögn málsins að öðru leyti ekki til þess að kærandi hafi orðið fyrir eða eigi á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Í ljósi ofangreinds er ekki tilefni til að kanna hvort ástæður ætlaðra ofsókna séu þær sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að heimahérað kæranda sé almennt talið öruggt. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í […] héraði, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað. Þá er ekkert sem bendir til þess að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 27. febrúar 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 17. október 2019, eru liðnir tæpir 20 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Kærunefnd hefur sérstaklega litið til d-liðar 2. mgr. ákvæðisins sem gerir þá kröfu að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að frásögn kæranda hafi tekið breytingum hjá íslenskum stjórnvöldum og verið metin ótrúverðug sé skilyrðið, eins og hér stendur á, engu að síður uppfyllt. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. útlendingalaga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.  

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74(2) of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration related to his application for international protection is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                            Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta