Hoppa yfir valmynd

Nr. 462/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 462/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110021

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 450/2022, dags. 2. nóvember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. október 2022 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Srí Lanka (hér eftir kærandi), um vegabréfsáritun til Íslands.

    Hinn 30. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um vegabréfsáritun til Íslands í þrjá mánuði, hann hafi ætlað að dvelja hér á landi í tvo daga og í Noregi í tvo daga. Hinn 12. október 2022 synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda og 2. nóvember 2022 staðfesti kærunefnd niðurstöðu Útlendingastofnunar. Hinn 6. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á  24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Kærandi hafi ekki verið að stunda svokallað ,,visa shopping‘‘. Hafi stjórnvöld litið svo á að kærandi hafi verið að óska eftir vegabréfsáritun til að fá aðgang að öðrum Schengen-ríkjum þá væri kærandi ánægður með að fá skilyrta vegabréfsáritun eingöngu til Íslands og Noregs.

    Hann hafi valið að ferðast til Oslóar þar sem borgin sé vinsæll ferðamannastaður og hann líti á borgina sem ,,bucket list‘‘ áfangastað. Þá hafi flugmiðarnir verið á viðráðanlegu verði frá Bretlandi. Ástæða þess að kærandi hafi breytt umsókn sinni úr ,,multiple‘‘ í ,,dual entry‘‘ er að hann hafi ekki vitað fyrr en hann lagði inn umsókn sína að hann þyrfti að hafa gögn sem staðfestu ferðaáætlunina, hann hafi því bókað flug til Noregs, tryggingar og gististað. Hann hafi ekki bókað fleiri ferðir því hann vissi ekki hvort umsókn hans um vegabréfsáritun yrði samþykkt og hann væri nú þegar að taka áhættu fjárhagslega með því að bóka flug til Íslands og Noregs. Hann hafði því hugsað sér að sækja aftur um vegabréfsáritun þegar hann hefði tekið ákvörðun um næsta áfangastað.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 450/2022 frá 2. nóvember 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um vegabréfsáritun til Íslands á grundvelli 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum.

Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar á Íslandi, sbr. ii-liður a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum. Niðurstaða kærunefndar byggði m.a. á því að kærandi hugðist dvelja hér á landi í hálfan sólarhring, á þeim tíma hugðist kærandi leigja bíl, sjá Geysi og gista á farfuglaheimili í Reykjavík. Kærandi hafi þá einnig ætlað að dvelja í Osló í febrúar í sólarhring og hafi ekki gefið upp ástæðu ferðar sinnar þangað. Að mati kærunefndar var ferðaáætlun kæranda hvorki vel ígrunduð né raunhæf og því talin ótrúverðug.

Í beiðni kæranda um endurupptöku greindi hann m.a. frá því að hafa valið að ferðast til Oslóar þar sem borgin sé vinsæll ferðamannastaður og hann líti á borgina sem ,,bucket list‘‘ áfangastað. Þá hafi flugmiðarnir verið á viðráðanlegu verði frá Bretlandi. Kærandi greindi einnig frá því að hafa ekki verið að stunda svokallað ,,visa shopping‘‘.

Er það mat kærunefndar að framangreindar skýringar breyti ekki fyrra mati kærunefndar. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að þær skýringar sem fylgdu endurupptökubeiðni kæranda séu ekki þess eðlis að tilefni sé til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 450/2022, dags. 2. nóvember 2022, hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá töku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Þorsteinn Gunnarsson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta