Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 197/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 197/2017

Miðvikudaginn 6. september 2017

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 22. maí 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. maí 2017 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 23. maí 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. maí 2017. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. júní 2017 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 26. júní 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1982. Hún býr ásamt barni sínu í 79 fermetra leiguhúsnæði í B. Kærandi starfar hjá C en er nú í fæðingarorlofi.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 10. maí 2017 eru heildarskuldir kæranda 8.648.833 krónur en þar af fellur skuld vegna námslána að fjárhæð 5.499.036 krónur utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Kærandi kveður greiðsluerfiðleika sína stafa af atvinnuleysi og lægri tekjum í kjölfarið. Hún hafi misst vinnuna X 2014 og verið atvinnulaus í rúmt ár eða þar til hún fékk núverandi starf í X 2015. Hún sé nú á mun lægri launum en í fyrra starfi.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 27. febrúar 2017, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. maí s. á. var umsókn hennar hafnað þar sem fyrirliggjandi gögn voru ekki talin gefa nægilega glögga mynd af fjárhag hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að mál hennar verði tekið til endurskoðunar. Verður að skilja það svo að hún fari fram á að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem hún færi í fæðingarorlof frá X júlí 2017 og við það yrði hún fyrir mikilli tekjuskerðingu.

Kærandi vísar til þess sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hún geti leitað greiðsluaðlögunar sýni hún fram á að hún verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Séu skil á staðgreiðslu til Ríkisskattstjóra skoðuð sé auðveldlega hægt að nálgast upplýsingar um og áætla þær tekjur sem hún komi til með að hafa í mánuði hverjum í fæðingarorlofi.

Umboðsmaður skuldara hafi synjað umsókn kæranda þar sem fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nógu skýra mynd af núverandi stöðu fjárhags hennar eða væntanlegri þróun hans. Umboðsmaður hafi vísað til þess að misræmi væri á tekjum kæranda árin 2016 og 2017, annars vegar samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og hins vegar samkvæmt veltu á bankareikningi hjá Arion banka hf. Fyrir árið 2017 væri óútskýrður munur 2.866.241 króna og fyrir árið 2016 760.980 krónur. Einnig hafi ástæða synjunar verið sú að óljóst væri hverjar tekjur kæranda væru eða kæmu til með að verða og hvort kærandi kynni að hafa aðra fjármuni en vinnutekjur til að greiða af skuldum.

Kærandi fái heildarlaun greidd inn á bankareikning sinn og sjái sjálf um að skila staðgreiðslu af laununum. Vegna lágra launa, lægri tekna frá fyrra starfi og síðan atvinnuleysis hafi kærandi farið þá leið að gefa ekki allar tekjur sínar upp til skatts. Kærandi hafi verið treg til að greina frá þessu í umsókn sinni um greiðsluaðlögun.

Þar sem kærandi hafi ekki gefið öll laun upp til skatts fái hún mun lægri fæðingarorlofsgreiðslur en hún hefði ella fengið. Þannig fái hún um 115.000 krónur á mánuði í þá X mánuði sem hún verði í fæðingarorlofi.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara komi einnig fram að kærandi hafi fengið innborganir á bankareikning sinn frá ættingjum og vinum. Umboðsmaður telji óljóst hvort kærandi muni halda áfram að fá fjárframlög frá öðrum. Að sögn kæranda verði einhver fjárhagsleg aðstoð frá fjölskyldu barnsins í fæðingarorlofinu sem ekki sé hægt að sjá fyrir að svo stöddu. Kærandi spyr hvort eitthvað sé ólöglegt við það.

Til að sýna enn fremur fram á fjárhagsstöðu sína hafi kærandi boðist til að senda umboðsmanni skuldara yfirlit yfir úttektir af bankareikningi sínum hjá Arion banka hf. þannig að hægt væri að sjá að ekkert óeðlilegt ætti sér stað á reikningnum. Þetta hafi verið afþakkað svo sem sjá megi af framlögðum tölvupóstsamskiptum.

Kærandi kveðst ávallt hafa staðið í skilum. Áður en hún hafi leitað til umboðsmanns skuldara hafi kærandi ítrekað reynt að semja við Arion banka hf. um afborganir af láni en án árangurs.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt er um heimild til greiðsluaðlögunar. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segi að skuldari skuli leggja fram upplýsingar um hverjar tekjur hans séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann, ef þörf krefji, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Í greinargerð frumvarps til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. laganna að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Hins vegar sé ljóst að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og skuli umboðsmaður aðstoða skuldara við hana, auk þess að embættið geti aflað upplýsinga sjálft með heimild frá skuldara. Þá segi að það verði þó eflaust ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það því á ábyrgð skuldarans að afla þeirra.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá launa frá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2016 og skattframtali ársins 2017 hafi útborguð laun kæranda verið alls 1.689.229 krónur á árinu 2016, eða að meðaltali 140.769 krónur á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hf. hafi velta á bankareikningi kæranda verið 8.604.579 krónur á árinu 2016, eða að meðaltali 717.048 krónur á mánuði. Mismunur á uppgefnum tekjum kæranda og veltu á bankareikningi nemi því 6.915.350 krónum á árinu 2016.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá launa frá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2017 hafi útborguð laun kæranda frá janúar til mars 2017 numið alls 527.738 krónum eða að meðaltali 175.912 krónum á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hf. hafi velta á bankareikningi kæranda verið samtals 2.123.718 krónur á tímabilinu janúar til apríl 2017 eða að meðaltali 530.930 krónur á mánuði. Í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra vanti enn upplýsingar um tekjur í apríl 2017. Sé miðað við að kærandi hafi einnig fengið greiddar um 175.000 krónur í apríl 2017 nemi laun samtals 702.738 krónum frá janúar til apríl 2017. Mismunur á uppgefnum tekjum kæranda og veltu á bankareikningi sé því samtals 1.420.980 krónur á árinu 2017.

Kæranda hafi verið sendur tölvupóstur 7. apríl 2017 þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um tekjur hennar á árunum 2016 og 2017. Einnig hafi verið óskað eftir skýringum á því misræmi sem birtist í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og veltu á bankareikningi kæranda hjá Arion banka hf. á fyrrnefndu tímabili.

Kærandi hafi svarað með tölvupósti 9. apríl 2017 og veitt eftirfarandi skýringar vegna ársins 2016:

1. Hún hefði fengið greiddar 700.000 krónur inn á bankareikning frá smálánafyrirtækjum.

2. Hún hefði fengið greidd inn á bankareikning sinn peningalán frá fjölskyldumeðlimum og vinkonu sem hún hefði svo greitt til baka um hver mánaðamót.

3. Hún hefði fengið greiddar inn á reikning sinn 1.189.559 krónur sem teknar voru að láni hjá Arion banka hf. til þess að greiða niður yfirdrátt.

4. Hún hefði fengið greidd laun fyrir [...] sem hún hefði sinnt í aukastarfi.

5. Kærandi fengi laun vegna janúarmánaðar greidd út í byrjun desember og kæmu þau því inn í veltu ársins 2016.

6. Kærandi hefði [...] 2015 og hún hefði fengið tekjur vegna [...] fram í byrjun árs 2016.

Kærandi hafi jafnframt veitt eftirfarandi skýringar vegna ársins 2017:

1. Kærandi hefði fengið greiddar 200.000 krónur frá ömmu sinni í janúar 2017.

2. Kærandi hefði fengið greiddar 270.000 krónur frá smálánafyrirtækjum inn á bankareikning sinn.

3. Tveir fjölskyldumeðlimir kæranda hefðu greitt inn á bankareikning hennar peningaskuld frá 2016.

Umboðsmaður skuldara hafi óskað upplýsinga um tekjur kæranda vegna [...] á árinu 2016. Þá hafi kærandi verið beðin um skýringar á því hvers vegna þessar tekjur, samtals að fjárhæð 604.975 krónur, hefðu ekki verið gefnar upp til skatts og tilgreindar í skattframtali ársins 2017 vegna tekna ársins 2016. Kærandi hafi gefið þá skýringu að tekjur vegna [...] hefðu farið í gegnum félag í eigu föður hennar en félagið hefði skilað virðisaukaskatti af fjárhæðinni. Þá kvaðst kærandi telja að tekjur vegna [...] væru undir virðisaukaskattsviðmiðum fyrir árið. Með tölvupósti 3. maí 2017 hafi kæranda verið greint frá því að þessar tekjur væru skattskyldar og þyrftu að koma fram í skattframtali óháð því hvort skylt væri að greiða af þeim virðisaukaskatt. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að umboðsmaður skuldara gæti aðeins byggt á tekjum sem kæmu fram í opinberum gögnum og á meðan ekki lægju fyrir upplýsingar um þessar tekjur hjá Ríkisskattstjóra teldist mynd af fjárhag umsækjanda óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Í málinu liggi ekki fyrir staðfesting á því að kærandi hafi talið þessar tekjur fram til skatts.

Varðandi peningalán frá fjölskyldumeðlimum og vinum á árunum 2016 og 2017 hafi kærandi verið beðin um að upplýsa hvort um lán eða tekjur væri að ræða. Kærandi hafi endurtekið fyrri skýringar sínar, þ.e. að hún hefði fengið peninga að láni. Við skoðun á færsluyfirlitum sem kærandi hafi lagt fram í málinu hafi komið í ljós að hún hafi alls fengið greiddar 1.379.646 krónur frá ættingjum og vinum á árinu 2016. Á árinu 2017 hafi kærandi fengið greiddar 390.000 krónur frá vinum og ættingjum eða að meðaltali 97.500 krónur á mánuði. Kærandi hafi aðeins greitt 393.200 krónur til baka á árinu 2016 og ekkert á árinu 2017. Eftir standi því 1.376.446 krónur sem séu að meðaltali 114.704 krónur á mánuði og umboðsmaður skuldara telji óljóst hvort flokka skuli sem tekjur eða lán við mat á fjárhag kæranda. Að sögn kæranda sé um að ræða lán samkvæmt munnlegu samkomulagi sem miðað sé við að hún greiði til baka þegar fjárhagur hennar batni. Þessar fullyrðingar hafi kærandi ekki stutt gögnum og því telji umboðsmaður skuldara að mynd af fjárhag kæranda sé að þessu leyti óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara hafi jafnframt óskað eftir skýringum á því hvers vegna kærandi hefði veitt tveimur fjölskyldumeðlimum persónuleg lán sumarið 2016, á sama tíma og hún hefði að eigin sögn þegið lán frá fjölskyldu og vinum vegna bágrar fjárhagsstöðu sinnar. Kærandi hafi greint frá því að lánin hefðu verið að fjárhæð 90.000 krónur og verið veitt tveimur nafngreindum aðilum. Hún hafi ekki veitt frekari skýringar á þessu. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að laun vegna janúar 2017 hefðu verið greidd út í byrjun desember 2016 líkt og hún héldi fram.

Með vísan til þess sem að framan greini hafi kærandi fært fram gögn og skýringar vegna misræmis á uppgefnum tekjum og veltu bankareiknings á árinu 2016 að fjárhæð 4.049.109 krónur og á árinu 2017 að fjárhæð 660.000 krónur. Enn vanti því skýringar á misræmi uppgefinna tekna og veltu bankareiknings á árinu 2016 að fjárhæð 2.866.241 króna og á árinu 2017 að fjárhæð 760.980 krónur.

Kæranda hafi verið greint frá því með tölvupósti 4. maí 2017 að nauðsynlegt væri að fá skýringar á þeim mismun sem enn væri til staðar á tekjum samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtali annars vegar og veltu á bankareikningi hins vegar. Kæranda hafi verið leiðbeint um að hún gæti til dæmis óskað eftir færsluyfirliti frá bankanum hefði hún ekki skýringar á þessum mismun. Jafnframt hafi kæranda verið leiðbeint um að hafa samband við Ríkisskattstjóra vegna tekna fyrir [...] á árinu 2016. Að mati kæranda hafi velta bankareiknings á árinu 2017 ekki verið rétt samkvæmt stöðuyfirliti frá Arion banka hf. Kæranda hafi því einnig verið bent á að hafa samband við bankann vegna þess og bent á að umboðsmaður skuldara gæti aðeins byggt á þeim gögnum sem lægju fyrir í málinu. Kærandi hafi síðan greint frá því 8. maí 2017 að hún hefði ekki frekari skýringar fram að færa og að umsókn um greiðsluaðlögun væri tilbúin af hennar hálfu.

Fyrir úrskurðarnefndinni hafi kærandi greint frá því að misræmið stafaði af því að hún hefði ekki gefið allar tekjur sínar upp til skatts. Því til stuðnings hafi hún lagt fram yfirlit af bankareikningi sínum hjá Arion banka hf. Þar komi fram að laun hennar nemi að meðaltali 376.608 krónum á mánuði á árinu 2016 og að meðaltali 416.960 krónum frá janúar til apríl 2017. Þegar tekið sé mið af launum kæranda samkvæmt framlögðum færsluyfirlitum frá Arion banka hf. og fjárframlögum frá ættingjum og vinum hafi kærandi haft til ráðstöfunar að meðaltali 491.312 krónur á mánuði á árinu 2016 og að meðaltali 514.460 krónur á mánuði frá janúar til apríl 2017. Þrátt fyrir þessar skýringar sé það mat umboðsmanns skuldara að fjárhagur kæranda sé enn óljós. Á meðan ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um tekjur kæranda hjá Ríkisskattstjóra, og mismunur sé á tekjum sem gefnar séu upp til skatts og veltu á bankareikningi, álíti embættið fjárhag kæranda óglöggan. Ekki liggi fyrir staðfesting á því að kærandi hafi leiðrétt skattframtal sitt eða veitt Ríkisskattstjóra réttar upplýsingar um tekjur sínar.

Að mati umboðsmanns skuldara gefi fyrirliggjandi gögn í málinu ekki nógu skýra mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., vegna þess misræmis sem sé á tekjum hennar, annars vegar samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir árin 2016 og 2017 og skattframtali 2017 og hins vegar samkvæmt veltu á bankareikningi hennar hjá Arion banka hf. Þá sé að mati embættisins ekki ljóst hverjar tekjur kæranda séu eða komi til með að verða, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., hvort sem sé af vinnu eða öðrum sökum eða af hvaða samningum eða öðru tekjurnar komi til með að ráðast. Jafnframt telji umboðsmaður skuldara óljóst hvort kærandi kunni að hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna fjárframlaga annarra.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því lagaákvæði skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að fjárhagur kæranda sé talinn óljós vegna þess að ekki sé samræmi á milli þeirra tekna sem kærandi hafi talið fram til skatts og veltu á bankareikningi hennar hjá Arion banka hf. Einnig telur umboðsmaður að ekki sé ljóst hverjar tekjur kæranda séu eða komi til með að verða og hvort kærandi kunni að hafa aðra fjármuni en atvinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna fjárframlaga annarra.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við einstakar lagagreinar í frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra vegna ársins 2016 voru þær tekjur sem kærandi gaf upp til skatts á því ári 1.933.010 krónur. Af fyrirliggjandi stöðuyfirliti frá Arion banka hf. má sjá að veltan (innlegg) á bankareikningi kæranda var 8.604.579 krónur á árinu 2016 eða 6.671.569 krónum hærri en þau laun sem gefin voru upp til skatts. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara gaf kærandi ófullnægjandi skýringar á þessum mismun. Með kæru til úrskurðarnefndarinnar skýrði kærandi þetta svo að hún hefði ekki gefið allar tekjur sínar upp til skatts og lagði fram yfirlit yfir þær tekjur sem hún hafði fengið greiddar annars vegar og þær tekjur sem hún hafði gefið upp til skatts hins vegar.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram bárust henni neðangreindar greiðslur inn á bankareikning hjá Arion banka hf. á árinu 2016:

Greiðslur inn á bankareikning 2016 Fjárhæð
Laun (brúttó) 4.546.290
Aukavinna 326.582
Tekjur vegna [...] 278.393
Lán frá Arion banka hf. 1.189.559
Smálán 700.000
Frá vinum og ættingjum 1.379.646
Samtals 8.420.470
Velta á bankareikningi 8.604.579
Skýringar vantar vegna 184.109

Í ljósi þessara gagna þykir kærandi hafa skýrt alla veltu á bankareikningi sínum árið 2016 að undanskildum 184.109 krónum.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram bárust henni neðangreindar greiðslur inn á bankareikning hjá Arion banka hf. á tímabilinu 1. janúar til 5. apríl 2017:

Greiðslur inn á banka-reikning til 5.4.2017 Fjárhæð
Laun (brúttó) 1.182.676
Smálán 270.000
Frá vinum og ættingjum 390.000
Samtals 2.327.843
Velta á bankareikningi 2.123.718

Samkvæmt þessu hefur kærandi skýrt alla veltu á bankareikningi sínum frá 1. janúar til 5. apríl 2017.

Jafnvel þó að nú liggi fyrir hvaða greiðslur kærandi fékk inn á bankareikning sinn á árinu 2016 og fram til 5. apríl 2017 þykir ljóst að kærandi hafi vísvitandi veitt umboðsmanni skuldara rangar upplýsingar um tekjur sínar, sbr. það sem í kæru greinir. Að auki þykir sýnt af gögnum málsins að kærandi hefur ekki gefið nema hluta tekna sinna upp til skatts. Nægir sú háttsemi út af fyrir sig til að synja beri umsókn um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum lge.

Að sögn kæranda séu þau fjárframlög sem hún hafi fengið frá vinum og ættingjum lán samkvæmt munnlegum samningum. Í tölvupósti til umboðsmanns skuldara 9. apríl 2017 greinir kærandi frá því að hún greiði af lánunum um hver mánaðarmót. Í tölvupósti til embættisins 3. maí 2017 segir kærandi að hún endurgreiði lánin þegar fjárhagur hennar batni. Hvorug þessara staðhæfinga kæranda á sér stoð í gögnum málsins en kærandi greiddi öllum fyrrnefndum vinum og ættingjum peninga á árinu 2016, flestum óreglulega og í sumum tilvikum var um að ræða nokkrar greiðslur í mánuði. Sundurliðun á þeim greiðslum sem kærandi fékk frá átta nánar tilgreindum vinum og ættingjum annars vegar og því sem hún greiddi þessum sömu vinum og ættingjum er eftirfarandi:

Vinur/ættingi Greitt til Greiðslur kæranda Mismunur
kæranda 2016 til vinar/ættingja 2016
D 65.000 65.000 0
E 250.394 810.000 -559.606
F 113.226 127.126 -13.900
G 42.300 16.813 25.487
H 140.000 140.000 0
J 527.000 53.700 473.300
K 198.000 25.000 173.000
L 43.726 28.000 15.726
Samtals: 1.379.646 1.265.639

Í samantektinni hér að framan má sjá að í tveimur tilvikum hefur kærandi greitt viðkomandi jafn háa fjárhæð og hún fékk á árinu 2016. Í öðrum tveimur tilvikum greiddi kærandi hærri fjárhæð til vinar/ættingja en hún fékk frá honum en í einu þeirra tilvika greiddi kærandi 559.606 krónur umfram framlög á árinu. Skýringar á þessu hafa ekki komið fram af hálfu kæranda. Þegar allt er talið nema fjárframlög frá vinum og ættingjum kæranda 1.379.646 krónur á árinu 2016 en greiðslur kæranda til sömu aðila nema 1.265.639 krónum. Ef tekið er mið af skýringum kæranda að um sé að ræða lán og aðeins er tekið tillit til þeirra aðila sem kærandi virðist ekki hafa endurgreitt að fullu nam skuld hennar við þessa aðila 687.513 krónum (25.487 + 473.300 + 173.000 + 15.726) í lok ársins 2016.

Frá 1. janúar til 5. apríl 2017 fékk kærandi eftirtalin fjárframlög frá vinum og ættingjum:

Vinur/ættingi Greitt til Greiðslur kæranda Mismunur
kæranda 2017* til vina/ættingja 2017*
E 75.000 100.000 -25.000
M 70.000 0 70.000
G 200.000 0 200.000
K 25.000 0 25.000
N 20.000 0 20.000
Samtals: 390.000 100.000

* Til 5. apríl 2017.

Í samantektinni má sjá að í einu tilviki greiddi kærandi 25.000 krónur umfram það sem hún fékk frá viðkomandi aðila á tímabilinu. Skýringar á þessu hafa ekki komið fram af hálfu kæranda. Þegar allt er talið eru fjárframlög frá vinum og ættingjum kæranda 390.000 krónur á tímabilinu 1. janúar til 5. apríl 2017 en greiðslur kæranda til sömu aðila nema 100.000 krónum.

Ef aðeins er tekið tillit til þeirra aðila sem kærandi virðist ekki hafa endurgreitt að fullu fyrir allt framangreint tímabil, þ.e. 1. janúar 2016 til 5. apríl 2017 nemur skuld hennar við þessa aðila samtals 1.002.513 krónum (687.513 + 70.000 + 200.000 + 25.000 + 20.000).

Að því er varðar ofangreind fjárframlög vina og ættingja til kæranda hefur hvorki verið upplýst hvort kærandi fékk fé frá þeim fyrir árið 2016 og þannig í hve langan tíma kærandi hefur fengið fé frá þessum aðilum né hversu háa fjárhæð hver og einn hefur alls látið henni í té. Ekki liggur fyrir hvort fjárframlögin eru í öllum tilvikum lán, hvort einhver hluti þeirra er gjöf til kæranda eða hvort þau eru til komin af öðrum ástæðum. Þá eru ekki fyrir hendi upplýsingar um það hvort kærandi muni áfram fá lán eða fjárframlög frá vinum og ættingjum. Þær upplýsingar sem kærandi hefur gefið um endurgreiðslu fjárins eru misvísandi og ekki að öllu leyti í samræmi við gögn málsins en í þremur tilvikum hefur hún greitt ákveðnum aðilum hærri fjárhæð en hún hefur fengið frá viðkomandi.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Til að þetta sé mögulegt verður að liggja fyrir hverjar skuldir viðkomandi einstaklings séu og hvort og þá hvaða fjármuni hann muni hafa til að greiða af skuldum sínum. Í tilviki kæranda liggur fjárhæð skulda ekki ljóst fyrir og ekki hefur verið upplýst hvort kærandi muni áfram fá fjármuni frá vinum og ættingjum sem hún gæti eftir atvikum nýtt til að greiða af skuldum, sbr. það sem hér hefur verið rakið.

Að öllu framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að á skorti að kærandi hafi veitt þær upplýsingar sem nauðsynlegar verða að teljast til að greina megi fjárhagsstöðu hennar til fulls svo að fyrir liggi glögg mynd af fjárhag hennar eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga er samkvæmt framansögðu staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta