Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 483/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 31. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 483/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060055

Beiðni [...]

og barna hennar um endurupptöku

á úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 23. febrúar 2016

I. Málsatvik

Þann 23. febrúar 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 16. mars 2015 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), og börnum hennar, [...], fd. [...], og [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 21. mars 2016. Þann 5. apríl 2016 synjaði kærunefnd þeirri beiðni kæranda og var ákvörðunin birt fyrir kæranda 29. apríl s.á. Þann 20. júlí s.á. barst kærunefnd beiðni kæranda um að hún endurskoðaði úrskurð sinn frá 23. febrúar 2016. Þann 8. september 2016 synjaði kærunefnd þeirri beiðni. Þann [...] fæddi kærandi barn sem ber nafnið [...]. Þann 20. júní 2017 var barnsföður kæranda birt tilkynning um að honum yrði brottvísað úr landi 21. júní 2017. Þann sama dag var óskað eftir frestun réttaráhrifa á málum kæranda, barnsföður hennar og barna þeirra. Degi síðar, þann 21. júní 2017, var lögð fram beiðni um endurupptöku á úrskurðum kærunefndar í málum þeirra. Þann 5. júlí sl. barst kærunefnd greinargerð með rökstuðningi fyrir því að nefndin endurskoði ákvörðun sína í máli kæranda nr. KNU15030024, sbr. úrskurð nr. 73/2016 frá 23. febrúar 2016. Með beiðni kæranda voru fylgigögn, m.a. gögn um heilsufar kæranda, upplýsingar um hagi barna hennar og aðstæður fjölskyldunnar hér á landi, auk bréfa frá vinum fjölskyldunnar. Kærunefnd útlendingamála óskaði eftir frekari röksemdum frá kæranda þann 13. júlí 2017 með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Viðbótargreinargerð barst frá kæranda þann 20. júlí 2017 ásamt fylgigögnum. Þann 10. ágúst sl. kom kærandi í viðtal hjá kærunefnd til að gera frekari grein fyrir stöðu sinni. Þann dag ákvað kærunefnd útlendingamála að endurupptaka málið. Daginn eftir bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá Útlendingastofnun að beiðni nefndarinnar. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn um heilsufar barns kæranda þann 17. ágúst 2017. Þann 18. ágúst bauð kærunefnd kæranda að leggja fram frekari gögn með vísan til b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Viðbótargreinargerð ásamt fylgiskjölum barst frá kæranda 29. ágúst 2017.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku mála hennar og barnanna á 24. gr. stjórnsýslulaga.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi nefnir kærandi í fyrsta lagi að henni hafi [...]. Barn hennar hafi verið í ungbarnaeftirliti og vegna veikinda kæranda hafi barni hennar verið [...]. Nauðsyn sé á áframhaldandi eftirliti með því og almennu heilbrigði þess. Í öðru lagi séu komin fram ný gögn um leikskólavist barna kæranda. Það sé mat [...] að það sé nauðsynlegt og börnunum fyrir bestu að halda áfram vist sinni á leikskólanum þar sem þar njóti þau öryggis og þeirrar festu sem þau þarfnist. Á leikskólanum hafi verið unnið með [...]. Sú óvissa sem fjölskyldan standi frammi fyrir [...]. Þá biðji bæði börnin um [...]. Í þriðja lagi þá hafi barnsföður kæranda [...] verið brottvísað til heimalands síns [...] þann 21. júní 2017. Kærandi telji augljóst að forsendur í ákvörðun Útlendingastofnunar séu breyttar en við mat á hagsmunum elsta barns kæranda hafi verið tekið fram að barninu yrði ekki stefnt í hættu með því að það fylgi móður sinni og föður til [...]. Kærandi telji nýtt hagsmunamat ekki leiða til sömu niðurstöðu. Kærandi telji að hagsmunum barnanna yrði stefnt í hættu með því að senda þau ásamt móður sinni til [...], sérstaklega í ljósi gagna um leikskólavist barnanna og gagna um heilbrigðiseftirlit yngsta barnsins. Í fjórða lagi er vísað til veikinda kæranda en gögn um þau hafi ekki verið lögð fram áður. Í ljós hafi komið að kærandi sé [...] og talin hafi verið þörf á að hún hitti sérfræðing í byrjun nóvember á þessu ári. [...].

Í greinargerð kæranda er vísað til stjórnsýslumáls nr. KNU16120024. Kærendur í málinu, fjölskylda með börn, hafi fengið mál sitt endurupptekið. Þar hafi niðurstaða kærunefndar verið sú að ný gögn og upplýsingar frá kærendum væru þess eðlis að þegar litið væri heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem hafi legið fyrir þegar upphaflegur úrskurður hafi fallið í málinu rúmu ári fyrr, hafi leitt til þess að líta yrði svo á að atvik málsins hefðu breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Kærandi byggi á því að það sama eigi við í máli þeirra og í ljósi jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga beri kærunefnd því að endurupptaka mál þeirra.

Þá telji kærandi að skilyrðum 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í máli hennar. Kærandi vísi í lögskýringagögn með ákvæðinu og ítreki að meðferð hafi hafist hér á landi við veikindum kæranda, bæði líkamlegum og andlegum. Kærandi byggi á því að eftirfylgni og aðgengi að lyfjum vegna [...]. Kærandi óttist að verði hún endursend þangað muni hún ekki fá nauðsynlega meðferð við sjúkdómi sínum. Þá byggir kærandi á því að lögskýringargögn sýni að taka þurfi tillit til þess hvernig aðstæður barnanna væru í heimalandi og hvort framfærsla þeirra væri trygg og forsjáraðilar til staðar. Kærandi telji seinni tvö atriðin alls ekki trygg m.t.t. stöðu kæranda og óvissu um staðsetningu barnsföður hennar. Þá hafi kærandi bent á það allt frá upphafi máls síns að aðstæður barna í heimalandi hennar séu almennt mjög ótryggar. Kærandi vísar einnig til sameiginlegrar skýrslu UNICEF, Barnaheilla, umboðsmanns barna og Rauða krossins á Íslandi frá 22. nóvember 2016. Þar sé tekið fram að stjórnvöldum á Íslandi beri að líta á málefni barna og barnafjölskyldna, sem leita alþjóðlegrar verndar eða sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst og fremst út frá réttindum barnanna.

Kærandi byggir einnig á því að skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í máli sínu. Mál kæranda hafi verið til meðferðar á stjórnsýslustigi í 20 mánuði og 19 daga. Kærandi hafi á allan hátt verið samvinnuþýð við meðferð málsins og veitt yfirvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar. Jafnvel þó litið yrði svo á að kærandi hefði átt þátt í nokkurra vikna töf frá 1. júlí 2014 með því að afturkalla hælisbeiðni sína þá var þeirri beiðni hafnað með bréfi Útlendingastofnunar þann 12. september 2014. Frá þeim tímapunkti hafi liðið 18 mánuðir og tveir dagar þar til stjórnsýslumeðferð málsins lauk og hafi tafir á þeim tíma alfarið verið vegna vinnuálags í stjórnsýslunni. Kærandi telji því augljóst að hún uppfylli skilyrði ákvæðisins og veita skuli henni og börnum hennar dvalarleyfi á þeim grundvelli. Vísi kærandi til fyrrnefnds stjórnsýslumáls nr. KNU16120024 þar sem kæranda þess máls og börnum hennar var veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga telji kæranda að einboðið sé að sama niðurstaða fáist í máli hennar.

Þessu til viðbótar vísar kærandi í greinargerð til þess að samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. sömu greinar þegar sérstaklega standi á. Kærandi byggir á því að ríkar sanngirnisástæður mæli með veitingu dvalarleyfis verði ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði 3. mgr. 74. gr. laganna.

Kærandi byggir jafnframt á því að ákvæði 1. mgr. 102. gr. laga um útlendinga eigi við um börn kæranda og því sé óheimilt að brottvísa þeim. Börnin hafi haft óslitna fasta búsetu frá fæðingu þrátt fyrir að skráning þeirra virðist vera í utangarðsskrá Þjóðskrár. Kærandi telji það ekki samræmast íslenskum lögum, alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum íslenska ríkisins og jafnframt ekki lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu að líta svo á að skráning í utangarðsskrá Þjóðskrár sé ekki skráning „samkvæmt Þjóðskrá“ í skilningi 1. mgr. 102. gr. laga um útlendinga og sé slík túlkun andstæð réttmætisreglunni. Kærandi vísar til fyrrnefndra laga nr. 54/1962 og til barnalaga nr. 76/2003 máli sínu til stuðnings. Þá bendi kærandi á að samkvæmt ákvæðinu sé lögheimilisskráning ekki gerð að skilyrði samkvæmt ákvæðinu, heldur aðeins skráning búsetu. Því samræmist annað ekki almennri málvenju en að skilja ákvæðið sem svo að börnin hafi átt fasta búsetu í [...] frá fæðingu samkvæmt Þjóðskrá í skilningi 1. mgr. 102. gr. laganna og að aðra túlkun skorti lögmæti. Um lögbundna heimild þyrfti að vera að ræða til þess að skráningin mætti veita ólíka réttarstöðu í þessum skilningi.

Af hálfu kæranda er því jafnframt haldið fram að ekki hafi nægilega verið fjallað um hagsmuni barnanna í fyrri ákvörðunum í máli þeirra, en aðeins hafi verið tekin ein sérstök ákvörðun í málinu um barn kæranda, [...]. Kærandi telji að kærunefndinni beri að taka til greina hagsmuni barnanna sérstaklega í úrskurði sínum. Þá vísar kærandi til laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Í viðbótargreinargerð, dags. 20. júlí 2017, færir kærandi rök fyrir því hvers vegna veigamiklar ástæður mæli með því að mál kæranda verði endurupptekið, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þrátt fyrir að beiðni um endurupptöku hafi borist eftir að ársfresturinn sem tilgreindur er í ákvæðinu hafi verið liðinn samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi bendir á að ekki komi nánar fram í lögunum eða lögskýringargögnum hvað átt sé við með hugtakinu veigamiklar ástæður í þessu samhengi. Kærandi vísar í skrif fræðimanna um afmörkun hugtaksins og bendir m.a. á að mál kæranda kunni að vera einstakt vegna þess hve langur tími hafi liðið frá birtingu úrskurðarins og þangað til viðbótargreinargerðin sé rituð, en að tafirnar megi ekki rekja til kæranda sjálfrar.

Í viðbótargreinargerð, dags. 29. ágúst 2017, kemur fram að kærandi byggi á því að veita eigi kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem hún uppfylli öll skilyrði ákvæðisins. Kærandi byggi á því að beita þurfi a-d liðum 2. mgr. 74. gr. til samræmis við 2. mgr. 77. gr. laga um útlendinga þannig að víkja megi frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. þegar sérstaklega standi á. Þessu til stuðnings vísi kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 70/2015 frá 29. maí 2015. Kærunefnd hafi byggt á því að þó svo að þágildandi 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002 hafi ekki vísað til undantekningarreglu þágildandi 2. mgr. 12. gr. g hafi, við mat á því hvort skilyrði a-e liðar 12. gr. g væru uppfyllt, borið að taka tillit til undantekningarheimildar 2. mgr. 12. gr. g. Kærandi byggi á því að sama túlkun eigi við í máli hennar og í fyrrgreindum úrskurði að teknu tilliti til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, þrátt fyrir að lög um útlendinga nr. 80/2016 hafi komið í stað eldri laga nr. 96/2002. Kærandi telji mikilvægt að líta til þess að ákvæði 77. gr. núgildandi laga um útlendinga byggi á 12. gr. g eldri laga um útlendinga, en í athugasemdum við hið nýja ákvæði, komi fram að það sé lítið breytt frá 12. gr. g. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 77. gr. nýju laganna sé heimilt að víkja frá skilyrði b-liðar 1. mgr. 77. gr. þegar sérstaklega standi á, t.d. þegar ósanngjarnt eða ómögulegt er að ætlast til þess að umsækjandi framvísi fullnægjandi skilríkjum. Kærandi byggi á því að bæði skilyrðin, þ.e. að ósanngirnis- og ómöguleikaskilyrðið, eigi við í máli hennar.

Kærandi vísi til aðstæðna sinna og telji að vegna þeirra sé ósanngjarnt að ætlast til þess að hún framvísi fullnægjandi skilríkjum til að sanna á sér deili. Í því sambandi nefni kærandi að hún hafi flúið heimaland sitt er hún hafi verið sjö ára gömul og því aldrei fengið útgefin skilríki af yfirvöldum í upprunaríki sínu. Vegna aðstæðna sinna og hversu ung kærandi hafi verið þegar hún hafi flúið land byggi kærandi á því að krafa um að hún leggi fram skilríki til að sanna á sér deili sé afar ósanngjörn og verulega íþyngjandi. Kærandi byggi á því að Útlendingastofnun hafi talið frásögn kæranda um ástæður flótta hennar trúverðuga og að hún hafi verið lögð til grundvallar í máli hennar. Kærandi byggi á því að ekkert í gögnum málsins hafi gefið til kynna að kærandi hafi ekki gefið stjórnvöldum rétt nafn sem og réttan fæðingardag. Hún hafi frá fyrsta degi málsmeðferðar sinnar hjá stjórnvöldum, þann 25. júní 2014, veitt réttar upplýsingar um heiti, fæðingardag og heimaríki og hafi þær haldist óbreyttar í gegnum málsmeðferðina. Þá vísi kærandi í tölvupóstsamskipti Útlendingastofnunar og lögreglu, dags. 4. júlí 2014, þar sem fram kemur að í sumum tilfellum [...]. Kærandi byggi einnig á því að hún hafi kveðist eiga bróður á Ítalíu sem beri sama kenninafn og hún í samskiptum sínum við Útlendingastofnun. Kærandi vísi jafnframt til samskipta íslenskra og ítalskra stjórnvalda og upplýsinga um kæranda í gagnagrunni Eurodac en þar hafi upplýsingar um hana verið þær sömu og hún hafi gefið upp hjá íslenskum stjórnvöldum. Kærandi kveðst hafa fengið tímabundið dvalarleyfi frá ítölskum stjórnvöldum, fyrst til þriggja mánaða sem síðar hafi verið framlengt um sex mánuði. Það leyfi hafi hins vegar ekki verið framlengt frekar en að sögn kæranda voru skilríkin sem hún fékk útgefin í tengslum við dvalarleyfið auðkennd með nafninu [...] og fæðingardegi [...]. Kærandi telji að líta beri til þess að ítölsk stjórnvöld hafi metið hana trúverðuga um nafn sitt og hafi veitt henni tímabundið dvalarleyfi með útgáfu skírteinis með nafni hennar og fæðingardegi. Kærandi byggi á því að vegna þessa beri íslenskum stjórnvöldum á grundvelli gagnkvæms trausts, sem sé undirstaða Dyflinnarsamstarfsins, að leggja það skjal og nafn hennar til grundvallar um að kærandi hafi sannað á sér deili. Engin svör hafi borist frá ítölskum stjórnvöldum um þá málsmeðferð sem umsókn kæranda hlaut á Ítalíu og þegar af þeirri ástæðu beri að túlka vafa um hvort kæranda hafi áður fengið dvalarleyfisskírteini á sínu nafni henni í hag, sérstaklega í ljósi trúverðugleika hennar, rannsóknarskyldu stjórnvalda við meðferð málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. sömu laga.

Kærandi byggir einnig á því að það sé ómögulegt að ætlast til þess að hún framvísi fullnægjandi skilríkjum en hún vilji engu að síður gera allt sem í hennar valdi standi til þess að aðstoða við úrlausn málsins. Í því samhengi hafi kærandi leitað til [...] sendiráðsins í Dublin, með tölvupósti dags. 23. ágúst sl., til að afla upplýsinga um málsmeðferð við öflun vegabréfs, að teknu tilliti til þess að hún eigi ekki fæðingarvottorð. Samkvæmt upplýsingum frá sendiráðinu um málsmeðferð við öflun vegabréfs yrði kærandi kvödd í viðtal hjá fulltrúa sendiráðsins, m.a. til að taka megi lífkenni (e. biometrics). Þá sé nauðsynlegt að hún leggi fram fylgigögn með umsókninni, þ.m.t. annað hvort fæðingarvottorð eða yfirlýsingu um aldur. Kærandi hafi upplýst að hún fæddist ekki á spítala heldur í heimahúsi. Vegna þessa hafi hún aldrei fengið útgefið fæðingarvottorð og sé það vandkvæðum bundið að afla slíks. Að mati kæranda séu þessar upplýsingar í samræmi við aðgengilegar upplýsingar um útgáfu fæðingarvottorða í [...], þó þær virðist að einhverju leyti vera á reiki. Samkvæmt frekari heimildum geti kærandi fengið yfirlýsingu um aldur sem megi fylgja umsókn um vegabréf í stað fæðingarvottorðs. Kærandi bendi á að til þess að geta sótt um yfirlýsingu um aldur beri umsækjanda að leggja fram ýmis fylgiskjöl, þ.m.t. afrit af vegabréfi sínu. Ljóst sé að kærandi eigi ekki vegabréf og eðli máls samkvæmt geti hún ekki sótt um yfirlýsingu um aldur. Kærandi bendi einnig á að upplýsingar í fylgiskjölum gefi til kynna að kærandi verði að vera í [...] til að geta aflað fæðingarvottorðs eða affadavit skjals í stað þess.

Kærandi vísi til framkvæmdar í Noregi vegna umsókna um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og bendi á skýrslu norskra yfirvalda um auðkenningu umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá bendi kærandi jafnframt á það að gæta verði að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga en hún geri áskilnað um að við úrlausn máls beri stjórnvaldi að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Kæranda sé kunnugt um tvö mál sambærileg hennar máli, sem hafi þó verið afgreidd í tíð eldri laga, þar sem vafi hafi leikið á því hverjir umsækjendur voru, en þeim hafi verið veitt undanþága frá b-lið og hafi verið veitt dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. 24. gr. sömu laga kemur fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í beiðni um endurupptöku er byggt á því að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun í máli kæranda var tekin. Kærandi byggi m.a. á því að hún [...], en áður hafi ekki verið lögð fram gögn um veikindi hennar. Þá hafi barnsföður hennar verið brottvísað og hún sé einstæð þriggja barna móðir.

Kærandi lagði fram tvær greinargerðir, dags. 3. og 20. júlí 2017 auk viðbótargreinargerðar, dags. 29. ágúst 2017, máli sínu til stuðnings. Líkt og fyrr greinir kom kærandi jafnframt til viðtals þann 10. ágúst þar sem kærandi var beðin um að gera frekari grein fyrir stöðu sinni. Í máli hennar kom fram að hún hafi [...]. Kærunefnd óskaði því eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvenær [...]. Í svari Útlendingastofnunar kom fram að [...]. Eins og að framan greinir komu upplýsingar um [...]. Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir málið og telur rétt að miða við að þann dag sem [...] , hafi atvik breyst verulega frá því að ákvörðun í máli kæranda var tekin. Er þá einkum litið til þess að í úrskurði kærunefndar, dags. 23. febrúar 2016, grundvallaðist mat á aðstæðum kæranda á því að hún væri í [...]. Í ljósi fyrrgreinds úrskurðar kærunefndar er það mat kærunefndar að þær nýju upplýsingar um félagslega stöðu og heilsu kæranda, sem komið hafa fram í gögnum málsins og í viðtali við kæranda, séu þess eðlis, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar upphaflegur úrskurður féll í máli kæranda, að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga enda var sá ársfrestur sem fram kemur í 2. mgr. 24. gr. laganna ekki liðinn þegar kærunefnd barst beiðni aðila um endurupptöku.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til viðbótar við skýrslur sem vitnað var til í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 23. febrúar 2016 hefur kærunefnd lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...] [...]

Samkvæmt gögnunum er mjög algengt að þegar [...] flytji innanlands í [...] velji þeir stað þar sem þeir eigi fyrir tengslanet, sérstaklega ættingja. [...] hafa miklar væntingar til ættingja sinna, þ.e. væntingar til þess að ættingjarnir muni halda þeim uppi þegar aðstæður þeirra versna. Slík krafa nái ekki bara til nánustu ættingja heldur einnig þeirra sem eru fjarskyldari viðkomandi. Einstæðar [...] konur flytjist búferlum í meira mæli en áður og þá kjósi þær oftast að flytja til staða þar sem þær hafa eitthvert tengslanet, þannig að þær geti fengið aðstoð við að finna sér vinnu og heimili. Þá mæti konur stærri hindrunum en karlmenn þurfi þær að hefja nýtt líf á nýjum stað, þar sem þær hafi ekki stuðning frá eða tilheyri fjölskyldu. Konur sem búi einar séu álitnar viðkvæmari fyrir óumbeðnum afskiptum karlmanna og fyrir glæpum. Þar af leiðandi vilji konur venjulega, í meira mæli en karlmenn, reyna að búa hjá fólki sem þær þekki til, og helst þar sem karlmaður sé á heimilinu. Það sé þó ekki óalgengt að konur búi einar hvort sem þær kjósi að gera það eða að aðstæður þeirra krefjist þess.

Staða kvenna sé betri í suðurhluta [...] en í norðurhluta landsins. Almennt sé t.d. auðveldara fyrir konur að fá vinnu í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess. Þær endi þó oft á því að vinna erfiðisvinnu sem sé illa launuð. Þá sé erfitt fyrir ómenntaðar einstæðar konur í suðurhluta landsins, að útvega sér húsnæði, sérstaklega í borgum, en að konur í þorpum eigi möguleika á að útvega sér húsnæði í gegnum stórfjölskyldu sína.

Í framangreindum gögnum kemur fram að einstæðar konur standi ekki endilega frammi fyrir stærri praktískum hindrunum þegar kemur að uppeldi barna þeirra heldur en konur sem eru í sambúð með karlmanni. Karlmenn taki almennt lítinn þátt í uppeldi og umönnun barna sinna, jafnvel þótt þeir séu atvinnulausir og móðir barnsins í fullri vinnu. Oftast taki móðir barnið með sér til vinnu fram að fimm ára aldri þess, eða fái hjálp frá eldri dóttur eða konum í sínu tengslaneti (systrum, frænkum, vinkonum, nágrönnum sem hún á í góðu sambandi við o.s.frv.) til skemmri eða lengri tíma. Leikskólar þekkist varla í [...] og séu þeir til staðar sé það aðeins á færi þeirra ríku að senda börnin sín í slíka skóla.

Þá kemur fram í framangreindum gögnum að [...]. Lögin kveði á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir er varða börn skuli byggðar á því sem sé barninu fyrir bestu. Í lögunum komi einnig fram að öll börn eigi rétt á að njóta menntunar. Árið 2004 hafi þjóðþing [...] samþykkt löggjöf sem kveði á um ókeypis grunnskólagöngu [...]). Hafi þessi nýjung verið leidd í lög með því markmiði að fjölga nemendum í grunnskóla og koma á fót ókeypis og skyldubundnu skólakerfi fyrir öll börn í [...].

[...]

[...]

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli kæranda og barna hennar frá 23. febrúar 2016 kemur fram að kærandi hafi ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða áreiti af hendi yfirvalda í [...]. Þá hafi komið fram í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun að hún teldi sig ekki vera í lífshættu neins staðar nema inni á heimili föður síns þar sem hún óttist eina af eiginkonum hans enda telji hún hana hafa myrt móður sína. Í ljósi þess og landaupplýsinga um [...] þá var það afstaða kærunefndar að kærandi og synir hennar uppfylltu ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hún hafi sætt eða muni sæta mismunun á grundvelli kynferðis. Í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd og í þeim skýrslum sem gefnar hafa verið út frá því að úrskurður kærunefndar frá 23. febrúar 2016 var kveðinn upp kemur ekkert fram sem breytir fyrri niðurstöðu kærunefndar, jafnvel þótt kærandi sé nú einstæð þriggja barna móðir og matið taki mið af þeim breyttu aðstæðum hennar. Kærunefnd telur því að kærandi og börn hennar hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. núgildandi laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda, öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska.

Þá er ekkert fram komið í málinu og þeim gögnum sem liggja fyrir um heimaríki kæranda sem bendir til þess að aðstæður kæranda og barna hennar þar falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í skýringum með 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendingalaga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og er sem dæmi nefnt aðstæður kvenna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða sem aðhyllast ekki kynhlutverk sem eru hefðbundin í heimaríki þeirra og af þessum sökum eigi þær hættu á útskúfun eða ofbeldi við endurkomu.

Líkt og fyrr greinir gerir ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kröfu um að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærunefnd hefur farið aftur yfir gögn málsins og skýrslur til að leggja nýtt mat á stöðu kæranda. Af framangreindri umfjöllun er ljóst að einstæðar [...] konur með börn geta snúið aftur til heimaríkis. Þær eru að miklu leyti háðar félagslegu tengslaneti, sem samanstendur yfirleitt af ættingjum, bæði nákomnum og fjarskyldum, og fólki sem þær kynnast í nærsamfélaginu og eru í svipaðri félagslegri stöðu og þær. Samkvæmt framangreindum heimildum eiga þær engu að síður að geta komist af án fjölskyldu sinnar en skýrslurnar benda til þess að það sé einfaldara ef þær eru einstæðar og barnlausar.

Kærandi hefur lýst því að hún sé nú einstæð þriggja barna móðir. Í viðtali hjá kærunefnd þann 10. ágúst kvað kærandi að hún ætti ekkert félagslegt tengslanet í heimaríki. Hún kvað barnsföður sinn hafa sinnt uppeldi barnanna eftir að [...]. Hún hefði aftur á móti lítið heyrt frá honum eftir að honum var brottvísað frá landinu og viti ekki hvar hann sé. Í viðtalinu lýsti kærandi því að [...]. Þegar hún var spurð nánar um ástæður þess kvað hún að hann hefði haft vinnu hér á landi en myndi ekki fá vinnu í [...]. Þá lýsti kærandi því að faðir hennar byggi í [...] en að hún væri ekki í sambandi við hann. Þá kvaðst hún eiga tvo bræður og að þeir byggju báðir á Ítalíu.

Kærandi lýsti því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 28. janúar 2015 að hún ætti föður og fjögur systkini, þar af þrjá bræður og tveir þeirra byggju í [...] líkt og faðir þeirra. Enn fremur kvaðst kærandi koma frá sama fylki og vera í sambandi við móðurfjölskyldu sína. Kærandi gaf engar skýringar á innbyrðis ósamræmi í framburði sínum varðandi það hversu marga bræður hún á. Þá telur kærunefnd að nokkuð skorti á samræmi í lýsingum kæranda á því hversu virkan þátt [...] r hefur tekið í uppeldi barna hennar og stuðningi við þau miðað við hvers hún megi vænta af stuðningi hans í heimaríki. Þá telur kærunefnd að byggja verði á því að kærandi sé í sambandi við móðurfjölskyldu sína.

Eins og að framan greinir leiðir af orðalagi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að kærandi þarf að sýna fram á ríka þörf á vernd svo unnt sé að veita henni og börnum hennar dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu. Að mati kærunefndar hefur framburður kæranda varðandi væntanlegar aðstæður í heimaríki, bæði varðandi stuðning [...] og fjölskyldu, ekki verið nægilega stöðugur svo unnt sé að líta svo á að kærandi hafi sýnt fram á að hún hafi ekki tengslanet í heimaríki sem komi til með að aðstoða hana og börn hennar við endurkomu til heimaríkis.

Kærandi hefur lagt fram gögn um að hún sé [...] og hún að [...]. Þá hefur kærandi einnig lagt fram gögn um veikindi barns hennar. Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að heilsufarsvandi hennar sé nægilega alvarlegur að skilyrði séu fyrir hendi til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Er einkum litið til þess að[...], meðferð við sjúkdómnum er aðgengileg í heimaríki hennar og kærandi hefur ekki sýnt fram á að hún [...]. Í þeim skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað kemur fram að þó að [...] sæti ekki forgangi í heilbrigðiskerfi [...] sé slík þjónusta til staðar þar í landi og þrátt fyrir biðlista og einhvern kostnað þá sé þjónustan í boði fyrir þá sem óski eftir meðferð við sjúkdómi sínum. Helsta ástæðan fyrir því að einstaklingar með [...] l leiti sér ekki aðstoðar í [...] sé ekki fjárhagsleg, heldur tengd því að [...] . Lyfjakostnaður sé almennt ekki mikill í [...] og fáist flest hefðbundin [...] í landinu s.s. [...] . Kærandi hefur heldur ekki lagt fram gögn um að hún hafi hafið meðferð hér landi og að það væri læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa meðferð. Þá geta veikindi barns hennar, sem virðast [...], ekki talist nægilega alvarleg til að skilyrði séu fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að kærandi og börn hennar teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því telur kærunefnd, að teknu tilliti til hagsmuna barnanna, að aðstæður þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskyldu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum eru að: a. tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd; b. ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er; c. ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda; d. útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 25. júní 2014. Kærandi fékk niðurstöðu í mál sitt með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 23. febrúar 2016, sem birtur var 14. mars 2016. Samkvæmt framansögðu var mál kæranda til meðferðar á stjórnsýslustigi frá 25. júní 2014 til 14. mars 2016, eða í rúma 20 mánuði. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi sjálf átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Tilraun hennar til að afturkalla umsókn sína um alþjóðlega vernd breytir ekki þeirri niðurstöðu. Líkt og að ofan greinir hefur kærunefnd útlendingamála fallist á beiðni kæranda um endurupptöku málsins og fer því um málið samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016, sbr. 2. mgr. 121. gr. laganna.

Fyrir liggur að kærandi fékk ekki niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hún sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins er þó ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. en hún hefur ekki lagt fram nein trúverðug gögn til að auðkenna sig. Samkvæmt lögregluskýrslu lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 25. júní 2014, [...]. Í skýrslunni kemur fram að [...]. Með tölvupósti, dags. 18. ágúst 2017, bauð kærunefnd kæranda að leggja fram ný gögn til að sanna á henni deili. Kærandi hefur ekki lagt fram slík viðbótargögn. Kærunefnd telur því ljóst að vafi leiki á því hver kærandi sé.

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru rakin nokkur viðbótarskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er 4. mgr. 74. gr. skýrð þannig að hún geti átt við „ef ekki er mögulegt fyrir útlending, sem að öðru leyti er samvinnuþýður, að afla gagna frá heimalandi sínu, t.d. um það hver hann er.“ Skilyrði laganna um að ekki megi leika vafi á því hver umsækjandi sé er hins vegar ekki í 3. mgr. laganna; það ákvæði er í 2. mgr. Af þessu má skilja að höfundar athugasemdanna hafi átt von á því að undanþágan í 4. mgr. 74. gr. hafi einnig átt að eiga við um auðkenni umsækjenda. Í frumvarpi til laga um útlendinga sem lagt var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi þess (þingskjal 917, 541. mál) er ákvæði sambærilegt 2. mgr. 74. gr. núgildandi laga. Í því ákvæði, sem var í 87. gr. þess frumvarps, er heimild til að víkja frá skilyrðum sem eru sambærileg þeim sem koma fram í 2. mgr. 74. gr. núgildandi laga um útlendinga. Það ákvæði frumvarpsins átti hins vegar ekki við um viðbótarskilyrðin sem telja má sambærileg við 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er þess einnig að geta að í 2. mgr. 77. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um bráðabirgðadvalarleyfi, er heimild til að víkja frá tilteknum skilyrðum 1. mgr. 77. gr. sem að mestu eru sambærileg þeim sem fram koma í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu má draga þá ályktun að mistök kunna að hafa verið gerð við setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 og að undanþáguheimildin í 4. mgr. 74. gr. hafi átt að ná til 2. mgr. greinarinnar. Engu að síður verður ekki litið fram hjá því að texti laganna er skýr um það að undanþáguheimildin nær eingöngu til 3. mgr. og engin heimild er til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna. Kærunefnd telur því ljóst að þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hennar hefur tekið.

Þann [...] fæddist kæranda barn, [...]. Mál kæranda var þá í meðferð hjá stjórnvöldum og telur kærunefnd að [...] hafi fengið stöðu aðila þessa máls við fæðingu. Frá fæðingu þess og þar til niðurstaða í máli móður hans liðu 17 mánuðir og fimm dagar. Kærunefnd telur að rétt sé að taka tillit til þess tíma sem líður frá því að nefndin tók ákvörðun um að endurupptaka mál kæranda og barna hennar og þar til niðurstaða er birt. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd 10. ágúst sl. Á fundi nefndarinnar síðar þann dag var ákveðið að endurupptaka málið. Miðað við eðlilega verkferla nefndarinnar eru úrskurðir hennar birtir á mánudegi í vikunni eftir úrskurðardag. Þ.e. ákvörðun þessi sem tekin er 31. ágúst, verður birt kæranda 4. september n.k. Sé málsmeðferðartími frá fæðingu [...] fram að birtingu úrskurðar kærunefndar þann 14. mars 2016, lagður við þann tíma sem líður frá því að nefndin tók ákvörðun að mál kæranda og barna hennar yrði endurupptekið og þar til niðurstaða verður birt í samræmi við eðlilega ferla nefndarinnar, er ljóst að málsmeðferð [...] hefur tekið 18 mánuði. [...] telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í mál sitt innan 18 mánaða frá því að hann fæddist hér á landi. Ekki leikur vafi á því hver hann sé enda er hann fæddur hér á landi. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 74. gr. verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Nefndin hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að 4. mgr. 74. gr. heimili ekki undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. Nefndin telur þó engu að síður að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Að mati kærunefndar er [...] það ungur að árum að ekki sé raunhæft að ætla að hann hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af honum. Nefndin telur því með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir því að [...] sé veitt dvalarleyfi á grundvelli málsgreinarinnar. Í ljósi meginreglunar um einingu fjölskyldunnar verður því ekki komist að annarri niðurstöðu en að veita kæranda og öðrum börnum hennar einnig dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fallast á beiðni kæranda og barna hennar um endurupptöku málsins. Niðurstaða kærunefndar er að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar og að þeim skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

The appellant's request for reexamination of her and her children's case is granted.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are vacated. The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellant and her children based on Article 74, paragraph 2.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta